Af minkum og hænsnakofum

EINHVERS staðar á ég í fórum mínum litla plötu með Ómari Ragnarssyni, sem inniheldur lagið um Minkinn í hænsnakofanum. Þetta er 45 snúninga smáskífa og ég hreinlega hlustaði á hana í tætlur þegar ég var lítill snáði. Mér fannst minkurinn skemmtilegur, hann var prakkari, það var mikið fjör í honum og ég vissi líka að ástandið í hænsnabúinu myndi að lokum lagast.

Ég fór líka í hlutverk minksins, þegar ég heimsótti ömmu mína á sumrin, þar sem hún bjó á Þingeyri við Dýrafjörð. Nágrannakona hennar, sem kölluð var „Hanna í steinhúsinu“, átti hænur. Á sólfögrum morgnum gerði ég mér stundum ferð niður að hænsahúsinu hennar og þar breyttist ég í minkinn. Það var gaman að hlaupa á eftir hænunum og sjá fjaðrirnar svífa um í logninu. En ég hlaut skammir fyrir og mjög litlar vinsældir hjá Hönnu í steinhúsinu. Ég var bannfærður, enda verptu hænurnar ekki svo vikum skipti. Þetta þýddi að sjálfsögðu líka verri afkomu fyrir Hönnu í steinhúsinu, tímabundið að vísu. Ég iðraðist gjörða minna, en óneitanlega var þetta stuð meðan á því stóð, þetta var „kikk“.

En hvers vegna er ég að hugsa um þetta lag, um minkinn í hænsnakofanum? Jú, það er vegna Davíðs Oddssonar og hans gjörða og yfirlýsinga að undanförnu. Mér finnst hann nefnilega hegða sér nokkuð svipað og minkurinn, sem gerði allt vitlaust í hænsnakofanum. Við getum sagt að ástandið sé almennt mjög viðkvæmt í hænsnakofanum. Svo kemur minkurinn og hleypir öllu í bál og brand. Þegar enginn þarf á honum að halda. Og eðlilega vilja íbúar hænsakofans losna við hann sem fyrst.

Davíd Oddsson er seðlabankastjóri Íslands. Það á hann líka að vera og ekkert annað. Kannski þangað til annað verður ákveðið eða hann ákveður annað (sem mér skilst að sé mun líklegra). Davíð Oddsson er líka fyrrverandi stjórnmálamaður, forsætisáðherra, fyrrverandi borgarstjóri og leikstjóri (rétt eins og kemur fram í umdeildu viðtali við hann í Fyens Stiftstidende).

Maður hinna mörgu hlutverka. Getur verið að hann eigi hreinlega erfitt með að slíta sig frá þessum hlutverkum, að hann eigi erfitt með að einbeita sér að núverandi hlutverki? Eða vill hann, eins og margra Íslendinga er siður, vera með „mörg járn í eldinum“? Blanda öllu saman, vaða úr einu í annað, bara svona eftir því sem hentar?

Ísland á ekki að hafa pólitískan seðlabankastjóra. Slík hefð er ekki fyrir hendi í vestrænum hagkerfum. Það hefur meira að segja verið sagt að seðlabankastjórar eigi að vera „frekar leiðinlegir“ (sjá m.a. Birgi Hermannsson í Silfri Egils, 7.12. '08). Með þessu er ég þó alls ekki að banna Davíð Odssyni að vera skemmtilegur, slíkt dettur mér ekki í hug. Heimurinn þarf jú húmor.

Þetta er ef til vill spurning um vettvang og að skynja þá þjóð sem býr í þessu landi, tímasetningu og þess háttar. Reyndur maður eins og Davíð Oddsson ætti að skynja það að útspilin um upplýsingarnar, sem hann segist hafa, um beitingu Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart Íslandi og viðtal hans við Fyens Stiftstidende um mögulega endurkomu hans í stjórnmál, voru ekki sérlega vel tímasett. Meira moldviðri á Íslandi er óþarfi um þessar mundir. Sérstaklega í ljósi þess að allir eru að bíða eftir því að „rykið setjist“! En kannski vill Davíð bara, eins og minkurinn, hafa stanslaust stuð í hænsnakofanum? Þannig líði honum best! Spyr sá sem ekki veit.

MBL 15-12-08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband