21.1.2009 | 21:42
Af minkum og hænsnakofum
Ég fór líka í hlutverk minksins, þegar ég heimsótti ömmu mína á sumrin, þar sem hún bjó á Þingeyri við Dýrafjörð. Nágrannakona hennar, sem kölluð var Hanna í steinhúsinu, átti hænur. Á sólfögrum morgnum gerði ég mér stundum ferð niður að hænsahúsinu hennar og þar breyttist ég í minkinn. Það var gaman að hlaupa á eftir hænunum og sjá fjaðrirnar svífa um í logninu. En ég hlaut skammir fyrir og mjög litlar vinsældir hjá Hönnu í steinhúsinu. Ég var bannfærður, enda verptu hænurnar ekki svo vikum skipti. Þetta þýddi að sjálfsögðu líka verri afkomu fyrir Hönnu í steinhúsinu, tímabundið að vísu. Ég iðraðist gjörða minna, en óneitanlega var þetta stuð meðan á því stóð, þetta var kikk.
En hvers vegna er ég að hugsa um þetta lag, um minkinn í hænsnakofanum? Jú, það er vegna Davíðs Oddssonar og hans gjörða og yfirlýsinga að undanförnu. Mér finnst hann nefnilega hegða sér nokkuð svipað og minkurinn, sem gerði allt vitlaust í hænsnakofanum. Við getum sagt að ástandið sé almennt mjög viðkvæmt í hænsnakofanum. Svo kemur minkurinn og hleypir öllu í bál og brand. Þegar enginn þarf á honum að halda. Og eðlilega vilja íbúar hænsakofans losna við hann sem fyrst.
Davíd Oddsson er seðlabankastjóri Íslands. Það á hann líka að vera og ekkert annað. Kannski þangað til annað verður ákveðið eða hann ákveður annað (sem mér skilst að sé mun líklegra). Davíð Oddsson er líka fyrrverandi stjórnmálamaður, forsætisáðherra, fyrrverandi borgarstjóri og leikstjóri (rétt eins og kemur fram í umdeildu viðtali við hann í Fyens Stiftstidende).
Maður hinna mörgu hlutverka. Getur verið að hann eigi hreinlega erfitt með að slíta sig frá þessum hlutverkum, að hann eigi erfitt með að einbeita sér að núverandi hlutverki? Eða vill hann, eins og margra Íslendinga er siður, vera með mörg járn í eldinum? Blanda öllu saman, vaða úr einu í annað, bara svona eftir því sem hentar?
Ísland á ekki að hafa pólitískan seðlabankastjóra. Slík hefð er ekki fyrir hendi í vestrænum hagkerfum. Það hefur meira að segja verið sagt að seðlabankastjórar eigi að vera frekar leiðinlegir (sjá m.a. Birgi Hermannsson í Silfri Egils, 7.12. '08). Með þessu er ég þó alls ekki að banna Davíð Odssyni að vera skemmtilegur, slíkt dettur mér ekki í hug. Heimurinn þarf jú húmor.
Þetta er ef til vill spurning um vettvang og að skynja þá þjóð sem býr í þessu landi, tímasetningu og þess háttar. Reyndur maður eins og Davíð Oddsson ætti að skynja það að útspilin um upplýsingarnar, sem hann segist hafa, um beitingu Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart Íslandi og viðtal hans við Fyens Stiftstidende um mögulega endurkomu hans í stjórnmál, voru ekki sérlega vel tímasett. Meira moldviðri á Íslandi er óþarfi um þessar mundir. Sérstaklega í ljósi þess að allir eru að bíða eftir því að rykið setjist! En kannski vill Davíð bara, eins og minkurinn, hafa stanslaust stuð í hænsnakofanum? Þannig líði honum best! Spyr sá sem ekki veit.
MBL 15-12-08
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2009 | 21:42
Að byggja brú
Brýr eru stórkostleg uppfinning. Þær tengja saman lönd og landsvæði á snilldarlegan hátt.
Brúin yfir Skeiðarársand er gott dæmi hérlendis, sem og Borgarfjarðarbrúin, en hún er gott dæmi um vel heppnaða fjárfestingu í samgöngum. Niðurstaðan er kannski í stuttu máli sú að brýr skapa möguleika.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía (úr flokki hægrimanna, Moderaterna) er duglegur bloggari og notandi nútíma samskiptatækni. Á bloggi hans fær lesandinn sjaldséða innsýn í heim háttsetts stjórnmálamanns, Evrópu- og alþjóðasinna.
Í einni af nýlegri færslum sínum skrifar hann um brúna yfir Eyrarsund, á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Hann var frá upphafi fylgismaður hennar, en það voru ekki allir. Olof Johansson, ráðherra umhverfismála (og formaður sænska Miðflokksins), var á móti brúarsmíðinni og vildi meðal annars rannsaka betur umhverfisáhrif hennar. Alþjóðleg nefnd sérfræðinga hafði þó komist að þeirri niðurstöðu að brúin væri ekki hættuleg umhverfinu. Olof var hins vegar ósáttur og sagði af sér árið 1994 vegna málsins. Þetta gerðist einmitt á þeim tíma þegar Svíar voru að klára aðildarviðræður við ESB, en landið gekk í sambandið 1. janúar 1995.
Nú er brúin hins vegar staðreynd, var formlega vígð árið 2000. Allir eru sammála um að um stórkostlega framför sé að ræða. Brúin hefur búið til nýtt atvinnusvæði og tækifæri sem áður voru ekki til eða að mörgu leyti takmörkuð. Danmörk og Svíþjóð eru nú tengd varanlega með brúnni og hefur þetta skapað mikil tækifæri fyrir báðar þjóðirnar.
Það má segja að EES-samningurinn hafi verið eins konar brú" okkar Íslendinga inn í Evrópu og Evrópusambandið (ESB) á sínum tíma. Hann veitti okkur tækifæri sem ekki höfðu áður þekkst. Um 80% af útflutningi okkar fer til ESB og þaðan koma 70% þess sem við flytjum inn. Svo náin eru viðskiptaleg tengsl okkar við Evrópu. En þessi brú er nú byrjuð að eldast og á henni eru að margra mati vankantar. Þó held ég að það sé enginn á því að rífa hana niður. Þarf ekki bara að bæta við hana og gera hana betri?
Með fullri aðild að ESB tel ég að Ísland myndi eignast fyrir alvöru þá brú" sem landið þarf á að halda til framtíðar. Vera heilshugar þátttakandi í samstarfi 27 fullvalda og sjálfstæðra ríkja, sem í raun berjast fyrir framförum á flestum sviðum mannlífsins og hafa ákveðið að taka sameiginlega á þeim vandamálum sem augljóslega þarf að glíma við í framtíðinni.
Íslendingar eru Evrópubúar og tilheyra Evrópu, bæði landfræðilega og menningarlega, en ekki síst stjórnmálalega. Við höfum frá upphafi haft samskipti við aðrar þjóðir. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða. Nú er kannski komið að því að ákveða hvert við viljum stefna sem þjóð í þessum efnum. Sá á kvölina sem á völina.
En til þess að hægt verði að taka upplýsta ákvörðun þarf þjóðin upplýsingu. Þar komum við að hlutverki stjórnvalda, hagsmunasamtaka og kannski almennings sjálfs. Upplýsingarnar eru þarna úti; í dagblöðum, bókum, tímaritum, internetinu svo eitthvað sé nefnt. Íslenska þjóðin getur, rétt eins og aðrar þjóðir, vegið og metið þetta brýna hagsmunamál.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og situr í stjórn Evrópusamtakanna.
FRBL 14-12-08
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 22:40
Sænski Umhverfisflokkurinn og VG
Umhverfisflokkurinn í Svíþjóð, lítill en virkur og nokkuð áhrifamikill flokkur, hefur skipt um skoðun gagnvart ESB. Flokkurinn, sem var stofnaður árið 1981, hefur lengi haldið uppi þeirri kröfu að Svíþjóð segði sig úr ESB. En ekki lengur. Fyrir skömmu fór fram atkvæðagreiðsla meðal flokksmanna um þetta atriði. Tæpur helmingur flokksmanna, 3641, tóku þátt í kosningunni. Það var meira heldur en talsmenn flokksins, Maria Wetterstrand og Peter Eriksson bjuggust við. Þau líta því á þetta sem sigur fyrir innra lýðræði flokksins.
Spurt var hvort flokksfélagar vildu hafa áfram þá kröfu að Svíþjóð myndi segja sig úr ESB. Nei sögðu 55.6% þeirra sem kusu, en já sögðu 44.4%. Munurinn var því 11.2%. Sú krafa að Svíþjóð segi sig úr ESB verður því tekin burt úr stefnuskrá flokksins. Talsmenn flokksins segja að þau mál sem ESB og þjóðir heims þurfi að glíma við á komandi árum séu hreinlega of mikilvæg til þess að Svíþjóð eigi að segja sig úr ESB. Þau telja ekki bara upp umhverfismál, heldur einnig mál eins og alþjóðlega glæpastarsfsemi og fleira. ESB sé því mikivægur vettvangur til að vinna að þessum málaflokkum. Þannig náist árangur.
Þau heita því hinsvegar að halda áfram að viðhafa það sem þau kalla ,,græna gagnýni á ESB og lofa virkri umræðu um umhverfismál. Sem að mínu mati er af hinu góða, því umhverfismál eru jú mál sem snerta alla, burtseð frá pólitík. Kosið verður í Svíþjóð árið 2010 og vinna Umhverfisflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn að því að mynda bandalag gegn hinni borgaraleg stjórn Fredrik Reinfelts, sem tók við völdum árið 2006.
Stjórnina mynda fjórir flokkar. Jafnaðarmenn og Umhverfisflokkurinn hafa ekki enn ákveðið hvort Vinstriflokknum (gamli Kommúnistaflokkurinn) verður boðið til samstarfs fyrir kosningarnar 2010, en grunnt hefur verið á því góða með talsmönnum flokkanna og þekkt að margir Jafnaðarmenn hafi neikvæðar skoðanir gagnvart Vinstriflokknum. Flokkurinn berst fyrir úrsögn Svía úr ESB, einn sænsku flokkanna sem eiga fulltrúa á sænska þinginu, Riksdagen.
Hér á landi er það VG (Vinstri-Grænir) sem er hvað líkastir sænska Umhverfisflokknum og að mörgu leyti er sami grunntónn í stefnu flokkanna. Í skoðanakönnun sem Capacent birti þ. 18.október kemur fram að 78% stuðningsmanna VG vilja hefja aðildarviðræður um aðild Íslands að ESB. Sænski Umhverfislokkurinn vill nota áhrif sín innan ESB til þess að Evrópa, og heimurinn, verði ,,grænni, þ.e.a.s. umhverfisvænni.
Er kannski orðið tímabært fyrir VG að hugsa eftir svipuðum brautum? Er hægt að koma til góðu leiðar þegar maður er ekki með? Eða réttara sagt; er ekki betra að vera með til að koma góðu til leiðar?
MBL, október 2008.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 22:32
Hvar eiga fæturnir að vera?
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksin og formaður utanríkismálanefndar Alþingis lét hafa eftir sér í þessum fjölmiðli (MBL) að flokkurinn ætti að vera leiðandi afl í Evrópuumræðunni. Hér kveður við nýjan tón. Eftir ákafa "ekki-á-dagskrá-stefnu" í Evrópumálum virðist sem þetta leiðandi afl íslenskum stjórnmálum sé að vakna af löngum dvala og sé að setja málið á dagskrá.
Enda annað í raun illmögulegt í ljósi breytinga á fjölmiðlun og fjölmiðlaumhverfi undanfarin ára. Í dag er ekki hægt að segja að mál séu "ekki á dagskrá".
Sú staðreynd að Írar sögðu NEI við Lissabon-sáttmálanum í þjóðaratkvæði fyrir skömmu breytir litlu fyrir umræðuna hér á landi. Enda ríkir hér áfram mikill óstöðugleiki í efnhagsmálum; gríðarleg verðbólga, svimandi háir vextir og krónan heldur áfram að vera jó-jó gjaldmiðill. Hvorki fyrirtæki né einstaklingar geta horft fram á veginn, forsendur dagsins í dag eru horfnar á morgun. Stöðugleiki er sem óskhyggja.
Undanfarið hefur berlega komið í ljós að innan Sjálfstæðisflokksins eru mjög skiptar skoðanir um tengsl Íslands og Evrópu og þarmeð afstöðunnar til aðildar að ESB. Í þessu samhengi má t.d. benda á skýra afstöðu Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Helga Magnússonar, formanns Samtaka iðnaðarins. Báðir hafa kallað eftir aðildarumræðum Íslands við ESB.
Varaformaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur einnig sagt að þjóðaratkvæði um aðild að ESB sé raunhæfur kostur á næsta kjörtímabili og að hún treysti almenningi til þess að taka afstöðu í málinu. Þetta er holl og lýðræðisleg afstaða.
Það má líkja saman hræringunum innan Sjálfstæðisflokksins við hræringar sem lengi hafa átt sér stað innan sænska Jafnaðarmannaflokksins.Sem er álíka stór flokkur í Svíþjóð og Sjálfstæðisflokkurinn hér á landi. Innan sænska Jafnaðarmannaflokksins hafa verið skiptar skoðanir um ESB, sem meðal annars hefur leitt til þess að menn hafi sagt sig úr flokknum.
Svíþjóð hefur verið aðildarríki ESB síðan 1995, en í valdatíð Görans Perssons, forsætisráðerra (1996-2006), voru sænskir kratar að mörgu leyti tvístígandi gagnvart ESB og nýttu sér ekki þau tækifæri til áhrifa sem aðild fól í sér. Þrátt fyrir að segjast vera með af fullri alvöru.
Þegar borgarleg ríkisstjórn, undir forystu hægrimannsins Fredrik Reinfelts tók við völdum, eftir sögulegan sigur haustið 2006, og þar sem Moderaterna , systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, er leiðandi flokkur, var hinsvegar ákveðið snarlega að nú skyldi Svíþjóð inn í kjarna ESB. Það er að segja, að hámarka kosti aðildar.
Það var Carl Bildt núverandi utanríkisráðherra, fyrrum leiðtogi flokksins (1986-1996) og forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991-1994, sem að stórum hluta stóð að mótun þessarar afgerandi stefnubreytingar. Til að leggja áherslu á breytta stefnu var sérstakur Evrópumálaráðherra skipaður, Cecilia Malmström, frá Þjóðarflokki. Hún er fyrrum þingmaður Evrópuþingsins, sat þar á árunum 1999-2006.
Það er ljóst að leiðandi aðilar innan sænska Hægriflokksins hafa þá sannfæringu að Svíþjóð eigi að nota aðild til þess að vera fullgildir aðilar og að ESB sé vettvangur til þess að hafa áhrif og ná fram brýnum hagsmunamálum, bæði landsins og alþjóðasamfélagsins, í samvinnu við önnur lönd innan ESB.
Hér á landi er hinsvegar staðan sú að leiðandi aðilar á sama væng stjórnmálanna, eru á bremsunni, eða hafa verið til þessa, og maður fær það á tilfinninguna að það verði örlög málsins að það verði rætt fram í rauðan dauðann, án þess að nokkur vitræn niðurstaða fáist í málið. Er það kannski stefnan á meðan leiðandi aðilar innan samfélagsins kalla í raun eftir alvöru stefnu í málinu? Og það skal tekið hér skýrt fram að ESB-aðild er hér ekki sett fram sem lausn á skammtímavanda, heldur stefna til framtíðar.
Norðmenn höfnuðu aðild að ESB á sínum tíma. Gott og blessað, þeirra val. Þeir fengu þó að kjósa! Hér hafa heyrst þær raddir að við Íslendingar höfum svo litla reynslu af þjóðaratkvæði. Það eru að mínu mati léttvæg rök. Þjóð sem telur aðeins 313.000 manns getur auðveldlega skipulagt og framkvæmt þjóðaratkvæði. Enda gert við hverjar kosningar!
Finnar gengu í ESB 1995 og tóku "allan pakkann, með Evru (2002) og öllu sem ESB tilheyrir. Danir, sem hafa verið með síðan 1973 og Svíar, eru þarna á milli, það sem vantar hjá þeim er Evran. Engu að síður eru löndin virkir aðilar í sambandinu, sérstaklega í ljósi síðustu breytinga í Svíþjóð. Ísland er hinsvegar með annan fótinn inni (EES) og hinn úti. Er ekki kominn tími til að höggva á þennan hnút og ákveða hvar báðir fæturnir eiga að vera?
MBL , júní 2008.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2008 | 14:06
Er íslenskur landbúnaður "heilög kú"?
Í hinn ágætu bók,Tinni í Tíbet, sem sannir Tinna-aðdáendur hafa lesið, leggur Tinni í leiðangur til þessa lands.Hann vill bjarga vini sínum, sem hann er sannfærður um að hafi lifað af flugslys þar í landi. Á leið sinni verða Tinni og Kolbeinn kapteinn (sem nær ávallt er með í för) að millilenda í Khatmandú á Indlandi.
Í skoðunarferð um borgina, til þess að drepa tímann, í bið eftir næsta flugi, ramba þeir félagar fram á kú. Sú hefur stillt sér á miðja akbrautina og fer hvergi. Tinni og Kolbeinn eru að missa af fluginu. Þetta finnst Kolbeini kapteini alls ekki sniðugt, enda ekki mjög þolinmóður maður að eðlisfari. Hann vill færa kusu, en innfæddir segja honum að það megi alls ekki, kýr séu heilagar á Indlandi. Þeir verði bara að bíða eftir því að kusan fái þá hugmynd að færa sig. Þessi rök og þessi hugmyndafræði fellur ekki í kramið hjá kapteininum, sem tekur sig til og sest upp á kusu. Hún æðir af stað. Eftir ævintýralega ferð, hendir kusan Kolbeini um borð í þá bifreið sem beið þeirra, Tinni kom hlaupandi á eftir. Þeir brunuðu út á flugvöll og náðu fluginu. Í lok bókarinnar björguðu þeir svo vini sínum, sagan endaði vel.
Mér flaug þetta í hug í sambandi við þá umræðu sem spunnist hefur vegna væntanlegrar innleiðingar á landbúnaðarlöggjöf ESB hér á landi. Mér finnst nefnilega íslenskur landbúnaður og talsmenn hans hegða sér eins og hin heilaga kú, það megi bara alls ekki hrófla við henni! Kýrin er ósnertanleg og öll utanaðakomandi trulfun er bönnuð. Hin heilaga kú ræður sér sjálf.
Íslenskur landbúnaður hefur löngum notið ríkulegra ríkisstyrkja og ekki þurft að glíma við samkeppni að neinu marki. Menn hafa getað verið óáreittir í sínum sveitum, framleitt það sem þeir nánast hafa viljað, burtséð frá því hvort kaupendur hafa verið til staðar eða ekki (sbr smjör og kjötfjöll). Afurðir hafa verið fluttar út með ærnum tilkostnaði, sem auðvitað er greiddur af skattgreiðendum, almenningi.
En nú, þegar til stendur að hleypa erlendum aðilum inn á þennan markað, hvín og syngur í hinni heilögu kú. Hér mun nánast allt fara norður og niður, verði t.d. leyft að flytja inn ferskt kjúklingakjöt, svo dæmi sé tekið. Íslendingar muni fá magakveisu og veikjast unnvörpum og hvaðeina. Þetta er náttúrlega hræðsluáróður. Fyrir það fyrsta eiga Íslendingar væntanlega "bestu eldavélar" í heimi, þar sem hægt er að steikja og sjóða þetta kjöt, innihaldi það einhverjar bakteríur!!
Og af hverju verða ekki þeir Íslendingar sem: a) fara til útlanda og b) þeir sem búa í útlöndum (og þeir eru margir) ekki veikir massavís ? Sjálfur bjó undirritaður 11 ár í Svíþjóð (1996-2007) og neytti fjölskyldan kjötvara frá hinum ýmsu löndum, eggja og hvaðeina. Aldrei urðum við veik, ekki einu sinni!!
Þetta sýnir bara að um er að ræða hræðsluáróður og að íslenskur landbúnaður er lafhræddur við samkeppni. En hvað er að hræðast, er íslenskur landbúnaður ekki sá "besti í heimi"? Er þá nokkur ástæða til að baula eins og hin heilaga kú, um hætturnar sem felast í því að leyfa innflutning á erlendum landbúnaðarafurðum? Ber ekki frekar að fagna þessu tækifæri og geta loksins sýnt og sannað að hér á landi sé "besti landbúnaður" í heimi; bestu rollurnar og kýrnar, sem anda að sér besta lofti í heimi, drekka besta vatnið, anda að sér besta súrefninu og bíta besta gras í heimi? Þessi dýr ættu þá væntalega að geta af sér "bestu afurðir" í heimi, ekki satt? Er þetta þá ekki bara unninn leikur hjá "hinni heilögu kú" Íslands?
Ég held hinsvegar að hún verði að venjast þeirri staðreynd að um er að ræða fleiri "kýr". Í hinn frábæru bók Palli var einn í heiminum, vaknaði hann upp frá þeim draumi um að hann væri einn í heiminum. Sá þá að sú var ekki raunin. Íslenskur landbúnaður er kannski enn í svipuðum draumi og Palli, en raunveruleikinn bíður hans þegar drauminn tekur enda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2008 | 21:30
Að skammast sín fyrir upprunann
Mál aumingjans flóttakvennanna (þetta verða jú (mögulega) allt saman konur) sem til stendur að veita hæli upp á Akranesi er orðið vægast sagt ömurlegt. Mér blöskraði ungur maður sem rætt var við í sjónvarspfréttum RÚV í kvöld. Orð hans hefðu ekki getað hljómað betur af vörum Adolfs Hitlers í Þriðja ríkinu hér í "denn"!! Hann nota m.a. orðið "þetta" yfir Pólverja. Það er varla að ég þori að segja frá því að ég sé frá þessum stað, en ég geri það með skömm! Ég hreinlega skammast mín fyrir að vera Akurnesingur!
Adolf Hitler hóf Seinni heimsstyrjöldina með því að ráðast inn í Pólland. Hvað blundar í hjarta þessa unga manns, sem meðal annars sagði að það væri ekki orðið hægt að fara á skemmtistaði á Skaganum fyrir "þessu"?
Skilaboð til þeirra sem fjargviðrast útaf þessu eru: Setjið ykkur í þeirra spor!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2008 | 20:46
Ryk í augu fólks?
Sjálfstæðismenn segjast nú að ætla að bretta upp ermarnar og fara að ræða Evrópumálin, þ.e.a.s. að kasta af sér skikkju þeirra EKKI-stjórnmála, sem riðið hefur húsum í Valhöll! Þorgerður Katrín, varaformaður hefur sýnt smá lit í þessu efni og ræddi nýlega málið á fundi í Kópavogi, bökkuð upp af "the strongman" þar á bæ, Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra (það leit allavegan út þannig á mynd Morgunblaðsins!).
Það sem Þorgerður Katrín sagði vakti athygli mína, sérstaklega það sem haft var eftir henni um matvælaverð, við hugsanlega aðild Íslands að ESB. Orðrétt segir í fréttinni:,,Tók hún sem dæmi að aukið atvinnuleysi myndi fylgja inngöngu í sambandið auk þess sem matvælaverð myndi að öllum líkindum hækka."
Í raun er þetta alveg makalaust. Flokkurinn, sem loksins er að vakna, kallar eftir málefnalegri umræðu, en á sama tíma nota háttsettir menn innan hans orð eins og "blekkingar" og að "slá ryki í augu fólks." Þ.e.a.s. um þá sem tala fyrir aðild. Þó hef ég ekki heyrt Þorgerði Katrínu nota slík orð, reyndar er hún talsmaður vandaðrar umræðu, en mér finnst hún ekki fara vel af stað í þeim efnum.
Í þessu sambandi væri t.d. afar fróðlegt að sjá tölur um aukið atvinnuleysi og hækkun matarverðs í sambandi við þessi orð Þorgerðar Katrínar, þ.e. frá löndum ESB.Þær hækkanir á matvöruverði sem átt hafa sér stað t.d. með inntöku Evrunnar i hinum ýmsu löndum hafa yfirleitt átt sér stað þegar kaupmenn og aðrir aðilar hafa freistast til þess að hækka verð á vörum og þjónustu, þ.e.a.s verið að nýta sér aðstæður sem upp komu. Til dæmis hækkuðu slóvenskir bankar verð á sinni þjónustu ÁÐUR en Ervan var tekin upp þar í landi í byrjun 2007, en það var ekki afleiðing innleiðingarinnar. Með þessum atriðum er fylgstaf mikill nákvæmni, sem og verðbreytingum eftir innleiðingu Evru.
Í skýrslu sem gefin var út af ESB árið 2005 koma fram að verð á sumum vörum hækkaði, stóð í stað á öðrum og lækkaði á öðrum, þar sem Evran hefur verið tekin upp. Eins og gerist yfirleitt í markaðshagkerfi, þar sem frjáls samkeppni ríkir (nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn er mjög hrifinn af).
Aftur til Slóveníu; þar var verðaukningin aðeins 0.3% þegar verð voru borin saman á milli desember 2006 til janúar 2007, þ.e.a.s. varla merkjanleg. Og verðbólga var innan ásættanlegra marka. Þá lýstu um 9 af hverjum 10 Slóvena því yfir að þeir væru ánægðir með upplýsingarnar sem þeir fengu um Evruna og almenningur taldi þessa breytingu hafa gengið vel fyrir sig. Þetta verður að teljast góður árangur hjá smáþjóð (á evrópskan mælikvarða) sem skipti út gjaldmiðli sínum,Tolar, á móti Evru á aðeins tveimur vikum! Enda var það svo að undirbúningum Slóvena var mjög nákvæmur.
Af þessu má því sjá að verðlag þarf ekki að taka stórkostlegum breytingum við inntöku Evrunnar og líklegt að ákveðnir vöruflokkar, t.d. matvæli muni lækka í verði, m.a. vegna aukinnar samkeppni. En það er t.d. álit margra hagfræðinga að Evran auki gegnsæi í verði, sem leiði til aukinar sérhæfingar og þar með aukinni samkeppni. Sem síðan leiðir til lækkandi verðlags.
Að slá því næst sem föstu að matvælaverð muni hækka, eins og Þorgerður gerði á fundinum í Kópavogi, er því ekki til þess fallið að efla málefnalega umræðu, heldur þvert á móti.
Orð hennar um atvinnuleysið eru í raun efni í sér umfjöllun, sem bíður betri tíma. Þó ber að segja strax að mörg þeirra landa sem hafa gengið til liðs við ESB og tekið upp Evru, glímdu við atvinnuleysi áður en áðurnefnd skref voru tekin. Það ber að skoða hlutina í víðara samhengi.
Skýrslu frá ESB um innleiðingu Evrunnar í Slóveníu má finna hér:
http://www.evro.si/en/slo-and-euro/news-events/2007-05-04/introduciton-euro-slovenia.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 00:51
Serbía til Evrópu?
Í nýafstöðnum þingkosningum í Serbíu voru niðurstöðurnar ótvíræðar. Serbía á samleið með Evrópu og þar liggur framtíð þeirra, ekki í faðmi Rússa. Þó Rússar séu ríkir af olíu og vel stæðir, eiga Serbar og Serbía miklur fremur samleið með Evrópu og Evrópubúum. En þetta verður ekki auðveld leið. Flestir Serbar sætta sig ekki við sjálfstæði Kosovo, en verða að kyngja því. Þróun næstu ára mun að öllum líkindum skera úr um hvort Serbíu tekst að færa sig nær Evrópu og jafnvel ganga inn í ESB. Það væri óskandi. Jafn mikið og ESB var í sinni upprunalegu mynd friðarhugmynd milli Frakka og Þjóðverja, með það að markmiði að hörmungar á borð við Seinni heimsstyrjöld myndu ekki endurtaka sig, getur ESB orðið það "lím" sem þarf til þess að hindra að hörmungar á borð við stríðin (því þau voru í raun mörg) í fyrrum Júgóslavíu endurtaki sig ekki. Borist Tadic, forseti Serbíu og aðrir Evrópusinnar eiga erfitt verk fyrir höndum, því þjóðernishyggjan og vandkvæði henni tengd krauma bæði á og undir yfirborðinu.
Serbískar fréttir á ensku: http://www.b92.net/eng/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 00:09
Magnús í Eyjum og ESB
Magnús í Eyjum og ESB Það er í raun afar athyglisvert og pínulítið dapurlegt að lesa ummæli Magnúsar Kristinssonar, eiganda útgerðarmanns úr Eyjumog eiganda Toyota-umboðsins í laugardagsviðtali 24stunda þ.19.apríl síðastliðinn. Blaðamaður spyr hvort hann telji að Evran og Evrópusambandið séu lausnin á efnhagsvanda þeim sem Íslendingar glíma nú við: Orðrétt svarar Magnús: ,,Ég fylgist með umræðunni sem mér finnst á á köflum vera glamúrkennd. Ísland er eyja úti í Atlantshafi.Evrópusambandið er ekki töfraorð.Ef við færum inn í Evrópusambandið hefðum við þar lítil sem engin áhrif. Fyrir það fyrsta átta ég mig ekki alveg á því hvað hann á við með orðinu ,,glamúrkennd, því enska orðið ,,glamour vísar til einhvers sem hefur yfir sér töfra eða dýrðarljóma. Á Magnús þá við að Evrópuumræðan hér á landi sé af því taginu, hafi slíkan ljóma yfir sér?
Og svo er það þetta með áhrifin. Hvernig veit Magnús að við hefðum þar lítil sem engin áhrif? Íslendingar hafa jú aldrei verið í ESB! Heldur hefur verið í gangi síðan 1994 sérstakur samningur (EES) um aðgang okkar að innri markaði ESB, sem veitt hefur þjóðinni aðgang að markaði sem í dag telur 500 milljónir manna! Það er jú ekki lítið. Hinsvegar höfum við ekkert að segja til um það hvernig framtíðin innan ESB mótast, við erum jú ekki pólitískir þátttakendur í ESB, heldur þiggjendur, tökum við löggjöf frá ESB. Er það óskastaðan?
Það er hinsvegar bjargföst trú mín að Íslendingar gætu haft töluvert mikið um ýmis mál að segja innan ESB, ekki síst sjávarútvegsmál, þann málaflokk sem Magnús gjörþekkir og hefur gríðarlega reynslu af. Í lok febrúar fór ESB þess formlega á leit við Íslendinga að við myndum aðstoða þá við endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB. Það eru í raun fáheyrð tíðindi, en sýnir engu að síður að ESB metur þekkingu okkar á þessum málaflokki mikils. Eða mistúlka ég skilaboðin? Lítið hefur hinsvegar farið fyrir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Það væri áhugavert að heyra mann eins og Magnús segja frá reynslu sinni af útgerðar og kvótamálum fyrir framan fulltrúa ESB. Mann sem þekkir bæði kosti og galla núverandi fyrirkomulags. Frá fyrstu hendi. Ég er nokkuð viss um að allavegana þeir sem hafa eitthvað með sjávarútvegsmál að gera innan ESB, myndu hlusta, jafnvel fleiri. Fulltrúar ESB og landa innan þess, sem að undanförnu hafa komið hingað til lands, hafa nánast undantekningalaust sagt að þeir vilji fá Ísland inn í sambandið. Þeir telja okkur eiga samleið með því í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á alþjóðakerfinu. Það tel ég einnig.
Það væri að mínu mati afar þroskandi fyrir Ísland, íslenskt stjórnkerfi og stjórnmálalíf að t.d. geta átt ótakmarkað samstarf, á grundvelli ESB, við þau Norðurlönd sem nú þegar eru innan sambandsins; Danmörku, Svíþjóð og Finnland. Allt lönd sem hafa mikilla hagsmuna að gæta hér á norðurhveli jarðar, en síðustu atburðir benda til þess að einmitt norðurhvelið sé að verða sífellt mikilvægara svæði jarðkringlunnar. Magnús segir að Ísland sé eyja í Atlantshafinu. Það er vissulega rétt hjá honum. Við breytum ekki landfræðilegri legu landsins. En eru það rök fyrir því að ganga ekki í ESB? Innan ESB er jú fullt af eyjum: Malta, Kýpur, eyjar Ítalíu og Grikklands, svo dæmi séu tekin. Og ef Ísland gengi í ESB myndu Vestmannaeyjar bætast í þennan ágæta hóp.
Nei, rökin eiga náttúrlega að vera bæði efnhagslegs og pólitísks eðlis. Viljum við vera með að skapa þá framtíð sem Evrópa stendur frammi fyrir? T.d. á sviði umhverfismála, sem er annar málaflokkur sem ég tel að við Íslendingar höfum klárlega ýmislegt til málanna að leggja. Ég veit t.d. ekki betur en að það hafi verið lengi í gangi rannsóknir (og þróun) á því hvernig minnka megi eldsneytisnotkun fiskiskipa okkar og að slíkur búnaður sé í notkun í flotanum, eða a.m.k. hluta hans. Hreinræktuð umhverfismál! Önnur möguleg svið: Hitnun jarðar, bráðnun ísa, möglegar breytingar á straumum í kjölfar umhverfisbreytinga? Erfið, en gríðarlega mikilvæg mál. Það er vissulega ágætt að Magnús fylgist með umræðunni um Evrópumálin, en það væri líka afar áhugavert að heyra meiri rök fyrir skoðunum hans. Því án raka er ekki hægt að taka afstöðu, hvorki með, eða á móti. Þá hjakkar maður í sama farinu. Og þá dugar hvorki Toyota né einhver önnur bílategund til.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og hefur stundað togarasjómennsku.
Birt í 24 stundum 26. apríl 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 00:05
Um ESB og sjálfstæðisrök andstæðinga þess
Andstæðingar ESB-inngöngu hamast margir hverjir á þeirri röksemd að Íslendingar muni glata sjálfstæðinu við inngöngu í ESB. En hvernig útskýra ESB-andstæðingar þá staðreynd að þau lönd í Mið- og austur-Evrópu sem losnuðu undan járnhæl kommúnismans létu það verða forgangsverkefni að sækja um aðild að ESB? Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakía eru nú öll aðildarríki ESB.
Fengu þessi nýfrjálsu ríki frelsið bara til þess eins að kasta því í burtu, "augnabliki" síðar? Þessi lönd hafa sjaldan eða aldrei verið frjálsari en einmitt nú. Gott dæmi: Slóvenía, sem nú fer með formennsku í ESB, en var árið 1991 aðeins lýðveldi í Júgóslavíu kommúnismans, áður en það sagði sig úr ríkjasambandinu sama ár. Þá réðist Alþýðuher Júgóslavíu inn í Slóveníu og stóð þar yfir stríð í tíu daga. Því lauk með að Alþýðuherinn hraktist þaðan. Frá þeim tímapunkti hefur Slóvenía markvisst unnið sig inn í innsta kjarna ESB, en árið 2004 gekk landið með formlegum hætti í ESB og NATO. Slóvenar gegna nú, eins og áður sagði, formennsku í ESB. Þessi árangur á aðeins fjórum árum frá gildistöku aðildar! Íbúar Slóveníu eru um 2 milljónir og gjaldmiðill landsins er Evra.
Annað dæmi: Eystrasaltslöndin, sem öll voru undir járnhæl Sovétríkjanna. Eftir að þau fengu frelsi frá þeim var stefnan sett á ESB. Eistland, Lettland og Litháen gengu öll í NATO og ESB sama ár, þ.e. 2004. Hagvöxtur og framþróun í þessum löndum er með mesta móti nú um stundir, þau einfaldlega blómstra.
Í Svíþjóð, sem gekk í ESB árið 1995, er það nánast aðeins í Vinstriflokknum (sem er arftaki Kommúnistaflokksins) þar sem raddir, sem tala um miðstýringu frá Brussel, heyrast. Nú heyrast einnig raddir frá sænska Umhverfisflokknum (til vinstri á hinum pólitíska skala) sem vilja kasta fyrir róða þeirri fyrri skoðun sinni að Svíþjóð beri að segja sig úr ESB. Maria Wetterstrand, annar leiðtoga flokksins, tilkynnti það fyrir skömmu að henni fyndist vænlegra til árangurs að vera með í ESB.
Á komandi áratugum verða umhverfismál einn mikilvægasti málaflokkurinn sem mannkyniðglímir við. Hvaða áhrif og HVERNIG vilja Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa í þeim málaflokki (sem er þó aðeins einn af mörgum)? Er ekki sjálfstæði einmitt falið í því að geta valið að vera með í ESB sem fullgilt aðildarríki, sem hlustað er á og hefur eitthvað til málanna að leggja á réttum stöðum? Eða er betra að velja að vera nánast áhrifalaus í útjaðrinum? Og hvað "sjálfstæðisrök" andstæðinga ESB-aðildar varðar, þá tel ég þau vera hriplek. Ísland hættir ekki að vera sjálfstætt land við inngöngu í ESB.
Veröldin hefur breyst og það allverulega síðan Ísland fékk sjálfstæði. Aðstæður í alþjóðamálum eru gjörbreyttar, ekki síst eftir að ,,Kalda stríðinu lauk. Er hægt að horfa framhjá þeim breytingum þegar fjallað er um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og hvert skuli stefna?
Fréttablaðið 22.mars 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)