Færsluflokkur: Bloggar

Auðvitað á fundurinn að vera opinn!

Ef af þessum fundi verður, þá á hann að sjálfsögðu að vera opinn. Ísland er vestrænt lýðræðisríki, þar sem prinsippið (afsakið slettuna) um gagnsæi á að ráða. Og fyrst Ólafur þarf að tjá sig, þá hljóta það að vera hlutir sem þola dagsbirtuna.


mbl.is Fundur með Ólafi gæti verið opinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðurljósarannsóknir Kína á Norðurlandi?

Hvernig hafa þessar Norðurljósarannsóknir Kína? á Norðurlandi gengið?

 


mbl.is Illugi heldur til Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af mörgum bröndurum

"Því hafi stefn­an verið skýr frá fyrsta degi rík­is­stjórn­ar­inn­ar og seg­ir hann tíma hafa verið kom­inn til að skýra það fyr­ir Evr­ópu­sam­band­inu."

Þetta úr frétt MBL er aðeins einn af fjölmörgum bröndurum þessa máls, sem þó er grafalvarlegt og í raun atlaga að lýðræðinu í landinu.

Heldur GBS að þeir í Brussel hafi verið búnir að gleyma þessu? Á maður að trúa því? Að þeir hafi bara ekkert fylgst með því sem hefur verið að gerast á Íslandi?

Og ALDREI hef ég orðið vitni að öðrum eins SVIKUM á kosningaloforðum síðan ég fór að fylgast með stjórnmálum og það nær meira að segja út fyrir landsteinana! Loforðið um þjóðaratkvæði var bara út í loftið! Þetta er svo svivirðilegt og siðlaust að maður varla trúir því.Þetta fólk sem lofaði þessu fyrir kosningar ætti að skammast sín.


mbl.is „Ekkert valdarán átti sér stað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæf ríkisstjórn!

Hér birtist dæmalaus hroki og yfirgangur ríkisstjórnarinnar. Hún telur sig vita hvað sé best fyrir Íslendinga. Minni á að í könnun fyrr rúmu ári vildu um 37% landsmanna ganga í Evrópusambandið, ÁN ÞESS AÐ SAMNINGUR LÆGI FYRIR.

SDG segir að nú sé kominn tími til samvinnu við ESB á nýjum forsendum. Hvaða forsendum?

Á ESB kannski að biðja um aðild að Íslandi? Það er kannski í takt við þann hroka og yfirlæti sem einkennir núverandi stjórnvöl, sem hafa lofað öllu fögru, en svikið jafnharðan. Vanhæf ríkisstjórn!


mbl.is Besta hugsanlega niðurstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinræktaðir einræðistilburðir

Nú hefur skósveinn hatursmanna ESB (Vigdís Hauksdóttir, Jón Bjarnason, Styrmir Gunnarsson, Hjörleifur Guttormsson, Davíð Oddsson og fleiri álíkra), utanríkisráðherra Íslands Gunnar Bragi Sveinsson, sýnt sitt rétta andlit og sinnt sínu EINA hlutverki sem ráðherra og það af algerum heigulshætti.Þetta er til háborinnar skammar. Þetta er í raun allsherjar árás á lýðræðið í landinu og ekkert annað en hreinræktaðir einræðistilburðir.


mbl.is „Ekki kúvending á utanríkisstefnu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni framlög til hernaðarmála

Grikkir geta skorið meira niður til hernaðarmála. Þeir eru með 2.5% af VLF í hernaðarmál árið 2012, á meðan t.d. Spánn er með 0.85%. Grikkir eyða hlutfallslega meira til hernaðarmála en Kína!

"Greece is the largest importer of conventional weapons in Europe and its military spending is the highest in the European Union (relative to G.D.P)." Heimild: Wikipedia. 


mbl.is Grikkir geta ekki meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum að bregðast við breytingum á norðurslóðum

Séu orðin „Kínverjar“ og „Grænland“ slegin inn í hina margfrægu leitarvél Google koma upp fyrirsagnir á borð við „Kínverjar seilast til áhrifa á Grænlandi,“ „Kínverjar með augastað á Grænlandi“ eða „Kínverjar vilja hraða námuvinnslu sinni á Grænlandi.“  Í frétt um hið síðastnefnda segir: „Fjölmenn kínversk sendinefnd með auðlindaráðherra landsins í broddi fylkingar er nú stödd á Grænlandi. Þar ræða Kínverjarnir við grænlenska ráðamenn um starfsemi kínverskra námufyrirtækja í landinu en þeir vilja hraða framkvæmdum við ýmis námuverkefni.

Fimm kínversk námufyrirtæki hafa sótt um vinnsluleyfi á Grænlandi en þar ætla þau m.a. að vinna járn, gull, blý, kopar og sjaldgæfa jarðmálma.

Ekki eru allir Grænlendingar hrifnir af Kínverjunum og þannig hefur dregist verulega að eitt af námufyrirtækjunum hefjist handa við stærstu járnnámu sem fundist hefur á Grænlandi.“ (FRBL/Vísir.is, 27.apríl 2012).

En hvers vegna eru Kínverjar komnir alla leiðina til Grænlands? Jú, hin gríðarstóra kínverska efnhagsmaskína þarf hráefni og það er nánast sama hvar þau er að finna, Kínverjar sækja þau, hvert á land sem er. Sama hvort um er að ræða Angóla eða Grænland.

Síðan þarf að flytja allt heila klabbið og þar kemur Atlanshafið og Norðurslóðir til sögunnar. Svæðið norður af Íslandi er að verða „heit kartafla“ í strategískum skilningi. Með opnun siglingaleiða í gegnum Norðurpólinn mun hafsvæðið í kringum Ísland gerbreyta um „karakter“ ef þannig má að orði komast. Siglingar munu að öllum líkindum stóraukast, stór og gríðarlega öflug skip munu fara þar í gegn á leið frá Evrópu til Asíu og öfugt, að ógleymdum Bandaríkjunum.

Í skýrslu sem utanríkismálaskrifstofa ESB gaf út í lok júni á þessu ári segir að í kringum árið 2050 verði opið í gegnum norðurskautið, að minnsta kosti að sumri til. Þar kemur einnig fram að árin 2005-2010 hafi verið þau fimm heitustu á þessu svæði.

Greinilegt er að innan ESB taka menn þessi mál mjög alvarlega og í skýrslunni segir að um sé að ræða gríðarlega viðkvæmt svæði, þar sem búi um fjórar milljónir manna, þar af svokallaðir frumbyggjastofnar.

Í skýrslunni segir einnig að ESB hafi breytt forgangsröðun vegna þessara mála, til að meðal annars takast á við áskoranir á sviði umhverfisbreytinga, orkumála, fæðuöryggis og lýðfræðilegra breytinga. Stuðla á að auknum rannsóknum til þess að afla upplýsinga, svo hægt verði að vanda ákvarðanatöku.

En hvað með Ísland? Hvernig er Ísland í stakk búið til að takast á við áskoranir, sem eru e.t.v. nokkra áratugi fram í tímann? Ef við leyfum okkur að hugsa nokkra áratugi fram í tímann (eins og sagt er að Kínverjar geri!) eru þá til einhverjar hugmyndir um það, jafnvel áætlanir, hvernig þessi 320.000 manna þjóð (árið 2012) ætlar að taka á þessu stóra verkefni?

Alþingi Íslendinga samþykkti í mars í fyrra þingályktun um „stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.“

Í henni er rætt um að efla og styrkja Norðurskautsráðið, tryggja stöðu Íslands sem strandríkis, að efla skilning á hugtakinu „norðurslóðir,“ byggja á hafréttarsáttmálum Sameinuðu þjóðanna, styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar (er Kína inni í því þá?), styðja réttindi frumbyggja, vinna gegn loftslagsbreytingum, gæta öryggishagsmuna, að auka þekkingu og innlent samráð um málefni norðurslóða og svo framvegis.

Það er gott að Ísland sé búið að mynda sér stefnu. Þó hún sé ekki nema 12 atriði. Mjór er margs vísir, segir jú máltækið.

En það sem er vert að velta fyrir sér, er það hvort landið hafi efnhagslega burði til þess að framkvæma og innleiða þessa stefnu?

Væri e.t.v. betra að sækjast eftir auknu samstarfi við ESB á þessu sviði og þannig verða aðili að öflugasta starfi á þessu sviði á heimsvísu? ESB er öflugasti aðilinn á heimsvísu, sem berst gegn loftslagsbreytingum. Þær eru viðurkenndar sem staðreynd þar á bæ, en ekki dregnar í efa, eins og t.d. af áhrifmiklum mönnum í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni sem vitnað er í hér að fram segir að ESB sé reiðubúið að auka samstarf við þá aðila sem málið snertir.

Fari svo að Ísland verði aðili að ESB, er hér að mínu mati komið eitt sviðið, þar sem Ísland gæti leikið lykilhlutverk í framtíðinni. Í góðu samstarfi við aðrar þjóðir sem málið snertir. Hitt er sjávarútvegur,  verndun og skynsamleg nýting fiskistofna. Um það verður ekki rætt frekar í þessari grein.

Hvort tveggja eru þetta hinsvegar atriði sem skipta eyjuna úti í miðju Atlantshafi gríðarlegu máli. Breytingarnar eru að gerast og við verðum að bregðast við þeim. Of seint í rassinn gripið, verður einfaldlega of seint í rassinn gripið! Látum það ekki henda okkur. Hugsum langt fram í tímann, að hætti Kínverja.

Birt á www.jaisland.is og www.evropa.blog.is

 


Var Jón Sigurðsson jafnaðarmaður? (grein í MBL)

Í lok júní skrifaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson stutta grein hér í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður. Jón hefur verið töluvert í umræðunni, enda ekki langt síðan haldið var upp á 200 ára afmæli hans, en hann fæddist  jú þann 17. júní árið 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Í lok greinar sinnar, sem fjallar um stjórnmálaskoðanir Jóns Sigurðssonar biður Hannes um athugasemdir og leiðréttingar. Þessi grein er örlítil tilraun til þess, þó seint sé!

Hannes Hólmsteinn fullyrðir í grein sinni að Jón Sigurðsson hafi verið frjálshyggjumaður þegar hann segir: „Hver var stjórnmálaskoðun Jóns? Því er fljótsvarað. Hann var frjálshyggjumaður.“

Það hlýtur að vera kitlandi og ákveðin freisting fyrir helsta hugmyndafræðing og postula frjálshyggjunnar á Íslandi að setja sjálfstæðishetjuna inn í það box sem kallast frjálshyggja, að koma Jóni í ,,sinn flokk.“ Og afgreiða þar með málið. En er það rétt eða réttlætanleg flokkun og er málið þar með afgreitt? Að öllum líkindum ekki.

Í tilefni af afmæli Jóns Sigurðssonar hafa komið út bækur og verið ritaðar greinar um hann, ævi og störf. Sem er vel. Hver þjóð verður að þekkja þá menn sem skapa sögu hennar. Meðal þeirra rita sem kom út var Jón Sigurðsson – Hugsjónir og stefnumál, sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út. Í henni er kafli eftir Loft Guttormsson um hugmyndir og stefnu Jóns varðandi menntamál. Loftur bendir á að hugmyndir Jóns megi rekja til frjálslyndisstefnunnar (ekki sama og frjálshyggja!) og Upplýsingarinnar í Evrópu á 17.öld.

En hverjar voru hugmyndir Jóns í sambandi við menntun? Jú, samkvæmt grein Lofts taldi Jón að menntakerfið ætti að vera opið öllum: ,,Skólinn átti ekki aðeins að mennta embættismenn heldur og bændur, sjómenn og verlsunarmenn.“  Í textum Jóns má einnig sjá að hann telur að landsstjórnin, það sem við myndum kannski kalla ríkisvald í dag, hefur ákveðnu hlutverki að gegna í sambandi við menntun. Það er í sjálfu sér andstætt hugmyndum frjálshyggjumanna um ríkisvald. Frjálshyggjan aðyllist nefnilega það sem kallað hefur verið ,,lágmarksríki“ og eitt helsta hlutverk ríkisvaldins samkvæmt kennningum  frjálshyggjunar er fyrst og fremst að sjá um landvarnir.

Jón Sigurðsson vildi að öllum stæðu opnar dyr til menntunnar og það er í raun sjónarmið sem jafnaðarstefnan hefur haldið mjög á lofti. En síðan sagði Jón ...,,að sérhverjum stæði vegur opinn til að nema það sem honum væri best lagið; og þetta verður bæði hægast og affarabest með því að stofna skóla handa hinum ungu mönnum.“  En varla getur það talist frjálshyggja að hver og einn fái að velja það sem honum þóknast. Það heitir einfaldlega einstaklingsfrelsi. Hér má túlka orð Jóns sem svo að landsstjórnin ætti að stofna skólana.

Að vísu ber að taka það fram að nútíma jafnaðarstefna verður til mun seinna en þetta er skrifað, en textar þeir sem Loftur notar eru frá 1842 og 1849. Þegar Jón skrifar þetta, er hnsvegar einn helsti frumkvöðull frjálshyggjunnar, Herbert Spencer, enn á lífi. Ekki er mér kunnugt um að Jón Sigurðsson hafi lesið verk hans, en það má þó vera.

Hinsvegar sýnir þetta að mínu mati að það er ekki borðleggjandi að setja Jón Sigurðsson í box sem kallast frjálshyggja, það má jafnvel kalla það einföldun. Hugmyndir Jóns voru á mörgum sviðum og því margvíslegar, t.d. er það algengur misskilningu að Jón hafi viljað alger slit við Danmörku á sínum tíma. Heldur vildi hann jafna stöðu Íslands í sambandi ríkjanna, að þau stæðu jafnfætis  og hefðu jöfn réttindi. Hann gerði sér kannski grein fyrir því að algert rof í samskiptum Íslendinga og Dana, myndi ef til vill hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir landið. Sannur frjálshyggjumaður hefði ef til vill krafist algerra sambandsslita og algers frelsis til handa Íslendingum.

En hvort Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður eða eitthvað annað, jafnvel jafnaðarmaður, skiptir þó kannski ekki öllu máli. Merkimiðar eru ekki það mikilvægasta í sambandi við Jón Sigurðsson. Það merkilegasta er framlag hans til þróunar landsins og stjórnmála þess. Sem er ótvírætt.

Birtist í MBL 8. ágúst 2012.

 


Samhengi hlutanna

Fyrir skömmu greiddi Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum arð til hluthafa sinna. Upphæðin: 850 milljónir króna. Frá árinu 2007 hefur þetta EINA útgerðarfyrirtæki greitt hluthöfum sínum um 2,8 milljarða í arð, samkvæmt samantekt sem DV birti. Tvö þúsund og átta hundruð milljónir króna! Fyrir Íslending með meðallaun, um 325.000 á mánuði, tæki það um 217 ár að vinna fyrir þessari nýjustu arðgreiðslu. Vinnslustöðin er eitt þeirra fyrirtækja hér á landi sem sækir arð sinn í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskinn í sjónum.

En það samhengi sem mig langar til þess að setja þessa EINU arðgreiðslu í er umsókn Íslands að ESB. Hún er nefnilega talin kosta álíka upphæð og þessi arðgreiðsla Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2011, eða um 950 milljónir króna. Samkvæmt áætlun utanríkisráðuneytisins.

Andstæðingar aðildar kvarta og kveina yfir því hvað þetta sé ofboðslega dýrt ferli og að landið hafi ekki efni á því. Sumir fara með fullkomið fleipur og tala um milljarða!

En það er augljóst mál að bara eitt íslenskt útgerðarfyrirtæki gæti borgað úr eigin vasa fjölmargar aðildarumsóknir að ESB, og án þess að það kæmi niður á rekstri fyrirtækisins! Til dæmis Vinnslustöðin.

Verði af aðild Íslands að ESB er nánast borðleggjandi að kostnaður íslensks atvinnulífs og almennra borgara mun lækka, í formi lægri vaxta. Vextir á Íslandi hafa til fjölda ára verið tvöfalt hærri á við Evrópu. Í því samhengi er rætt um tugi milljarða króna árlega, sem myndu væntanlega sparast. Vinnslustöðin í Eyjum myndi líka græða á því!

Eins og alkunna er, þá eru útvegsmenn Íslands nær alfarið á móti aðild Íslands að ESB, m.a. vegna ótta þeirra við að auðlindin verði tekin af Íslendingum (þeim?), en það er hræðsluáróður sem stenst ekki skoðun. Til að koma þessu sjónarmiði á framfæri keyptu útgerðarmenn fjölmiðilinn Morgunblaðið. Varla líður sú vika að ekki sé hamrað á því í blaðinu hvað ESB sé nú slæmt og hræðilegt.

Mörg útgerðarfélög gera hins vegar upp ársreikninga sína upp í evrum (stöðug og alþjóðleg mynt) og sum þeirra hafa jafnvel stungið upp á því að taka einhliða upp evru. Svona er nú margt skrýtið í henni veröld.

FRBL, 11.7.2012


Það besta fyrir þjóðarlíkamann?

Ólafur Ragnar Grímsson, verður forseti Íslands í að minnsta kosti 20 ár. Hann vann jú í kosningunum 30. júní með 52,72% atkvæða. Um að ræða sögulegan sigur og ekki hægt að stinga því undir stól. Þegar hann hættir hann 74 ára og íslenska lýðveldið 72 ára.

Þetta þýðir að þá verður Ólafur Ragnar Grímsson verður búinn að vera forseti 27% af lýðveldistímanum. Það þýðir einnig að þá verður vaxin úr grasi kynslóð sem þekkir ekkert annað en Ólaf Ragnar Grímsson á forsetastóli.

Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson segir sig vera talsmann lýðræðisins og sér í lagi beins lýðræðis, með virkri þáttöku almennings. Hann hefur beitt málsskotsákvæði stjórnarskrár Íslands tvisvar og er því kominn í ,,æfingu“ með það, ef þannig má að orði komast. Má því fastlega reikna með að Íslendingar færist nær Sviss í þessum efnum, sem kjósa meðal annars á hinum ýmsu torgum landsins um hin ýmsu málefni.

Um 235.000 manns voru á kjörskrá í kosningunum. Um 69% af þeim kusu, samtals 162.500 og af þeim kusu tæp 53% ÓRG sem gerir 85.800 manns. Sem gerir um 36% kosningabærra Íslendinga. Það má því velta upp þeirri spurningu hvort það sé góður stuðningur fyrir forseta sem setið hefur 16 ár í embætti, því þetta er aðeins rúmlega einn af hverjum þremur kosningabærum Íslendingum, sem kjósa Ólaf Ragnar.

Í aðdraganda kosninganna talaði doktor Ólafur um stór samfélagsmál sem hann telur vel koma til greina að að setja í þjóðaratkvæði. Það liggur því eiginlega fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur verði enn algengari en nú er með Ólaf Ragnar sem forseta. Kostnaður við hverja þjóðaratkvæðagreiðslu hleypur á hundruðum milljóna króna.

Þá heyrðist einng sú skoðun að ,,við hefðum ekki efni á“ að kjósa Þóru Arnórsdóttur (vegna launakostnaðar við hana eftir forsetaembættið!). Ef við segjum að á þessum næstu fjórum árum sem Ólafur Ragnar sitji í viðbót, beiti hann málskotsréttinum 2-4 sinnum, þýðir það kostnað fyrir íslenska ríkið upp á 500-1000 milljónir, gróft reiknað.

Hann telur líka að hann þurfi að vera einskonar öryggisventill til að koma í veg fyrir að slæmir hlutir komi fyrir Íslendinga. Og hann bregður fyrir sig fínum fræðilegum orðum á borð við ,,þjóðarlíkami“ og vísar þá til þess að samfélagið sé eins og líkami, þar sem allir hlutarnir þurfi að virka, til þess að heildin virki. Þetta er beint úr fræðum Herberts Spencer og Emile Durkheim og tilheyrir klassískum félagsfræðikenningum. Það hlýtur þá að vera hann sem sjái til þess að ,,þjóðarlíkaminn“ sé við hestaheilsu!

Fari hann ekki fram aftur 2016, þá er hann nú kominn í þá stöðu að vera forseti sem hefur engu að tapa, nema kannski orðsporinu og því hvernig sagan muni skrá hann á spjöld sín. Mér sýnist hann þegar vera farinn að hegða sér eins og forseti sem hefur engu að tapa, t.d. í sambandi við stjórnarskrármálið. En viti menn, meira að segja sjálfstæðismenn eru farnir að viðra skoðanir þess efnis að breyta beri hlutverki og stöðu forsetans, skýra það! Flokkur sem varla má heyra minnst á stjórnarskrárbreytingar! Þeir eru kannski farnir að gera sér grein fyrir því hvað geti beðið þeirra! Óneitanlega hljómar þetta allt saman nokkuð hjákátlega.

En ég velti því líka bara almennt fyrir mér hvort hin mikla seta Ólafs á forsetastóli sé það besta fyrir umræddan ,,þjóðarlíkama“? Og ekki minnst íslenskt lýðræði.

Sérstaklega í ljósi þess að öll kerfi þurfa ákveðna endurnýjun og viðhald til að þau virki sem best. Ekki síst stjórnmálakerfin. Annað er stöðnun.

Birtist í Akureyri-Vikublað, 12.7.2012


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband