24.9.2009 | 23:32
Nafnið á Nýja-Mogganum?
Hin hægri-og þjóðernissinnaða vefsíða AMX, sem í ritstjórnartíð Ólafs Þ. Stephensen kallaði Morgunblaðið ESB-Mogga, getur nú væntanlega hætt því. Nú er Davíð Oddsson sestur í ritstjórnarstól, ásamt Haraldi Jóhannessen, sem er frændi fyrrverandi ritstjóra MBL, Matthíasar Jóhannessen.
Lætur nærri að um 20% ritstjórnar MBL hafi verið sagt upp störfum í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag. Það hlýtur að höggva svöðusár í ritstjórnina. Að maður tali nú ekki um þá reynslu og fagmennsku sem blaðið lætur frá sér fara.
En það var þetta með nafnið á nýja Mogganum, sem nú tekur við? Nokkrar uppástungur: Kvóta-Mogginn, Sægreifa-Mogginn, Troll-Mogginn, eða eitthvað alveg nýtt: Davíðsbréf?
En í alvöru talað; er þetta ekki ,,mission-impossible?" Gröf Mogginn sér ekki sína eigin gröf með of-fjárfestingum ofl. sem hefur skapað þá skuldasúpu sem blaðið dregst með?
Þrátt fyrir milljarða afskriftir, sem nýir hluthafar Árvakurs fengu?
Annars er mjög athyglisvert að velta því fyrir sér hvað það er við Davíð Oddsson, sem veldur því að maðurinn er svona ,,polarizer" í íslensku samfélagi, að annaðhvort séu menn með honum eða á móti? Þetta er í raun efni fyrir sálfræðinga að spá í! En þar sem ég er ekki slíkur, læt ég það ógert.
Davíð Oddsson hlaut frægð fyrir útvarpsþættina Matthildi á sínum tíma og það voru grínþættir. Davíð lærði lögfræði, varð borgarstjóri (Dabbi-kóngur), formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og núna ritstjóri. Hvar gæti þetta gerst nema á þessari litlu eldfjallaeyju?
Í tíð hans sem forsætisráðherra fór hið saklausa Ísland í hrikalega frjálshyggjureið, sem endaði með allsherjar hruni. Eftir að hafa lagt niður (mjög eðlilegar) stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun og stuðlað að veikingu Fjármálaeftirlits, fór hér allt norður og niður. Og eftir situr þjóðin með skuldir sem eru meira en 200% af landsframleiðslu!
Með þessu skal ekki sagt að þetta sé allt Davíð að kenna. En sú hugmyndafræði, sú stefna sem hann aðhyllist hefur haft þessar afleiðingar. Og framkvæmd hennar. Ríkið, sem samkvæmt þessari hugmyndafræði um ,,small government," er nú orðið eigandi að meira að minna öllu hér. Ísland er orðið eins og einskonar ,,sovét" þar sem ríkisstjórnin er eins og ,,supreme-soviet", æðsta ráðið.
Nú eru Davíð og Haraldur orðnir ,,supreme-soviet" á Nýja-Mogganum! Hið raunverulega æðsta ráð Sovétríkjanna, féll með falli þeirra í byrjun níunda áratugarins. Hvað endist þetta lengi?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.