Færsluflokkur: Bloggar
24.6.2012 | 09:05
Gamaldags, einskisnýt skotgrafapólitík!
Sem almennum borgara og kjósanda blöskrar manni að horfa á og hlusta á umræður á Alþingi Íslendinga. Sérstaklega að undanförnu, þegar menn hafa verið að ræða kvóta og veiðigjaldsmálið, málefni SpKef, eða ESB, svo nokkur dæmi séu tekin.
Hin svokallaða umræðuhefð" er mikið rædd í sambandi við Alþingi, en hún virðist nú einkennast mest af skítkasti, málþófi, skætingi, framíköllum og jafnvel grófum persónulegum ásökunum.
Ástandið á Alþingi Íslendinga er svo sorglegt, að það er næstum því grátlegt. Það segir kannski sína sögu að bjöllusláttur forseta Alþingis, hefur sennilega aldrei verið meiri, en á yfirstandandi þingi og kjörtímabili.
Það er sem sagt hver höndin upp á móti annarri, ekki bara á milli flokka, heldur einnig innan flokka. Og þetta er fólkið sem á að stýra landinu, setja landsmönnum lög, taka mikilvægar ákvarðanir sem kjörnir fulltrúar!
En þetta minnir því miður meira á sandkassa, þar sem ríkir stöðugur ófriður og slegist er um þau gæði" sem þar eru í boði. Sandurinn flýgur í allar áttir og sandkassinn tæmist óðum. Það er slegist með skóflunum" í stað þess að þær séu notaðar til þess að byggja með þeim.
Virðing Alþingis er í algeru lágmarki. Um 10% landsmanna bera traust til löggjafarsamkundu landsins. Þetta er í raun grafalvarleg staða fyrir íslenskt lýðræði.
En er hægt að finna skýringar á þessu? Það er kannski ekki svo auðvelt, en bent hefur verið á að stjórnarandstaðan, sem samanstendur af flokkum sem lengst af hafa verið í valdastöðu hér á landi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, séu í bullandi fráhvarfi. Að þeir nái ekki að tækla það að vera í stjórnarandstöðu, að hafa ekki völdin.
Önnur skýring kann að vera sú að Íslendingar hafa verið að glíma við afleiðingar eins stærsta efnahagslega/siðferðilega skipbrots þjóðar á heimsvísu og að vandamálin séu þess eðlis að allar átakalínur séu einstaklega skarpar. Að verið sé að glíma við einstaklega erfið mál. Þó ber að geta þess að Alþingi Íslendinga hefur áður glímt við mjög stór og erfið mál fyrr, á borð við aðildina að EFTA, NATO og EES.
Þriðju skýringuna væri hægt að kalla mannkosti. Að á Alþingi Íslendinga sitji nú einfaldlega einstaklingar sem einfaldlega hafi ekki þann siðferðisþroska að fara eftir settum reglum þingsins og hefðum þess. Að gæði áhafnarinnar" séu einfaldlega með lægra móti. Þetta sést t.d. í fjölmiðlum með skýrum hætti.
Vel má vera að þessar skýringar séu að einhverra mati léttvægar og ekki alls kostar réttar. Það má því líta á þetta sem tilraun til skýringar og aðrar skýringar því alveg mögulegar.
En ofurlágt álit á störfum og hegðun" Alþingis er staðreynd. Alþingi er mótandi aðili á því sem kallað er pólitísk menning". Og miðað við þá pólitísku menningu sem undirritaður þekkir frá öðrum löndum í kringum okkur verður því miður að segjast að sú íslenska er á afskaplega lágu plani. Hún einkennist af gegndarlausum átökum, oft á tíðum mjög litlum vilja til málamiðlana og sátta, og (að því er virðist) lítils vilja til samvinnu. Vilji hins sterka virðist vera viðmiðið.
Ekki nema von að fólki blöskri því sú ímynd sem langflestir Íslendingar hafa af Alþingi er að ég held sú að þar sé helst ástunduð hallærisleg, gamaldags og einskis nýt skotgrafapólitík, sem alls ekki þjóni hagsmunum heildarinnar. Þá hlýtur hún að þjóna einhverjum öðrum hagsmunum, sérhagsmunum.
En hvað er til ráða? Jú, ég held að þingmenn ættu að nota komandi frí til þess að líta í eigin barm og meta einfaldlega eigin frammistöðu. Kannski út frá því viðmiði hvort þeir hafi verið að vinna til gagns fyrir land og þjóð. Þeir eru jú kosnir til þess!
Svo væri ekki heldur úr vegi að þingmenn myndu hugsa aðeins um almenna hegðun, framkomu og kurteisi. Það hafa allir gott af því.
Birt í FRBL, 15.6. 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2012 | 15:29
Innlimun hvað?
Ekkert er t.d. verið að upplýsa fólk um að eitt af meginmarkmiðum ESB, með því að ná samningum um innlimun Íslands, er að ná yfirráðum yfir stórum hluta NorðurAtlantshafsins með aðgengi að Norður-Íshafinu. Án þessa aðgengis getur Evrópusambandið aldrei orðið það stórveldi sem það vill vera í alþjóðlegu tilliti.
Þessi tilvitnun er skrifuð af ritstjóra Bændablaðsins, Herði Kristjánssyni, en blaðið kom út þann 16, maí síðastliðinn. Það er í raun með ólíkindum að lesa orð sem þessi, frá manni eins og Herði, árið 2012. Það er að Evrópusambandið ætli sér að innlima Ísland, til þess að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Reyndar er þetta svo algerleg út í bláinn, að þetta er í raun ekki svara vert.
En það er hinsvegar grafalvarlegt þegar maður eins og Hörður, sem gegnir stöðu ritstjóra blaðs, sem gefið er út af samtökum, sem rekin eru að mestu leyti fyrir almannafé, lætur frá sér ósannindi sem þessi. Því ég er nánast 100% viss um að Hörður veit betur. ESB hefur engar áætlanir um að innlima Ísland og ESB hefur EKKI innlimað neitt land, sem gerst hefur aðildarríki sambandsins. Hörður ætti að spyrja íbúa einhvers nágrannaríkja okkar; Svíþjóðar, Bretlands, Danmerkur eða Finnlands um hvort þau hafið verið innlimuð í ESB! Bretar eiga sína olíu, Finnar sína skóga og Svíar sitt járngrýti.
En hann getur hinsvegar talað við íbúa Eystrasaltsríkjanna um það hvernig var að búa undir járnhæl Sovétríkjanna, eftir að Jósef Stalín innlimaði þau á tímum seinni heimsstyrjaldar. Öll Eystrasaltstríkin gengu í ESB, í kjölfar hruns kommúnsmans upp úr 1990, og gerðust þar með aðilar að samstarfi 27 lýðræðisríkja Evrópu.
Þessvegna verða ummæli Harðar að skrifast á tilfinningar, rétt eins og annað ,,innlimunartal annarra andstæðinga ESB.
Bændablaðið, sem segir sig vera málgagn bænda og landsbyggðar getur líka bætt við við frasanum og andstöðu gegn ESB því umfjöllun Bændablaðsins er nánast alfarið á neikvæðum nótum varðandi ESB-málið. Bændablaðið finnur ESB hreinlega allt til foráttu. Blaðinu er dreift ókeypis og kemur stundum út í allt að 60.000 eintökum. Þá er því einnig stundum dreift með Morgunblaðinu, sem berst jú af alefli gegn ESB.
Hinsvegar er margt á huldu varðandi rekstur Bændablaðsins og hvergi er t.d. hægt að finna opinberar upplýsingar um rekstur blaðsins, hvað þá ársreikninga. Hversvegna er það svo? Blað á borð við Bændablaðið, sem ekki birtir opinberlega ársreikninga sína, getur varla talist lýðræðislegur miðill.
Í lok greinarinnar segir Hörður að Íslendingar eigi mikið af auðlindum, vatni og öðru slíku, sem er alveg rétt. Svo segir hann: Við erum með öll bestu trompin á hendi og hversvegna ættum við að afhenda þau stjórnmálamönnum úti í Brussel.
Það stendur hinsvegar ekki til og hefur aldrei staðið til! Hversvegna í ósköpunum ættum við að gera það? Ísland er sjalfstætt og fullvalda ríki og hefur fullan yfirráðarétt yfir sínum auðlindum.
ESB getur ekki og ætlar sér ekki að hrifsa þau frá okkur, hvorki með innlimun eða öðrum aðferðum. Það ætti Hjörtur að vita, en kýs að láta skína í eitthvað allt annað, sem ekki stenst skoðun. Það er mjög ámælisvert að mínu mati og ekki til þess fallið að stuðla að málefnalegri umræðu um ESB-málið. Því miður.
(Örlítið styttri útgáfa birtist í Fréttablaððinu 31. maí síðastliðinn)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2012 | 08:04
Fyrir hverja er krónan?
Grein sem upprunalega birtist á http://www.jaisland.is þann 18.maí síðastliðinn.
Fyrir hverja er Krónan? Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, enda kannski ekki nema von - umræða um gjaldmiðilsmál hefur verið mikil. Menn hafa verið að ræða ýmislegt; íslenska krónu, norska krónu, færeyska krónu, Evru, Kanadadollar, Dollar, einhliða upptöku, tvíhliða upptöku, fjölmyntakerfi, fastgengisstefnu og nú síðast Nýkrónu-hugmynd Lilju Mósesdóttir. Kannski ekki nema von að fólk sé létt-ruglað í þessu öllu saman.
Sumir möguleikar eru hreinlega engir möguleikar og hægt að útiloka strax. Norska ríkisstjórninr er t.d. ekkert á þeim buxunum að leyfa okkur að taka upp norsku krónuna. Það kom berlega ljós hjá norskum ráðamonnum fyrir nokkrum misserum. Upphlaupið með Kanadadollar virðist einnig óraunsætt, þó það sé tæknilega framkvæmanlegt. Því myndi einnig fylgja algert afsal á fullveldi Íslands í gjaldmiðilsmálum. Nokkuð sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn (les: formaðurinn) skuli vera í þessum hugleiðingum. En á sama tíma felst í þessu viðurkenning á miklum veikleikum krónunnar. Þá má einnig benda á að Samtök ungra sjálfstæðismenna (SUS) telja að krónan sé ekki lengur nothæf.
HIN MÖRGU ANDLIT KRÓNUNNAR
Í umræðunni um krónuna koma einnig fyrir hugtök sem eru kannski ekki svo auðskilin, vegna þess að þetta er ekki einfalt mál: Haftakróna, aflandskróna, vertryggð króna og óverðtryggð króna. Gjaldmiðill Íslands hefur mörg andlit!
Haftakrónan er jú orð yfir þá staðreynd að gjaldmiðill Íslands er í viðskiptahöftum og ekki skráður í erlendum viðskiptum víða erlendis. Með aflandskrónu er átt við ...,, verðmæti í innlendum gjaldeyri (krónum) í eigu eða vörslu útlendinga í flestum tilvikum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum vegna hafta á fjármagnshreyfingar sem komið var á eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008, eins og segir á Vísindavef Háskóla Íslands.
Verðtryggða krónan er svo krónan sem hleður ofan á höfuðstólinn hjá þeim sem eru með vertryggð lán (en laun í óverðtryggðum krónum). Það er t.d. nóg að Íranir ákveði að hreyfa sig lítillega á Hormussundi við Arabíu-skagann, þá hækkar bensínverðið, sem fer inn í neysluvísitöluna, sem er hluti af vertryggingunni og hækkar því verðtryggð lán á Íslandi!
VERÐTRYGGING = EIGNAUPPTAKA?
Ætli menn hafi hugsað fyrir þessum ,,aukaverkunum á verðtryggingunni, þegar Ólafslögin (sem fólu í sér verðtrygginu) voru sett árið 1979? Áhættan af verðtryggðum lánum er algerlega lántakenda, en ekki lánveitenda. Ég vill meina að verðtrygging sé í raun ekkert annað en eignaupptaka fram í tímann og skerði því eignarrétt og eignastöðu þeirra sem taka þannig lán. Og sé því í raun einskonar efnahagslegt mannréttindabrot. Það sér hver viti borinn maður að það er ekki heil brú í þessu kerfi!
GENGISFELLINGU, TAKK!
Önnur hlið á krónunni er það sem ég vill kalla ,,sjálfstæði til misþyrmingar, á krónunni, gjaldmiðlinum. Ef krónan væri heimilsdýr væri búið að kæra eigandann fyrir illa meðferð og sennilega taka af honum forræðið! Verðmæti krónunnar hefur minnkað um 99.5% frá 1920-2009. Það var jú líka einu sinni þannig að útgerðin gat nánast pantað gengisfellingu (misþyrmingu) á krónunni, til þess að laga efnhagsreikning útgerðarfyrirtækja. Ákveðnir menn komu í fjölmiðla, báru sig illa og síðan var gengið fellt! Almenningur þurfti síðan að taka skellinn í formin kaupmáttarskerðingar. Einnig var algengt að strax eftir nýja kjarasamninga, þá var gengið fellt. Á bóluárunum, (eftir árið 2000) kvartaði útgerðin yfir of háu gengi, en ódýr erlendur innflutningur flæddi þá yfir landið. Eftir hrun kvartar útgerðin ekki, enda hrundi krónan, sem þýðir jú fleiri krónur í kassann.
ÖLDUDALURINN
Og aftur þarf almenningur að borga brúsann í formi kaupmáttarskerðingar og hækkunar á vöruverði. Um er að ræða gríðarlegar sveiflur, nokkuð sem einkennir íslensk efnhagsmál og er bæði heimilum og fyrirtækjum til mikilla trafala, verulega erfitt er að hugsa nokkur misseri fram í tímann. Er þetta ,,formið sem menn vilja hafa í framtíðinni; ,,niður í öldudal-upp úr öldudal?
Í sambandið við Evruna heyrist hátt að henni fylgi hátt atvinnuleysi. Engar rannsóknir benda hinsvegar til að svo sé. Hinsvegar skipta reglur á vinnumarkaði hvers Evru-ríkis fyrir sig máli. Spánn er ágætt dæmi, en þar er atvinnuleysi mikið. Þar eru reglur á vinnumarkaði hinsvegar mjög stífar og vinnumarkaður ósvegjanlegur. Þar hefur átvinnuleysi verið landlægt í áratugi og mikið bundið við árstíðasveiflur í ferðamannaiðnaði.
Sama mætti segja um Svíþjóð, sem ekki er með Evruna, en hagar sinni hagstjórn eins og um Evru-ríki væri að ræða. Þar er atvinnuleysi meðal ungs fólks hátt, enda ósveigjanleiki mikill á sænskum vinnumarkaði. Það er sænska ríkisstjórnin sem setur almennar reglur á sænskum vinnumarkaði.
GJALDMIÐILL Á GJÖRGÆSLU
Ísland er hinsvegar með mjög sveigjanlegan vinnumarkað og hann er lítill. Það er því ekkert sem bendir til þess að Evran muni fela í sér aukið atvinnuleysi. Það ber að hafa í huga að hið mikla atvinnuleysi sem hér skapaðist eftir hrun, skapaðist einmitt vegna þess - hruns á bankakerfi landsins og gjaldmiðilsins. Þetta eru þær ,,rústir sem menn eru að vinna sig upp úr, en af hverju er krónan ekki búin að rétta þetta af nú þegar?
Getur ein skýringin verið dræm erlend fjárfesting vegna gjaldmiðils í höftum? Vilja nútíma fjárfestar fjárfesta í landi sem er með gjaldmiðil á gjörgæslu?
Með upptöku Evru skapast geta skapast skilyrði til langvarandi lækkunnar vaxta og verðbólgu. Rannsóknir sýna einnig að við upptöku Evru aukast erlend viðskipti upptökulandsins um 5-15%. Þetta myndi þýða tugi milljarða aukningu á útflutningsverðmæti fyrir landið, í viðbót við þá kostnaðarminnkun sem myndi fylgja lægri vöxtum og lægri verðbólgu.
Að lokum má svo nefna þá staðreynd að um 70-80% af útflutningi Íslands fer til Evru-svæðisins og ESB-ríkjanna. Skiptir það ekki máli í þessu samhengi?
Peningar eru ávísun á verðmæti. Fyrir almenning hlýtur það að skipta lykilmáli að vera með gjaldmiðil sem er raunveruleg ávísun á verðmæti, en er ekki gerður sífellt verðminni eftir því sem tíminn líður. Eða er það raunverulegt sjálfstæði?
(Höfundur er MA í stjórnmálafræði).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2012 | 11:47
Þegar ísa leysir... (grein um málefni norðurslóða í Mannlífi árið 2008)
Umræðan um norðurslóðir hefur verið áberandi að undanförnu. Nýlega gerðu Íslendingar og Frakkar með sér óformlegt samkomulag (eða viljayfirlýsingu) um samvinnu á þessu sviði.
Um mitt árið 2008 skrifaði ég grein í það sem þá var fréttaskýringatimaritið MANNLÍF, þá undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Þetta er að mínu viti (án þess að ég sé eitthvað að monta mig!) eins fyrsta greinin um þessi málefni. Hér birtist þessi grein óbreytt, athugið það. En margt á held ég enn við í henni. Myndin hér við hliðina er tekin af NASA og sýnir Norðurpólinn árið 2001(neðri) og 2007.
Þegar ísa leysir...
Baráttan um Norðurpólinn er hafin.
Texti: Gunnar H. Ársælsson
Norðurpólinn er að bráðna. Og það gerist hratt. Undir ísþekjunni er talið að sé allt að 25 prósent olíulinda á jörðinni. Magnið af olíu og gasi er mælt í hundruðum milljörðum olíufata. Þá er einnig talið að undir ísnum sé að finna mikið magn að allskyns málmum, gulli og jafmvel demöntum. Að ekki sé talað um það magn fiskjar sem verður aðgengilegt með þessum breytingum. Þetta hljómar eins og í ævintýri, en þetta er að verða raunveruleiki. Löndin sem eiga landssvæði að Norðurpólnum og norðursvæðunum berjast um yfirráðin; Rússland, Noregur, Danmörk (Grænland), Kanada og Bandaríkin. Ísland getur blandað sér í þennan leik, sem gæti orðið æsispennandi og jafnvel leitt til deilna, þar sem vopnum yrði mögulega beitt. Slíkt er ekki útilokað að mati sérfræðinga sem fjalla um þessi mál
Í nýlegri grein sem birtist í norska Aftenposten segir að þegar í haust verði hægt að sigla ísfrítt frá Alaska til Norðurpólsins. Slíkt hefur ekki verið mögulegt fyrr. Bráðnunin er hraðari en vísindamenn gerðu sér grein fyrir og hún kemur þeim sífellt á óvart. Norður-Íshafið er hafssvæði sem nær yfir um 10 milljónir ferkílómetra.. Árið 2000 voru 6.7 milljónir þessa svæðis þaktar ís, en í dag er talið að þessi tala sé komin niður í um það bil fjórar milljónir ferkílómetra. Síðastliðið haust bráðnaði um ein milljón ferkílómetra af ís! Þessi þróun heldur áfram og veldur vísindamönnum miklum áhyggjum. Afleiðingarnar geta til dæmis valdið breytingum á straumum, meðal annars Golf-straumnum, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægur.
Nýir möguleikar í skipasamgöngum
Efnahagskerfi umheimsins nærast á olíu og þegar verð á henni hækkar, hvín og syngur í, ekki bara almenningi, eins og gerst hefur víða að undanförnu, heldur einnig í alheimsmaskínunni, hjól efnhagslífsins fara að hökta. Olían er súrefni efnahagskerfanna.
En með bráðnun ísanna á heimsskautinu opnast því nýir möguleikar, ekki bara til úrvinnslu á olíu og öðrum auðlindum, heldur einnig á sviði samgangna og skipaumferðar. Ef hafssvæðið norður af Íslandi og við Norðurpólinn, nefnt ,,Norðursvæðin í grein þessari, opnast, styttast mikilvægar siglingaleiðir um þúsundir sjómílna. Svo dæmi sé tekið er skipaleiðin frá Rotterdam í Hollandi, til Yokohama í Japan 11.200 sjómílur í dag. Opnist leið norður fyrir Ísland og í gegnum Íshafið, verður þessi leið 6500 sjómílur, eða næstum helmingi styttri. Þetta þýðir mikla hagræðingu fyrir skipaútgerðir. Scott Borgerson, fyrrverandi liðsforingi í bandarísku strandgæslunni, segir í grein í aprílhefti Foreign Affairs, að skipaútgerðir séu nú þegar farnar að undirbúa sig fyrir þessa þróun og meðal annars séu skip sem sigla eigi þessa leið á teikniborðinu.
Auðlindakapphlaup
Rússar létu til skarar skríða í kapphlaupinu um Norðursvæðin árið 2001 þegar þeir settu fram kröfu hjá Sameinuðu þjóðunum um hafssvæði sem er um 740.000 ferkílómetrar að stærð.Það er álíka og samanlögð fylki Kaliforníu, Texas og Indíana í Bandaríkjunum.
Sameinuðu þjóðirnar neituðu þessari kröfu, en Rússar létu ekki þar við sitja. Síðastliði haust fóru þeir með fána Rússlands í litlum kafbáti út á þetta svæði og komu fánanum fyrir þar á botninum. Táknræn aðgerð, sem vakti menn til vitundar. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, líkti þessu við við lendingu Bandaríkjamanna á tunglinu árið 1969. Með þessu var tónninn sleginn og kapphlaupið um Norðursvæðin komið á fullt.
Rússar gera kröfu til Lomonosov-hryggsins svokallaða, sem er tvisvar sinnum stærri en Bretland. Hann gengur þvert í gegnum hafsbotn Norðursvæðanna, út frá nyrstu strönd Grænlands og teygir sig þaðan yfir til Rússlands. Þessa kröfu byggja Rússar á svokallaðri 200-mílna reglu S.Þ., sem segir að ríki hafi rétt til að nýta sér svæði sem eru í 200 mílna fjarlægð frá strandlengju þeirra. Þá kveður einnig á um að ríkin megi nýta sér 150-mílna svæði til viðbótar, geti þau sannað landgrunnið nái svo langt frá strandlengjunni. Samkvæmt þessu megar ríki því teygja sig allt að 560 kílómetra út frá strandlengjunni.
Þessari kröfu Rússa mótmæltu bæði Danir og Kanadamenn, en bæði þessi ríki hafa unnið saman að nýrri skilgreiningu á Norðursvæðunum. Samkvæmt henni myndu Danir fá Norðurpólinn, vegna nálægðar út frá Grænlandi og Kanada myndi einnig fá umtalsverð landssvæði. Þess má svo geta að Grænlendingar sjálir hafa blandað sér í þessa umræðu og hugmyndir um sjálfstæði þeirra frá Danmörku hafa komið upp á yfirborðið. Slíkt gæti bæði haft kosti og galla í för með sér fyrir Grænlendinga. En það er alls ekki útilokað að þeir muni blanda sér í þennan ,,leik.
Bandaríkin á hliðarlínunni!
Í áðurnefndri grein í Foreign Affairs segir Scott Borgerson að Bandríkjin hafi sofið á verðinum í þessum efnum, hreinlega verið á hliðarlínunni! Meðal annar hafi bandaríska þingið ekki afgreitt sérstaka samþykkt Sameinuðu þjóðanna um lög vegna hafssvæða (UNCLOS). Hann segir þetta gera það nánast ómögulegt fyrir Bandaríkin að krefjast svæða undan ströndum Alaska. Segja má að hann geri létt grín að aðgerðarleysi landa sinna þegar hann segir Bandaríska flotann vera stærri en næstu 17, en eigi aðeins einn ísbrjót! Til samanburðar nefnir hann að Kína eigi líka einn ísbrjót, þó landið eigi hvergi aðgang að Norðurpólnum! Rússar eiga hinsvegar 18 ísbrjóta.
Samkvæmt grein Borgerson er Jarfræðistofnun Bandaríkjanna um þessar mundir að hefja mikla rannsókn á Norðursvæðunum og auðlindum þess. Rússar hafa sjálfir rannsakað auðæfin og þeir giska á að þarna sé að finna olíu og gas sem nemur um allt að 500 milljörðum fata. En að vinna olíuna er ekki svo létt, mesta hafdýpi á svæðinu er um 5000 metrar. Talið er að með núverandi tækni sé mögulegt að vinna olíu á um 1500-2000 metra dýpi. Þetta er þó ekki algilt, þar sem víða er að finna svæði þar sem hafi er mun grynnra, eða sem nemur nokkur hundruð metrum. En þekking á vinnsluaðstæðum seim eiga við á Norðursvæðunum er þegar til staðar og hefur stórfyrirtækið ExxonMobil nú þegar aflað sér reynslu af vinnslu olíu og gass við heimsskautaaðstæður. Þetta hefur átt sér stað á Sakhalin-eyju, sem tilheyrir Rússum, en liggur undan ströndum Japans. Þá eru Norðmenn taldir sitja einir að bortækni sem gerir leit að olíu í gegnum ís mögulega (sjá meðfylgjandi viðtal við blaðamanninn Vladislav Savic).
Tengist gróðurhúsaáhrifum
Borgerson tengir bráðnun ísanna á Norðurskautinu beint við svokölluð gróðurhúsaáhrif og hann telur að haldi bráðnunin áfram verði hafssvæðin sem áður voru þakin ís, eins og Eystrasaltið, það er að segja, aðeins þakin ís hluta ársins. Því verði hægt að sigla um svæðið allt árið um kring. En hann segir einnig í grein sinni að möguleg skipting þessa landsvæðis á milli þeirra landa sem sem gera tilkall til ákveðinna svæða, verði erfitt og flókið ferli. Í þessu felist ýmsar spurningar, til dæmis á sviði dýraverndunar. Á svæðinu er meðal annars að finna dýr í útrýmingarhættu, svo sem ísbirni!
Samkomulag gert, en heldur það?
Fyrir skömmu hittust ráðherrar frá þeim fimm löndum sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta á Norðursvæðnum; Rússland, Danmörk, Noregur, Kanada og Bandaríkin (athyglisvert að Ísland var ekki með) á Grænlandi og ræddu þessi mál. Þar virðist hafa náðst ákveðið samkomulag um að láta alþjóðalög skera úr um deilur vegna Norðursvæðannai. En það er hinsvegar ekki trygging fyrir því að allt gangi átakalaust fyrir sig. Alþjóðleg lög eru nefnilega teygjanleg og opin fyrir allskyns túlkunum. Sitt getur sýnst hverjum. Hagsmunir þjóðanna eru mismiklir, en eitt er öllum sameignlegt; potturinn er stór og það er eftir miklu að slægjast.
Rússar er sú þjóð sem hefur hvað mesta nærveru á svæðinu. Í grein sem Bozena Zysk, sem starfar við Varnarmálastofnun Noregs, skrifaði í norska Dagbladet í desember í fyrra segir hún meðal annars: ,,Tilhneiging í áttina að ,,endurhervæðingu hefur átt sér stað samhliða því að aukin athygli beinist að auðlindum Norðursvæðanna. Fulltrúar rússneska flotans hafa sagt að samkeppni um aðgang að þessum auðlindum geti mögulega leitt til takmarkaðra vopnaðra átaka á hafssvæðunum.
Minniháttar deilur hafa átt sér stað á svæðinu vegna fiskveiða og Bozena segir að þær deilur séu aðeins forsmekkur þess sem mögulega geti gerst vegna baráttunnar um auðæfi hafdjúpanna.
Umhverfissinnar á nálum
Þá eru umhverfissinnar vægast sagt á nálum vegna þróunar mála. Þeir segja að ástand Norðursvæðanna núna og þessa miklu bráðnun ísa, einmitt vera ástæðu þess að láta eigi svæðin í friði. Þarna sé um að ræða eitt viðkvæmasta vistkerfi jarðar og því eigi að láta það ósnortið og vernda það sem mest fyrir áhrifum mannsskepnunnar. Norðursvæðin og Norðurpóllinn tilheyri öllum jarðarbúum, ekki einstökum þjóðum, segja umhverfisverndarsinnar. En það er spurning hvort á þá sé hlustað? Eða er aðdráttarkraftur svarta gullsins of sterkur? Við fáum sennilega svarið áður en langt um líður. Og ísarnir bráðna...
Heimildir:
Foreign Affairs,Aftenposten.no,Dagbladet.no,BBC.co.uk, New Europe, Der Spiegel.
Hér er FYLGIGREIN:
Ísland getur blandað sér í leikinn.
Það telur sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Vladislav Savic, þegar Mannlíf sló á þráðinn til hans í Stokkhólmi. Árið 2006 hafa hann út bókina ,,Hið þögla stríð-olía, völd og áhrif, en þar fjallar hann um þróun svokallaðra ,,olíustjórnmála á síðustu öld og fram til dagsins í dag. Hann fylgist grannt með þróun mála og Mannlíf spurði hann fyrst að því hverja hann teldi líklega þróun mála á Norðursvæðunum á komandi árum.
,,Það fer eftir hraðanum á bráðnunu ísanna og hvað gerist þá með flutninga á þeirri orku og olíu sem um ræðir. En almennt má segja að þau lönd sem hafa hagsmuna að gæta séu að styrkja flotastarfsemi sína, til þess að geta sett fram sínar kröfur. Í dag hafa mörg svæði og siðglingaleiðir á öðrum stöðum í heiminum gríðarlegt mikilvægi, séð frá hernaðar og öryggissjónarmiði. Á Norðursvæðunum mun sennilega gerast það sama, verði um að ræða alvöru kapphlaup um auðlindirnar sagði Vladislav Savic í samtali við Mannlíf.
Hann segir að þegar í dag deili til dæmis Bandaríkjamenn og Kanadamenn um þessi mál og þá gildi ekki lengur þessi klassíka ,,austur-vestur hugmyndafræði. ,,Það munu verða prófboranir á ýmsum svæðum, því maður veit ekki með vissu hvað leynist undir ísnum. Þannig að í raun er hægt að afskrifa eldri hugmyndir sem voru gildar á tímum Kalda-stríðsins.
Vladislav segist nokkuð sannfærður um að löndin muni virða það samkomulag sem náðist á Grænlandi um daginn, þar sem þau ríki sem deila um Norðursvæðin ákváðu að láta alþjóðareglur skera úr um deilumál. ,,En það eru samt engar endanlegar tryggingar í þessu, sá aðili sem upplifir hótanir frá öðrum gæti orðið árásarhneigður, það er ekki útilokað. Ég trúi til dæmis að Rússar muni fylgja þessu samkomulagi, þrátt fyrir að margir telji Rússana vera ögrandi. Þeir eru umkringdir af bæði ESB og NATO, sem er nú þegar komið inn á þeirra gömlu svæði. Þeir hafa hagsmuna að gæta og þeir gera það, en það ber að mínu viti að forðast að túlka það sem eitthvað ögrandi.
Norðmenn virðast hafa áhyggjur af þróun mála, hvernig eru þeir að bregðast við þessu?
,,Norðmenn vilja að fleiri lönd sýni þessu máli áhuga, ekki síst vegna þess að Bandaríkjamenn hafa hingað til verið óvirkir á þessu svæði, enda verið mjög uppteknir af Mið-Austurlöndum og S-Ameríku, þar sem þeir eru í raun að berjast við síaukin áhrif vinstri stjórna í ýmsum löndum, svo sem Venesúela og Bólivíu. Norðmenn hafa mikilla hagsmuna að gæta og eiga í ákveðnum deilum við Rússa um gasauðlindir þarna norðurfrá. En það er líka um að ræða samvinnu á milli Rússlands og Noregs, nokkuð sem Bandaríkjamenn hafa reynt að hindra með ýmsum hætti. Því meira samstarf, því minni líkur eru á átökum. Rússar eru til dæmis háðir tækniþekkingu á sviði borana, sem einungis Norðmenn ráða yfir. Noregur er nefnilega eina landið sem hefur yfir að ráða tækni sem gerir það mögulegt að bora gegnum ís, þannig að þeir komist til botns. Þessi tækni verður sífellt þróaðri og enn sem komið er búa Norðmenn einir að henni, segir Vladislav Savic í samtali við Mannlíf.
En hvað segir þú um þátt Íslands í þessu, er í landið ,,leikmaður í þessum leik?
,,Algjörlega, landið liggur þannig við siglingaleiðum á svæðinu að ég tel það næsta víst að mikilvægi landsins aukist á komandi árum frekar en hitt. Það segir sig eiginlega sjálft miðað við hvernig þróunin hefur verið að undanförnu.
Hann segir að sænsk stjórnvöld fylgist einnig grannt með þróun mála og að á síðasta ári hafi stór viðskiptanefnd farið til Tromsö í Noregi, til að kynna sér þessi mál. Þar hafi Norðmenn sýnt allt það nýjasta í þessum efnum og um leið var mikill vilji til samstarfs undirstrikaður.
,,Finnar fylgdust með og urðu áhugasamir eftir þetta. Þarna eru því á ferð tvö ríki sem ekki eru í NATO, sem eru að sýna sinn vilja til samstarfs í þessum málaflokki. Í Finnlandi er mikill áhugi á þessum málum og þetta er sniðug leið fyrir Svíþjóð og Finnland að starfa saman með Noregi, sem er jú í NATO. Þarmeð starfa þeir með NATO! Rússarnir fylgjast með þessu úr fjarlægð og þeir eru ekki vitlausir, þeir vita hvað er að gerast. En þetta sýnir líka að það eru mjög margar hliðar á þessu máli, sem gerir það flókið, sagði Vladislav Savic að lokum við Mannlíf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2012 | 19:36
Vigdís Hauksdóttir og "hrun Evrópu"
,,Evrópa er að hrynja - svo og evran. Þannig byrjaði eitt svara Vigídisar Hauksdóttur, eins af alþingismönnum okkar á ,,Beinni línu hjá DV fyrir skömmu.
Mér finnst það mjög magnað að lesa þessi orð Vigdísar og það sem mér dettur fyrst og fremst í hug er þetta: Er þetta raunveruleg ósk Vigdísar? Að Evrópa hrynji? Og Evran líka?
Næsta spurning sem vaknar er þessi: Gerir viðkomandi þingmaður sér grein fyrir því hvað myndi gerast EF Evrópa og Evran myndu hrynja? Og hverjar afleiðingarnar yrðu, ekki bara fyrir Evrópu, heldur líka Ísland?
Samkvæmt Hagtíðindum fór tæplega 80% af útflutningi Íslands árið 2010 til ESB og rúmlega 50% af innflutningi kom þaðan. Hvað myndi gerast ef þetta mynd raskast verulega, með ,,hruni Evrópu eins og Vigdísi er svo tamt að tala um?
Við höfum söguleg dæmi sem geta veitt okkur ákveðinn stuðning og það er frá heimskreppunni miklu, sem skall á árið 1929. Einn helsti sagnfræðingur Íslands, Gunnar Karlsson skrifar um þetta í kennslubók í sögu, Nýir tímar. Þar segir þetta um áhrif kreppunnar hér á Íslandi: ,,Þegar leið á árið 1930 fór áhrifa hennar að gæta í lækkandi verði á útflutningsvörum Íslendinga. Síðar segir: ,,Heildarverðmæti útflutnings frá Íslandi féll úr 74 milljónum króna árið 1929 í 48 milljónir króna árið 1931...samdrátturinn í fiskveiðum olli miklu atvinnuleysi í fiskveiðibæjum og þorpum.
Um 90% útflutnings Íslands á þessum tíma var fiskur, rest landbúnaðarvörur. Það hefur að sjálfsögðu mikið breyst, en tölurnar tala sínu máli; um er að ræða um 36% samdrátt í útflutningsverðmæti! Mest fór að sjálfsögðu til Evrópu, sem í gegnum söguna hefur verið okkar mikilvægasti viðskiptaaðili. Og verður um ófyrirsjáanlega framtíð!
Þessar upphrópanir Vigdísr dæma sig að sjálfsögðu sjálfar og þetta er hennar stíll. Því miður. Nægir að hlusta á hana á útvarpi Sögu, þar sem hún er tíður gestur og lætur Evrópudæluna ganga!
En sömu upphrópanir lýsa um leið mikill grunnhyggni, jafnvel skorti á sögulegri þekkingu, þó ekki skuli það fullyrt hér.
Það yrði hreint og beint skelfilegt fyrir Ísland ef Evrópa hryndi, sem og Evran. Menn hafa jú keppst við að spá hruni Evrunnar, frá því hún var sett á fót, en hún er ekki hrunin enn. Hinsvegar búum við Íslendingar við gjaldmiðil sem hrundi eins og spilaborg haustið 2008, með tilheyrandi skuldahækkunum, bæði hjá einstaklingum, fjölskyldum og opinberum aðilum.
Vigdís ætti að mínu mati aðeins að hugleiða þessa hluti áður en hrópað er hástöfum! Þá færi umræðan kannski á aðeins hærra ,,plan líka!
Birt í DV, 6.2.2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2012 | 15:34
Klassískt trix!
"Let them deny it" !!
Klassískt trix í stjórnmálum, að fullyrða eitthvað um andstæðinginn og láta hann síðan neita því!
Hugarburður og dylgjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2012 | 12:10
Forsetinn og framtíð hans
Það er nokkuð kindugt að sjá hvernig framámenn í Nei-liðinu gagnvart ESB reyna nú að slá eign sinni á forseta Íslands, nú þegar hann hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til fimmta kjörtímabilsins.
Og reyna í leiðinni að vinkla komandi forsetakosningar á þann veg að þær komi til með að snúast um ESB! Þetta er alveg með ólíkindum.
Þetta kemur frá fyrrum ráðherra, sem á sínum ferli komst upp með að svara spurningum fjölmiðla gjörsamlega út í hött og á svo fáránlegan hátt að maður vissi vart á hvaða plánetu viðkomandi var staddur!
Annars hlýtur það að vera fagnaðarefni fyrir alla unnendur lýðræðis að ekki verði um fimmta tímabilið að ræða hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. Það á enginn einstaklingur að hafa slíkan einkarétt á embættinu, þó ekki sé hægt að slá því föstu að ÓRG myndi vinna kosningarnar.
Þetta kemur líka í veg fyrir það sem hægt er að kalla pútínskt ástand, þ.e. að sami einstaklingur sitji að (og geti næstum gengið að vísu) æðsta embætti þjóðarinnar.
Þó ólga sé í Rússlandi um þessar mundir vegna þingkosninga er nokkuð víst að Pútín mun sigra í komandi forsetakosningum.
En það er hollt og gott fyrir íslenskt lýðræði að nýr húsráðandi setjist að á Bessastöðum. Það gefur líka tilefni til nýrrar umræðu um hlutverk forsetans, sem óneitanlega hefur tekið á sig ákveðnar myndir í embættistíð Ólafs Ragnars.
Hann er jú eini forsetinn hingað til sem beitt hefur synjunarákvæði stjórnarskrárinnar og það í þrígang! Fyrst reitti hann ákveðna hópa til reiði þegar hann neitaði fjölmiðlalögunum staðfestingar árið 2004 og svo aðra hópa við synjun Icesave laganna í tvígang. Það mál er því miður ekki búið og hangir enn yfir þjóðinni!
Þetta vekur að mínu mati upp grundvallarspurningar um það hvort og þá hvernig forsetaeæmbætti við viljum hafa. Hvað á forsetinn að gera? Á hann að vera andlit út á við og gestgjafi eða raunverulegur valdaaðili og þá með nokkuð umtalsverð völd? Samkvæmt stjórnarskrá er forseti ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Viljum við breyta þessu og fá hér aukið forsetaræði? Eða viljum við yfirhöfuð hafa forseta og þá í staðinn treysta eingöngu á þingbundna stjórn og fulltrúalýðræði? Þá með forsætisráðherra sem æðsta embætti.
Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs má einstaklingur gegna embætti forseta í þrjú kjörtímabil eða alls 12 ár. Í Bandaríkjunum er um að ræða tvö kjörtímabil (átta ár) og í Rússlandi verður sama regla, en lengri kjörtímabil, sex ár og því mun forseti Rússlands geta setið samfleytt í 12 ár. Sama er um að ræða í Finnlandi, en Frakkar fara milliveginn, þar getur sami einstaklingur verið í tvö fimm ára tímabil.
Það er mín skoðun að velja hefði átt bandaríska módelið og taka upp átta ára regluna. Jafnvel má ræða skorður af þessu tagi í sambandi við setu á löggjafarþinginu, það er alveg spurning hvort það sé eðlilegt að menn geti setið á þingi áratugum saman!
Ps. Það er einnig greinlega vilji manna í Hádegismóum að ÓRG bjóði sig fram og þá sem andstæðingur ESB. Þetta eru úr frétt:
"Loks verður að nefna umræðu um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kunni að hafa hug á því að fara aftur út í stjórnmálabaráttu og þá sem andstæðingur ESB-aðildar."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2011 | 11:00
Hættu að hræða fólk, Jón!
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í lok júlí.
Jón Bjarnason er merkilegur stjórnmálamaður. Hann hefur verið mikið í fréttum að undanförnu vegna fyrirhugaðra hækkana á íslensku lambakjöti. Íslenskir bændur eru í þeirri óskastöðu að geta flutt út íslenskt lamb og grætt vel. Á móti er bannað að flytja inn erlent kjöt, ef á þarf að halda vegna eftirspurnar hér. Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Íslands, segir að það komi ekki til greina, þrátt fyrir samninga þess efnis um að ákveðinn innflutning eigi að leyfa.
Sem rök fyrir máli sínu notar Jón Bjarnason fæðu og matvælaöryggi" landsins. Kjarninn í þeim rökum er sá að allur innflutningur á landbúnaðarafurðum (og þetta tengist að sjálfsögðu ESB-málinu, þar sem tollar á ESB-landbúnaðarafurðir myndu falla niður við aðild) myndi ganga af íslenskum landbúnaði dauðum. Rústa landbúnaðinn, eins og sumum bændum er tamt að segja.
Það er hinsvegar svo að í engu ríki sem gengið hefur í ESB hefur landbúnaður lagst í rúst! Nýlegt dæmi um hið gagnstæða er hið mikla landbúnaðarland, Pólland, sem gekk í ESB árið 2004. Þar hefur ESB styrkt landbúnað og eflt þá atvinnugrein í samvinnu við pólsk stjórnvöld. Þar með hefur aðild stóraukið fæðu- og matvælaöryggi" Póllands og nútímavætt pólskan landbúnað, gert hann samkeppnishæfari! Nefna má í þessu sambandi að útflutningur á pólskum landbúnaðarafurðum hefur stóraukist og um 70% útflutnings fara til ESB, mest Þýskalands.
Pólskir bændur undirbjuggu aðild mjög gaumgæfilega (settu m.a. upp nýjar stofnanir og annað) og þegar að sjálfri aðildinni kom var fyrirfram ákveðið fjármagn notað til þess að framkvæma nauðsynlegar umbætur, sem búið var að ákveða. Þetta stuðlaði að miklum vexti í landbúnaði Póllands. Þessu er algerlega farið á hinn veginn hér á Íslandi og mikil andstaða við þetta meðal bænda. Það hlýtur að teljast athyglisvert og vekur upp þá spurningu hvort íslenskir bændur séu á móti umbótum?
Um miðja síðustu öld starfaði um þriðjungur vinnandi fólks við landbúnað á Íslandi. Nú er hlutfallið komið niður i 2,5% (tölur frá 2008). Allt þetta án aðkomu ESB! Og fæðu- og matvælaöryggið" er óskert, hér hefur enginn dáið úr hungri, sem betur fer!
Á sama tíma hefur þeim sem vinna við viðskipti og þjónustu fjölgað úr rúmum 30% í rúm 70%. Skýringanna er sennilega að leita í aukinni alþjóðavæðingu, ekki síst auknum samskiptum Íslands og Evrópu á undanförnum áratugum, meðal annars EES-samningnum. Hann heldur okkur hinsvegar fyrir utan alla ákvarðanatöku í málefnum Evrópu.
Að vera að hræða fólk og slá ryki í augu þess með því að ala á ótta í sambandi við fæðu og matvælaöryggi er í raun fyrir neðan virðingu ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Þetta eru svo fáránleg rök og það er ekki fótur fyrir þeim. Það sér líka hver maður í gegnum þetta!
Verði hér meiriháttar hamfarir, sem valda því að allt flug og allar skipasamgöngur leggist hér af svo vikum skiptir er hægt að ræða í alvöru ógnir í sambandi við fæðuöryggi, þar sem langstærstur hluti matvæla á Íslandi er innfluttur (frá Evrópu). Og varla verður hægt að kenna ESB um náttúruhamfarir!
Að reisa sífellda múra, hindra viðskipti og svo framvegis er aðferðafræði sem tilheyrði síðustu öld, ekki þessari! Væri ekki nær að Jón Bjarnason ynni að því að efla íslenskan landbúnað og gera hann samkeppnishæfan?
Í því fælist t.d. að skapa bændum eðlilegt rekstrarumhverfi með afnámi verðtryggingar, lágum vöxtum, lágri verðbólgu, sem og auknum aðgangi að rannsóknum og þróun til nýsköpunar í landbúnaði, svo dæmi sé tekið. Þetta fæst með fullri aðild að ESB.
Bloggar | Breytt 3.1.2012 kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2011 | 19:19
Grikkland á stærstan þátt í eigin vanda, ekki ESB!
Grikkland er í fréttum þessa dagana vegna mjög alvarlegrar fjárhagsstöðu landsins. Það hefur fengið neyðarlán frá ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og gagnrýnendur ESB skella skuldinni á Evruna og sambandið, segja að þetta sé allt meira og minna ESB að kenna. Í þessum litla greinarstúf verður hinsvegar sýnt fram á það að svo er ekki.
Grikkland gekk í Evrópubandalagið (eins og það hét þá) árið 1981, en landið var undir stjórn herforinga og alræðisfyrirkomulag ríkti á árunum 1967 1974. Á árunum 1946-1949 geisaði borgarastyrjöld í Grikklandi, þar sem tugir þúsunda létust. Landið hefur því fengið sinn skerf af alræði og hörmungum. Með inngöngu í ESB varð Grikkland hinsvegar hluti af hópi lýðræðisríkja Evrópu, sem er við hæfi, enda lýðræðið grísk uppfinning!
Grikkir tóku upp Evruna sem gjaldmiðil þegar sameiginlegur gjaldmiðill ESB var kynntu til sögunnar um aldamótin síðustu. Nú eru þær raddir sem segja að Grikkir hafi svindlað sig inn í Evruna og best væri fyrir landið að geta tekið upp gömlu drökmuna aftur. Það er hinsvegar talið vera næstum efnahagslegt sjálfsmorð að gera slíkt og telur einn helsti hagfræðingur Grikklands, Yannis Stournaras að slíkt beri að forðast eins og heitan eldinn. Hann telur að yfirgefi Grikkland Evruna þýði það að skuldir landsmanna aukist stórkostlega og að flestir bankar landsins verði gjaldþrota. Þetta kom fram í viðtali í Sænska dagblaðinu þann 22. Mars síðastliðinn.
En það eru fleiri ,,innanlandsástæður fyrir vandræðum Grikkja, þ.e.a.s. sem hafa ekkert með ESB að gera; það er nánast hluti af menningu Grikkja að borga ekki skatta og talið er að allt að 70% af vissum starfsstéttum komist upp með að borga nánast enga skatta. Skatttekjur gríska ríkisins eru því allt of lágar og sagt er að landið þurfi í raun að taka upp nýtt skattkerfi. Þá er svört atvinnustarfsemi talin vera um einn fjórði hluti af heildarhagkerfinu. Spilling á ýmsum stöðum er einnig talin hafa alvarleg áhrif á hagkerfið. Og á spillingunni vinna Grikkir einungis sjálfir, með viðeigandi stofnunum.
Almenn efnahagsleg óstjórn og sérlega rausnarlegt lífeyriskerfi (látnir einstaklingar fengu lífeyri og lífeyrisréttindi erfðust!) eru líka talin vera orsakavaldar. Til dæmis fjölgaði opinberum starfsmönnum um 100.000 á stjórnarárum hægrimannsins Kostas Karamanlis frá 2004-2009 og útgjöld gríska ríkisins um 60%! Gríska ríkið er stór eigandi fyrirtækja og umfangsmikill ríkisrekstur í landinu, hið opinbera er um 40% af þjóðarframleiðslunni.
ESB hefur hvatt Grikki til þess að einkavæða og t.d. hafa heyrst þær raddir að ESB sé að ,,þvinga Grikki til einkavæðingar. Það skondna er að þessar raddir koma helst frá aðilum sem hér á landi stóðu fyrir einni umfangsmestu einkavæðingu á Vesturlöndum hin síðari ári. Það er ekki sama Jón eða séra Jón!
Einnig hefur verið nefnt að útgjöld til hernaðarmála eru mjög há í Grikklandi, eða um 4% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er mun lægra í flestum Evrópulöndum.
Allt hér að ofan eru þættir sem ESB hefur ekkert með að gera, heldur eru ákvarðanir og aðgerðir grískra aðila, einstaklinga sem og yfirvalda.
En til þess að hægt sé að nota vandræði Grikklands hér á landi í þeirri hugmyndafræðilegu baráttu sem snýr að ESB-málinu er þægilegt að skella skuldinni á ESB og gera sambandið að ,,skúrknum í þrillernum!
ESB hefur hinsvegar lagt til mikla fjármuni til þess að aðstoða Grikki og reyna að koma í veg fyrir fullkomið hrun í gríska hagkerfinu, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir grískt atvinnulíf, sem og einstaklinga. Það er jú nokkuð sem enginn vill. En hvort tekst að hindra slíkt mun tíminn leiða í ljós.
MBL, 24.6. 2011
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2011 | 18:00
RÚV og ESB-málið
Grein sem við Andrés Pétursson skrifuðum í Fréttablaðið, 16.5.2011.
Í lok júní hefjast hinar eiginlegu aðildarviðræður Íslands og ESB. Þá er lokið svokallaðri rýnivinnu, en í henni felst að löggjöf Íslands og ESB er borin saman á öllum sviðum. Því má segja að þá hefjist í raun nýr kafli í þessu ferli, sem hófst með umsókn Íslands að ESB í júlí árið 2009.
Mikilvægi upplýsingar og opinnar umræðu um ESB má ekki vanmeta. Ísland er upplýsingasamfélag og fjölmiðlaumhverfið hefur breyst mjög mikið á undanförnum tveimur áratugum. Með almennri notkun á internetinu og þeim upplýsingum sem þar finnast, verður myndin enn margbreytilegri.
Sá fjölmiðill sem hinsvegar hefur það hlutverk samkvæmt lögum að vera ,,fjölmiðill í þágu almennings (enska: public service), er Ríkisútvarpið. Í öðrum kafla laganna um RÚV eru 13 greinar og fjalla þær um hlutverk þess og skyldur: Þar segir meðal annars í greinum fjögur og fimm: ,,Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
Nú er hægt að slá því föstu að ESB-málið er mál sem snertir ,,málefni lands og þjóðar sérstaklega og ásamt EES-samningnum árið 1995 og aðild Íslands að NATO árið 1949, er þetta eitt mikilvægasta málið sem er á ,,dagskrá hjá þjóðinni. Vald fjölmiðla til að setja mál á dagskrá er óumdeilt. Almenningur talar um þau mál sem komast í fjölmiðla og eru þar til umfjöllunar. Þessvegna er hlutverk RÚV í ESB-málinu gríðarlega mikilvægt. Að upplýsa almenning um kosti og galla aðildar, framleiða efni um ESB og þess háttar hlýtur því að falla undir hlutverk RÚV sem almannafjölmiðils, fjölmiðils fyrir alla íslensku þjóðina.
Það er okkar von, sem ritum þessa grein að RÚV rækti skyldur sínar við landsmenn í þessu mikilvæga máli og geri það á þann hátt að almenningur geti myndað sér skoðun út frá bestu mögulegu forsendum. Opin, málefnaleg og hreinskilin umræða hlýtur að teljast vera eitt af helstu einkennum lýðræðisins.
ESB-málið verður svo að lokum lagt í dóm þjóðarinnar, þegar aðildarsamningur er tilbúinn. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá liggja fyrir mun íslenska þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu segja annaðhvort JÁ eða NEI.
ESB-málið er mikil áskorun fyrir RÚV, hvort stofnunin nái að rækja skyldur sínar samkvæmt þeim lögum sem um hana gilda. Hvetjum við forsvarsmenn RÚV til þess að sjá til þess að svo verði, íslensku lýðræði til framdráttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)