14.8.2023 | 17:00
Innflytjendur gera Ísland ríkara
"Trúin á manninn og frelsisþrá hans er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar. Frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, frjálst framtak, frjáls verslun og frelsi einstaklinganna eru kjarni sjálfstæðisstefnunnar. Samtímis leggur sjálfstæðisstefnan mikla áherslu á að tryggja afkomu þeirra og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Með öðrum orðum; tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar. Áherslan er að hjálpa þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar, þar sem það er nokkur kostur."
Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru þessi orð tekin af heimasíðu stærsta stjórnmálaflokks Íslands, Sjálfstæðisflokksins, og ber þessi kafli heitið "Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn." Feitletrun tilvitnunar er á ábyrgð höfundar þessarar greinar, reyndar væri svo sem hægt að feitletra hana alla.
Því það er ótrúlega þversagnarkennt að flokkur með þessa stefnu skuli vera sá flokkur sem mest ræðir það hvernig koma megi í veg fyrir að hingað komi fólk sem er að leita að frelsi frá stríði, kúgun og öðrum hörmungum. Fólk sem vill skapa sér nýtt líf og finna lífshamingju.
Nýleg lög um innflytjendur eru gott vitni um tilburði í þá áttina, en í þeim eru ákvæði sem ríma illa við sjálfstæðisstefnuna. Í lögunum felst kerfisbundin mismunun gagnvart hælisleitendum og var helsta breytingin sú að allur réttur hælisleitenda til þjónustu, t.d. læknisþjónustu fellur niður eftir 30 daga, þegar viðkomandi hefur fengið synjun á landvist.
Alvarlegar athugasemdir
Þegar frumvarpið var í umsagnarferli fram voru neikvæðar umsagnir um frumvarpið í yfirgnæfandi meirihluta. Læknafélag Íslands gerði meðal annars alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, telur það brjóta í bága við "Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna" - að það mismuni útlendingum gróflega. Engu að síður var það keyrt í gegn, svo að ráðherra málaflokksins þyrfti ekki að bíða "pólítískan ósigur." Hörkutólin gengu því sátt frá borði.
Innflytjendum hefur fjölgað hér á landi, sem og þjóðinni allri. Við erum orðin um 395.000 og þar af eru innflytjendur hátt í 20%, jafnvel meira. Fæðingatíðni hérlendis er hins vegar nú sú lægsta síðan mælingar hófust, var í fyrra aðeins um 1,6 barn pr. konu, en var 4.0 börn í kringum 1950. Þetta er samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar of lítið til að viðhalda þjóðinni. Hvaðan á vinnuaflið þá að koma ef við "framleiðum" það ekki sjálf? Þetta vandamál er til staðar í fleiri ríkjum í Evrópu, fæðingartíðni í ESB var að meðaltali um 1,53 börn pr. konu árið 2021. Er þetta ein af stóru áskorunum framtíðarinnar. Framleiði þjóðir ekki sjálfar sína "vinnandi hendur", þá verða þær að koma utan frá. Það segir sig eiginlega sjálft.
Einsleita Ísland ekki til lengur kemur ekki aftur
Ísland hefur breyst í grundvallaratriðum á síðustu 20 árum eða svo, innflytjendur eru staðreynd og "gamla einsleita ísland" er ekki til lengur. Það mun ekki snúa aftur, sama hvort menn básúni það, samkvæmt einhverri óskilgreindri fortíðarþrá, tímanum verður ekki snúið við. Innflytjendamálin eru "nýja herstöðvarmálið" en á seinni hluta 20.aldar var dvöl og viðvera bandaríska hersins í Keflavík, það mál sem klauf þjóðina einna mest og olli miklum pólitískum deilum. Nú eru það innflytjendur.
Með tærnar upp í loft?
En eru allir þessir innflytjendur með tærnar upp í loft og lifa þeir bara á "bísanum" (bótum) eins og sagt er? Aldeilis ekki, því komið hefur í ljós að atvinnuþátttaka innflytjenda er hlutfallslega meiri en innfæddra. Það hlýtur að teljast merkilegt.
Til að mynda er það vitað mál að innflytjendur og fólk af erlendu bergi brotið, heldur uppi ferðamannaþjónustu hér á landi að stórum hluta. Fjölmargir innflytjendur vinna einnig í öðrum þjónustugeirum. Allt þetta fólk vinnur hér baki brotnu og borgar sína skatta, rétt eins og aðrir vinnandi Íslendingar. Fróðlegt er að stilla saman tölum um til dæmis skatttekjur ríkissjóðs af vinnuframlagi innflytjenda á móti kostnaðinum við málaflokkinn. Og fleiri tölum, skoðum málið:
Raka inn skatttekjum
Árið 2022 voru skatttekjur ríkissjóðs alls um 950 milljarðar króna. Samkvæmt gögnum frá Hagsjá Landsbankans árið 2019 voru innflytjendur þá um 19% af vinnuafli hér á landi. Líklegt er að þeim hafi fjölgað enn frekar fram til dagsins í dag, en við skulum gefa okkur töluna 20% sem viðmið. Það þýðir að innflytjendur stóðu fyrir um allt að 190 milljörðum af skatttekjum íslenska ríkisins árið 2022.
Á móti kemur vissulega kostnaður vegna málaflokksins, en hann er talinn vera nokkrir milljarðar króna, segjum 8-10 milljarðar. Til samanburðar var hagnaður bankanna á fyrstu sex mánuðum þessa árs um 40 milljarðar. Þá var hagnaður útgerðarinnar árið 2021 um 65 milljarðar.
Niðurstaðan er þessi; framlag innflytjenda til samfélagsins er margfalt meira heldur en kostnaðurinn við þá, eða vegna þeirra eða mæstum tuttugufalt miðað við tölurnar hér að ofan um skatttekjur ríkisins.
Atvinnustig og atvinnuþátttaka hér á landi er nú með því mesta sem gerist, en það þýðir aðnánast allir þeir þeir sem geta og vilja vinna, geta unnið. Atvinnuleysi um þessar mundir er því mjög lágt. Langflestir innflytjendur taka því mjög virkan þátt í íslensku samfélagi og í þeirri verðmætasköpun sem á sér stað.
Höfum skyldum að gegna
Í grein sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, skrifaði þann 30.júlí síðastliðinn í Morgunblaðið, kom fram að um þessar mundir eru um 110 milljónir á flótta í heiminum. Stór hluti þessa hóps eru konur og börn.
Þórdís Kolbrún segir að Ísland hafi "skyldum að gegna, sem eitt af ríkjum heims sem búa við mestu efnahagslegu velsældina og friðsælasta umhverfið." Þá segir hún enn fremur að Ísland eigi að vera "hreyfiafl til góðs" og..."á að hafa sjálfstraust til þess að axla ábyrgð sem fylgir því að vera velmegandi og friðsælt ríki sem getur lagt sitt af mörkum." Og af velgengni virðist vera nóg á Íslandi, hagvöxtur í fyrra var um 6,4%, nánast "kínverskar tölu" í þeim efnum. Ísland er ríkt land.
Í ljósi þessara orða er því erfitt að skilja aukna hörku og nánast kerfisbundin mannréttindabrot í innflytjendamálum. Rökin fyrir þessari auknu hörku hafa meðal annars verið þau að "við verðum að vera eins og hin Norðurlöndin." En er það bara nóg?
Vandamál okkar vegna innflytjenda eru aðeins að litlu leyti sambærileg við til dæmis vandamál Dana og Svía. Raunar á greinarhöfundur erfitt að sjá mikið af "vandamálum" vegna innflytjenda hérlendis, einfaldlega vegna þess að þeir eru flestir úti á vinnumarkaðnum, á fullu að skapa hagvöxt fyrir Ísland. Það er helst Reykjanesbær sem kemur til tals í umræðunni, enda álagið þar verið mikið, vissulega. Mikið mæðir einnig á Reykjavík, enda hafa sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu lengi verið mjög treg til þess að taka á móti hælisleitendum. Vandamálin leysast þó fljótt ef fólk fær til dæmis vinnu og stað til að búa á.
"Vilja allir vinna"
Undirritaður þekkir persónulega dæmi af innflytjendum sem voru að læra íslensku hér í vetur. Eru þeir frá Venesúela, landi sem er nánast að hruni komið vegna spillingar og efnahagskerfis í anda kommúnisma sem ekki virkar og er bókstaflega að ganga frá landinu. Þar ræður öllu sá sem kalla mætti "einræðisherra" landsins, Nicolas Maduro, forsetinn. Hann hikar ekki við að bæla mótmæli niður með ofbeldi og kúgun. Ástand sem varað hefur árum saman og lamar samfélagið.
En af hverju voru flóttamennirnir að læra íslensku? Jú, til þess að geta unnið hér á landi! Kennari þeirra (sem ég þekki einnig) sagði mér að ALLIR í hópnum ættu þá þrá heitasta að vinna fyrir sér, sjá sér farborða. Er þetta ekki það sem við viljum sem samfélag? Vinnandi hendur? Og að læra tungumálið er alger grunnforsenda þess að geta tekið þátt í því samfélagi sem þú býrð í. Þar komum við að hlut menntakerfisins í þessum efnum, sem er óumdeildur.
Íslendingar líka verið flóttamenn
Afstaða þessa fólks er aðdáunarverð. Hingað er það komið, með frjálsu framtaki, til að skapa sér nýtt líf, öðlast ný tækifæri. Rétt eins og þær 50 milljónir manna sem flúðu hungur og örbirgð í Evrópu og fóru til Vesturheims, á tímabilinu frá seinni hluta 19.aldar, til ársins 1914. Þar á meðal voru þúsundir Íslendinga. Engum dettur úr hug að gera lítið út þessum ferðum í dag, þetta fólk var að reyna að bjarga sér og öðlast nýtt líf. Og þótti bara sjálfsagt mál.
Sama gerðu einnig þær þúsundir Íslendinga sem flúðu land eftir efnahagshrunið 2008, meðal annars til Norðurlandanna. Því er í raun mjög stutt síðan við vildum láta önnur ríki taka okkur opnum örmum vegna þeirra efnahagslegu hamfara sem dundu yfir landið í Hruninu. Þá vorum við hjálparþurfi. Um 8000 manns fluttust bara til Noregs á árunum eftir hrun. En það var jú einmitt þaðan sem við komum til að byrja með í kringum árið 870 eftir Krist.
Tungumálið er lykillinn
Best væri að skapa hér á landi aðstæður fyrir fólk, þannig að það geti með auðveldustum hætti lært tungumálið okkar, sem er lykillinn, og síðan fengið sér atvinnu. Því það er dagljóst að innflytjendur og framlag þeirra til samfélagsins er gríðarlega mikilvægt og án þeirra værum við einfaldlega ekki stödd þar sem við erum í dag. Í þessu hópi er falinn mikill mannauður og með tungumálanámi verður aðlögunin mun auðveldari.
Framlag innflytjenda gleymist mjög gjarnan í umræðunni og mun meiri áhersla að lögð á vandamálin sem og "hörku" og "ákveðni" einstakra ráðherra, sem þurfa að sýna af sér "dug" í starfi. Þeir þurfa að koma einhverju í verk, mega ekki sýna af sér neina linkind. Að minnsta kosti virðist það vera leiðarstefið þessi misserin. En er það mikilvægara en velferð þeirra sem hingað leita til að öðlast frelsi, atvinnu og leita lífshamingju? Frjálsir frá kúgun, stríði, fátækt og örbirgð?
(Grein þessi birtist fyrst á vef Heimildarinnar, hér örlítið uppfærð)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2023 | 13:25
Kval(ið)kjöt
Eitt stærsta fréttamálið undanfarna daga hefur verið sú ákvörðun matvælaráðherra að fresta hvalveiðivertíð Hvals h/f fram í lok ágúst á þessu ári. Sú ákvörðun hefur verið bæði harðlega gagnrýnd en henni hefur einnig verið fagnað.
Hvalveiðar hafa verið stundaðar í nokkur hundruð ár í kringum Ísland, af fjölmörgum Evrópuþjóðum og öðrum en okkur, t.d. Hollendingum, Spánverjum (Baskar) og Norðmönnum. Í hvölum var að finna lýsi og aðrar verðmætar afurðir. Lýsi var meðal annars notað í matvöru, sprengiefni, sápur og ilmefni.
En svo kom rafmagn, jarðhiti og vatnsaflsvirkjanir, Ísland færðist inn í nútímann, sem og aðrar þjóðir, neysluvenjur breyttust, og hvalveiðar annarra þjóða hér við land hættu smám saman, eða um árið 1915 á síðustu öld.
Nema hjá Hval h/f, en fyrirtækið var stofnað árið 1949 og hóf aftur hvalveiðar. Helsti eigandi þess nú er Kristján Loftsson, sem er sex árum eldri en fyrirtækið. Ýmislegt bendir til þess að hann hafi í gegnum tíðina haft sterk pólitísk Ítök hér á landi, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins.
Áratugina eftir stofnun Hvals h/f voru miklar veiðar í gangi á sumrin (hvalveiðar eru ekki heilsársstarfsemi) og fleiri hundruð dýr voru veidd þegar mest lét. Miklir tekjumöguleikar fylgdu hvalveiðunum.
Hvalveiðar voru bannaðar árið 1989, en "vísindaveiðar" hófust árið 2003 og þremur árum síðar voru veiðar leyfðar aftur hér á landi í atvinnuskyni. En það var einmitt Einar K.Guðfinnson, þáverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem skrifaði árið 2006 undir reglugerð sem leyfði hvalveiðar aftur í atvinnuskyni.
Borða Íslendingar mikið af hvalkjöti? Samkvæmt könnun sem Gallup gerði árið 2016 sagðist aðeins 1,5% aðspurðra kaupa hvalkjöt sex sinnum eða oftar á ári. Ekki sést mikið af hvalkjöti í kjötborðum stórmarkaða á Íslandi. Neyslumynstur landans er allt annað nú en fyrir segjum, hálfri öld síðan.
Neyslan í Japan hverfandi
Okkur er sagt að það sé markaður fyrir hvalkjöt í Japan og af fréttum má skilja að Hvalur h/f sem Kristján Loftsson á, flytji allt sitt kjöt þangað. En hversu mikil er neyslan þar?
Samkvæmt frétt á CNN, sem byggði á opinberum gögnum nam neysla á hvalkjöti í Japan árið 2021 alls 1000 tonnum. Á sama tíma var neysla á kjúklingi rúmlega tvær milljónir tonna og nautakjöti um 1.3 milljónir tonna.
Neysla á hvalkjöti náði hámarki í Japan árið 1962, alls um 230.000 tonn, en neyslan á því tengdist á sínum tíma aukinni þörf fyrir prótein eftir seinni heimsstyrjöld, sem Japan fór mjög illa út úr.
Það má því álykta að hvalkjötsneysla sé einungis brotabrot af fæðuinntöku Japana. En samkvæmt opinberum upplýsingum flutti Hvalur h/f út um 2500 tonn af hvalkjöti til Japan í fyrra, eða því næstum þrisvar sinnum ársneyslu ársins 2021, samkvæmt þessu.
Í fréttum RÚV þann 24.júní síðastliðinn var rætt við japanskan háskólaprófessor á hvalaráðstefnu á Húsavík (Hvalasafninu), sem sagði vera skort á hvalkjöti til framleiðenda í Japan og að "vandamál" myndu skapast á mörkuðum í Japan ef Ísland flytti ekki út hvalkjöt til landsins. Hverju á maður eiginlega að trúa? Er s.s. búið að borða allt hvalkjötið sem flutt var héðan í fyrra? Hefur hvalkjötsneysla Japana tekið skyndilegan kipp? Þetta er rannsóknarefni fyrir íslenska fjölmiðla.
Umdeildar aðferðir helsta bitbein
Mesti hitinn í kringum ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur er í raun vegna þeirra aðferða sem notaðar eru til þess að taka hvalina af lífi. Dæmi eru um margra klukkutíma dauðastríð og eltingaleik við risaskepnu með skutul í skrokknum. Þá eru einnig dæmi um dýr sem slapp með skutul í sér og hefur ekki sést síðan. Það dýr átti væntanlega ekki sjö dagana sæla eftir það og hefur sennilega dáið hægum og kvalafullum dauðdaga. Þessir hlutir komu í ljós við opinbert eftirlit með veiðunum.
Er það þetta sem við viljum? Viljum við bera "kvalið kjöt" kjöt á borð fyrir aðrar þjóðir og selja það fullu verði? Er hægt að vera stoltur af slíkum útflutningi? Maður spyr sig.
Fyrr á þessu ári fékk íslenskt lambakjöt sérstaka upprunavottun Evrópusambandsins, en slíka viðurkenningu fær aðeins kjöt sem er hágæða, alið og upprunnið hér á landi. Eykur þetta virði kjötsins og er allsherjar gæðastimpill. Flott fyrir íslenska bændur. Gæti íslenskt hvalkjöt fengið slíka vottun? Nei, það verður að segjast eins og er að það er afar fjarlægur möguleiki, hann er eiginlega úti á hafsauga.
Grein þessi birtist fyrst á www.visir.is 27.6.2023.
Mynd: Hvalstöðin í Hvalfirði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2023 | 16:59
Sigurdagur í skugga stríðs
Það verður frekar lítið um dýrðir í Rússlandi á Sigurdeginum árið 2023 á morgun, miðað við fyrri ár, en nú mun hann falla í skugga innrásarstríðs Rússa í Úkraínu.
Sigurdagurinn er goðsögn í Rússlandi, en þá er þess minnst hvernig Sovétmenn stökktu nasistum á flótta og unnu að lokum sigur á þeim, með því að hertaka Berlín, ásamt öðrum þjóðum í liði Bandamanna í seinni heimsstyjröldinni.
Á forsetaferli sínum hefur Vladimír Pútin haft það sem sérstakt markmið að upphefja þennan dag enn frekar, en sjálfur er hann kominn af fólki sem bæði er fórnarlömb og barðist við nasista, t.a.m faðir hans, sem særðist.
Einn áhrifamesti þáttur hátíðarhalda þann 9.maí hvert ár í Rússlandi er "herdeild hinna ódauðlegu en þá ganga Rússar saman í göngum í bæjum og borgum með myndir af ástvinum sem særðust eða féllu í baráttunni gegn nasistum. Rússar misstu allt að 25 milljónir í seinna stríði, hermenn og almenna borgara.
Nú bregður hins vegar svo við að bæði sjálfum hátíðaröldunum hefur verið frestað í fjölda borga í Rússlandi og í Moskvu hefur þessi hluti hátíðarhaldanna verið sleginn af, vegna "öryggisástæðna".
Árin 2015-19 þrammaði Pútín sjálfur glaðbeittur með mynd af föður sínum, en í fyrra var fólk hvatt til að koma með myndir af hermönnum sem hafa fallið í Úkraínu, en þar hafa átök í raun geysað frá 2014. Talið er að mannfall Rússa sé í tugum þúsunda manna.
Og auðvitað er stríðið í Úkraínu farið að hafa djúpstæð áhrif á Rússland og rússneskt samfélag. Margir sem fylgjas með atburðum í Rússlandi telja að verið sé að "stríðsvæða" meira og minna allt efnahagskerfi Rússlands, að fyrirtæki séu í sífellt meira mæli að framleiða hluti sem nýtast í stríðinu í Úkraínu.
Kúgun almennings heldur líka áfram og einn þekktasti sérfræðingur Svía á þessu sviði, Gudrun Persson, sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið þann 7.maí síðastliðinn að Rússland væri að verða það sem hún kallaði "ný-stalínístískt".
Sem dæmi nefndi hún nýlega forsetatilskipun sem leyfir nauðungarflutninga á fólki frá Úkraínu. Tilskipunin virkar þannig að nú er íbúum fjögurra hernumdra svæða í A-Úkraínu (Donbas) gefinn kostur á því að verða rússneskir þegnar.Þeir sem hins vegar neita að skrifa undir það fyrir 1.júlí 2024 verði álitnir "erlendir ríkisborgarar" og eiga því brottflutning á hættu. Einnig má samkvæmt þessari tilskipun flytja fólk á brott sem talið er vera "ógn við öryggi landsins" og eða sem tekur þátt í "ólöglegum samkomum". Álíka gerði Stalín eins honum væri borgað fyrir það!
Annað sem Gudrun Persson nefndi er að fangelsisdómar gegn stjórnarandstæðingum séu orðnir eins og á Stalíntímanum. Hér er hún að vísa í 25 ára fangelsisdóm yfir stjórnarandstæðingnum Vladimír Kara-Murza, sem kveðinn var upp um miðjan apríl. Hann var ákærður fyrir landráð, að hafa dreift "fölskum upplýsingum" um rússneska herinn og að hafa verið í tengslum við það sem kallað er "ósæskileg samtök."
Landráðadómum hefur einnig fjölgað gríðarlega í Rússlandi, þeir eru á þessu ári orðnir fleiri ena allt árið í fyrra, að sögn Persson.
Allt ber þetta að sama brunni: Rússland er orðið eitt mesta ríki kúgunar og ógnar sem til er í heiminum. Frá upphafi innrásarinnar hefur allt að 20.000 mannst verið stungið í fangelsi eða handtekið fyrir það eitt að mótmæla stríðinu, sem er orð sem bannað er að nota opinberlega.
Öryggisþjónustum landsins er beitt til hins ítrasta, þær eru margar og í raun veit enginn hversu margir starfa hjá þeim, en við erum að tala um milljónir manna; FSB (arftaka KGB), SVR, GRU, GUSP, FSO, hið tiltölulega nýja Þjóðvarðlið og fleiri, alls um 14 mismunandi aðilar eða stofnanir. Allt til þess að passa upp á völd Pútíns og klíku hans.
En þrátt fyrir allt þetta og risastóran her gengur stríðið illa og Pútín hefur engar "góðar" stríðssögur að segja rússnesku þjóðinni. Rússum hefur t.a.m. ekki enn tekist að ná yfirráðum yfir smáborginni Bakmút, sem mikið hefur verið í fréttum og þar barist í marga mánuði. Meira að segja er talið að þar séu nú liðsmenn einkahersins "Wagner í vandræðum þar vegna skorts á skotfærum.
Sigurdagurinn 2023 er því kannski orðinn að andhverfu sinni?
Bloggar | Breytt 10.5.2023 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2023 | 19:59
SA og ESB kominn tími á endurmat?
Sífellt fleiri hér á landi vilja athuga að nýju möguleikann á aðildarviðræðum og aðild að ESB, Evrópusambandinu. Í könnun sem Maskína gerði í desember í fyrra, kom fram að 66% þeirra sem tóku afstöðu eru fylgjandi því að hefja viðræður um aðild Íslands að ESB. Í annarri könnun, einnig frá Maskínu, frá í febrúar á þessu ári kom fram að 53.3% þeirra sem tóku afstöðu voru fylgjandi aðild að ESB.
Um 99% rýrnun krónunnar
Í umræðunni um ESB hafa andstæðingar aðildar verið duglegir að benda á að krónan okkar hafi nú reynst vel og að aðild að ESB komi ekki í veg fyrir verðbólgu. Þeir gleyma hins vegar tveimur afar mikilvægum staðreyndum. Sú fyrri er að íslenska krónan hefur frá árinu 1920 tapað um 99% andvirði sínu og að meðalverðbólga hér á 20.öldinni var um 20% á ári. Á árunum 1968-1979 var hún t.d. á bilinu 45-85%.
Með aðild að stærra myntsvæði eru yfirgnæfandi líkur á að þetta muni ekki gerast. Eða eins og segir í frétt Morgunblaðsins um þetta frá í desember 2010: ,,Saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi er því þyrnum stráð allt frá upphafi, óháð því hvernig gengis- og peningastefnan hefur verið útfærð, segir í nýrri skýrslu sem Seðlabankinn hefur unnið og skilað til efnahags-og viðskiptaráðherra.
Himinháir vextir
Sama á við um vexti, en vextir hér á landi hafa hér á landi verið umtalsvert hærri en í nágrannalöndum. Þegar þetta er skrifað eru stýrivextir hér 7,5%, en 3% í Svíþjóð, stærsta hagkerfi Norðurlanda. Þá er vaxtakostnaður ríkissjóðs gríðarlegur, árið 2021 greiddi ríkið um 134 milljarða í vexti, sem er um 4.1% af fjárlögum. Til samanburðar greiddu Svíar 0.3% af fjárlögum sínum í vexti árið 2018.
Annað í sambandi við ESB er það sem ég vill kalla sinnuleysi eða kannski áhugaleysi Samtaka atvinnulífsins um Evrópumál og mál tengd fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Flestar nýjustu fréttirnar á vefsvæði SA sem innihalda orðið ,,ESB eru um Brexit og útgöngu Breta. Ein frétt frá 2011 innihélt hluti sem tengdust Íslandi og mögulegri aðild að ESB.
,,Brellin er loðnan
Pistill framkvæmdastjóra SA frá um miðjan mars ber heitið ,,Brellin er loðnan og fjallar að sjálfsögðu um sjávarútveg. Allir vita sem fylgjast með umræðu um Evrópumál vita að talsmenn sjávarútvegsins og helstu fyrirtækja þar eru, og hafa verið, mjög á móti aðild að ESB og rök á borð við að ,,ESB muni taka af okkur fiskinn hafa gjarnan verið notuð.
Á sama tíma gera mörg stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi upp í evrum eða dollar og njóta þar með kosta erlendrar myntar, eru í raun fyrir utan krónuhagkerfið og sækja í skjól frá krónunni. Þetta getur íslenskur almenningur einfaldlega ekki gert, hann er innilokaður í krónuhagkerfinu. Alls voru um 250 fyrirtæki sem gerðu upp í evrum eða dollar árið 2022.
Hér skal einnig bent á þá staðreynd að ESB hefur ekki hirt auðlindir af einni einustu þjóð sem hefur gengið í sambandið. Svíar eiga enn sitt málmgrýti, Finnar sína skóga og ekki var hirt olían af Bretum á meðan þeir voru með í ESB. ESB mun því ekki hirða fiskinn af Íslandi, það hefur enga hagsmuni af því.
Í úttekt sem Alþjóðamálastofnun HÍ gerði á aðildarviðræðum við ESB árið 2013 kom fram að ekkert benti til þess að ekki væri hægt að ganga að óskum Íslendinga um sjávarútvegsmál, t.d. að lögsaga landsins yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði. Nánast má fullyrða að ESB og Ísland hefðu náð samkomulagi um þessi mál, enda nær ESB nánast án undantekninga samkomulagi við sína samningsaðila, þó það taki tíma og fyrirhöfn. Brexit er þar ágætis dæmi.
ESB styrkir uppbyggingu innviða
ESB hefur styrkt með beinum hætti miklar framkvæmdir í innviðum og öðru sem komið hefur aðildarþjóðum að góðum notum. Frá því að Pólland gekk í ESB árið 2004 hefur um 213 milljörðum evra (tæplega 33.000 milljarðar króna) verið veitt til innviðauppbyggingar þar í landi. Á móti hefur landið greitt um 70 milljarða evra í aðildargjöld til sambandsins. Bein erlend fjárfesting jókst því stórkostlega í landinu eftir aðild, en Pólland er nú fimmta stærsta hagkerfi ESB.
Ísland: Slæm staða í erlendri fjárfestingu
Hér á landi er bein erlend fjárfesting hins vegar mun minni en í samanburðarlöndum og í umsögn frá Viðskiptaráði um þessi mál árið 2022, til forsætisráðuneytisins, segir að Ísland ...,,standi mjög illa í samanburði við aðrar þjóðir um alþjóðaviðskipti og erlenda fjárfestingu. Þá segir einnig að gildandi reglur um erlenda fjárfestingu séu mun strangari og óhagfelldari hér en í nær öllum ríkjum OECD.
Höfundar segja svo orðrétt: ,,Hlutirnir hafa jafnframt þróast til verri vegar undanfarin ár en bein erlend fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hefur dregist saman á Íslandi. Fjárfestingin nam að meðaltali um 35% af vergri landsframleiðslu á árunum 2017-2021, samanborið við 62% árin 2010-2015.
Hvers vegna ætli þetta sé? Getur það kannski meðal annars verið gjaldmiðillinn og það umhverfi sem hann skapar? Gjaldmiðlar skapa nefnilega traust, sérstaklega þeir sterku, hinir veiku gera það ekki. Menn höfðu t.d. ekki mikla trú á ítölsku lírunni á sínum tíma, en óbilandi trú á þýska markinu. Nú eru bæði löndin með evru.
Brúin í Króatíu
Skoðum nú annað dæmi frá útlöndum: Nýlega var opnuð brú í Króatíu (sem tók upp evruna um áramótin), sem stórbætir samgöngur þar í landi. Aðeins er um áratugur frá því landið gekk í ESB, eða um svipað leyti og umsókn Íslands var sett á ís. Brúin kostaði um 420 milljónir evra, eða um 75 milljarða íslenskra króna. Í þessu tilfelli kom 85% fjármagnsins frá ESB, sökum mikilvægis verkefnisins fyrir landið, m.a. vegna uppbyggingar í ferðamennsku. Króatía er ein af smáþjóðum Evrópu, íbúar eru um fjórar milljónir. Verkefni sem þetta kemur öllu landinu (og fleirum, m.a. Bosníu) til góða, eins og kemur fram í fréttinni sem krækt er í hér að ofan.
Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna, en gríðarlegur fjöldi verkefna í innviðum, rannsóknum og þróun, umhverfismálum og ,,grænum iðnaði nýtur stuðnings ESB. Þessi verkefni eru unnin í samvinnu við aðildarríkin. ESB er nefnilega í grunninn efnahags og viðskiptabandalag, byggt á kapítalískum grunni og miðar að efnahagslegum framförum.
Sjá eigendur fyrirtækja hér á landi ekki þá möguleika sem felast í þessu og fullri aðild að ESB? Með fullri aðild myndi erlend fjárfesting hér á landi að öllum líkindum aukast til muna hér á landi. Að mati höfundar er það ekki nokkur spurning að fjölmörg fyrirtæki á sviði verklegra framkvæmda myndu njóta góðs af fullri aðild Íslands að ESB. Það myndi skapa störf, aukna veltu og þar með hagnað fyrir allt þjóðabúið.
Hundruða miljarða þörf í innviðum
Samtök iðnaðarins gáfu út skýrslu árið 2021 sem fjallaði um nauðsyn á uppbyggingu á innviðum hér á landi. Þar kemur fram að í fyrsta lagi sé ástand innviða hér á landi almennt slæmt og að í öðru sé uppsöfnuð þörf á uppbyggingu innviða sé að minnsta kosti um 420 milljarðar króna.
Í skýrslunni er meðal annar rætt um flugvelli, hafnir, vegakerfi, fráveitur, úrgangsmál og vatnsveitur. Í fáum orðum, það er mjög mikið að víða hér á landi og mjög margt sem mætti bæta. Hér mætti hugsa sér fjölmörg verkefni sem íslenska ríkið og Evrópusambandið myndu vinna að í sameiningu, til hagsbóta fyrir land og þjóð, aukið öryggi á vegum úti og fleira slíkt. Einfaldlega það sem heitir frekari nútímavæðing í íslensku samfélagi. ESB er nefnilega ein stærsta ,,bissnessmaskína heims ef þannig má að orðið komast.
En getur verið að krónan sé stóra hindrunin, að krónan sé ,,fíllinn í stofunni sem allir eru lafhræddir við og enginn þorir nánast að tala um í þessu samhengi? Getur það verið að menn hreinlega óttist þensluáhrif vegna örmyntarinnar, að miklar framkvæmdir leiði til þenslu, verðbólgu og hárra vaxta?
Það er mörgum í fersku minni þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð, þá leiddi það til mikillar þenslu í hagkerfinu. Hræðast menn sviðsmyndir sem þessar? Þarf þá ekki að leita annarra leiða og skoða nýja valkosti?
Útflutningur jókst um 140%
Þegar Svíþjóð gekk í ESB árið 1995 voru samtök atvinnulífsins þar einn helsti drifkraftur aðildar. Þar sáu framámenn í atvinnulífinu möguleika og kosti þess að ganga til liðs við samtök sem stuðla að hagsæld og framförum í Evrópu. Í Svíþjóð jókst útflutningur um 140% á árunum 1994-2008, beint í kjölfarið á aðildinni að ESB.
Sænskir fyrirtækjaeigendur sáu kosti þess að tilheyra að fullu og öllu einum þróaðasta markaði í heimi, ,,Innri markaði ESB, með þeim rökum helstum að þeir væru í litlu hagkerfi, sem væri háð útflutningi.
En hvað með Ísland og SA? Hver er sýn þeirra á þessi mál? Þó við séum á innri markaðnum í gegnum EES-samninginn má spyrja; sjá íslenskir fyrirtækjaeigendur og SA ekki neina möguleika í fullri aðild að ESB fyrir Ísland og íslenska þjóð? Er ekki kominn tími til að leggja höfuðið í bleyti og endurmeta stöðuna? Athuga möguleikann? Eða á bara að láta reka?
Greinin birtist fyrst í Heimildinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2023 | 22:01
"Rústarinn" á rúntinum
Það vakti athygli fyrir skömmu þegar Vladimír Pútín skrapp til Krímskaga og síðan borgarinnar Mariupol, til að skoða "afrek" sín í Úkraínustríðinu.
Hann byrjaði s.s. á Krímskaga, sem hann hrifsaði til sín árið 2014, með sínum ,,litlu grænu köllum eins og þeir eru kallaðir ómerktu hermennirnir sem hann sendi til þessa að framkvæma þann verknað.
Síðan dúkkaði hann upp í borginni Mariupol, sem var mikið í fréttum í fyrra, þegar Rússar voru að sprengja hana í tætlur. Um er að ræða borg í SA-Úkraínu, sem liggur að Azov-innhafinu, norður af Svartahafi. Íbúar fyrir innrás voru rúmlega 400.000.
Talið er að Rússar hafi eyðilagt um 90% borgarinnar, en mestu bardagarnir stóðu um hina frægu Azovstal-stálverksmiðju, en yfir hana létu Rússar sprengjunum rigna.
Þar höfðu nokkur hundruð hermenn Úkraínu úr einmitt Azov-sveitinni leitað skjóls. Þeir voru allir handteknir (þeir sem eftir voru) þegar Rússum tókst að hertaka borgina.
Þessa "dýrð" fór Pútín s.s. að skoða, en fljótlega og myndir fóru að birtast fóru af stað sögusagnir um hvort þetta hefði yfirhöfuð verið Pútín sem sást á myndunum.
Pútín, eða sá sem kom til Mariupol, læddist þangað eins og þjófur að nóttu og ekki var mikið að sjá á þeim myndum sem birtar voru, enda þær mest hugsaðar til áróðurs og heimabrúks.
Það hefur hins vegar verið rifjað upp að þetta hefur Pútín gert áður, þ.e.a.s. læðst eins og þjófur að nóttu á átakasvæði þar sem Rússar hafa verið með aðgerðir. Það gerðist t.a.m. þegar uppreisnarmenn hertóku skóla í Beslan í Norður-Ossetíu, nágrannalýðveldis Téténíu, en þar hóf Pútín stríð árið 1999 sem stóð í raun til 2009. Það stríð var skilgreint sem "aðgerð gegn hryðjuverkum." Rússar virðast skilgreina stríð sín a nokkuð frumlegan hátt, rétt eins og innrásin í Úkraínu er skilgreind sem "sértök hernaðaraðgerð".
Umsátrið í Beslan stóð í þrjá daga og lauk með því að 330 manns létu lífið, meira en helmingurinn grunnskólabörn. Talið er að gera hefði mátt mun meira til þess að finna raunverulega lausn á umsátrinu.
Í stað þess létu Rússar sverfa til stáls, með fyrrgreindum afleiðingum. Virðing fyrir mannslífum er ekki þeirra sterkasta hlið.
Í Mariupol um daginn fór "rústarinn" á rúntinn og virtist glaður með ástandið. Um 1400 manns látnir og borg í rúst. Ein frægasta fréttamyndin úr stríðinu í Úkraínu var einmitt tekin af óléttri konu sem særðist til ólífis þegar Rússar réðust á sjúkrahús í borginni. Ófætt barn hennar dó einnig.
Flottur kall, Pútín.
6.3.2023 | 19:04
Þess vegna rembast Rússar eins og rjúpan við Bakmút
Að það skuli taka rússneska herinn, en þó að mestu leyti, hóp glæpamanna sem heitir Wagner, átta mánuði að taka yfir 70.000 manna bæ í Úkraínu, segir þá sögu að ekki er allt með felldu hjá Rússum.
Það er beinlínis vandræðalegt að þeim hafi ekki enn tekist að ná þessum salt og gipsnámubæ fullkomlega á vald sitt, þó líkur séu á að það sé að takast.
Talið er að þúsundir Rússa og fjöldi Úkraínumanna hafi fallið, hreinlega verið slátrað í og við bæinn Bakmút. Hann hefur nánast ekkert hernaðarlegt mikilvægi, er t.d. ekki mikilvæg flutningaleið eða álíka. Bakmút kallast "kjötkvörnin" og er í Donbass, A-Úkraínu.
Mikilvægi Bakmút felst í því að ef Rússum/Wagner-hópnum, tekst að taka bæinn, er það í fyrsta sinn í langan tíma sem þeir vinna það sem kallast sigur á vígvellinum.
Miðað við þetta verða þeir áratugi að ná Úkraínu á sitt vald.
Þetta sýnir fyrst og fremst hversu snjallir Úkraínumenn eru að verjast Rússum, sem talið er að hafi gert allt að 100 áhlaup á bæinn.
Bærinn er nánast rústir einar og talið að einungis séu um 5000 manns eftir í bænum.
Það verðu því ekki glæsilegt um að litast þegar (og ef) Rússum/Wagner-hópnum tekst að ná undir si þeim rústum sem kallast Bakmút.
"Flott" hjá þeim!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2023 | 16:37
Innrás og eyðilegging Rússa í tölum
Eitt ár er liðið frá því að forseti Rússlands fyrirskipaði her sínum að brjóta alþjóðalög og ráðast inn í hið fullvalda ríki, Úkraínu.
Síðan þá hefur rússneski herinn valdið gríðarlegri eyðileggingu, ráðist á almennar íbúðarblokkir og hús, sjúkrahús, skóla og menntastofnanir.
Þá hafa liðsmenn hans og málaliðahópsins Wagner, framið þúsundur stríðsglæpa sem eru til rannsóknar.
Sænska dagblaðið Dagens Nyheter hefur tekið saman stríðið í tölum:
Um 7200 almennir borgarar hafa fallið og 11.800 særst (þetta er þó mat, getur verið hærra).
Um 400 börn hafa fallið og um 900 særst (þetta er þó mat, getur verið hærra).
Um 11.000 hús voru eyðilög í borginni Irpin a einum mánuði í byrjun stríðsins.
Um 150.000 hús hafa verið eyðilögðí öðrum borgum.
Um 3000 skólar hafa verið eyðilagðir.
Um 300 sjúkrhús hafa verið eyðilögð.
Hátt í 200.000 bifreiðar hafa verið eyðilagðar.
Um 2.8 miljónir hafa flúið til Rússlands.
Um 1.5 milljón manna hefur flúið til Póllands.
Um 1 milljón hefur flúið til Þýskalands.
Um 500.000 hafa flúið til Tékklands.
Um 40.000 hafa flúið til Danmerkur.
Talið er allt að 800 hermenn hafi fallið á degi hverjum, bæði Rússar og Úkraínumenn.
Talið er að húsnæði fyrir um 54 milljarða dollara hafi verið eyðilagt.
Talið er að innviðir fyrir um 36 milljarða dollara hafi verið eyðilagðir.
Alls telur hagfræðideild háskólans í Kíev að heildartjón stríðsins frá upphafi til loka janúar geti verið allt að 138 milljarðar dollara. Þetta er niðurstaða sérstaks verkefnis, sem fjármagnað er af Bretum.
---------------------
Þessi brjálæðislega ákvörðun hins veruleikafirrta Pútíns um rinnrás er orðin dýr og hefur bitnað á allri heimsbyggðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2023 | 19:39
Pútín ber ábyrgðina
Fyrri heimsstyrjöld stóð í rúm fjögur ár, 1914-1918.
Seinni heimsstyjröld stóð í rúm sex ár, 1939-1945.
Kóreustríðið stóð í um þrjú ár, 1950-1953.
Víetnamstríðið (eftir að bein þátttaka USA hófst, stóð í áratug, 1965-1975)
Stríð Rússa í Afganistan stóð einnig í áratug, 1979-1989.
Borgarastríðið í Júgóslavíu stóð í fjögur ár, 1991-1995.
Eyðimerkurstormur, stríð USA og bandalags þeirra gegn Írak/Saddam Hussein, stóð í um sex mánuði.
Innrás Bandaríkjanna í Írak, aftur gegn Saddam Hussein, stóð frá 2003, til 2011, í alls átta ár.
Stríð Rússa í Téténíu, hið fyrra stóð frá 1994-1996 og hið seinna frá 200o til 2009.
Af þessu sést að það er regla frekar en undantekning að stríð standa í lengri tíma, en skemmri.
Þessi stríð sem hér hafa verið talin, kostuðu tugi milljóna mannslífa.
Síðan 24. Febrúar, i eitt ár, hefur staðið yfir innrásarstríð Rússa í Úkraínu, sem sennilega hefur kostað meira en 200.000 manns lífið, bæði hermenn og almenna borgara. Milljónir manna eru á flótta.
Forseti Rússlands ber ábyrgðina á þessum blóðsúthellingum og fyrir hann starfa liðssveitir glæpahunda, sem framið hafa stríðsglæpi, s.k. Wagner-hópur. Almennir hermenn Rússa hafa líka framið stríðglæpi á stöðum á borð við Buscha, Irpin og Izium.
Allt að milljón Rússar hafa flúið lands sitt, þar á meðal menntamenn og vísindamenn. Fleiri hundruð vestræn fyrirtæki hafa yfirgefið landið, sem leitt hefur til fjöldaatvinnuleysis.
Rússland er alræðisríki þar sem mannréttindi eru virt að vettugi og fólk er handtekið fyrir minnstu sakir. Það er afraksturinn af 23 ára valdaferli Pútíns.
Hann er "gott" dæmi um valdhafa sem hefur misst tökin, en á sama tíma stórkostlega hert tökin.
Ár af stríði hefur sýnt illa þjálfaðan rússneskan her, sem hefur gert fjöldamörg mistök og í raun mistekist ætlunarverk sitt. Úkraínumenn hafa unnið til baka svæði sem Rússar náðu í upphafi stríðsins.
Stríð þetta byggir á ranghugmyndum, sögufölsunum og lygum. Rússnesk þjóð er mötuð og heilaþvegin með gegndarlausum áróðri.
Allt vegna þess að valdhafinn í Moskvu þolir ekki að Úkraínu vilji fara aðra leið en hann vill, vegna þess að Úkraínu vill verða frjálslynt, vestrænt lýðræðisríki. Þá kennir hann einnig Úkraínu um fall Sovétríkjanna fyrir meira en 30 árum síðan. Stríð þetta er því að hluta til afleiðing af falli Sovétríkjanna, allt frá því að það hófst í raun árið 2014, með innlimun Rússa á Krímskaga og aðgerðum aðskilnaðarsinna, studdum af Rússum í A-hluta landsins, Donbass.
Nánast öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna mótmæla harðlega innrás Rússa, eða eru hlutlaus. Aðeins örfá ríki styðja þessa innrás heilshugar, ríki á borð við Hvíta-Rússland (Belarús), þar sem gamall og afdankaður einræðisherra ræður enn ríkjum. Hin löndin eru, Sýrland, N-Kórea og Eritrea. "Glæsilegur" hópur!
En sennilega mun stríð þetta standa í einhvern tíma í viðbót, jafnvel ár. Þó rússneski herinn sé slakur, þá hafa Rússar enn ákveðinn "massa" eða "þunga" sem þeir geta beitt.
Og þeir eiga mikið af mönnum sem þeir geta rekið út á vígvöllinn í byssukjafta Úkraínumanna og þar með fallið fyrir veruleikafirrtan leiðtoga. Rússar eru vanir að fórna mönnum fyrir lítið, þannig er saga þeirra.
Mannslíf virðist vera lítils virði í augum leiðtogans og hann er ekki sá fyrsti sem hefur það viðhorf, eða eins og Stalín á að hafa sagt: "Fall eins manns er harmleikur, en milljón mannslíf er bara tölfræði. Stalín slátraði milljónum Úkraínumanna í manngerðri hungursneyð(Holodomor)á fyrrihluta síðustu aldar.
Hversu mörgum er Pútín tilbúinn að fórna á vígvöllum Úkraínu? Og hversu mörgum árum ætlar hann að fórna í þessa vitleysu? Hann getur stöðvað þetta rugl strax.
Mynd: Wikimedia Commons
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2023 | 11:24
Úkraína og baráttuvilji Vesturveldanna
Á tímum þess sem kallaðist "Kalda stríðið" og stóð frá árunum 1945-1991 um það bil, voru háð nokkur stríð þar sem risaveldin, Bandaríkin og Sovétríkin (1922-1991) háðu grimmilega baráttu um forræðið í heiminum.
Skyldi heimurinn vera kapítalískur með "Kanann" sem leiðtoga eða kommúnískur undir stjórn Rússa/Sovétríkjanna?
Eitt þessara stríða var Víetnam-stríðið en um þessar mundir eru einmitt liðin um 55 ár frá frægustu orrustu þess stríðs, Tet-sókn N-Víetnama og Víetkong-skæruliða, en báðir aðilar voru dyggilega studdir af Rússum og Kínverjum. Í þessari sókn var ein ljótasta, en sennilega frægasta stríðsfréttaljósmynd allra tíma tekin.
Norður-Víetnamar og Víetkong börðust gegn spilltri ríkisstjórn S-Víetnam, semhow fékk ómældan stuðning frá Bandaríkjamönnum, sem sendu hundruð þúsunda hermanna til Víetnam á árunum 1965 til 1973 og misstu þar um 58.000 hermenn og um 5000 þyrlur, en þetta var fyrsta "þyrlustríð" sögunnar. Að minnsta kosti tvær milljónir Víetnama féllu. Þetta stríð er enn flakandi sár á bandarísku samfélagi, enda fyrsta stríðið sem þeir töpuðu. Vorið 1975 hertóku hersveitir kommúnista Saigon, höfuðborg S-Víetnam og sameinuðu allt landið undir stjórn kommúnista. Þannig er staðan í dag. Mesta herveldi heims tapaði gegn fátækri bændaþjóð.
Staðgenglastríð
Þetta stríð var svokallað "staðgenglastríð" (e. proxywar). Víetnam var í raun "leikvöllur" stórveldanna þar sem tekist var á í nafni andstæðra hugmyndastefna, kapítalismi versus kommúnismi. Gígantískum fjárhæðum var eytt í þetta stríð, af öllum aðilum. Niðurstaðan var kommúnískur sigur og sálrænt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Fleiri átök á þessum tíma, t.d. bæði í Afríku og Mið-Ameríku voru með þessum hætti og kostuðu gríðarlegar mannfórnir.
Nú geisar stríð í Evrópu, þar sem "leifarnar" af Sovétríkjunum og stærsta lýðveldi þeirra, Rússland, hefur ráðist á aðrar "leifar" sama heimsveldis, Úkraínu, eins ótrúlega og það kann að hljóma. Úkraína var annað stærsta lýðveldi Sovétríkjanna og gríðarlega mikilvægt. Margir af æðstu stjórnendum Sovétríkjanna komu frá Úkraínu, t.a.m síðasti leiðtogi þeirra, Mikaíl Gorbachev, sem lést í fyrra.
Vestrænt lýðræði gegn alræðishyggju
Að minnsta kosti hluta til er þetta stríð barátta tveggja hugmyndastefna, sem kalla mætti "vestrænt lýðræði" gegn "alræðishyggju". Úkraínumenn, í raun sú þjóð sem batt enda á tilveru Sovétríkjanna, vilja vara í vestur, í átt að lýðræði, mannréttindum og frelsi. Undir stjórn forseta Rússlands, KGB-mannsins Vladimírs Pútíns (frá 2000), hefur landið stöðugt færst nær alræði og kúgun.
Stuðningur Vesturveldanna skiptir Úkraínu lykilmáli og nú er mikið rætt um skriðdreka af fullkomnustu gerð, hvort Úkraínumenn geti fengið slíka. Þetta eru meðal annars þýskir Leopard-2 skriðdrekar, sem eru með þeim fullkomnustu sem til eru. Fyrir eiga Úkraínumenn gamla sovéska skriðdreka sem þykja létt veiði. Leopard-drekar hafa verið seldir til fjölda Evrópulanda, sem þurfa samþykki Þjóðverja til að geta flutt þá út til Úkraínu.
Í því máli kristallast einnig sú staðreynd hvað sagan getur skipt miklu máli. Þjóðverjar virðast vera, eins og staðan er í dag, á bremsunni í "skriðdrekamálinu" og það hefur að gera með stöðuna í þeirra innanríkismálum, en þátttaka í stríðsátökum hefur eftir seinni heimsstyrjöld verið mikið ,,tabú" í þýskum stjórnmálum, þar til nú. Nú er þýski kanslarinn, Olaf Scholz, kallaður "Dr.No" með vísun í fræga persónu úr James Bond-kvikmyndunum.
U-beygja Þýskalands
Það hefur orðið grundvallarbreyting eftir innrás Rússa og er stuðningur Þjóðverja einn sá mesti meðal vestrænna þjóða við Úkraínu. Í raun má segja að um sé verið að ræða U-beygju sem kanslari Scholz tók í mars á síðasta ári, þegar hann tilkynnti bæði útflutning á vopnum og skotfærum frá Þýskalandi, sem og aukin útgjöld til hernaðarmála. Á heimsvísu er Þýskaland í sjöunda sæti hvað varðar útgjöld til varnarmála, sem kann að þykja mikið, miðað við sögu landsins.
Nánast öll NATO-ríkin og fjölmörg ríki ESB hafa sent vopn og annan búnað til Úkraínu og nemur stuðningurinn tugum milljörðum dollara. Efst tróna þó Bandaríkin, sem nýlega tilkynntu nýjan pakka upp á um 2,5 milljarða dollara, en það er um 380 milljarðar íslenskra króna. Meðal annars munu Bandaríkjamenn nú senda Patriot-eldflaugavarnarkerfi, en það sem hefur einkennt stríðið í Úkraínu eru grimmilegar árásir Rússa á almenna borgara, fjölbýlishús og slíka staði, með t.a.m írönskum drónum. Mikilvægi loftvarna er gríðarlegt.
Vilji Vesturlanda til að aðstoða Úkraínu er geysilega mikilvægur, ef þessa stuðnings nyti ekki við, væri ekki útilokað að Vladimír Pútín og miskunnarlausum her hans tækist að taka yfir alla Úkraínu og færa þar með landamæri Evrópu enn meira til og ná markmiði sínu um að innlima allt landið inn í Rússland. Margt bendir til þess að núna séu Rússar að undirbúa mikla vorsókn, enda hafa nokkur hundruð þúsund karlmenn verið kvaddir í herinn.
Fullkomin innlimun er sviðsmynd sem lítur ekki vel út og enginn vill sjá, nema kannski stuðningsmenn Pútíns. Úkraína á sinn eigin rétt á eigin fullveldi og eigin sjálfstæði. Rétt eins og við áttum á sínum tíma. Úkraínu dagsins í dag á ekki að vera stjórnað frá Moskvu.
Mynd: Leopard-skriðdreki (Wikimedia Commons).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2017 | 17:45
Pútín með öll trompin
Rússar valda stöðugum pólitískum skjálftum í Washington
Segja má að pólitíska kerfið í Bandaríkjunum (les: Washington) leiki á reiðiskjálfi þessa dagana. Ekki aðeins vegna fundar Trump eldri með forseta Rússlands, Vladimír Pútín, heldur vegna gjörða Trumps yngri.
Það var stórblaðið New York Times sem afhjúpaði upplýsingar um fund Trump yngri með kvenkyns lögfræðingi frá Rússlandi sem heitir Natalia Veselnitskaya. Af hverju öll þessi læti útaf honum?
Hvaða ,,skít áttu?
Markmið fundarins, sem haldinn var um mitt síðasta ár (júní 2016), var að fá afhentan ,,skít um Hillary Clinton, en þá var baráttan á milli hennar og Donald Trump eldri, um fosetaembætti USA að nálgast hámark. Öllu var tjaldað til, til þess að grafa undin ,,crooked Hillary (svikulu Hillary), eins og Trump eldri hamraði stöðugt á.
Það er s.s. ekkert nýtt að menn reyni að grafa upp skít um sína pólitísku andstæðinga. En það er kannski ekki á hverjum degi sem fulltrúar forsetaframbjóðenda, opinberir eða ekki, láti glepjast af útsendurum höfuðandstæðingsins. Augljóslega hafa Rússar sett upp snilldarfléttu og lagt gildru fyrir Trump og kompaní, sem þeir hafa augljóslega ekki áttað sig á.
Áðurnefnd Natalía var s.s. á fundinum, sem fram fór í Trump-turninum (,,Kremlin Donalds Trumps eldri) og á honum voru Trump yngri, Paul Manafort, þá kosningastjóri Trumps og einnig er talið að tengdasonur Trumps og helsti ráðgjafi, Jared Kushner hafi ,,droppað inn.
En samkvæmt Trump yngri kom enginn skítur um Clinton fram á fundinum, heldur þróaðist fundurinn út í eitthvað snakk um ættleiðingar(!) Hversvegna ættleiðingar?
Flækjustigið magnast
Hér flækist málið töluvert. Árið 2012 setti bandaríska þingið lög sem nefnast ,,The Magnistsky Act. Samkvæmt þeim má hópur rússneskra auðmanna ekki stunda viðskipti utan Rússlands. Þeir eru ,,frystir á aljþóðavettvangi. Vitað er að margir þessara manna hafa náin tengsl við Kreml og Pútín, sem vill sjá þessi lög ,,hverfa.
Lögin bera hinsvegar nafn lögfræðingsins Sergei Magnitsky, sem lést árið 2009 í haldi rússneskra yfirvalda og úr hverju hann lést hefur aldrei komist á hreint. Hann hafði vakið athygli á gríðarlegri spillingu og þjófnaði á ríkisreigum í Rússlandi og þar með komist í ónáð yfirvalda. Hægt er að lesa um þetta í frábærri bók eftir Bill Browder, Eftirlýstur, sem er einskonar hryllingssaga úr heimi rússneskra viðskipta. Hér lýsir hann þessu einnig á Youtube. Browder stjórnaði á sínum tíma risastórum fjárfestingasjóði (Hermitage Foundation) í Rússlandi og Magnitsky sá um skattamálin fyrir hann.
Þannig að fundurinn í turni Trumps fyrir um ári síðan, hefur að öllum líkindum allt annan tilgang en gefið hefur verið upp og hefur einnig líklega mun lengri og dýpri tengingar. Fréttaskýrendur hafa sagt að raunverulegi tilgangurinn með ,,fundinum hafi verið að reyna að hafa áhrif á Trump og co til þess að afnema Magnitsky-lögin, kæmist hann til valda.
En ættleiðingarnar? Jú, samkvæmt rússneskum lögum, sem sett voru í byrjun 2012 og eru talin vera ,,hefnd Pútíns vegna Magnistky-laganna, er bandarískum fjölskyldum ekki heimilt að ættleiða rússnesk börn. Samkvæmt frétt á CNN hefur Natalía sett upp sérstakan hóp (HRAGI), sem hefur það að markmiði (að sagt er) að létta ættleiðingarlögunum, þá mögulega gegn því að Magnistsky-lögunum yrði aflétt. Fléttan er því sú að í skjóli ættleiðinga koma því í kring að aflétta hömlum á rússneska auðjöfra og áhrifmenn. Skapa þannig reykmökk.
Stóru málin sitja á hakanum
Mál þetta er allt hið undarlegasta. Í viðtali á Fox News þann 11.júlí í þættinum Hannity, sagðist Trump yngri að hann hefði kannski gert þetta öðruvísi í dag. Hann sagði að ekkert hefði komið út úr þessum fundi og þetta hefðu verið ,,20 mínútur til einskis. Kannski var það einmitt tilgangurinn hjá hini rússnsesku Natalíu. Að gefa ekki upp neitt, en komast inn í hjarta Trump-veldisins og þar með skaffa Rússum spil á hendi. Því það verður að segjast eins og er að Rússar hafa á undanförnum mánuðum leikið sér að Bandaríkjamönnum, með öllu því sem kallað er ,,hakkið og meintri innblöndun Rússa í forsetakosningarnar í Bandaríkunum. Bandarískir fjölmiðlar hafa var talað um annað í marga mánuði! Á meðan sitja stóru málin á hakanum, eins og t.d. heilbrigðismálin, skattamál, innviðir og fleira.
Það má í raun segja að bandaríska stjórnkerfið sé hálf lamað vegna aðgerða Rússa, sem verður að segja þeim til hróss, hafa verið ótrúlega snjallar. Þar kemur kannski reynsla ,,hæsta hanans úr KGB sér að góðu. En hvernig gátu Trump-liðar verið svona hrikalega barnalegir? Jú, eins og Trump yngri sagði á Fow; ...,,svona gengur þetta fyrir sig í bissness. Þeir voru sem sagt bara að beita sömu nálgun á hlutina og þeir gera í viðskiptum til þess að fá ,,skít til að klína á Clinton. Þá vitum við hvernig þau viðksipti ganga fyrir sig. Svo segjast þessir kallar vera nýgræðingar í pólitík. En er þetta ekki sama aðferðin og þar?
Rússabangsinn bara hress
Og fundur Pútíns og Trumps, hver vann hann? Jú, Pútín, ekki nokkur spurning. Í fyrsta lagi gaf hann sér 2.5 klst í fundinn og hann slapp mjög vel undan spurningum Trumps um mögulega innblöndun Rússa í forsetakosningarnar í fyrra. Trump spurði Pútín að sögn tvisvar um innblöndun, en Pútín sagði bara nei í bæði skiptin. Og þar við sat.
Staðan er einfaldlega þessi: Pútín hefur öll tromp á hendi, en Trump, ,,hinn mikli samningamaður, engin. Ekki eitt einasta! Rússneski björninn er því bara hress þessa dagana og glottir við tönn.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og MA í stjórnmálum A-Evrópu.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum (13.7.2017)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)