21.1.2009 | 21:42
Um hóplögsóknir
Í fréttum þessum kom fram að óánægðir viðskiptavinir Kaupþings á Mön hefðu ráðið sér lögmann til þess að fara með mál sitt. Ef ég skil þetta rétt er um sk. hóplögsókn að ræða.
Undirritaður hefur verið að hugsa þessi mál upp á síðkastið vegna allra þessara peningasjóða. Þannig er nefnilega að hér á landi er (að mér skilst) ekki hægt að fara í svokallaða hóplögsókn. Víða á Norðurlöndunum er það hægt, m.a. í Svíþjóð, þar sem undirritaður bjó þar til í fyrrasumar. Neytendur/viðskiptavinir geta því myndað hóp gegn þeim aðila sem þeir vilja stefna. Staða neytandans/viðskiptavinanna er því mun sterkari en ella. En ekki hér á landi.
Þetta er aðeins ein sönnun þess hve neytendalöggjöfin og neytendamál eiga langt í land hérlendis. Hér verður hver og einn að berjast í sínu máli. Oft gegn ofurefli. Leikurinn er ekki jafn. Atburðir undanfarið sýna hins vegar svo ekki verður um villst að endurbætur þarf að gera á þessum málum. Réttarstöðu fólks verður að bæta.
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur.
MBL 26-11-08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.