Komandi forsíður í Dagblaði Íslensku Alþýðunnar?

Eitt árÞetta blessaða hrun á víst eins árs afmæli um þessar mundir, en það fékk enga köku og því ekki blásið á kerti!

Fyrirsagnir fjölmiðla hafa verið ,,svakalegar" undanfarið árið og eiga fleiri svoleiðis sjálfsagt eftir að bætast við. Hér eru nokkrar ímyndaðar fyrirsagnir úr nánustu framtíð:

 

Seldi ömmu sína fyrir fimm prósent hlut í fasteignafélagi

Veðsetti hús föður síns vegna hlutabréfakaupa frænda síns

Seldi sportbíl systur sinnar - keypti hlutabréf fyrir peningana

Skráði Lancruiserinn á nýfæddan son sinn

Lét ölvaðan svila skrifa upp á skuldabréf

Notaði mágkonu sína til að hylma yfir áhættufjárfestingar

Lét tvíbura frænku sinnar falsa undirskriftir

Falsaði ættarnafn móður sinnar við flugvélakaup

Flutti skuldir vegna þyrlukaupa á fyrirtæki tengdasonar síns

Tók kúlulán í nafni látins bekkjarbróðurs

Þóttist vera afi frænda síns í afleiðuviðskiptum

Skuldfærði fjórhjól af reikningi mágkonu sinnar

Stofnaði fyrirtæki á kennitölu ömmusystur sinnar

Tapaði aleigunni í fasteignabraski, lét tengdó blæða

 


D-dagur!

Í dag er D-Dagur.

Nafnið á Nýja-Mogganum?

Hin styrka höndHin hægri-og þjóðernissinnaða vefsíða AMX, sem í ritstjórnartíð Ólafs Þ. Stephensen kallaði Morgunblaðið ESB-Mogga, getur nú væntanlega hætt því. Nú er Davíð Oddsson sestur í ritstjórnarstól, ásamt Haraldi Jóhannessen, sem er frændi fyrrverandi ritstjóra MBL, Matthíasar Jóhannessen.

Lætur nærri að um 20% ritstjórnar MBL hafi verið sagt upp störfum í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag. Það hlýtur að höggva svöðusár í ritstjórnina. Að maður tali nú ekki um þá reynslu og fagmennsku sem blaðið lætur frá sér fara.

En það var þetta með nafnið á nýja Mogganum, sem nú tekur við? Nokkrar uppástungur: Kvóta-Mogginn, Sægreifa-Mogginn, Troll-Mogginn, eða eitthvað alveg nýtt: Davíðsbréf?

En í alvöru talað; er þetta ekki ,,mission-impossible?" Gröf Mogginn sér ekki sína eigin gröf með of-fjárfestingum ofl. sem hefur skapað þá skuldasúpu sem blaðið dregst með?

Þrátt fyrir milljarða afskriftir, sem nýir hluthafar Árvakurs fengu?

Annars er mjög athyglisvert að velta því fyrir sér hvað það er við Davíð Oddsson, sem veldur því að maðurinn er svona ,,polarizer" í íslensku samfélagi, að annaðhvort séu menn með honum eða á móti? Þetta er í raun efni fyrir sálfræðinga að spá í! En þar sem ég er ekki slíkur, læt ég það ógert.

Davíð Oddsson hlaut frægð fyrir útvarpsþættina Matthildi á sínum tíma og það voru grínþættir. Davíð lærði lögfræði, varð borgarstjóri (Dabbi-kóngur), formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og núna ritstjóri. Hvar gæti þetta gerst nema á þessari litlu eldfjallaeyju?

Í tíð hans sem forsætisráðherra fór hið saklausa Ísland í hrikalega frjálshyggjureið, sem endaði með allsherjar hruni. Eftir að hafa lagt niður (mjög eðlilegar) stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun og stuðlað að veikingu Fjármálaeftirlits, fór hér allt norður og niður. Og eftir situr þjóðin með skuldir sem eru meira en 200% af landsframleiðslu!

Með þessu skal ekki sagt að þetta sé allt Davíð að kenna. En sú hugmyndafræði, sú stefna sem hann aðhyllist hefur haft þessar afleiðingar. Og framkvæmd hennar. Ríkið, sem samkvæmt þessari hugmyndafræði um ,,small government," er nú orðið eigandi að meira að minna öllu hér. Ísland er orðið eins og einskonar ,,sovét" þar sem ríkisstjórnin er eins og ,,supreme-soviet", æðsta ráðið.

Nú eru Davíð og Haraldur orðnir ,,supreme-soviet" á Nýja-Mogganum! Hið raunverulega æðsta ráð Sovétríkjanna, féll með falli þeirra í byrjun níunda áratugarins. Hvað endist þetta lengi?


Athyglisverð forsíða MBL

Eins og kunnugt er lét Ólafur Þ. Stephensen af störfum sem ritstjóri MBL síðastliðinn föstudag. Ekki veit ég hvort það eru tengsl þar á milli og forsíðu sunnudagsblaðs MBL í dag (eftir ritstjórnarskiptin). Aðalmyndin er s.s. af þremur lömbum að bíta gras. Vissulega falleg mynd, lömbin eru krúttleg.

Einhvernveginn finnst mér þessi mynda athyglisverð á þessum tímapunkti og minnir óneitanlega á forsíður Bændablaðsins, sem gjarnan (og kannski eðlilega) skarta ýmsum skepnum.

Framhaldið verður athyglisver á MBL og sterk orð notuð í þessu samhengi, s.s. ,,pólitískar hreinsanir" og þess háttar. Þá fer maður að hugsa um ákveðna tegund af ríkjum sem fækkaði stórlega eftir 1989.


Þögn Sigmundar

sigmundur-david-gunnlaugsson-frettAf hverju heyrist ekkert í formanni Framsóknarflokksins í Evrópumálum? Undirritaður hefur oft velt þessari spurningu fyrir sér eftir flokksþing flokksins í byrjun ársins. Þar var samþykkt metnaðarfull ályktun um Evrópumál, sem sumir reyndar lýstu sem skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir því að ESB myndi ganga í Ísland. Gott og vel. Sé leitað í greinasafni MBL, FBL og á bloggi Sigmundar kemur í ljós að hann hefur hins vegar ekkert skrifað um Evrópumál. Sömu sögu er að segja um heimasíðu flokksins, þar skrifa einhverjir aðrir um Evrópumál, s.s. Siv Friðleifsdóttir og Gestur Guðjónsson.

Þetta hlýtur því að vekja þá spurningu hvort Sigmundur Davíð hafi áhuga á Evrópumálum. Var hin fína ályktun Framsóknar um Ervrópumál bara til þess að slá ryki í augu fólks, láta líta út sem flokkurinn væri að endurnýja sig? Hvað skýrir þessa þögn Sigmundar gagnvart Evrópu?

Hann hefur hins vegar barist hatrammlega fyrir niðurfellingarleið Framsóknar á skuldum, aðferð sem er umdeild. Einnig hefur hann barist hatrammlega gegn Icesave-samningunum og tilheyrir sk. Indefence-hópi. Gott og vel. Sigmundur er mikill baráttumaður. En hann berst ekki fyrir Evrópumálunum, þar er þögn hans æpandi.

Framsóknarflokkurinn hefur hag af því að fá hagstæða útkomu út úr aðildarsamningum, ekki bara fyrir alla Íslendinga, heldur einnig fyrir kjarnakjósendur flokksins, bændur. En til þess telur undirritaður að það verði að vera opin umræða um Evrópumál og markmið í þeim málum innan flokksins. Á formaður flokksins ekki að skapa þá umræðu, vera leiðandi innan flokksins í málefninu? Þannig er það ekki í dag. Hver er sýn þín á Evrópusamstarfið, Sigmundur Davíð?

Það hlýtur að teljast sérkennilegt að formaður flokks, sem setur fram jafn metnaðarfulla sýn á Evrópumál og Framsóknarflokkurinn gerði, tjái sig svo ekkert um málið og fylgi því ekki eftir.

Fréttablaðið 09.09.09

 


Með hræðsluna að vopni

EU1ESB vill taka af okkur sjálfstæðið og fullveldið, það vill taka af okkur fiskinn og orkuna. Ísland verður hjáróma og áhrifalaus nýlenda í ESB, Ísland hefur ekkert að gera við Evruna. ESB vill innlima Ísland, landbúnaðurinn hrynur ef Ísland gengur í ESB, Ísland verður ,,fylki í öðru ríki.” Svo segja andstæðingar ESB.

Það er verið að hræða Íslendinga, með ESB, Evrópusambandinu. Andstæðingar ESB-aðildar (og aðildarviðræðna líka!), sjá rautt þegar þeir heyra orðið og mála gjarnan þá mynd af ESB að það sé einskonar hrægammur, sem bíði þess eins að ræna okkur og rupla, eins og víkingar af gamla skólanum. Fátt er hinsvegar sem styður þessa skoðun: Hefur ESB tekið yfir olíulindir Breta? Nei. Skóga Finnlands, járngrýti Svíþjóðar? Nei. Sjávarútveg Möltu. Nei. Og Ísland verður aldrei ,,fylki í öðru ríki,” einfaldlega vegna þess að ESB er ekki ríki, heldur samband sjálfstæðra og fullvalda aðildarríkja.

Það eru einfaldlega ekki hagsmunir ESB að hegða sér með þeim hætti sem andstæðingar þess segja það gera. ESB hegðar sér heldur ekki þannig. Það er andstætt eðli ESB, sem m.a. gengur út að frið, viðskipti, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi. Andstæðingar ESB tala t.d. lítið um jafnréttismálin, mannréttindamál og þá staðreynd að ESB er helsti fjárveitandi á sviði þróunarsðstoðar. ESB hefur t.d. veitt miklu fjármagni í uppbyggingu á Gaza, eftir ,,aðgerðir” Ísraelsmanna á síðasta ári. Einnig veitti ESB tugum milljarða íslenskra króna til uppbyggingar eftir jarðskjálftana á Ítalíu í byrjun apríl.

Orðfæri andstæðinga ESB og aðildar Íslands er oft á tíðum mjög merkilegt. Tökum orðið innlimun, en í fjölmiðlum hafa birst greinar þar sem fullyrt er að ESB vilji ,,innlima” Ísland. Hvað felst í orðinu innlimun? Adolf Hitler innlimaði Austurríki árið 1938 í ,,forleik” hans að seinni heimsstyrjöld. Hinn grimmi einsræðisherra Sovétríkjanna, Jósef Stalín, innlimaði Eystrasaltslöndin (Eistland, Lettland og Litháen) árið 1940 með hervaldi. Þarmeð hófst áratuga kúgun þessara þjóða.

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að ESB ætli að innlima Ísland? Þvílík fjarstæða. ESB er ekki einu sinni með her, til að byrja með. Hvernig ætti ESB að innlima Ísland? Málflutningur af þessu tagi dæmir sig sjálfur og er einungis til þess fallinn að hræða fólk og draga upp mynd af ESB sem einhverri grýlu eða samansafn af vondu fólki með illar áætlanir í ætt við þá tvo náunga sem ég nefndi hér að ofan.

Eystrasaltslöndin losnuðu undan járnhæl kommúnisma í byrjuna níunda áratugar síðustu aldar.  Eftir að hafa losnað undan raunverulegri innlimun notuðu þau nýfengið frelsi til þess að sækja um aðild að ESB, sem fullvalda og sjálfstæð ríki. Og eru þar nú innanborðs, sem fullgildir aðilar.

Göran Persson , fyrrum forsætisráðherra Svía, sem sjáfur leiddi Svía út úr bankakreppu á svipuðum tíma og Eystrasaltsrikin urður frjáls, skrifaði eitt sinn í bók að ,,sá sem skuldar er ekki frjáls.” Þar átti hann við að skuldir binda menn á klafa.

Íslendingar glíma nú við mikinn vanda og miklar skuldir, m.a. vegna gjaldmiðilshruns.

Aðildarviðræður og aðild að ESB munu senda þau skilaboð til umheimsins um að landið ætli að verða eðlilegur hluti af hinni efnahagslegu og pólitísku þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu.

Íslendingar eiga skilið, og rétt á; stöðugleika, nothæfum gjaldmiðli, vera lausir við hávaxtaokur og verðbólgu (þó vissulega sé hún að minnka um þessar mundir), sem hefur verið krónískt vandamál hér á landi. Hlutir af þessu tagi eru sjálfsögð mannréttindi. Fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og komandi kynslóðir. Aðild að ESB er mikilvægur hluti af lausninni.

Við getum ekki farið hrædd inn í framtíðina! Margir andstæðingar ESB vilja greinilega að við leggjum þannig í þá ferð, sjá ekkert jákvætt við ESB og nota því hræðsluáróður sem sitt helsta vopn. En það vopn bítur ekki til lengdar.

MBL, 11.4.09


Tómar sveitir, grein í rúst, engin framtíð?

Um afstöðu íslenskra bænda til ESB, séð frá sjónarhorni neytanda og Evrópusinna.

 

traktor-bondiSé Bændablaðið lesið um þessar mundir, sérstaklega skrif þess um mögulega aðild Íslands að ESB, mætti ætla að allt séað fara norður og niður. Það er að segja ef Íslendingar myndu ganga í ESB. Eitt það fyrsta sem manni dettur í hug við lestur blaðsins er eftirfarandi: Er íslenskur landbúnaður svo veikburða að hann þolir ekki samkeppni? Eða ligga aðrar hvatir að baki, hræðsla við híð óþekkta, sem er jú sterk tilfinning hjá öllum einstaklingum, ekki bara bændum.

 

Vistvænn landbúnaður

Íslenskur landbúnaður er hreinn, tær og vistvænn, við státum okkur jú af nær óspilltri og ómengaðri náttúru, þar sem dýrin ganga um laus, í sátt við Guð og menn. Ég spyr: Leynast sóknarfæri í þessu? Gætu íslenskir bændur með réttum aðferðum, skipulagningu og markvissri markaðssetningu sótt fram á við með þetta að vopni?

 

Fyrirsagnir í fyrsta tbl. Bændablaðsins á þessu ári segja nokkuð mikið um afstöðu bænda: ,,Mjólkuriðnaðurinn mætti ofjarli sínum.” (við hugsanlega aðild að ESB), ,,Í sumum greinum yrði algert hrun” (viðtal við Ernu Bjarnadóttur, sérfræðing Bændasamtakanna í Evrópumálum) og ,,Fullkominn einhugur um andstöðu gegn ESB.” Sjá bændur á Íslandi engar góðar hliðar á mögulegri aðild Íslands að ESB? Yrði aðild aðild dauðadómur yfir landbúnaði og  sveitum landsins, myndi íslenskur landbúnaður leggjast af, fyrir aldur og ævi?

 

Undirritaður bjó í Svíþjóð frá 1996-2007, en Svíar gengur í ESB árið 1995. Því get ég sagt að ég hafi góða reynslu af því að vera ,,sænskur neytandi.” Sænskar landbúnaðarvörur eru með afbrigðum góðar og fjölskyldan þurfti að sjálfsögðu að kaupa landbúnaðarvörur; mjólk, osta, smjör, kjöt o.s.frv. Hægt var að kaupa landbúnaðarvörur frá ýmsum öðrum löndum, t.d. nautakjöt frá Írlandi og Brasilíu, svínakjöt frá Danmörku, jógúrt frá Finnlandi og lax frá Noregi (sem var reyndar sá eini sem var til!).

 

Spurning um traust

Nær undantekningalaust keyptum við sænskar landbúnaðarafurðir, sérstaklega þegar um var að ræða nautakjöt. Mjólkin sem við keyptum var án undantekninga sænsk. Sama má segja um kjúklingakjöt, sem var mikið keypt. Af hverju? Jú, við treystum sænskum landbúnaði, vissum að þar voru á ferð bændur sem unnu af metnaði og varan framleidd við góðar, nútímalegar aðstæður, þar sem farið er eftir lögum og reglum, eftirlit er gott o.s.frv.

 

Ef t.d. innflutningur á mjölk yrði gefin frjáls, reikna þá íslenskir mjólkurbændur þá með því að íslenskir neytendur steinhætti að kaupa íslenska mjólk og mjólkurafurðir? Ég efast um það. Þá má benda á að mjólk er ferskvara og hentar ekki mjög vel til flutninga langar vegalengdir. Sama tel ég að ætti við um íslenskt kjöt, íslenskir neytendur myndu að öllum líkindum halda sig við íslenskt kjöt. Væri t.d. ekki ráð að Bændasamtökin myndu kanna hug neytenda til íslenskra afurða, með hugsanlega aðild að ESB i huga?  Ég held að íslenskt kjöt myndi skora hátt í slíkri könnun.

 

Við lestur Bændablaðsins (sem annars er stórskemmtilegt blað!) kemur fram að Finnar hafi náð sérstaklega góðum landbúnaðarsamningum við ESB (betri en Svíar), en Finnar gengu í ESB samhliða Svíum. Væri þá ekki ráð fyrir íslenska bændur að taka samning Finna sér til fyrirmyndar og aðlaga hann, bæta við og breyta kröfum í samræmi við íslenskar aðstæður? Skoða hlutina með opnum huga, en ekki afgreiða málið strax með ,,Nei, Nei, Nei?”

 

Að finna lausnir

Fyrir skömmum var hér í heimsókn Pekka Pesonen, fsem er framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna, COPA-Cogeca. Hann sagði meðal annars að það væri alls ekki í þágu ESB að vinna gegn landbúnaði í Evrópu: „Það væri ekki hagur evrópsks landbúnaðar, ekki heldur íslenskra stjórnvalda eða evrópskra stofnana að landbúnaður ykkar þurrkaðist út,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið (4.2.09). Í máli hans kom fram að það væri mikið undir stjórnvöldum og hagsmunasamtökum að sjá til þess að hagsmunum greinarinnar yrði náð fram í aðildarviðræðum, kæmi til þeirra. ,, Þegar Finnar gengu í ESB var það markmið stjórnvalda að finna lausn til að styrkur finnsks landbúnaðar yrði tryggður við inngönguna. Hefði það ekki verið gert værum við nú illa stödd sem landbúnaðarsamfélag,“ segir í sömu frétt Morgunblaðsins.

 

Einnig vil ég nefna nokkuð sem Erna Bjarnadóttir segir í viðtali í 1.tbl. 2009: ,,Það er t.d. líklegt að sterkir aðilar taki sig t.d. til og bjóði tilteknar afurðir á lágu verði þann tíma sem tekur að ryðja innlendum framleiðendum af markaði og nýti sér síðan stöðuna síðar meir...til að verðleggja viðkomandi vöru með öðrum hætti.” Eru þetta ekki sömu rök og talsmenn sjávarútvegsins nota þegar þeir segja að ,,miðin við Ísland muni fyllast af erlendum togurum, sem ryksuga upp allan fiksinn okkar.” Hér er verið að gefa í skyn að innan ESB séu aðilar með allt að því glæpsamlega plön í huga, sem eigi þá ósk heitasta að knésetja íslenska framleiðendur.

 

Með mögulegri aðilid þyrfti að sjálfsögðu að stórefla allt eftirlit, t.d. til að koma í veg fyrir að svona hlutir myndu gerast. Það þyrfti s.s. að setja varnagla á hinum ýmsu sviðum, rétt eins og ýmis lönd hafa gert. Dæmi um slíkt er að Maltverjar gáfu út ákveðin vottorð eða gæðastimpil út til þeirra fyrirtækja, sem á móti lofuðu að hækka ekki verð á afurðurðum sínum, til þess að halda aftur af verðhækkunum. Stórsnjallt og skynsamlegt.!

 

Kaupum það sama

Að lokum vil ég endurtaka rök mín fyrir þeirri skoðun minni hversvegna ég tel að breytingarnar yrðu fyrir íslenskan landbúnað myndu ekki verða eins miklar og menn vilja vera láta. Þau eru þessi: Það er líklegast að ég kaupi það í dag, sem ég keypti í gær! Flestir neytendur koma sér upp ákveðnu neyslumynstri og halda sér í flestum tilfellum við það. Langflestir neytendur eru m.ö.o. íhaldssamir. Með markvissum aðgerðum tel ég einnig að íslenskir bændur gætu ,,haldið” vel í sína íslensku neytendur.

 

Einnig er mjög líklegt að vextir, verðlag og verðbólga myndu lækka við inngöngu í ESB, það er allavegana reynsla bæði Finna og Svía. Það myndi væntanlega þýða lækkun á framleiðsluverði hjá bændum, m.a. vegna lægra verðs á áburði, aðföngum o.s.f.rv. Þar með myndu rekstrarskilyrði þeirra batna, sem myndi leiða til möguleika á verðlækkunum til neytenda og þar með aukinnar samkeppnishæfni.

 

Bændur, rétt eins og aðrir þurfa að athuga ESB-málið. Mesta mögulega víðsýni, tel ég vera ,,réttu gleraugun,” því undirritaður er sannfærður um að möguleg aðild Íslands að ESB myndi verða hvatning til íslenskra bænda að gera enn betur og framleiða enn betri, vistvænar afurðir, fyrir nútíma neytendur.

 

Höfundur er neytandi og stjórnmálafræðingur og situr í stjórn Evrópusamtakanna.

Birt í Bændablaðinu, í lok febrúar 2009.


Árangur Svía í ESB góður

 

C-BildtÞEGAR Svíar gengu í ESB árið 1995, ásamt Finnum og Austurríkismönnum, var landið að komast út úr einni verstu bankakreppu sögunnar. Samtök sænsks atvinnulífs (Svenskt Näringsliv), voru leiðandi afl í umræðunni um ESB-aðild Svía og höfðu þar mikil áhrif.

 

Árið 2003, þegar Svíþjóð hafði verið átta ár í ESB gerðu Samtök atvinnulífsins í Svíþjóð skýrslu um reynslu Svía af ESB-aðildinni fyrstu átta árin, þ.e.a.s. frá 1995-2003. Úr henni má lesa að áhrif inngöngunnar hafa verið mjög jákvæð. Í stuttu máli voru þau þessi: Aukinn hagvöxtur, lægri verðbólga og vextir, aukinn kaupmáttur og hóflegri verðhækkanir, aukinn stöðugleiki og agi í opinberum fjármálum, meiri verslun og viðskipti á einfaldari hátt, sem og auknar fjárfestingar.

 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að frá 1995 jókst landsframleiðslan í landinu um 70-110 milljarða sænskra króna árlega, umfram það sem hún annars hefði gert. Árleg landsframleiðsla var á þessum árum um 2000 milljarðar sænskra króna. Þetta þýddi því 0,4-0,7% meiri hagvöxt (á ári) en ef landið hefði verið fyrir utan ESB. Álíka niðurstöður fengust fyrir Danmörku og Austurríki. Í henni voru Svíþjóð, Finnland og Austurríki (ESB-lönd) borin saman við Ísland, Noreg og Sviss (ekki ESB-lönd). Þar kom fram að hagvöxtur hinna fyrrnefndu var meiri en hinna þriggja síðarnefndu á árunum 1995-2001.

 

Þá hafði aðild Svía að ESB einnig í för með sér umtalsverðar launahækkanir fyrir launamenn og það sem kannski enn mikilvægara er; verðbólga nánast hvarf. Frá því að vera um 7,5% að meðaltali árin 1980-1994, snarminnkaði hún niður í um eitt prósent(!) eftir aðild að ESB og hélst þannig árin 1995-2000. Allt fram á síðasta ár, þegar „krísan“ skall á, var verðbólga í Svíþjóð á bilinu 1-2%. Tók reyndar stökk í 4% í nóvember í fyrra, en hefur minnkað mikið og er nú aftur komin í um 1%. Einnig hafa vextir verið mjög lágir á þessu tímabili, reyndar með þeim lægstu í Evrópu. Vart er hægt að hugsa sér betri kjarabót en lága vexti og lága verðbólgu. Nokkuð sem Íslendingar eiga því miður ekki að fagna en í byrjun árs 2009 var verðbólga hér á landi 18,1% og stýrivextir 18%! Vaxtamunur milli Svíþjóðar og annarra landa, t.d. Þýskalands minnkaði því mikið. Samkeppni hefur aukist og verð á matvöru lækkað, þó svo að matarverð sé enn nokkuð hærra í Svíþjóð heldur en meðaltalið í ESB. Munurinn hefur verið í kringum 10-15%.

Í byrjun níunda áratugarins var almennt verðlag hins vegar 40-50% hærra í Svíþjóð en í ESB, en lækkaði um meira en helming eftir inngöngu. Almennt jókst kaupmáttur Svía eftir aðild að ESB. Agi hefur aukist í fjármálum sænska ríkisins, sem stefnt hefur að því á hverju ári að leggja fram fjárlög í jafnvægi („budget-i-balans“). Lágt vaxtastig hefur minnkað fjárfestingarkostnað sænskra fyrirtækja. Það varð því ódýrara fyrir þau að fjárfesta. Erlendar fjárfestingar jukust einnig á tímabilinu frá 1995-2003 og sama má segja almennt um verslun og viðskipti.

 

Annað sem nefnt er og er að mati samtakanna mikilvægt eru áhrif. Með inngöngu hafa Svíar orðið að „rödd“ innan ESB í stað þess að vera á hliðarlínunni, eða eins og segir í skýrslunni: „Með aðild hefur Svíþjóð nú áhrif á öllum þeim málasviðum sem um er að ræða í ESB.“ Sem dæmi má nefna að Fredrik Reinfelt, forsætisráðherra Svía, verður sérstakur „loftslagsráðherra“ ESB árið 2009. Loftslagsmál eru eitt af mikilvægustu framtíðarverkefnum ESB. Svíþjóð tekur síðan við formennsku ESB af Tékkum í sumar.

 

Svíþjóð er vissulega ekki með evruna, en í bókinni „Tíu ár í ESB“ frá 2005 metur Carl Bildt (mynd), núverandi utanríkisráðherra og fyrrum leiðtogi Moderaterna, „sænska Sjálfstæðisflokksins“, það svo að sú viðleitni Svía að uppfylla Maastricht-skilyrðin hafi verið mjög mikilvæg til að endurheimta traust á sænsku efnahags- og stjórnmálakerfi. „Hefðum við staðið fyrir utan þetta, hefði sá vegur verið mun erfiðari,“ skrifar hann í grein sinni.

 

Hér hafa aðeins verið tíndir til nokkrir punktar sem sýna fram á jákvæð áhrif af aðild Svía að ESB. Þrátt fyrir að margir Svíar láti í ljós efasemdir um ESB, dettur fáum í hug að segja sig úr sambandinu. Umhverfisflokkurinn sænski henti meðal annars þeirri kröfu á haugana fyrir nokkrum vikum. Núverandi borgaralega ríkisstjórn Svíþjóðar hefur aukið virkni sína gagnvart ESB. Ráðandi afl þar innanborðs er sænski hægriflokkurinn, systurflokkur Sjálfstæðisflokksins. Þessi áhersla sænska „Sjálfstæðisflokksins“ á sterk alþjóðleg tengsl og virkni í alþjóðamálum ætti að vera umhugsunarefni fyrir alla alþjóðlega þenkjandi sjálfstæðismenn á Íslandi. Ótvírætt er að Svíar hafa náð miklum árangri með inngöngu sinni í ESB.

Birt í MBL, 18.2.2009


Ber er hver að baki...

Ísland er eitt elsta lýðræðisríki í heimi. Um 70-80% prósent af útflutningi okkar fer til Evrópu, stærstur hluti þess fiskjar sem við veiðum er seldur til Bretlands. ESB er samband 27 lýðræðisríkja, gamalla og nýrra. Ísland tilheyrir því þessari hefð, Íslendingar eru Evrópubúar, samskipti okkar og Evrópu eru náin, það sést hvar sem litið er yfir íslenskt samfélag. Ísland þarf varanlega tengingu við Evrópu til framtiðar. Þróun heimsmála ýtir einnig undir það. Hugmyndir Olli Rehn sýna einfaldlega að úti í Evrópu eigum við velunnara, sem vilja aðstoða okkur í þeim hremmingum sem við nú glímum við. ESB hefur á engan hátt tjáð þá ósk sína að taka yfir sjávarauðlindir okkar eða orkuna okkar. Hvaða hagsmuni hefði ESB af því? Að ætla slíkt er einfaldlega barnaskapur. ESB er með þessum hætti að bjóða okkur aðstoð, nokkuð sem við virkilega þurfum á að halda. Vandamálin er á slíkum skala. Spyrjiði Finna og Svía!

 


mbl.is Fengjum forgang inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hóplögsóknir

MÁLEFNI sparifjáreigenda hafa verið í brennidepli eftir hrun íslenska bankakerfisins. Enda ekki nema von þar sem fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hefur tapað stórfé. Í fréttum undanfana daga hefur eyjunni Mön skotið upp á yfirborðið. Þar búa 10.000 manns. Meðal annars margir viðskiptavinir „gamla“ Kaupþings (nú er allt „nýtt“ á Íslandi, m.a. landið sjálft!).

Í fréttum þessum kom fram að óánægðir viðskiptavinir Kaupþings á Mön hefðu ráðið sér lögmann til þess að fara með mál sitt. Ef ég skil þetta rétt er um sk. „hóplögsókn“ að ræða.

Undirritaður hefur verið að hugsa þessi mál upp á síðkastið vegna allra þessara peningasjóða. Þannig er nefnilega að hér á landi er (að mér skilst) ekki hægt að fara í svokallaða hóplögsókn. Víða á Norðurlöndunum er það hægt, m.a. í Svíþjóð, þar sem undirritaður bjó þar til í fyrrasumar. Neytendur/viðskiptavinir geta því myndað hóp gegn þeim aðila sem þeir vilja stefna. Staða neytandans/viðskiptavinanna er því mun sterkari en ella. En ekki hér á landi.

Þetta er aðeins ein sönnun þess hve neytendalöggjöfin og neytendamál eiga langt í land hérlendis. Hér verður hver og einn að berjast í sínu máli. Oft gegn ofurefli. Leikurinn er ekki jafn. Atburðir undanfarið sýna hins vegar svo ekki verður um villst að endurbætur þarf að gera á þessum málum. Réttarstöðu fólks verður að bæta.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur.

MBL 26-11-08


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband