Þögn Sigmundar

sigmundur-david-gunnlaugsson-frettAf hverju heyrist ekkert í formanni Framsóknarflokksins í Evrópumálum? Undirritaður hefur oft velt þessari spurningu fyrir sér eftir flokksþing flokksins í byrjun ársins. Þar var samþykkt metnaðarfull ályktun um Evrópumál, sem sumir reyndar lýstu sem skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir því að ESB myndi ganga í Ísland. Gott og vel. Sé leitað í greinasafni MBL, FBL og á bloggi Sigmundar kemur í ljós að hann hefur hins vegar ekkert skrifað um Evrópumál. Sömu sögu er að segja um heimasíðu flokksins, þar skrifa einhverjir aðrir um Evrópumál, s.s. Siv Friðleifsdóttir og Gestur Guðjónsson.

Þetta hlýtur því að vekja þá spurningu hvort Sigmundur Davíð hafi áhuga á Evrópumálum. Var hin fína ályktun Framsóknar um Ervrópumál bara til þess að slá ryki í augu fólks, láta líta út sem flokkurinn væri að endurnýja sig? Hvað skýrir þessa þögn Sigmundar gagnvart Evrópu?

Hann hefur hins vegar barist hatrammlega fyrir niðurfellingarleið Framsóknar á skuldum, aðferð sem er umdeild. Einnig hefur hann barist hatrammlega gegn Icesave-samningunum og tilheyrir sk. Indefence-hópi. Gott og vel. Sigmundur er mikill baráttumaður. En hann berst ekki fyrir Evrópumálunum, þar er þögn hans æpandi.

Framsóknarflokkurinn hefur hag af því að fá hagstæða útkomu út úr aðildarsamningum, ekki bara fyrir alla Íslendinga, heldur einnig fyrir kjarnakjósendur flokksins, bændur. En til þess telur undirritaður að það verði að vera opin umræða um Evrópumál og markmið í þeim málum innan flokksins. Á formaður flokksins ekki að skapa þá umræðu, vera leiðandi innan flokksins í málefninu? Þannig er það ekki í dag. Hver er sýn þín á Evrópusamstarfið, Sigmundur Davíð?

Það hlýtur að teljast sérkennilegt að formaður flokks, sem setur fram jafn metnaðarfulla sýn á Evrópumál og Framsóknarflokkurinn gerði, tjái sig svo ekkert um málið og fylgi því ekki eftir.

Fréttablaðið 09.09.09

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband