Hvar eiga fæturnir að vera?

feetBjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksin og formaður utanríkismálanefndar Alþingis lét hafa eftir sér í þessum fjölmiðli (MBL) að flokkurinn ætti að vera leiðandi afl í Evrópuumræðunni. Hér kveður við nýjan tón. Eftir ákafa "ekki-á-dagskrá-stefnu" í Evrópumálum virðist sem þetta leiðandi afl íslenskum stjórnmálum sé að vakna af löngum dvala og sé að setja málið á dagskrá.

Enda annað í raun illmögulegt í ljósi breytinga á fjölmiðlun og fjölmiðlaumhverfi undanfarin ára. Í dag er ekki hægt að segja að mál séu "ekki á dagskrá".

Sú staðreynd að Írar sögðu NEI við Lissabon-sáttmálanum í þjóðaratkvæði fyrir skömmu breytir litlu fyrir umræðuna hér á landi. Enda ríkir hér áfram mikill óstöðugleiki í efnhagsmálum; gríðarleg verðbólga, svimandi háir vextir og krónan heldur áfram að vera “jó-jó gjaldmiðill”. Hvorki fyrirtæki né einstaklingar geta horft fram á veginn, forsendur dagsins í dag eru horfnar á morgun. Stöðugleiki er sem óskhyggja.

Undanfarið hefur berlega komið í ljós að innan Sjálfstæðisflokksins eru mjög skiptar skoðanir um tengsl Íslands og Evrópu og þarmeð afstöðunnar til aðildar að ESB. Í þessu samhengi má t.d. benda á skýra afstöðu Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Helga Magnússonar, formanns Samtaka iðnaðarins. Báðir hafa kallað eftir aðildarumræðum Íslands við ESB.

Varaformaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur einnig sagt að þjóðaratkvæði um aðild að ESB sé raunhæfur kostur á næsta kjörtímabili og að hún treysti almenningi til þess að taka afstöðu í málinu. Þetta er holl og lýðræðisleg afstaða.

Það má líkja saman hræringunum innan Sjálfstæðisflokksins við hræringar sem lengi hafa átt sér stað innan sænska Jafnaðarmannaflokksins.Sem er álíka stór flokkur í Svíþjóð og Sjálfstæðisflokkurinn hér á landi. Innan sænska Jafnaðarmannaflokksins hafa verið skiptar skoðanir um ESB, sem meðal annars hefur leitt til þess að menn hafi sagt sig úr flokknum.

Svíþjóð hefur verið aðildarríki ESB síðan 1995, en í valdatíð Görans Perssons, forsætisráðerra (1996-2006), voru sænskir kratar að mörgu leyti tvístígandi gagnvart ESB og nýttu sér ekki þau tækifæri til áhrifa sem aðild fól í sér. Þrátt fyrir að segjast vera með af fullri alvöru.

Þegar borgarleg ríkisstjórn, undir forystu hægrimannsins Fredrik Reinfelts tók við völdum, eftir sögulegan sigur haustið 2006, og þar sem Moderaterna , systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, er leiðandi flokkur, var hinsvegar ákveðið snarlega að nú skyldi Svíþjóð inn í kjarna ESB. Það er að segja, að hámarka kosti aðildar.

Það var Carl Bildt núverandi utanríkisráðherra, fyrrum leiðtogi flokksins (1986-1996) og forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991-1994, sem að stórum hluta stóð að mótun þessarar afgerandi stefnubreytingar. Til að leggja áherslu á breytta stefnu var sérstakur Evrópumálaráðherra skipaður, Cecilia Malmström, frá Þjóðarflokki. Hún er fyrrum þingmaður Evrópuþingsins, sat þar á árunum 1999-2006.

Það er ljóst að leiðandi aðilar innan sænska Hægriflokksins hafa þá sannfæringu að Svíþjóð eigi að nota aðild til þess að vera fullgildir aðilar og að ESB sé vettvangur til þess að hafa áhrif og ná fram brýnum hagsmunamálum, bæði landsins og alþjóðasamfélagsins, í samvinnu við önnur lönd innan ESB.

Hér á landi er hinsvegar staðan sú að leiðandi aðilar á sama væng stjórnmálanna, eru á bremsunni, eða hafa verið til þessa, og maður fær það á tilfinninguna að það verði örlög málsins að það verði rætt fram í rauðan dauðann, án þess að nokkur vitræn niðurstaða fáist í málið. Er það kannski stefnan á meðan leiðandi aðilar innan samfélagsins kalla í raun eftir alvöru stefnu í málinu? Og það skal tekið hér skýrt fram að ESB-aðild er hér ekki sett fram sem lausn á skammtímavanda, heldur stefna til framtíðar.

Norðmenn höfnuðu aðild að ESB á sínum tíma. Gott og blessað, þeirra val. Þeir fengu þó að kjósa! Hér hafa heyrst þær raddir að við Íslendingar höfum svo litla reynslu af þjóðaratkvæði. Það eru að mínu mati léttvæg rök. Þjóð sem telur aðeins 313.000 manns getur auðveldlega skipulagt og framkvæmt þjóðaratkvæði. Enda gert við hverjar kosningar!

Finnar gengu í ESB 1995 og tóku "allan pakkann”, með Evru (2002) og öllu sem ESB tilheyrir. Danir, sem hafa verið með síðan 1973 og Svíar, eru þarna á milli, það sem vantar hjá þeim er Evran. Engu að síður eru löndin virkir aðilar í sambandinu, sérstaklega í ljósi síðustu breytinga í Svíþjóð. Ísland er hinsvegar með annan fótinn inni (EES) og hinn úti. Er ekki kominn tími til að höggva á þennan hnút og ákveða hvar báðir fæturnir eiga að vera?

MBL , júní 2008. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband