Pólland og áhrif ESB-aðildar

Pólland, sótti um aðild að ESB árið 1994 og fékk aðild 2004, ásamt fleiri löndum Austur-Evrópu. Landið er fimmta stærsta ríki ESB, með um 39 milljónir íbúa.Undanfarið hefur Grikkland fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í umræðunni hefur því mun minna borið á þeim ríkjum ESB, þar sem vel hefur gengið. Pólland er einmitt eitt þessara ríkja. En hvernig hafa áhrif aðildar komið út fyrir Pólland? Í skýrslu sem gefin var út í fyrra eru áhrif aðildar á landið tekin saman.

Hagvöxtur (vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs), jókst verulega í Póllandi eftir aðild, sökum aukinnar eftirspurnar og fjárfestinga. Árið 2007 var 6,6% hagvöxtur í Póllandi, en að meðaltali var rúmlega fimm prósenta hagvöxtur á árunum 2003-2008. Á sama tímabili jókst framleiðni einnig umtalsvert, eða um 10% á sérstökum kvarða sem mælir slíkt.

Framlög ESB úr ýmsum sjóðum sambandsins eru mikilvægur þáttur í þróun efnahagsmála í Póllandi og á tímabilinu 2004-2008 fengu Pólverjar 14 milljarða evra frá ýmsum sjóðum/áætlunum ESB, umfram það sem þeir greiddu til sambandsins. Á tímabilinu 2007-2013 munu Pólverjar fá um 70 milljarða evra, sem m.a. á að nota til uppbyggingar á sviði samgöngu og umhverfismála, sem og almennrar atvinnuuppbyggingar.

Erlendar fjárfestingar hafa aukist verulega eftir aðild. Árið 2007 námu þær tæpum 17 milljörðum evra. Verslun og viðskipti hafa einnig aukist, eða um tæp 20% að magni til á ári frá aðild.

Pólland er mikil landbúnaðarþjóð, en mikil andstaða kom frá bændum gegn aðild, rétt eins og hér á landi. Pólskir bændur voru meðal tekjulægstu stétta í öllum fyrrverandi kommúnistaríkjum Evrópu fyrir aðild.

Frá aðild hefur hins vegar mikið breyst, til hins betra. Framleiðni í pólskum landbúnaði var árið 2007 um 47% hærri en árið 2000 og útflutningur á pólskum landbúnaðarvörum jókst um 250% á árunum 2003-2007. Innflutningur jókst á sama tímabili um 125%. Í frétt frá Warzaw Business Journal frá 10. maí sl. kemur fram að tekjur pólskra bænda hafi frá árinu 2000 aukist um 107%!

Í grein frá AFP frá 2009 kemur fram að afstaða pólskra bænda hafi orðið mun jákvæðari. Margir þverskallist þó við og fjárfesti ekki, en enn fleiri hafi notað stuðning frá ESB til að nútímavæða pólskan landbúnað. Eldri bændur hafa selt land (verð hækkaði) og því hafa pólsk býli stækkað. Pólskum bændum hefur fækkað, en þeir sem eftir eru, reka stærri bú og hafa meiri tekjur. Því eru pólskir bændur færri en fyrir aðild, en mun tekjuhærri. Á næstu árum mun stuðningur við pólskan landbúnað aukast enn frekar.

Tekið til í sjávarútvegi

Hvað varðar fiskveiðar, þá þurftu Pólverjar að taka til á þeim bænum, skip hafa verið úrelt með áætlunum sem ESB hefur styrkt og veiðigetan þar með minnkuð. Búist er við að floti Pólverja minnki enn frekar fram til 2013.

Frá aðild hefur hins vegar verðmæti fiskútflutnings aukist um 40%, en frá 2004-2007 jókst verðmæti fiskútflutnings úr 442 milljónum dollara í 923 USD árið 2007. Innflutningur á fiski hefur einnig aukist, aðallega til fullvinnslu. Þetta hefur leitt til stórfelldrar þróunar á framleiðslutækni pólsks fiskiðnaðar, sem hafði tvöfalt meiri tekjur árið 2008 en árið 2003.

Gríðarlegt atvinnuleysi var í Póllandi í byrjun aldarinnar, eða allt að 20%. Það tók að lækka eftir inngöngu landsins í ESB, en hefur nú aftur aukist vegna fjármálakreppunnar. Nú um stundir er atvinnuleysi í Póllandi um 10%. Búist er við að það lækki þegar líður á árið. Spáð er um 2,7% hagvexti í Póllandi í ár og 3,3% á næsta ári. Því gæti farið svo að atvinnuleysi minnki enn frekar í Póllandi á næsta ári.

Fram kemur í skýrslunni að með aðild að ESB hafi í raun lokið ferli sem gert hefur fyrrverandi kommúnistaríkið Pólland að frjálsu markaðshagkerfi, sem nú sé reiðubúið að takast á við vaxandi samkeppni á alþjóðamörkuðum.

Af þessu má draga þá ályktun að með aðild hafi Póllandi farnast mun betur en að standa fyrir utan ESB; "Með aðild hefur munurinn á Póllandi og öðrum leiðandi löndum álfunnar minnkað verulega," segir í skýrslunni. Í áðurnefndri grein AFP telur pólskur embættismaður að Pólland hafi þróunarlega séð tekið "risastökk" með aðstoð frá ESB og það sé líka mjög að þakka yfirvöldum á sveitarstjórnarstiginu, sem hafi nýtt sér aðild á mjög skilvirkan hátt.

Samstaða um að nýta aðildina

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur atriði úr skýrslunni sem ber heitið "Five years of Poland in the European Union". Mun fleiri þættir eru teknir fyrir í henni sem hafa haft mikla þýðingu fyrir Pólland, t.d. rannsóknar, og þróunarstarf, mennta og neytendamál. Þá eru hér ónefndir þættir eins og aukin pólitísk áhrif Pólverja í gegnum aðild og bætt og gjörbreytt staða þeirra á alþjóðavettvangi og innan Evrópu.

Greinileg samstaða er meðal Pólverja um að nýta sér aðildina til fulls, í þágu framfara fyrir pólsku þjóðina. Enda er mikill meirihluti Pólverja þeirrar skoðunar að landið eigi heima í ESB. Um þá gildir ef til vill vel orðatiltækið, "sá veldur, sem á heldur".

Birt í FRBL í byrjun júní 2010.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Pólland skrapaði botninn á öllum skalanum um kaupmátt launa, úreltan landbúnað og úreltan íðnað og atvinnulíf sem hafði verið í heljargreipum Sovét kommúnismans um áratuga skeið og get þessa harðduglegu þjóð að einni fátækustu þjóð Evrópu.

Það er því enginn furða að þetta harðduglega fólk sem Pólverjar eru skuli nú stefna uppá við því lægra var ekki hægt að ganga í niðurlægingu þjóðar.

Ég tel að ESB apparatið geti að mjög litlu leyti þakkað sér þennan löngu tímabæra uppgang þjóðarinnar. Það var ekkert annað hægt en að fara upp eftir að þjóðin hafði slitið af sér hlekki Sovét kommúnsimans. 

Samt sem áður eru lífskjör og kaupmáttur launa langt í frá á sama róli og kaupmáttur íslendinga eru og eiga mjög langt í að standa á jöfnu. Þrátt fyrir bankakreppuna og lækkun gjaldmiðils okkar.

Bara að benda á þetta.

Gunnlaugur I., 8.6.2010 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband