Draumurinn um hinn sterka leiðtoga

Hin sterka höndÞað er nokkuð merkilegt að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni þessa dagana. Svo virðist vera sem upp séu að spretta hugmyndir um þörfina fyrir ,,sterkan leiðtoga.“ Sést þettaa best á því að lesa t.d. Morgunblaðið. Þar ritar t.d. einn blaðamanna þess þann 24.mars undir fyrirsögninni ,,Leiðtogalaust Ísland" að ,,Ísland er leiðtogalaust land“ og heldur svo áfram, ...,,Til eru þeir sem hafa mikla þörf fyrir að láta stýra sér í gegnum lífið. Til dæmis hundar.“ Svo heldur greinin áfram með umfjöllun um þátt Ólafs Ragnars í Icesave-málinu, en henni lýkur svo með þeim pælingum blaðakonunnar um að það eigi að vera þjóðin sem eigi að leiða stjórnmálin, en ekki stjórnmálamennirnir þjóðina. Þannig sé það í lýðræðisríkjum. 

Vissulega er það ein af grunvallarhugmyndum lýðræðis að valdið komi frá fólkinu. Í flestum vestrænum ríkjum hafa menn hinsvegar komið sér saman um einhversskonar form fulltrúalýðræðis, þar sem kosnir fulltrúar setja lög og taka ákvarðanir. Þannig er það á Íslandi. Svo hafa leiðtogar mismunandi stíl, en svo virðist sem mörgum þyki ekki núverandi forsætisráðherra ekki vera nógu mikið í fjölmiðlum. Er það þar sem við viljum hafa okkar leiðtoga?

Við lestur greinarinnar er í raun ekki alveg á hreinu hvað blaðakonan, Una Sighvatsdóttir, er að meina. Vill hún afnema fulltrúalýðræðið, eru þingmenn óþarfir? Eigum við t.d. að stjórna okkur sjálf með því sem kallast ,,beint lýðræði?“ Að vera í sífellu að kjósa um allt og ekki neitt?

Í greininni segir hún að ,,sterkur leiðtogi er ekki lausn á vanda sem þjóðin þarf að leysa saman.“ En samt sem áður er verið að ,,planta“ þeirri hugmynd hjá okkur Íslendingum í fjölmiðlum þessa daga að þetta sé einmitt það sem við þurfum. Einhver ,,sterk hönd“ sem getur rifið okkur upp úr kreppunni, blásið okkur kapp í kinn og svo verði allt gott og eins og það var.

Söguleg reynsla af sterkum leiðtogum er hinsvegar skelfileg. Margir af ,,sterkustu leiðtogum“ þessa heims hafa um leið verið mjög sterkir á sviði fjöldamorða og hryllilegustu mannréttindabrota sem um getur.  Svo eru líka til dæmi um hið gagnstæða, farsæla leiðtoga sem í krafti manngæsku hafa staðið fyrir miklum framförum. Dæmi um slíkt er kannski Franklin D. Roosevelt, fyrrum Bandaríkjaforseti.

En það er þessi hugmynd um að þörfina fyrir sterkan leiðtoga sem ég tel vera hættulega.

Það sem Íslendingar þurfa er að hífa sjálfa sig upp úr eldgömlum skotgröfum stjórnmála ,,fjórflokksins“ og reyna að standa saman. Hér skortir tilfinnanlega það sem kallast ,,samstöðustjórnmál,“ þ.e. að menn geti unnið saman yfir flokkslínur. Hætta að hugsa eftir brautum á borð við ,,Við Sjálfstæðismenn,“ eða ,,Við í samfylkingunni.“ Þetta er sjálfselsk nálgun, eins og einstaklingur sem sér allt bara út frá eigin sjónarhorni. Í þessu erum við okkur sjálfum verst.

Ísland þarf ekkert sterkan leiðtoga, sem í alltaf í sjónvarpinu, blöðunum og útvarpinu að segja okkur hvað við eigum að gera og ekki gera.  Hverskonar valdakerfi er það? Eða er þetta orðið svo slæmt, að það þurfi að teyma þjóðina út og suður?

Hinn "sterki leiðtogi“ er 20.aldar fyrirbæri! Nú er komin ný öld og tími fyrir ný vinnubrögð, það er miklu meiri þörf fyrir klóka leiðtoga en sterka.

Efni sem tengist þessu:

http://visir.is/article/20100412/FRETTIR01/150092882


Í GIN VERÐTRYGGINGAR

Hús í bygginguAllir þurfa þak yfir höfuðið, það eru jú altæk sannindi. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að álitið er svo að íbúðarhúsnæði er talið vera lífssparnaður fólks. Menn taka lán, setja inn summu af eigin fé og svo er bara að borga af. Að eiga sína fasteign er talið eðlilegt.

Árið 1996 fluttum ég og konan mín til Svíþjóðar, til framhaldsnáms. Byrjuðum á að leigja, eins og við gerðum á Íslandi, en eftir eitt ár keyptum við svokallaðan búseturétt. Fjölskyldan stækkaði og eftir nokkur ár þurfti að selja og kaupa stærra. Búseturétturinn var seldur á fimmföldu verði vegna hækkandi fasteignaverðs í Svíþjóð og parhús keypt. Í fyrstu var það einnig búseturéttur, en fljótlega komst á samkomulag innan búsetafélagsins að breyta eignarforminu, þannig að hver fjölskylda myndi eignast sína fasteign.

Þau lán sem hvíldu á parhúsinu, voru með vöxtum á bilinu 1-2% og verðbólga var svipuð. Fyrir íbúðareigendur er þetta þægileg staða, við hver mánaðarmót minnkaði lánið og við eignuðumst meira í húsinu eftir því sem á leið. Það heitir ,,jákvæð eignamyndun“ á fagmáli. Við vissum einnig hvernig staða okkar var nákvæmlega við hver mánaðarmót og fram í tímann.

Í júní 2007 fluttum við fjögur svo heim. Parhúsið selt. Við högnuðumst bæði af sölu búseturéttarins í upphafi og parhússins. Þegar upp var staðið var hagnaðurinn c.a. 5 milljónir króna (sem þykir kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða). Þessa peninga og annað sparifé notuðum við til að kaupa fasteign á Íslandi. Að sjálfsögðu tókum við lán.

En hvað hefur gerst á þremur árum? Jú, lán okkar hefur hækkað um nákvæmlega fimm milljónir vegna vaxta og verðtryggingar! Það hefur því ekki tekið íslensku verðtrygginguna nema tæp þrjú ár að éta í sig allt það fé sem við fengum út úr sölu tveggja fasteigna í Svíþjóð! Þetta er svokölluð ,,neikvæð eignamyndun“ á fagmáli.  Í stað þess að eignast í fasteigninni, hefur lánveitandinn eignast sífellt meira í okkur og okkar ráðstöfunartekjum.

Það sér hver heilvita maður að þetta er klikkað kerfi. Þegar ég sá í hvað stefndi á greiðsluseðlunum þá hringdi ég í þáverandi Glitni í einfeldni minni. Ég spurði konuna sem svaraði hvort þetta væri eðlilegt. Hún svaraði: ,,Já, já, þetta er alveg eins og það á að vera,“ og spurði mig svo um vextina á láninu. Ég svaraði; ,,4.5%“ (nafnvextir, svo leggst verðbólga og vertrygging ofan á). ,,Þú ert bara með frábært lán!“ sagði starfsmaður bankans! Nú, er það, svaraði ég og þakkaði fyrir samtalið. Nú hlyti mér að líða miklu betur yfir þessu!

En er þetta fínt? Er það eitthvað fínt að nokkuð sem heitir verðtrygging hlaði auka-milljónum ofan á húsnæðislánin? Hversvegna varð verðtrygging til? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn réðu ekki við verðbólgu og efahagsmálin. Hún átti að vera tímabundin aðgerð sem sett var á árið 1979 (s.k. ,,Ólafslög“, sem viðbrögð við óðaverðbólgu. Því má líta á verðtryggingu sem tryggingu stjórnmálamanna og yfirvalda sem ráða ekki við að stjórna efnahag landsins, eða eins og Gylfi Magnússon (þáverandi dósent við H.Í) segir í svari á vísindavef H.Í: ,, Í löndum þar sem gjaldmiðillinn hefur verið stöðugur um langan tíma og verðbólga hefur ekki farið úr böndunum er sjaldgæfara að samið sé um verðtryggingu en í löndum þar sem íbúar hafa reynslu af mikilli og óstöðugri verðbólgu.“

 

Birt á vefsíðum Evrópusamtakanna og Sterkara Ísland

 


Don´t worry - be happy

KL á stórar frystigeymslur, þar getur hann geymt hvalkjötið sitt. Síðan selur hann þetta gamla hvalkjöt, mest til Japans. Einu sinni var hann spurður á RÚV hvort það væri markaður fyrir kjötið í Japan. ,,Það er einhver markaður þarna," sagði hann. Hann var s.s. ekki með það á hreinu hvort það væri markaður þarna eða ekki, eða hvort tveggja. Þetta er náttúrlega enn eitt dæmið um hvernig við Íslendingar móta sína atvinnustefnu. Veitt upp á von og óvon, annars bara frysta draslið og bíða betri tíma!

En skjóta skal hvalinn! Hann étur svo mikinn þorsk! En af hverju er þá ennþá þorskur í sjónum? Af hverju eru hvalirnir ekki búnir með allan þorskinn?? Gæti verið að náttúran sjái um jafnvægið sjálf?

Eða er það allt saman Kristjáni Loftssyni að þakka að það er enn þorskur í sjónum? Og þá eru það náttúrlega einhverjir ,,hollenskir hryðjuverkamenn" sem standa í vegi fyrir því að KL takist að halda þorsknum í sjónum. Það má að sjálfsögðu ekki gerast!

Það verður að taka þessa hryðjuverkamenn og henda þeim í fangelsi! Þeir eru að hindra atvinnuveg, sem malar gull fyrir íslenskt þjóðarbú!


mbl.is Hefur ekki áhyggjur af kjötinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarsýn Styrmis Gunnarssonar

Umsáturskenning Styrmis Gunnarssonar, fyrrum Moggaritstjóra og Nei-sinna, sem hann setur fram í nýrri bók sinni, UMSÁTRIÐ, hefur vakið töluverða athygli. Tekið skal fram að Styrmir er einnig í stjórn samtaka Nei-sinna hér á landi. En kenning Styrmis er þessi, eins og hann orðar “vel” í viðtali við sitt gamla blað þann 30.nóvember s.l.:

…,,á árinu 2008 upplifði ég það þannig að þessi þjóð hefði verið umsetin án þess að vita af því nema tiltölulega fámennur hópur og það sem fyrir okkur kom hafi raunverulega verið eins konar umsátursástand. Seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands, Hollands, Evrópu, Lúxemborgar og Norðurlandanna hafi tekið höndum saman um að loka okkur inni og á sama tíma hafi breska fjármálaeftirlitið hafið tangarsókn á Landsbankann til að stoppa hann af í sambandi við innlánasöfnun á Bretlandi. Með þessum hætti vorum við rekin í fangið á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.”

Það eru s.s. hinir vondu útlendingar sem að þetta er allt að kenna og þeir ráku okkur í fangið á AGS! Í þessu felst mikil fórnarlambshugsun, eða eins og Jón Baldvin Hannibalsson sagði; þetta væri svona álíka fórnarlambshugsunarháttur og einkennt hefur fjölmarga Serba í árhundruð, einskonar serbneskt heilkenni! 

Margir Serbar hafa nefnilega litið á sig sem fórnarlömb, síðan bardaginn mikli milli þeirra og Tyrkja átti sér stað við Kosovo Polje (Þrastarvelli) árið 1389. Og vitna óspart til hans, þá helst miklir serbneskir þjóðernissinnar.

Í lok viðtalsins afhjúpar Styrmir síðan sína framtíðarsýn fyrir Ísland 21.aldarinnar. Blaðamaðurinn, Karl Blöndal, spyr Styrmi hvernig þjóðin eigi að bregðast við þessum aðstæðum. Styrmir svarar:

,,Ég held að hún eigi að horfast í augu við veruleikann og gera sér grein fyrir að hún skiptir engu máli í samfélagi þjóðanna. Við erum ekki nema 300 þúsund manns hér uppi á Íslandi og við eigum bara að reyna að byggja hér upp farsælt og gott samfélag, en reyna ekki að vera eitthvað annað en við erum. Hætta þessum leikaraskap, að halda að við höfum einhverju hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi, hætta þessum hégómaskap í sambandi við samskipti við aðrar þjóðir, að vera með þjóðhöfðingja, sem ferðast um allan heim af því að hann telur sig hafa einhverju hlutverki að gegna þar. Við eigum bara að sníða okkur stakk eftir vexti, lifa hér því góða lífi, sem hægt er að lifa í þessu fallega landi, nýta auðlindir okkar og byggja á þeim, en hætta að gera okkur einhverjar hugmyndir um að við séum eitthvað annað en við erum. Við erum fámenn þjóð, sem lifir á fiski hér í Norður-Atlantshafi. Það er gott hlutskipti og við eigum að vera sátt við það.“

Skilaboði Styrmirs eru því þessi: Við lifum í landi, sem skiptir engu máli! Fyrir komandi kynslóðir hlýtur þetta að vera mest niðurdrepandi framtíðarsýn sem hægt er að hugsa sér! Þó vissulega sé hægt að taka undir orð Styrmis um nýtingu auðlindanna. En eigum við ekki bara að leggjast á hjarnið og bíða þess að tíminn stöðvist?

Hagfræðingar eru flestir sammála að Íslendingar gætu framfleytt sér á fiski ef við værum ekki fleiri en um 80 þúsund miðað við þau lífsskilyrði sem við teljum ásættanleg. Ekki eru miklir möguleikar að auka sókn í núverandi stofna þannig að ekki er víst hvað Styrmir vill að hinir 230 þúsund Íslendingarnir eigi að gera! 

 

 

Andrés Pétursson og Gunnar H. Ársælsson eru í stjórn Evrópusamtakanna

FRBL, 7.12.2009


Evran minnkar vaxtasveiflur

Á heimasíðu Seðlabanka Íslands má finna nýja grein eftir aðalhagfræðing bankans, Dr. Þórarinn G.Pétursson. Greinin heitir Does inflation targeting lead to excessive exchange rate volatility?

Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir: ,, Í ritgerðinni fjallar Þórarinn m.a. um hvort upptaka verðbólgumarkmiðs leiði til þess að gengissveiflur, umfram það sem hægt er að skýra með hagrænum grunnþáttum, aukist. Niðurstöður hans benda til þess að ekkert kerfisbundið samband sé á milli upptöku verðbólgumarkmiðs og umframsveiflna í gengi gjaldmiðla. Hins vegar benda niðurstöðurnar til þess að aðild að Myntbandalagi Evrópu dragi úr þessum umframsveiflum. Niðurstöðurnar benda því til þess að fljótandi gengi gagnist ekki aðeins til sveiflujöfnunar heldur sé einnig sjálfstæð uppspretta hagsveiflna sem hægt sé að draga úr með því að gerast aðili að gengissamstarfi. Á sama tíma benda niðurstöður hans til þess að upptaka verðbólgumarkmiðs leiði í sjálfu sér ekki til umframsveiflna í gengi gjaldmiðla."

Á Íslandi var ein allsherjar uppsveifla fram til október í fyrra. Þá kom ein allsherjar niðursveifla! Einu sinni var krónan svakalega sterk, núna er hún svakalega veik! Fyrir rúmu ári var næstum ekkert atvinnuleysi, núna er bullandi atvinnuleysi. Er hægt að hafa þetta svona?


Enn á Sturlungaöld?

VígamennÍ gærkvöldi sá ég afar merkilega heimildarmynd í sænska sjónvarpinu um Ndrangheta, sem er mafía og á rætur sínar að rekja til borgarinnar Kalibri á Ítalíu. Þar var dregin upp all skuggaleg mynd af því hvernig þetta fyrirbæri hefur ,,plantað” sér á þeim svæðum þar sem hægt var að þvo illa fegna peninga, peninga af eiturlyfjasölu, fjárkúgunum og öðrum afbrotum. M.a. kom þar fram að Ndranghetan hefur staðið fyrir stórfelldum byggingarframkvæmdum á Marbella á Spáni. Samtökin reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að reglur samfélagsins virki og eru í hæsta máta and-samfélagsleg.

 

Sunnudaginn þar áður sá ég svo aðra heimildarmynd um stríðið í Afganistan og þá erfiðleika sem NATO stendur þar frammi fyrir, gagnvart a) Talíbönum og b) Almennum borgurum, ættarhöfðingjum o.s.frv. Afganistan er nefnilega ættarsamfélag, þar sem ,,klanið,” ættin hefur gríðarlega sterk ítök. Eitt vandamálanna sem hermenn NATO glíma við er það hvernig þeim á að takast að vinna TRAUST höfðingjanna, þeirra sem hafa völdin.

 

Önnur kvikmynd sem vert er að nefna í þessu sambandi, er hin nöturlega Gomorra, sem einnig er lýsing á því hvernig mafían gegnumsýrir ítalskt samfélag. Mæli ég sterklega með þeirri mynd.

 

Einhverra hluta vegna sótti sú hugsun á mig eftir þetta allt saman: er þetta ekki nokkuð skylt því sem fram fer (og hefur farið) hér á Íslandi?

 

Hér er vissulega engin skipulögð mafíu-starfsemi, sem betur fer. En samt, hvað er Kolkrabbinn, Eimreiðarhópurinn, S-hópurinn, ,,fjölskyldurnar 14,” og svo framvegis.

 

Er sú hugmynd manna að hér þurfi maður að þekkja mann og annan til að fá hitt og þetta, alveg út í bláinn?

 

Einkavæðing bankanna er kannski besta dæmið um þetta, þegar ,,gullmolunum” í íslensku bankakerfi var skipt bróðurlega á milli ákveðinna hópa og einstaklinga í samfélaginu.

 

Svo þegar einhverjir hópar kaupa það sem þeim er ekki ætlað að fá, verður allt brjálað og húsgögnin fljúga út og suður!

 

Og hvað er Ísland annað en ættarveldi? Hér eru afkvæmi ætta að slást um brauðmolana, hvort sem það heitir kvóti, orka eða bankar. Það er eins og við séum enn stödd á sturlungaöld, nema að nú er ekki barist með eggvopnum að hætti víkinga, heldur dollurum, evrum, japönskum yenum, afleiðum, undirmálslánum, jöklabréfum, hlutabréfum o.s.frv.

 

Við höfum ekkert lært: okkur er stjórnað af frumstæðum hvötum, græðgi, oflátungshætti, mikilmennsku, virðingarleysi, skeytingarleysi, kæruleysi, ofmetnaði og drambi.

 

Þvílíkur farmiði inn í framtíðina!


Þekkingarskortur eða fljótfærni?

Islamic-Revolution-Guards-CorpsÍ fréttum í dag er sagt frá sprengjutilræði í Íran þar sem nokkrir og helstu yfirmenn Byltingarvarðliðanna létu lífið. Í fréttum hefur orðið ,,sérsveit" verið notuð yfir þetta fyrirbæri sem á ensku kallast ,,Army of the Guardians of the Islamic Revolution."

En málið er að þetta er ekki sérsveit í skilningi þess orðs, heldur ÚRVALSSVEIT," einskonar ,,her í hernum." Her sem hefur um 120.000 liðsmenn getur ekki talist sérsveit, þær eru yfirleitt mun minni.

Lesa má allt um Byltingarvarðliðana á þessari slóð:

http://en.wikipedia.org/wiki/Army_of_the_Guardians_of_the_Islamic_Revolution

Þar kemur fram að þessi HER hefur mjög viðamiklu hlutverki að gegna í írönsku samfélagi.

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, er einn þekkasti félaginn í þessum her í gegnum tíðina.

Æskilegt væru að fréttamenn kynntu sér málið og segðu rétt frá hlutunum, því sérsveit og úrvalssveit er ekki það sama.


Tiltekt eftir HRUNIÐ

Var staddur í Austurstrætinu og DSC00386var með símann með mér. Smellti af þessum myndum sem mér finnst nokkuð táknrænar fyrir HRUNIÐ og tiltektina eftir það.

 

 

DSC00388

 

 

 

DSC00391

 

 

 

DSC00392 

 

 

 

 

 


Hvað gera bændur þá? (MBL)

Fuðrar íslenskur landbúnaður upp við inngöngu í ESB?Eins og öllum er kunnugt lagði Ísland fram formlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu í lok júlí. Að undangenginni mikill umræðu um allt þjóðfélagið og á Alþingi.Ýmist samtök og hagsmunaaðilar hafa fjallað mikið um málið og tekið afstöðu, ýmist með eða á móti.

 

Samtök bænda hafa einnig rætt Evrópumálin. Þau hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB sé ekkert fyrir íslenska bændur. Þau hafa einnig ákveðið að taka ekki þátt í umræðunni á meðan umsóknarferli stendur. Bændasamtökin vilja því ekki einu sinni ræða ESB. Samtökin nota Bændablaðið til þess að koma boðskap sínum á framfæri.

 

Er þeim stætt á þessari afstöðu? Íslenskur landbúnaður er sá landbúnaður sem nýtur hvað mestra styrkja á byggðu bóli, samkvæmt OECD og tölum landbúnaðarsamtakanna. Árið 2005 var þetta um 10 milljarðar króna. Framlag landbúnaðar til landsframleiðslunnar var 1.1% árið 2006 og í greininni starfaði 3,8% vinnuafls í landinu (var 38% árið 1940). Til samanburðar má geta þess að rekstrargjöld Hafnarfjarðarbæjar árið 2007 námu svipaðri upphæð. Þetta er því eins og að íslenskur almenningur myndi greiða fyrir allan rekstur Hafnarfjarðarbæjar.

 

Laun bænda eru einnig sér kapítuli útaf fyrir sig. Meðallaun þeirra eru með þeim lægstu á almennum vinnumarkaði. Vitað er að búmennskan dugar mörgum ekki til að ná endum saman. Grípa því margir til allskyns aukavinnu. Þetta er staðfest í nýrri skýrslu, Litróf búskapar og byggða, sem Háskóli Íslands gaf nýlega út. Þar kemur fram að 70% fjölskyldna, ,,hafa einhverjar tekjur af launavinnu eða verktakastarfsemi utan býlisins. ,,Þetta er með því hæsta sem gerist í Evrópu,” segir í skýrslunni. Í henni kemur einnig fram að áhyggjur vegna nýliðunar í landbúnaði eru ofarlega í huga bænda. Meðalaldur bænda árið 2006 var 52 ár.

 

Þá eru margir bændur gríðarlega skuldsettir, sérstaklega mjólkurbændur. Fyrir skömmum voru fréttir í fjölmiðlum þess efnis að um 10% þeirra glímdu við mjög alvarleg fjárhagsvandræði og stefnir nokkur fjöldi þeirra í gjaldþrot.

 

Hvað varðar styrki er það athyglisverð staðreynd að íslenskir bændur fá tvöfalt meiri styrk en bændur innan ESB, sem hlutfall af verðmæti framleiðslunnar. Um er að ræða 30% innan ESB, en yfir 60% hér á landi. Þetta má lesa í Hagtölum bænda árið 2007.

 

Af þessu má því draga eftirfarandi ályktun: Hér er um litla grein að ræða, en mikilvæga, allir íslenskir neytendur vilja jú íslenskar landbúnaðarafurðir og bera traust til landbúnaðarins. Það hafa kannanir sýnt. En hún kostar, svo um munar. Staða greinarinnar vekur einnig þá spurningu hvort bændur hljóti ekki að velta fyrir nýjum kostum? Eða er óbreytt ástand óskastaðan?

 

Á íslenskur almenningur (styrkveitandinn) ekki þá kröfu gagnvart samtökum bænda að þau verði með í þeirri lýðræðislegu umræðu sem þarf að fara fram um Evrópumál, þar sem hagsmunir bænda skipta miklu máli? Geta samtökin verið ,,stikkfrí” í þessu dæmi? Er þessi krafa óeðlileg? Þess má geta að Bændasamtökin fengu yfir hálfan milljarð á fjárlögum í fyrra frá hinu opinbera, sem er inni í heildarstuðningi til stéttarinnar.

 

Er ekki hægt að líta á það sem ,,þegnskyldu” bændasamtakanna að taka þátt, en ekki segja sig frá þessu með þeim hætti sem samtökin hafa gert? Ef hægt er að dæma ,,lýðræðisþroska” samtaka á borð við Bændasamtökin, hvaða ályktanir er þá hægt að draga af þessari afstöðu? Er þetta ábyrg afstaða samtaka, sem telja sig hafa það hlutverk að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar? Það er ekki lítið eða léttvægt hlutverk í nútíma samfélagi!

 

Væntanlega mun innan ákveðins tíma, liggja fyrir aðildarsamningur fyrir okkur Íslendinga að taka afstöðu til. Hvernig ætla bændasamtökin sér að koma að ferlinu fram að því að samningurinn liggur fyrir? Hvað ef samningurinn verður hagstæður fyrir bændur og íslenskan landbúnað? Hvað gera bændur þá? Verður svarið NEI?

Birtist í MBL, 4.10.09


Allt í góðu?

zimlogoEr ekki bara allt í þessu fína hjá okkur, miðað við þetta?

http://www.rbz.co.zw/about/inflation.asp

Ps. Engar stöður lausar hjá bankanum skv. heimasíðu, fólk rígheldur sjálfsagt í störfin þar líka!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband