19.10.2009 | 21:15
Enn á Sturlungaöld?
Í gærkvöldi sá ég afar merkilega heimildarmynd í sænska sjónvarpinu um Ndrangheta, sem er mafía og á rætur sínar að rekja til borgarinnar Kalibri á Ítalíu. Þar var dregin upp all skuggaleg mynd af því hvernig þetta fyrirbæri hefur ,,plantað sér á þeim svæðum þar sem hægt var að þvo illa fegna peninga, peninga af eiturlyfjasölu, fjárkúgunum og öðrum afbrotum. M.a. kom þar fram að Ndranghetan hefur staðið fyrir stórfelldum byggingarframkvæmdum á Marbella á Spáni. Samtökin reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að reglur samfélagsins virki og eru í hæsta máta and-samfélagsleg.
Sunnudaginn þar áður sá ég svo aðra heimildarmynd um stríðið í Afganistan og þá erfiðleika sem NATO stendur þar frammi fyrir, gagnvart a) Talíbönum og b) Almennum borgurum, ættarhöfðingjum o.s.frv. Afganistan er nefnilega ættarsamfélag, þar sem ,,klanið, ættin hefur gríðarlega sterk ítök. Eitt vandamálanna sem hermenn NATO glíma við er það hvernig þeim á að takast að vinna TRAUST höfðingjanna, þeirra sem hafa völdin.
Önnur kvikmynd sem vert er að nefna í þessu sambandi, er hin nöturlega Gomorra, sem einnig er lýsing á því hvernig mafían gegnumsýrir ítalskt samfélag. Mæli ég sterklega með þeirri mynd.
Einhverra hluta vegna sótti sú hugsun á mig eftir þetta allt saman: er þetta ekki nokkuð skylt því sem fram fer (og hefur farið) hér á Íslandi?
Hér er vissulega engin skipulögð mafíu-starfsemi, sem betur fer. En samt, hvað er Kolkrabbinn, Eimreiðarhópurinn, S-hópurinn, ,,fjölskyldurnar 14, og svo framvegis.
Er sú hugmynd manna að hér þurfi maður að þekkja mann og annan til að fá hitt og þetta, alveg út í bláinn?
Einkavæðing bankanna er kannski besta dæmið um þetta, þegar ,,gullmolunum í íslensku bankakerfi var skipt bróðurlega á milli ákveðinna hópa og einstaklinga í samfélaginu.
Svo þegar einhverjir hópar kaupa það sem þeim er ekki ætlað að fá, verður allt brjálað og húsgögnin fljúga út og suður!
Og hvað er Ísland annað en ættarveldi? Hér eru afkvæmi ætta að slást um brauðmolana, hvort sem það heitir kvóti, orka eða bankar. Það er eins og við séum enn stödd á sturlungaöld, nema að nú er ekki barist með eggvopnum að hætti víkinga, heldur dollurum, evrum, japönskum yenum, afleiðum, undirmálslánum, jöklabréfum, hlutabréfum o.s.frv.
Við höfum ekkert lært: okkur er stjórnað af frumstæðum hvötum, græðgi, oflátungshætti, mikilmennsku, virðingarleysi, skeytingarleysi, kæruleysi, ofmetnaði og drambi.
Þvílíkur farmiði inn í framtíðina!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.