Að tala út í loftið

SkýEr hægt að segja hvað sem er í Morgunblaðinu? Spurningin vaknaði eftir lestur á makalausri grein Guðrúnar S. Magnúsdóttur (búsett í Svíþjóð) hinn. 23. júní síðastliðinn. Þar er hún að fjalla um Evrópumál, en kannski er orðið „fjalla“ sérkennilegt í þessu samhengi. Nær lagi er að í greininni slengi hún fram mörgum órökstuddum frösum og fullyrðingum.Til dæmis segir Guðrún að það muni kosta okkur Íslendinga um 10 milljarða (10 þúsund milljónir) að ræða við ESB um aðild. Þann sama dag og greinin birtist sagði Össur Skarphéðinsson að kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á um einn milljarð. Fullyrðingar Guðrúnar um 10 miljarða eru því algerlega úr lausu lofti gripnar og verða að afskrifast sem hreinn tilbúningur. Því má spyrja: Er það ekki ábyrgðarhluti af Morgunblaðinu að birta þetta svona „hrátt“? Vegna þess að því miður geta svona tölur síast inn í umræðuna og það er útilokað að viðræðurnar muni kosta 10 milljarða.

Ef ég segði: Aðildarviðræður við ESB munu einungis kosta um 100 milljónir, myndi það þá verða birt í Morgunblaðinu? Það er ekkert skrýtið að spurningar sem þessar vakni, við lestur á greinum á borð við grein Guðrúnar. Enda er talan 10 milljarðar algerlega út í hött!

Í grein sinni fullyrðir Guðrún: „Það er á hreinu að við töpum fiskimiðunum og öllum rétti sem land til að vinna úr okkar eigin auðlindum.“ Og rökstuðningurinn: „Í þessu hvorutveggja ríkir frí samkeppni við öll hin aðildarlöndin.“ Þetta verður að segjast vera magur rökstuðningur fyrir jafn risastórri fullyrðingu og hún setur fram. Hvað á Guðrún eiginlega við? Að hér leggist af öll vinnsla á t.d. fiskafurðum og að við getum ekki framleitt verðmæti úr innlendri raforku? Hún hefur ekki fyrir því að útskýra það!

Ljóst er að Ísendingar munu halda sínum kvóta í íslenskri lögsögu við aðild vegna; a) reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika og b) að ekkert ESB-land hefur marktæka veiðireynslu í lögsögu Íslands undanfarna áratugi. Þetta hafa ráðamenn í ESB staðfest.

Þá segir Guðrún: „Þrátt fyrir að margir séu á móti inngöngu í ESB þá er það sorglegt að svo margir Íslendingar séu ennþá í vafa og sérstaklega unga fólkið, sem oft hefur ekki næga kunnáttu til að skilja hvað litla Ísland er mikilvægt, ekki eingöngu vegna fisksins heldur vegna orkunnar sem, ef við göngum í ESB, verður að mestu í eigu Vattenfall frá Svíþjóð sem nú er búið að taka yfir næstum allan orkurekstur í Þýskalandi.“

Hér gerir hún s.s. lítið úr ungu fólki og er það miður. Viti maður ekki hlutina er það t.d. á ábyrgð foreldra og skólakerfis að upplýsa ungt fólk. Hér á Íslandi mætti stórefla upplýsingu um Evrópu og umheiminn almennt, en það er t.d. staðreynd að um 70-80% þeirra sem fara í framhaldsnám fara til Danmerkur eða Bretlands.

Fullyrðing hennar um að Vattenfall muni eignast hér alla orku er beinlínis hlægileg. Vattenfall hefur ekki sýnt Íslandi minnsta áhuga en vissulega eru það stórt á evrópskum orkumarkaði, sem er frjáls markaður. Orkufyrirtæki á Ítalíu gæti þess vegna átt það sem Vattenfall á nú í Þýskalandi. Þar er fjöldinn allur af fyrirtækjum á markaði sem t.d. hlýtur að koma neytendum til góða.

Fleiri fullyrðingar úr grein Guðrúnar mætti tína til, t.d. að höfuðvandamál Grikkja sé evran (sem ekki er hægt að gengisfella!) og að þeir sakni drökmunnar. Höfuðvandamál Grikkja var ef til vill slök efnahagsstjórn fyrri ríkisstjórna (nokkuð sem við könnumst við) og lífeyriskerfið, eitt hið dýrasta í heimi. Því er nú verið að breyta.

Umsókn og viðræður víð ESB opnar ýmsa möguleika, t.d. fáum við aðstoð frá ESB til að endurmeta og endurskipuleggja íslenska stjórnsýslu sem meta má til mörg hundruð milljóna, en margir telja að margt megi bæta í íslenskri stjórnsýslu. Það er óendurkræft þannig að þótt við myndum fella aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir stöndum við líklega eftir með betri stjórnsýslu. Þetta endurmat getur því e.t.v. leitt til betri stjórnunar á ýmsum sviðum samfélagsins.

Guðrún, hefur lifað og starfað erlendis í fjölda ára, m.a. fyrir ESB. Með aðstoð Google komst ég að því að hún rekur fyrirtæki á sviði þýðinga og hefur m.a. tekið þátt í ráðstefnum á vegum ESB um rafrænt lýðræði (E-democracy). Guðrún er menntuð kona og því finnst mér þessi „sleggjudómastíll“ hennar koma verulega á óvart. En það krefst meiri vinnu að rökstyðja mál sitt með staðreyndum. Það gerir hún því miður ekki í grein sinni.

Einkenni málefnalegrar umræðu er einmitt að forðast sleggjudóma og órökstuddar fullyrðingar. Til dæmis eins og að segja að aðildarviðræðurnar komi til með að kosta 10 milljarða. Af því bara!

MBL, 17.7.2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband