Það sem er gott fyrir LÍÚ er gott fyrir Ísland?

Einu sinni sögðu Svíar: ,,Það sem er gott fyrir Volvo, er gott fyrir Svíþjóð." En það hefur breyst. General Motors keypti Volvo, en seldi og nú á kínverska fyrirtækið Geely Volvo.

Mér dettur þetta í hug í sambandi við LÍÚ. Getur verið að þeir hugsi sem svo: ,,Það sem er gott fyrir LÍÚ, er gott fyrir Ísland?"

En tímarnir hafa einnig breyst á Íslandi, ferðaþjónusta er að verða álíka stór og fiskiðnaðuirnn og útlit fyrir metfjölda ferðamanna í ár.

LÍÚ þarf að gera sér grein fyrir þessu.

Þeir vilja einnig nýtingarrétt auðlindarinnar til 60 ára og borga gjald í samræmi við afkomu fyrirtækjanna. Þá vaknar spurningin: Myndu sjávarútvegsfyrirtækin skila bullandi hagnaði ef þessu kerfið yrði komið á?

 


Íslenskur landbúnaður = Frjálsir Íslendingar?

Margt er skrýtið í kýrhausnum. Það á einnig við afstöðu bænda gagnvart ESB. Þetta sést í grein Haraldar Benediktssonar, bændaforingja í MBL um helgina. Þar fer hann yfir afstöðu bænda gagnvart ESB, sem er kýr-skýr; um 90% bænda vilja ekki aðild að ESB. Samt eru mjög margir bændur svo til á hausnum, hafa meginþorra tekna sinna frá ríkinu og að auki eru fjöldamörg bú rekin með stöðugum halla, bæði sauðfjárbú og mjólkurbú. 

Þetta eru s.s. aðilarnir sem framleiða mikilvægan mat ofan í Íslendinga og veita okkur það frelsi að vera Íslendingar, eða eins og Haraldur segir í grein sinni: „Innlend matvælaframleiðsla gerir þjóðina frjálsa (millifyrirsögn) og svo kemur þetta: „Fæðuöryggi er fyrir fólkið, fyrir þjóðina. Það er ein af grunnstoðum efnahagslífsins. Matvælaframleiðsla í eigin landi - á eigin forsendum - gerir þjóðina frjálsa.“

Vissulega er mikilvægt að framleiða mat og óttann við matarskort ber að taka alvarlega. Þetta vita Íslendingar, sem búa á harðbýlu landi. 

Nú er það svo að stærstur hluti þeirra matvæla sem neytt er hér á landi er innfluttur. Og hvaðan kemur hann? Jú, að stærstum hluta frá Evrópu, reyndar mjög mikið frá Danmörku.

Því er það mikilvægasti þáttur matvælaöryggis á Íslandi að halda samgöngum við landið, rétt eins og við höfum gert í aldanna rás. Íslendingar hafa aldrei lifað einungis á því sem til hefur fallið hér á landi, matvæli hafa verið flutt inn frá því byggð hófst hér. 

Getum við stólað á að að bændur sem lifa í umhverfi viðvarandi hallareksturs og erfiðra rekstarskilyrða (verðbólga, háir vextir, óstöðugleiki) geti tryggt til framtíðar það matvælaöryggi sem þjóðin þarf að búa við? Og eru slíkir bændur, frjálsir og velmegandi bændur?  

Um miðja síðustu öld vann um helmingur vinnuaflsins við landbúnað. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag er aðeins brot af vinnuafli landsmanna sem fæst við landbúnað. Samt er íslenskt landbúnaðarkerfi hið dýrasta í heimi og tekur um 10 milljarða á ári beint úr vasa skattgreiðenda (sem síðan þurf að kaupa hinar framleiddu vörur) aftur í búðunum. 

Það hefur því mikið breyst. Og á eftir að breytast.  Með svokölluðum DOHA-viðræðum er stefnt að því að lækka tolla á heimsvísu og efla þannig viðskipti. En það strandar til dæmis á landbúnaði . Punkturinn er þessi; það eiga væntanlega eftir að verða miklar breytingar á landbúnaði, hvort sem gengið verður í ESB eða ekki. Og hvað ætla íslenskir bændur að segja þá? 

Verða þá dregnar upp enn hærri og breiðari varnarlínur, gerðar enn meiri kröfur um tollvernd?Það kemur væntanlega í ljós.

Í lok greinar sinnar segir Haraldur og bergmálar málflutning orð formanns norsku bændasamtakanna frá nýhöldnu Búnaðarþingi:,, Það þarf að fá botn í ESB-málið sem fyrst svo hægt sé að hefja raunverulegt uppbyggingarstarf á Íslandi á nýjan leik því tækifærin bíða okkar. Höfum í huga að heimurinn er svo miklu stærri en Evrópusambandið.“

Hvað er Haraldur eiginlega að meina með þessum orðum? Ætla íslenskir bændur að fara í víking? Stórfelldan útflutning? Hvert þá? Annarra heimsálfa? Kína? S-Ameríku? Indlands? Hver á að borga? Skattgreiðendur? Er þetta virkilega raunhæf framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað?

Eða er Haraldur kannski búinn að gleyma því að ESB er annað mesta viðskiptaveldi heims? Eða er þetta bara gott dæmi um það að grasið sé grænna hinum megin?

Það er alveg ljóst að norskum hagsmunum í sjávarútvegi og landbúnaði er mikið í mun að Ísland gangi EKKI í ESB. Jú, vegna þess að þá fengju íslenskar landbúnaðarafurðir og allt íslenskt sjávarfang FULLT tollfrelsi á um 500 milljóna markaði, með mikla kaupgetu. Þetta er "ógnarsviðsmynd" í augum þessara norsku aðila. Þess vegna vilja þeir að Ísland gangi ekki í ESB. Svo einfalt er það nú.

En er verið að halda með þessum hætti á málinu vegna norskra hagsmuna? Eru "norskir hagsmunir" afl sem að stýra hagsmunum íslenskra bænda og þar með hagsmunum íslenskra neytenda? 

Það myndi teljast afar umhugsunarvert og þá dettur manni í hug; hvert er frelsi og sjálfstæði íslensku bændaforystunnar!


ESB; ræða, semja,kjósa!

Eftir símtalið árið 2006 frá Washington, þar sem Íslandi var tilkynnt að ameríski herinn mynda hverfa af landi brott, er landið í einskonar öryggislegu tómarúmi. Eftir hrun bankakerfisins og krónunnar haustið 2008 er landið í einskonar efnahagslegu tómarúmi. Íslenska hagkerfið er í höftum vegna þess að það er ekki þekkt, ekki vitað, hvernig íslensku krónunni reiðir af, þegar henni verður sleppt lausri. Höftin, sem um ræðir brjóta gegn EES-samningnum og geta ekki varað að eilífu. Slíkt er líka mjög óæskilegt. Af þessu leiðir að á Íslandi er ekki til staðar það sem kallað er eðlilegt viðskiptaumhverfi. Við þetta ástand verður ekki búið, lausn á gjaldmiðilsmálum landsins er aðkallandi og einn mikilvægasti þáttur ESB-málsins.

Í ESB-málinu stendur nú yfir svokölluð rýnivinna, en þar er löggjöf Íslands og ESB borin saman. Það sem af er hefur vinnan við ESB-ferlið gengið samkvæmt áætlun. En þegar hinar eiginlegu samningaviðræður taka við getur ýmislegt gerst. Íslendingar munu jú setja fram ákveðnar kröfur í mikilvægum málaflokkum, til dæmis í sjávarútvegsmálum. Þetta verða því raunverulegar samningaviðræður, en ekki aðlögunarviðræður, eins og andstæðingar aðildar hamra stöðugt á.

Mikilvægi auðlindarinnar

Það er mikilvægt að Ísland haldi yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni. ESB hefur enga hagsmuni af því að taka af okkur auðlindir, ESB hefur aldrei tekið neinar auðlindir af neinu aðildarlandi! Andstæðingar aðildar hrópa hinsvegar hátt að hér verði allt hrifsað af okkur. Annaðhvort vita þeir ekki betur eða kjósa að tala gegn betri vitund.

En ESB-málið er annað og miklu meira en bara fiskur. Það snýst einnig að stórum hluta um það hvar landið ætlar að skipa sér í flokk í alþjóðakerfinu. Eða hvort Ísland ætlar að standa eitt og sér með einhverja illa skilgreinda utanríkisstefnu með óljósum markmiðum. Eða enga alls kannski?

ESB-málið er líka hagsmunamál fjölskyldna landsins og hins almenna neytanda. Að ná til dæmis niður vöxtum og verðbólgu, að halda þessu tvennu niðri og komast þannig hjá verðtryggingu, er talið spara íslensku samfélagi um 70-80 milljarða á ári. Komist þetta á til framtíðar er til dæmis talið að margur Íslendingurinn sleppi við að borga mun meira en fólk í nágrannaþjóðunum fyrir það að koma sér upp þaki yfir höfuðið, svo dæmi sé tekið.

Hið sama á einnig við um atvinnulífið sem áratugum saman hefur borgað okurvexti og starfað í umhverfi óðaverðbólgu sem gerir alla skipulagningu og áætlanagerð ómarktæka. Eiginlega má líkja íslensku efnahagskerfi að mörgu leyti við jó-jó sem fer upp og niður í sífellu.

Sterk öfl vilja stöðva ferlið

Það eru sterk öfl hér í íslensku samfélagi sem vilja hætta við málið og halda ástandinu óbreyttu og bjóða Íslendingum áfram upp á þetta »jó-jó-hagkerfi.« Sömu öfl boða hins vegar ástand sem heldur öllu opnu gagnvart óðaverðbólgu og okurvöxtum. Vilja komandi kynslóðir sætta sig við það, höfum við ekki brennt okkur nóg?

Þessi öfl vilja einnig koma í veg fyrir og berjast fyrir því með kjafti og klóm að Íslendingar fái ekki að kjósa um aðildarsamning við ESB, þegar hann liggur fyrir. Það sérkennilega er að þetta er að mörgu leyti sömu aðilar og hrópuðu hvað hæst á þjóðaratkvæði um Icesave. Hér gætir því ákveðins tvískinnungs.

Hinar eiginlegu samningaviðræður hefjast væntanlega í sumar. Ekki er ólíklegt að þær taki um 12-18, mánuði, en það fer til að mynda eftir því hvernig gengur að semja um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Nokkuð raunhæft er að áætla að samningur liggi fyrir á vormánuðum 2013 eða seint á því ári. Þjóðaratkvæði gæti því farið fram árið 2014.

ESB þarf að ræða, það þarf að semja og það þarf að kjósa!

MBL, 8.3.2011

Harkaleg leið til lærdóms

Rússneskir hermenn á sýninguÍ Fréttablaðinu í dag er viðtal við (brosandi) Pétur Blöndal, alþingismann.

Fyrirsögn þess er: HRUNIÐ KENNDI OKKUR AÐ SPARA

Hörð leið til þess að læra sparnað, ekki satt?

Löng hefð er fyrir því í rússneska hernum að "kenna" nýliðum virðingu og undigefni við sína hærra settu með því að berja þá sundur og saman og fara illa með þá á allan mögulegan hátt.

En þeir læra.

Í auglýsingum frá einum bankanna er auglýst að það sé frábær sparnaður að borga niður yfirdráttinn! En er þetta ekki alveg ný skilgreining á hugtakinu sparnaður (en eins og ég skil það, þá felur það í sér að maður SAFNI peningum áeinhvern hátt.)


Hvað er að óttast?

fish_atlantic_cod.jpgÍ komandi aðildarviðræðum við ESB er ljóst að sjávarútvegsmál verða einn erfiðasti málaflokkurinn. Andstæðingar ESB-aðildar hafa hamrað á reynslu Norðmanna í aðildarviðræðum og hafa þá sérstaklega rætt um sjávarútvegssamninginn frá 1994. Sagt hefur verið að Norðmenn hafi fengið mjög slæman samning og því sé útilokað að Ísland fái nokkuð annað. Vægast sagt lýsir þetta sjónarmið mikilli þröngsýni og mótast ef til vill af því að sterkustu hagsmunir þeirra sem eru í greininni felast í því að halda öllu óbreyttu.

En sé litið nánar á aðildarsamning Norðmanna kemur annað í ljós, nefnilega það að þeir fengu mjög góðan samning. Í bókinni Gert út frá Brussel, eftir Úlfar Hauksson, er farið rækilega í saumana á sjávarútvegs­stefnu ESB og hugsanlegri aðild Íslands að ESB.

Í aðildarviðræðum settu Norðmenn sér það markmið að tryggja stöðu fiskveiða og fiskeldis í Noregi. Þeir settu líka fram ýmsar kröfur varðandi smábátaútgerð, veiðistjórnun, markaðsaðgang og svo framvegis. Til dæmis fengu þeir algert tollfrelsi af norskum fiskafurðum, samkvæmt samningnum.

Það sem Norðmenn þurftu að gefa eftir var lítilsháttar aukning í þorskveiðum norðan 62. breiddar­gráðu, úr 1,28% af heildarafla, í 1,57% (8.960 tonn í 10.990 tonn, af 700.000 tonna heildarafla!). Norðmenn þurftu svo að semja um deilistofna, eins og yfirleitt er gert.
Veiðireynsla Norðmanna tryggði þeim áfram yfirráð á sínum veiðisvæðum samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðug­leika. Þessi regla á líka við um Ísland, enda hefur engin þjóð veitt hér við land frá lokum landhelgisdeilunnar árið 1976, þegar lögsaga okkar var færð út í 200 sjómílur.

Á fundi fyrir skömmu sagði aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB engan vafa leika á því að engin þjóð ætti hér veiðirétt. Það er að við Íslendingar ættum einir réttinn hér við land. Skýrara getur það ekki verið.
Aðildarsamningur Norðmanna tryggði þeim einnig varnir gegn svokölluðu „kvótahoppi," en í Noregi gilda þær reglur að aðeins norskir ríkisborgarar geta átt fiskiskip sem gerð eru út frá Noregi. Og aflanum skyldi landað í heimahöfn skipsins, sem hefði „efnahagsleg tengsl" við við­komandi svæði.
Með hjálp Evrópudómstólsins var það tryggt enn frekar að „kvótahopp" gæti ekki átt sér stað.

Í bók Úlfars segir orðrétt: „Það var mat norskra stjórnvalda að öll helstu markmið þeirra varðandi sjávarútveg hefðu náð fram að ganga og væru staðfest í aðildar­samningnum; í honum hefðu núverandi fiskveiði­réttindi Norðmanna verið fest í sessi og áframhaldandi yfirráð þeirra yfir fiskimiðunm tryggð ... Því var talið að sjávarútvegshagsmunum Norðmanna innan Evrópu­sambandsins væri borgið til framtíðar."

Og síðar segir: „Með öðrum orðum var hlustað á Norðmenn og þeir höfðu tækifæri til þess að hafa veruleg áhrif á Evrópu­sambandið í þeim mála­flokkum þar sem þeir höfðu sérfræði­þekkingu og sérstakra hagsmuna að gæta. Ástæðan er einföld: Norðmenn komu með góð rök og gátu sýnt fram á sérstöðu sína til að mynda í sjávar­útvegi og landbúnaði. Þannig virkar Evrópu­sambandið; stærð og styrkur er ekki það eina sem skiptir máli - það er alltaf vilji til að finna mála­miðlanir og það er ekki gengið þvert á hagsmuni smærri ríkja ... - enda er Evrópusambandið sjálfviljugt samstarf lýðræðisríkja."

Án nokkurs vafa á þetta líka við um Ísland og verður að teljast afar ólíklegt að ESB muni ganga gegn hagsmunum Íslands í þessum málaflokkum, enda ekki hagsmunir ESB að gera það!
Þetta sannar því að ESB mun t.d. ekki gleypa hér allt við Íslandsstrendur, eins og and­stæðingar aðildar halda margir fram. Landhelgin mun heldur ekki fyllast af erlendum togurum. Það er einfaldlega einfaldur hræðslu­áróður.

Grunnhagsmunir Íslands eru í raun ekki flóknir: Að halda yfirráðum yfir fiskimiðunum og að okkar veiðireynsla ráði því að við höldum réttindum okkar til auðlindarinnar. Samkvæmt meirihluta­áliti Alþingis eru þetta markmið Íslands: „Forræði á stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna; eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er, þegar málefni lýtur að íslenskum hagsmunum; haldið verði í möguleika á að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi í samvinnu við samningahóp II um EES mál sem fjallar um frjálsa fjármagnsflutninga og fjár­festingar; skýr aðkoma Íslendinga verði að mótun sjávarútvegs­stefnu ESB og framlag sjávar­útvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt."

Þetta eru skýr og góð markmið. Reynsla Norðmanna sýnir að Íslendingum ætti að ganga vel að ná samningum við ESB, að sambandið er sveigjanlegt og tekur tillit til mikilvægra grundvallarhagsmuna landa.

FRBL, 6.10.2010


Er ESB skrifræðisbákn?

ESBÞegar rætt er um ESB hafa andstæðingar þess mjög gaman af því að halda uppi allskyns goðsögnum um sambandið og starfsemi þess.

Ein slík er að ESB sé stórkostlegt skrifræðisbákn og pappírsskrímsli. En lítum á nokkrar staðreyndir: Aðildarríki ESB eru 27 að tölu og telur sambandið um 500 milljónir manna. Hjá því starfa um 50.000 manns, sem er um það bil 0,0001% af íbúafjölda álfunnar.

Á vefsíðu Evrópusamtakanna er einmitt fjallað um þetta og þar segir eftirfarandi:

“Er ESB ekki bara skrifræðisbákn? Starfsfólk ESB er um 50.000 manns, íbúar ESB eru um 500 milljónir. Yfirfært á Ísland myndi þetta þýða um 30 manna starfslið, eða álíka og þeir sem vinna hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði.”

En hvernig lítur þetta út í öðrum löndum? Tökum dæmi til samanburðar frá Bandaríkjunum, en margir helstu Nei-sinnar eru mjög hallir undir aukin samskipti einmitt í þá áttina. Nægir þar að nefna t.d. menn á borð við Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra og Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins.

Þeir eru s.k. hægri-menn, en það er einmitt eitt einkenni bandarískra hægri-manna, sem tilheyra Repúblíkanaflokknum, að berjast gegn því sem þeir kalla “big government”, Köllum það “stóra stjórnsýslu” á íslensku. Þeir vilja því minnka ítök og umsvif ríkisins, minnka “stjórnvöldin” og stuðla að “small government” eða lítilli stjórnsýslu.

En hvernig hefur þróunin verið í USA, sem við erum svo gjörn á að bera okkur saman við? Áður en það er gert ber að taka það fram að ESB er yfirþjóðleg stofnun, rekin og fjármögnuð af aðildarrikjunum, en Bandaríkin sjálfstætt ríki, sem rekur alríkistjórnina (Federal Government). Þrátt fyrir þetta ætti að vera hægt að gera sér grein fyrir hlutföllum.

Í blaðagrein í Washington Post frá því 2006 er greint frá því að á valdatíma George Bush (yngri) hafi kerfið þanist út, þ.e.a.s. alríkisstjórnin. Ein ástæða þess er það sem kallað er “stríðið gegn hryðjuverkum”, sem Bandaríkin (og NATO) heyja um víðan völl, sérstaklega í Írak og Afganistan.

Árið 2006 voru 14,2 milljónir starfandi fyrir alríkisstjórnina, þar með talið starfsmenn í póstdreifingu og hernum. Þetta er um tveimur milljónum meira en árið 2020. Íbúafjöldi USA er tæpar 310 milljónir. En ESB er t.d. ekki með her, þannig að strax er hægt að draga frá um 1,5 milljónir manna (annar stærsti her í heimi, á eftir Kína), til að gera samanburðinn raunhæfari.

Sé því bara tekið það sem kallað er “civil servants” sem eru þeir sem vinna við hina eiginlegu stjórnsýslu, er um að ræða töluna 1,9 milljón (1900 þúsund) starfsmenn árið 2006. Þarna hefur orðið fækkun um 300.000 frá 1990, þegar Kalda stríðið var enn í gangi.

Af þessu má því draga þá ályktun að ESB sé mjög lítið bákn, miðað við það bandaríska. Það má því eiginlega segja að ESB sé með það sem bandarískir hægri-menn kalla “small government” smáa-stjórnsýslu!

Allt tal um ESB sem ógurlegt skrifræðisbákn er því byggt á einhverju öðru en staðreyndum.

FRBL, 5. ágúst 2010.

 


Að tala út í loftið

SkýEr hægt að segja hvað sem er í Morgunblaðinu? Spurningin vaknaði eftir lestur á makalausri grein Guðrúnar S. Magnúsdóttur (búsett í Svíþjóð) hinn. 23. júní síðastliðinn. Þar er hún að fjalla um Evrópumál, en kannski er orðið „fjalla“ sérkennilegt í þessu samhengi. Nær lagi er að í greininni slengi hún fram mörgum órökstuddum frösum og fullyrðingum.Til dæmis segir Guðrún að það muni kosta okkur Íslendinga um 10 milljarða (10 þúsund milljónir) að ræða við ESB um aðild. Þann sama dag og greinin birtist sagði Össur Skarphéðinsson að kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á um einn milljarð. Fullyrðingar Guðrúnar um 10 miljarða eru því algerlega úr lausu lofti gripnar og verða að afskrifast sem hreinn tilbúningur. Því má spyrja: Er það ekki ábyrgðarhluti af Morgunblaðinu að birta þetta svona „hrátt“? Vegna þess að því miður geta svona tölur síast inn í umræðuna og það er útilokað að viðræðurnar muni kosta 10 milljarða.

Ef ég segði: Aðildarviðræður við ESB munu einungis kosta um 100 milljónir, myndi það þá verða birt í Morgunblaðinu? Það er ekkert skrýtið að spurningar sem þessar vakni, við lestur á greinum á borð við grein Guðrúnar. Enda er talan 10 milljarðar algerlega út í hött!

Í grein sinni fullyrðir Guðrún: „Það er á hreinu að við töpum fiskimiðunum og öllum rétti sem land til að vinna úr okkar eigin auðlindum.“ Og rökstuðningurinn: „Í þessu hvorutveggja ríkir frí samkeppni við öll hin aðildarlöndin.“ Þetta verður að segjast vera magur rökstuðningur fyrir jafn risastórri fullyrðingu og hún setur fram. Hvað á Guðrún eiginlega við? Að hér leggist af öll vinnsla á t.d. fiskafurðum og að við getum ekki framleitt verðmæti úr innlendri raforku? Hún hefur ekki fyrir því að útskýra það!

Ljóst er að Ísendingar munu halda sínum kvóta í íslenskri lögsögu við aðild vegna; a) reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika og b) að ekkert ESB-land hefur marktæka veiðireynslu í lögsögu Íslands undanfarna áratugi. Þetta hafa ráðamenn í ESB staðfest.

Þá segir Guðrún: „Þrátt fyrir að margir séu á móti inngöngu í ESB þá er það sorglegt að svo margir Íslendingar séu ennþá í vafa og sérstaklega unga fólkið, sem oft hefur ekki næga kunnáttu til að skilja hvað litla Ísland er mikilvægt, ekki eingöngu vegna fisksins heldur vegna orkunnar sem, ef við göngum í ESB, verður að mestu í eigu Vattenfall frá Svíþjóð sem nú er búið að taka yfir næstum allan orkurekstur í Þýskalandi.“

Hér gerir hún s.s. lítið úr ungu fólki og er það miður. Viti maður ekki hlutina er það t.d. á ábyrgð foreldra og skólakerfis að upplýsa ungt fólk. Hér á Íslandi mætti stórefla upplýsingu um Evrópu og umheiminn almennt, en það er t.d. staðreynd að um 70-80% þeirra sem fara í framhaldsnám fara til Danmerkur eða Bretlands.

Fullyrðing hennar um að Vattenfall muni eignast hér alla orku er beinlínis hlægileg. Vattenfall hefur ekki sýnt Íslandi minnsta áhuga en vissulega eru það stórt á evrópskum orkumarkaði, sem er frjáls markaður. Orkufyrirtæki á Ítalíu gæti þess vegna átt það sem Vattenfall á nú í Þýskalandi. Þar er fjöldinn allur af fyrirtækjum á markaði sem t.d. hlýtur að koma neytendum til góða.

Fleiri fullyrðingar úr grein Guðrúnar mætti tína til, t.d. að höfuðvandamál Grikkja sé evran (sem ekki er hægt að gengisfella!) og að þeir sakni drökmunnar. Höfuðvandamál Grikkja var ef til vill slök efnahagsstjórn fyrri ríkisstjórna (nokkuð sem við könnumst við) og lífeyriskerfið, eitt hið dýrasta í heimi. Því er nú verið að breyta.

Umsókn og viðræður víð ESB opnar ýmsa möguleika, t.d. fáum við aðstoð frá ESB til að endurmeta og endurskipuleggja íslenska stjórnsýslu sem meta má til mörg hundruð milljóna, en margir telja að margt megi bæta í íslenskri stjórnsýslu. Það er óendurkræft þannig að þótt við myndum fella aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir stöndum við líklega eftir með betri stjórnsýslu. Þetta endurmat getur því e.t.v. leitt til betri stjórnunar á ýmsum sviðum samfélagsins.

Guðrún, hefur lifað og starfað erlendis í fjölda ára, m.a. fyrir ESB. Með aðstoð Google komst ég að því að hún rekur fyrirtæki á sviði þýðinga og hefur m.a. tekið þátt í ráðstefnum á vegum ESB um rafrænt lýðræði (E-democracy). Guðrún er menntuð kona og því finnst mér þessi „sleggjudómastíll“ hennar koma verulega á óvart. En það krefst meiri vinnu að rökstyðja mál sitt með staðreyndum. Það gerir hún því miður ekki í grein sinni.

Einkenni málefnalegrar umræðu er einmitt að forðast sleggjudóma og órökstuddar fullyrðingar. Til dæmis eins og að segja að aðildarviðræðurnar komi til með að kosta 10 milljarða. Af því bara!

MBL, 17.7.2010


Pólland og áhrif ESB-aðildar

Pólland, sótti um aðild að ESB árið 1994 og fékk aðild 2004, ásamt fleiri löndum Austur-Evrópu. Landið er fimmta stærsta ríki ESB, með um 39 milljónir íbúa.Undanfarið hefur Grikkland fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í umræðunni hefur því mun minna borið á þeim ríkjum ESB, þar sem vel hefur gengið. Pólland er einmitt eitt þessara ríkja. En hvernig hafa áhrif aðildar komið út fyrir Pólland? Í skýrslu sem gefin var út í fyrra eru áhrif aðildar á landið tekin saman.

Hagvöxtur (vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs), jókst verulega í Póllandi eftir aðild, sökum aukinnar eftirspurnar og fjárfestinga. Árið 2007 var 6,6% hagvöxtur í Póllandi, en að meðaltali var rúmlega fimm prósenta hagvöxtur á árunum 2003-2008. Á sama tímabili jókst framleiðni einnig umtalsvert, eða um 10% á sérstökum kvarða sem mælir slíkt.

Framlög ESB úr ýmsum sjóðum sambandsins eru mikilvægur þáttur í þróun efnahagsmála í Póllandi og á tímabilinu 2004-2008 fengu Pólverjar 14 milljarða evra frá ýmsum sjóðum/áætlunum ESB, umfram það sem þeir greiddu til sambandsins. Á tímabilinu 2007-2013 munu Pólverjar fá um 70 milljarða evra, sem m.a. á að nota til uppbyggingar á sviði samgöngu og umhverfismála, sem og almennrar atvinnuuppbyggingar.

Erlendar fjárfestingar hafa aukist verulega eftir aðild. Árið 2007 námu þær tæpum 17 milljörðum evra. Verslun og viðskipti hafa einnig aukist, eða um tæp 20% að magni til á ári frá aðild.

Pólland er mikil landbúnaðarþjóð, en mikil andstaða kom frá bændum gegn aðild, rétt eins og hér á landi. Pólskir bændur voru meðal tekjulægstu stétta í öllum fyrrverandi kommúnistaríkjum Evrópu fyrir aðild.

Frá aðild hefur hins vegar mikið breyst, til hins betra. Framleiðni í pólskum landbúnaði var árið 2007 um 47% hærri en árið 2000 og útflutningur á pólskum landbúnaðarvörum jókst um 250% á árunum 2003-2007. Innflutningur jókst á sama tímabili um 125%. Í frétt frá Warzaw Business Journal frá 10. maí sl. kemur fram að tekjur pólskra bænda hafi frá árinu 2000 aukist um 107%!

Í grein frá AFP frá 2009 kemur fram að afstaða pólskra bænda hafi orðið mun jákvæðari. Margir þverskallist þó við og fjárfesti ekki, en enn fleiri hafi notað stuðning frá ESB til að nútímavæða pólskan landbúnað. Eldri bændur hafa selt land (verð hækkaði) og því hafa pólsk býli stækkað. Pólskum bændum hefur fækkað, en þeir sem eftir eru, reka stærri bú og hafa meiri tekjur. Því eru pólskir bændur færri en fyrir aðild, en mun tekjuhærri. Á næstu árum mun stuðningur við pólskan landbúnað aukast enn frekar.

Tekið til í sjávarútvegi

Hvað varðar fiskveiðar, þá þurftu Pólverjar að taka til á þeim bænum, skip hafa verið úrelt með áætlunum sem ESB hefur styrkt og veiðigetan þar með minnkuð. Búist er við að floti Pólverja minnki enn frekar fram til 2013.

Frá aðild hefur hins vegar verðmæti fiskútflutnings aukist um 40%, en frá 2004-2007 jókst verðmæti fiskútflutnings úr 442 milljónum dollara í 923 USD árið 2007. Innflutningur á fiski hefur einnig aukist, aðallega til fullvinnslu. Þetta hefur leitt til stórfelldrar þróunar á framleiðslutækni pólsks fiskiðnaðar, sem hafði tvöfalt meiri tekjur árið 2008 en árið 2003.

Gríðarlegt atvinnuleysi var í Póllandi í byrjun aldarinnar, eða allt að 20%. Það tók að lækka eftir inngöngu landsins í ESB, en hefur nú aftur aukist vegna fjármálakreppunnar. Nú um stundir er atvinnuleysi í Póllandi um 10%. Búist er við að það lækki þegar líður á árið. Spáð er um 2,7% hagvexti í Póllandi í ár og 3,3% á næsta ári. Því gæti farið svo að atvinnuleysi minnki enn frekar í Póllandi á næsta ári.

Fram kemur í skýrslunni að með aðild að ESB hafi í raun lokið ferli sem gert hefur fyrrverandi kommúnistaríkið Pólland að frjálsu markaðshagkerfi, sem nú sé reiðubúið að takast á við vaxandi samkeppni á alþjóðamörkuðum.

Af þessu má draga þá ályktun að með aðild hafi Póllandi farnast mun betur en að standa fyrir utan ESB; "Með aðild hefur munurinn á Póllandi og öðrum leiðandi löndum álfunnar minnkað verulega," segir í skýrslunni. Í áðurnefndri grein AFP telur pólskur embættismaður að Pólland hafi þróunarlega séð tekið "risastökk" með aðstoð frá ESB og það sé líka mjög að þakka yfirvöldum á sveitarstjórnarstiginu, sem hafi nýtt sér aðild á mjög skilvirkan hátt.

Samstaða um að nýta aðildina

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur atriði úr skýrslunni sem ber heitið "Five years of Poland in the European Union". Mun fleiri þættir eru teknir fyrir í henni sem hafa haft mikla þýðingu fyrir Pólland, t.d. rannsóknar, og þróunarstarf, mennta og neytendamál. Þá eru hér ónefndir þættir eins og aukin pólitísk áhrif Pólverja í gegnum aðild og bætt og gjörbreytt staða þeirra á alþjóðavettvangi og innan Evrópu.

Greinileg samstaða er meðal Pólverja um að nýta sér aðildina til fulls, í þágu framfara fyrir pólsku þjóðina. Enda er mikill meirihluti Pólverja þeirrar skoðunar að landið eigi heima í ESB. Um þá gildir ef til vill vel orðatiltækið, "sá veldur, sem á heldur".

Birt í FRBL í byrjun júní 2010.

Að misskilja orð...

KrónanÞað má vera ljóst vera að eigendur bankanna hafa misskilið illilega hugtakið EIGANDI! Það er ljóst að þeirra hugmyndafræði var ,,ég áidda - ég máidda"!

Rétt eins og börn í sandkassa!


Í gíslingu græðginnar

Sú samantekt sem komið hefur fram í fjölmiðlum í fjölmiðlum í dag um HRUNIÐ, sýnir að íslenskt samfélag var tekið í gíslingu græðgi og svikráða. Það hefði svo margt annað verið hægt að gera. Þetta hlýtur að vera mesta klúður og hneyksli íslenskrar sögu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband