4.3.2009 | 17:25
Árangur Svía í ESB góður
ÞEGAR Svíar gengu í ESB árið 1995, ásamt Finnum og Austurríkismönnum, var landið að komast út úr einni verstu bankakreppu sögunnar. Samtök sænsks atvinnulífs (Svenskt Näringsliv), voru leiðandi afl í umræðunni um ESB-aðild Svía og höfðu þar mikil áhrif.
Árið 2003, þegar Svíþjóð hafði verið átta ár í ESB gerðu Samtök atvinnulífsins í Svíþjóð skýrslu um reynslu Svía af ESB-aðildinni fyrstu átta árin, þ.e.a.s. frá 1995-2003. Úr henni má lesa að áhrif inngöngunnar hafa verið mjög jákvæð. Í stuttu máli voru þau þessi: Aukinn hagvöxtur, lægri verðbólga og vextir, aukinn kaupmáttur og hóflegri verðhækkanir, aukinn stöðugleiki og agi í opinberum fjármálum, meiri verslun og viðskipti á einfaldari hátt, sem og auknar fjárfestingar.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að frá 1995 jókst landsframleiðslan í landinu um 70-110 milljarða sænskra króna árlega, umfram það sem hún annars hefði gert. Árleg landsframleiðsla var á þessum árum um 2000 milljarðar sænskra króna. Þetta þýddi því 0,4-0,7% meiri hagvöxt (á ári) en ef landið hefði verið fyrir utan ESB. Álíka niðurstöður fengust fyrir Danmörku og Austurríki. Í henni voru Svíþjóð, Finnland og Austurríki (ESB-lönd) borin saman við Ísland, Noreg og Sviss (ekki ESB-lönd). Þar kom fram að hagvöxtur hinna fyrrnefndu var meiri en hinna þriggja síðarnefndu á árunum 1995-2001.
Þá hafði aðild Svía að ESB einnig í för með sér umtalsverðar launahækkanir fyrir launamenn og það sem kannski enn mikilvægara er; verðbólga nánast hvarf. Frá því að vera um 7,5% að meðaltali árin 1980-1994, snarminnkaði hún niður í um eitt prósent(!) eftir aðild að ESB og hélst þannig árin 1995-2000. Allt fram á síðasta ár, þegar „krísan“ skall á, var verðbólga í Svíþjóð á bilinu 1-2%. Tók reyndar stökk í 4% í nóvember í fyrra, en hefur minnkað mikið og er nú aftur komin í um 1%. Einnig hafa vextir verið mjög lágir á þessu tímabili, reyndar með þeim lægstu í Evrópu. Vart er hægt að hugsa sér betri kjarabót en lága vexti og lága verðbólgu. Nokkuð sem Íslendingar eiga því miður ekki að fagna en í byrjun árs 2009 var verðbólga hér á landi 18,1% og stýrivextir 18%! Vaxtamunur milli Svíþjóðar og annarra landa, t.d. Þýskalands minnkaði því mikið. Samkeppni hefur aukist og verð á matvöru lækkað, þó svo að matarverð sé enn nokkuð hærra í Svíþjóð heldur en meðaltalið í ESB. Munurinn hefur verið í kringum 10-15%.
Í byrjun níunda áratugarins var almennt verðlag hins vegar 40-50% hærra í Svíþjóð en í ESB, en lækkaði um meira en helming eftir inngöngu. Almennt jókst kaupmáttur Svía eftir aðild að ESB. Agi hefur aukist í fjármálum sænska ríkisins, sem stefnt hefur að því á hverju ári að leggja fram fjárlög í jafnvægi („budget-i-balans“). Lágt vaxtastig hefur minnkað fjárfestingarkostnað sænskra fyrirtækja. Það varð því ódýrara fyrir þau að fjárfesta. Erlendar fjárfestingar jukust einnig á tímabilinu frá 1995-2003 og sama má segja almennt um verslun og viðskipti.
Annað sem nefnt er og er að mati samtakanna mikilvægt eru áhrif. Með inngöngu hafa Svíar orðið að „rödd“ innan ESB í stað þess að vera á hliðarlínunni, eða eins og segir í skýrslunni: „Með aðild hefur Svíþjóð nú áhrif á öllum þeim málasviðum sem um er að ræða í ESB.“ Sem dæmi má nefna að Fredrik Reinfelt, forsætisráðherra Svía, verður sérstakur „loftslagsráðherra“ ESB árið 2009. Loftslagsmál eru eitt af mikilvægustu framtíðarverkefnum ESB. Svíþjóð tekur síðan við formennsku ESB af Tékkum í sumar.
Svíþjóð er vissulega ekki með evruna, en í bókinni „Tíu ár í ESB“ frá 2005 metur Carl Bildt (mynd), núverandi utanríkisráðherra og fyrrum leiðtogi Moderaterna, „sænska Sjálfstæðisflokksins“, það svo að sú viðleitni Svía að uppfylla Maastricht-skilyrðin hafi verið mjög mikilvæg til að endurheimta traust á sænsku efnahags- og stjórnmálakerfi. „Hefðum við staðið fyrir utan þetta, hefði sá vegur verið mun erfiðari,“ skrifar hann í grein sinni.
Hér hafa aðeins verið tíndir til nokkrir punktar sem sýna fram á jákvæð áhrif af aðild Svía að ESB. Þrátt fyrir að margir Svíar láti í ljós efasemdir um ESB, dettur fáum í hug að segja sig úr sambandinu. Umhverfisflokkurinn sænski henti meðal annars þeirri kröfu á haugana fyrir nokkrum vikum. Núverandi borgaralega ríkisstjórn Svíþjóðar hefur aukið virkni sína gagnvart ESB. Ráðandi afl þar innanborðs er sænski hægriflokkurinn, systurflokkur Sjálfstæðisflokksins. Þessi áhersla sænska „Sjálfstæðisflokksins“ á sterk alþjóðleg tengsl og virkni í alþjóðamálum ætti að vera umhugsunarefni fyrir alla alþjóðlega þenkjandi sjálfstæðismenn á Íslandi. Ótvírætt er að Svíar hafa náð miklum árangri með inngöngu sinni í ESB.
Birt í MBL, 18.2.2009
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.