10.10.2009 | 11:45
Hvað gera bændur þá? (MBL)
Eins og öllum er kunnugt lagði Ísland fram formlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu í lok júlí. Að undangenginni mikill umræðu um allt þjóðfélagið og á Alþingi.Ýmist samtök og hagsmunaaðilar hafa fjallað mikið um málið og tekið afstöðu, ýmist með eða á móti.
Samtök bænda hafa einnig rætt Evrópumálin. Þau hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB sé ekkert fyrir íslenska bændur. Þau hafa einnig ákveðið að taka ekki þátt í umræðunni á meðan umsóknarferli stendur. Bændasamtökin vilja því ekki einu sinni ræða ESB. Samtökin nota Bændablaðið til þess að koma boðskap sínum á framfæri.
Er þeim stætt á þessari afstöðu? Íslenskur landbúnaður er sá landbúnaður sem nýtur hvað mestra styrkja á byggðu bóli, samkvæmt OECD og tölum landbúnaðarsamtakanna. Árið 2005 var þetta um 10 milljarðar króna. Framlag landbúnaðar til landsframleiðslunnar var 1.1% árið 2006 og í greininni starfaði 3,8% vinnuafls í landinu (var 38% árið 1940). Til samanburðar má geta þess að rekstrargjöld Hafnarfjarðarbæjar árið 2007 námu svipaðri upphæð. Þetta er því eins og að íslenskur almenningur myndi greiða fyrir allan rekstur Hafnarfjarðarbæjar.
Laun bænda eru einnig sér kapítuli útaf fyrir sig. Meðallaun þeirra eru með þeim lægstu á almennum vinnumarkaði. Vitað er að búmennskan dugar mörgum ekki til að ná endum saman. Grípa því margir til allskyns aukavinnu. Þetta er staðfest í nýrri skýrslu, Litróf búskapar og byggða, sem Háskóli Íslands gaf nýlega út. Þar kemur fram að 70% fjölskyldna, ,,hafa einhverjar tekjur af launavinnu eða verktakastarfsemi utan býlisins. ,,Þetta er með því hæsta sem gerist í Evrópu, segir í skýrslunni. Í henni kemur einnig fram að áhyggjur vegna nýliðunar í landbúnaði eru ofarlega í huga bænda. Meðalaldur bænda árið 2006 var 52 ár.
Þá eru margir bændur gríðarlega skuldsettir, sérstaklega mjólkurbændur. Fyrir skömmum voru fréttir í fjölmiðlum þess efnis að um 10% þeirra glímdu við mjög alvarleg fjárhagsvandræði og stefnir nokkur fjöldi þeirra í gjaldþrot.
Hvað varðar styrki er það athyglisverð staðreynd að íslenskir bændur fá tvöfalt meiri styrk en bændur innan ESB, sem hlutfall af verðmæti framleiðslunnar. Um er að ræða 30% innan ESB, en yfir 60% hér á landi. Þetta má lesa í Hagtölum bænda árið 2007.
Af þessu má því draga eftirfarandi ályktun: Hér er um litla grein að ræða, en mikilvæga, allir íslenskir neytendur vilja jú íslenskar landbúnaðarafurðir og bera traust til landbúnaðarins. Það hafa kannanir sýnt. En hún kostar, svo um munar. Staða greinarinnar vekur einnig þá spurningu hvort bændur hljóti ekki að velta fyrir nýjum kostum? Eða er óbreytt ástand óskastaðan?
Á íslenskur almenningur (styrkveitandinn) ekki þá kröfu gagnvart samtökum bænda að þau verði með í þeirri lýðræðislegu umræðu sem þarf að fara fram um Evrópumál, þar sem hagsmunir bænda skipta miklu máli? Geta samtökin verið ,,stikkfrí í þessu dæmi? Er þessi krafa óeðlileg? Þess má geta að Bændasamtökin fengu yfir hálfan milljarð á fjárlögum í fyrra frá hinu opinbera, sem er inni í heildarstuðningi til stéttarinnar.
Er ekki hægt að líta á það sem ,,þegnskyldu bændasamtakanna að taka þátt, en ekki segja sig frá þessu með þeim hætti sem samtökin hafa gert? Ef hægt er að dæma ,,lýðræðisþroska samtaka á borð við Bændasamtökin, hvaða ályktanir er þá hægt að draga af þessari afstöðu? Er þetta ábyrg afstaða samtaka, sem telja sig hafa það hlutverk að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar? Það er ekki lítið eða léttvægt hlutverk í nútíma samfélagi!
Væntanlega mun innan ákveðins tíma, liggja fyrir aðildarsamningur fyrir okkur Íslendinga að taka afstöðu til. Hvernig ætla bændasamtökin sér að koma að ferlinu fram að því að samningurinn liggur fyrir? Hvað ef samningurinn verður hagstæður fyrir bændur og íslenskan landbúnað? Hvað gera bændur þá? Verður svarið NEI?
Birtist í MBL, 4.10.09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.