Tómar sveitir, grein í rúst, engin framtíð?

Um afstöðu íslenskra bænda til ESB, séð frá sjónarhorni neytanda og Evrópusinna.

 

traktor-bondiSé Bændablaðið lesið um þessar mundir, sérstaklega skrif þess um mögulega aðild Íslands að ESB, mætti ætla að allt séað fara norður og niður. Það er að segja ef Íslendingar myndu ganga í ESB. Eitt það fyrsta sem manni dettur í hug við lestur blaðsins er eftirfarandi: Er íslenskur landbúnaður svo veikburða að hann þolir ekki samkeppni? Eða ligga aðrar hvatir að baki, hræðsla við híð óþekkta, sem er jú sterk tilfinning hjá öllum einstaklingum, ekki bara bændum.

 

Vistvænn landbúnaður

Íslenskur landbúnaður er hreinn, tær og vistvænn, við státum okkur jú af nær óspilltri og ómengaðri náttúru, þar sem dýrin ganga um laus, í sátt við Guð og menn. Ég spyr: Leynast sóknarfæri í þessu? Gætu íslenskir bændur með réttum aðferðum, skipulagningu og markvissri markaðssetningu sótt fram á við með þetta að vopni?

 

Fyrirsagnir í fyrsta tbl. Bændablaðsins á þessu ári segja nokkuð mikið um afstöðu bænda: ,,Mjólkuriðnaðurinn mætti ofjarli sínum.” (við hugsanlega aðild að ESB), ,,Í sumum greinum yrði algert hrun” (viðtal við Ernu Bjarnadóttur, sérfræðing Bændasamtakanna í Evrópumálum) og ,,Fullkominn einhugur um andstöðu gegn ESB.” Sjá bændur á Íslandi engar góðar hliðar á mögulegri aðild Íslands að ESB? Yrði aðild aðild dauðadómur yfir landbúnaði og  sveitum landsins, myndi íslenskur landbúnaður leggjast af, fyrir aldur og ævi?

 

Undirritaður bjó í Svíþjóð frá 1996-2007, en Svíar gengur í ESB árið 1995. Því get ég sagt að ég hafi góða reynslu af því að vera ,,sænskur neytandi.” Sænskar landbúnaðarvörur eru með afbrigðum góðar og fjölskyldan þurfti að sjálfsögðu að kaupa landbúnaðarvörur; mjólk, osta, smjör, kjöt o.s.frv. Hægt var að kaupa landbúnaðarvörur frá ýmsum öðrum löndum, t.d. nautakjöt frá Írlandi og Brasilíu, svínakjöt frá Danmörku, jógúrt frá Finnlandi og lax frá Noregi (sem var reyndar sá eini sem var til!).

 

Spurning um traust

Nær undantekningalaust keyptum við sænskar landbúnaðarafurðir, sérstaklega þegar um var að ræða nautakjöt. Mjólkin sem við keyptum var án undantekninga sænsk. Sama má segja um kjúklingakjöt, sem var mikið keypt. Af hverju? Jú, við treystum sænskum landbúnaði, vissum að þar voru á ferð bændur sem unnu af metnaði og varan framleidd við góðar, nútímalegar aðstæður, þar sem farið er eftir lögum og reglum, eftirlit er gott o.s.frv.

 

Ef t.d. innflutningur á mjölk yrði gefin frjáls, reikna þá íslenskir mjólkurbændur þá með því að íslenskir neytendur steinhætti að kaupa íslenska mjólk og mjólkurafurðir? Ég efast um það. Þá má benda á að mjólk er ferskvara og hentar ekki mjög vel til flutninga langar vegalengdir. Sama tel ég að ætti við um íslenskt kjöt, íslenskir neytendur myndu að öllum líkindum halda sig við íslenskt kjöt. Væri t.d. ekki ráð að Bændasamtökin myndu kanna hug neytenda til íslenskra afurða, með hugsanlega aðild að ESB i huga?  Ég held að íslenskt kjöt myndi skora hátt í slíkri könnun.

 

Við lestur Bændablaðsins (sem annars er stórskemmtilegt blað!) kemur fram að Finnar hafi náð sérstaklega góðum landbúnaðarsamningum við ESB (betri en Svíar), en Finnar gengu í ESB samhliða Svíum. Væri þá ekki ráð fyrir íslenska bændur að taka samning Finna sér til fyrirmyndar og aðlaga hann, bæta við og breyta kröfum í samræmi við íslenskar aðstæður? Skoða hlutina með opnum huga, en ekki afgreiða málið strax með ,,Nei, Nei, Nei?”

 

Að finna lausnir

Fyrir skömmum var hér í heimsókn Pekka Pesonen, fsem er framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna, COPA-Cogeca. Hann sagði meðal annars að það væri alls ekki í þágu ESB að vinna gegn landbúnaði í Evrópu: „Það væri ekki hagur evrópsks landbúnaðar, ekki heldur íslenskra stjórnvalda eða evrópskra stofnana að landbúnaður ykkar þurrkaðist út,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið (4.2.09). Í máli hans kom fram að það væri mikið undir stjórnvöldum og hagsmunasamtökum að sjá til þess að hagsmunum greinarinnar yrði náð fram í aðildarviðræðum, kæmi til þeirra. ,, Þegar Finnar gengu í ESB var það markmið stjórnvalda að finna lausn til að styrkur finnsks landbúnaðar yrði tryggður við inngönguna. Hefði það ekki verið gert værum við nú illa stödd sem landbúnaðarsamfélag,“ segir í sömu frétt Morgunblaðsins.

 

Einnig vil ég nefna nokkuð sem Erna Bjarnadóttir segir í viðtali í 1.tbl. 2009: ,,Það er t.d. líklegt að sterkir aðilar taki sig t.d. til og bjóði tilteknar afurðir á lágu verði þann tíma sem tekur að ryðja innlendum framleiðendum af markaði og nýti sér síðan stöðuna síðar meir...til að verðleggja viðkomandi vöru með öðrum hætti.” Eru þetta ekki sömu rök og talsmenn sjávarútvegsins nota þegar þeir segja að ,,miðin við Ísland muni fyllast af erlendum togurum, sem ryksuga upp allan fiksinn okkar.” Hér er verið að gefa í skyn að innan ESB séu aðilar með allt að því glæpsamlega plön í huga, sem eigi þá ósk heitasta að knésetja íslenska framleiðendur.

 

Með mögulegri aðilid þyrfti að sjálfsögðu að stórefla allt eftirlit, t.d. til að koma í veg fyrir að svona hlutir myndu gerast. Það þyrfti s.s. að setja varnagla á hinum ýmsu sviðum, rétt eins og ýmis lönd hafa gert. Dæmi um slíkt er að Maltverjar gáfu út ákveðin vottorð eða gæðastimpil út til þeirra fyrirtækja, sem á móti lofuðu að hækka ekki verð á afurðurðum sínum, til þess að halda aftur af verðhækkunum. Stórsnjallt og skynsamlegt.!

 

Kaupum það sama

Að lokum vil ég endurtaka rök mín fyrir þeirri skoðun minni hversvegna ég tel að breytingarnar yrðu fyrir íslenskan landbúnað myndu ekki verða eins miklar og menn vilja vera láta. Þau eru þessi: Það er líklegast að ég kaupi það í dag, sem ég keypti í gær! Flestir neytendur koma sér upp ákveðnu neyslumynstri og halda sér í flestum tilfellum við það. Langflestir neytendur eru m.ö.o. íhaldssamir. Með markvissum aðgerðum tel ég einnig að íslenskir bændur gætu ,,haldið” vel í sína íslensku neytendur.

 

Einnig er mjög líklegt að vextir, verðlag og verðbólga myndu lækka við inngöngu í ESB, það er allavegana reynsla bæði Finna og Svía. Það myndi væntanlega þýða lækkun á framleiðsluverði hjá bændum, m.a. vegna lægra verðs á áburði, aðföngum o.s.f.rv. Þar með myndu rekstrarskilyrði þeirra batna, sem myndi leiða til möguleika á verðlækkunum til neytenda og þar með aukinnar samkeppnishæfni.

 

Bændur, rétt eins og aðrir þurfa að athuga ESB-málið. Mesta mögulega víðsýni, tel ég vera ,,réttu gleraugun,” því undirritaður er sannfærður um að möguleg aðild Íslands að ESB myndi verða hvatning til íslenskra bænda að gera enn betur og framleiða enn betri, vistvænar afurðir, fyrir nútíma neytendur.

 

Höfundur er neytandi og stjórnmálafræðingur og situr í stjórn Evrópusamtakanna.

Birt í Bændablaðinu, í lok febrúar 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband