ESB; ræða, semja,kjósa!

Eftir símtalið árið 2006 frá Washington, þar sem Íslandi var tilkynnt að ameríski herinn mynda hverfa af landi brott, er landið í einskonar öryggislegu tómarúmi. Eftir hrun bankakerfisins og krónunnar haustið 2008 er landið í einskonar efnahagslegu tómarúmi. Íslenska hagkerfið er í höftum vegna þess að það er ekki þekkt, ekki vitað, hvernig íslensku krónunni reiðir af, þegar henni verður sleppt lausri. Höftin, sem um ræðir brjóta gegn EES-samningnum og geta ekki varað að eilífu. Slíkt er líka mjög óæskilegt. Af þessu leiðir að á Íslandi er ekki til staðar það sem kallað er eðlilegt viðskiptaumhverfi. Við þetta ástand verður ekki búið, lausn á gjaldmiðilsmálum landsins er aðkallandi og einn mikilvægasti þáttur ESB-málsins.

Í ESB-málinu stendur nú yfir svokölluð rýnivinna, en þar er löggjöf Íslands og ESB borin saman. Það sem af er hefur vinnan við ESB-ferlið gengið samkvæmt áætlun. En þegar hinar eiginlegu samningaviðræður taka við getur ýmislegt gerst. Íslendingar munu jú setja fram ákveðnar kröfur í mikilvægum málaflokkum, til dæmis í sjávarútvegsmálum. Þetta verða því raunverulegar samningaviðræður, en ekki aðlögunarviðræður, eins og andstæðingar aðildar hamra stöðugt á.

Mikilvægi auðlindarinnar

Það er mikilvægt að Ísland haldi yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni. ESB hefur enga hagsmuni af því að taka af okkur auðlindir, ESB hefur aldrei tekið neinar auðlindir af neinu aðildarlandi! Andstæðingar aðildar hrópa hinsvegar hátt að hér verði allt hrifsað af okkur. Annaðhvort vita þeir ekki betur eða kjósa að tala gegn betri vitund.

En ESB-málið er annað og miklu meira en bara fiskur. Það snýst einnig að stórum hluta um það hvar landið ætlar að skipa sér í flokk í alþjóðakerfinu. Eða hvort Ísland ætlar að standa eitt og sér með einhverja illa skilgreinda utanríkisstefnu með óljósum markmiðum. Eða enga alls kannski?

ESB-málið er líka hagsmunamál fjölskyldna landsins og hins almenna neytanda. Að ná til dæmis niður vöxtum og verðbólgu, að halda þessu tvennu niðri og komast þannig hjá verðtryggingu, er talið spara íslensku samfélagi um 70-80 milljarða á ári. Komist þetta á til framtíðar er til dæmis talið að margur Íslendingurinn sleppi við að borga mun meira en fólk í nágrannaþjóðunum fyrir það að koma sér upp þaki yfir höfuðið, svo dæmi sé tekið.

Hið sama á einnig við um atvinnulífið sem áratugum saman hefur borgað okurvexti og starfað í umhverfi óðaverðbólgu sem gerir alla skipulagningu og áætlanagerð ómarktæka. Eiginlega má líkja íslensku efnahagskerfi að mörgu leyti við jó-jó sem fer upp og niður í sífellu.

Sterk öfl vilja stöðva ferlið

Það eru sterk öfl hér í íslensku samfélagi sem vilja hætta við málið og halda ástandinu óbreyttu og bjóða Íslendingum áfram upp á þetta »jó-jó-hagkerfi.« Sömu öfl boða hins vegar ástand sem heldur öllu opnu gagnvart óðaverðbólgu og okurvöxtum. Vilja komandi kynslóðir sætta sig við það, höfum við ekki brennt okkur nóg?

Þessi öfl vilja einnig koma í veg fyrir og berjast fyrir því með kjafti og klóm að Íslendingar fái ekki að kjósa um aðildarsamning við ESB, þegar hann liggur fyrir. Það sérkennilega er að þetta er að mörgu leyti sömu aðilar og hrópuðu hvað hæst á þjóðaratkvæði um Icesave. Hér gætir því ákveðins tvískinnungs.

Hinar eiginlegu samningaviðræður hefjast væntanlega í sumar. Ekki er ólíklegt að þær taki um 12-18, mánuði, en það fer til að mynda eftir því hvernig gengur að semja um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Nokkuð raunhæft er að áætla að samningur liggi fyrir á vormánuðum 2013 eða seint á því ári. Þjóðaratkvæði gæti því farið fram árið 2014.

ESB þarf að ræða, það þarf að semja og það þarf að kjósa!

MBL, 8.3.2011

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband