Er íslenskur landbúnaður "heilög kú"?

Muu!Í hinn ágætu bók,Tinni í Tíbet, sem sannir Tinna-aðdáendur hafa lesið, leggur Tinni í leiðangur til þessa lands.Hann vill bjarga vini sínum, sem hann er sannfærður um að hafi lifað af flugslys þar í landi. Á leið sinni verða Tinni og Kolbeinn kapteinn (sem nær ávallt er með í för) að millilenda í Khatmandú á Indlandi.

Í skoðunarferð um borgina, til þess að drepa tímann, í bið eftir næsta flugi, ramba þeir félagar fram á kú. Sú hefur stillt sér á miðja akbrautina og fer hvergi. Tinni og Kolbeinn eru að missa af fluginu. Þetta finnst Kolbeini kapteini alls ekki sniðugt, enda ekki mjög þolinmóður maður að eðlisfari. Hann vill færa kusu, en innfæddir segja honum að það megi alls ekki, kýr séu heilagar á Indlandi. Þeir verði bara að bíða eftir því að kusan fái þá hugmynd að færa sig. Þessi rök og þessi hugmyndafræði fellur ekki í kramið hjá kapteininum, sem tekur sig til og sest upp á kusu. Hún æðir af stað. Eftir ævintýralega ferð, hendir kusan Kolbeini um borð í þá bifreið sem beið þeirra, Tinni kom hlaupandi á eftir. Þeir brunuðu út á flugvöll og náðu fluginu. Í lok bókarinnar björguðu þeir svo vini sínum, sagan endaði vel.

Mér flaug þetta í hug í sambandi við þá umræðu sem spunnist hefur vegna væntanlegrar innleiðingar á landbúnaðarlöggjöf ESB hér á landi. Mér finnst nefnilega íslenskur landbúnaður og talsmenn hans hegða sér eins og hin heilaga kú, það megi bara alls ekki hrófla við henni! Kýrin er ósnertanleg og öll utanaðakomandi trulfun er bönnuð. Hin heilaga kú ræður sér sjálf.

Íslenskur landbúnaður hefur löngum notið ríkulegra ríkisstyrkja og ekki þurft að glíma við samkeppni að neinu marki. Menn hafa getað verið óáreittir í sínum sveitum, framleitt það sem þeir nánast hafa viljað, burtséð frá því hvort kaupendur hafa verið til staðar eða ekki (sbr smjör og kjötfjöll). Afurðir hafa verið fluttar út með ærnum tilkostnaði, sem auðvitað er greiddur af skattgreiðendum, almenningi.

En nú, þegar til stendur að hleypa erlendum aðilum inn á þennan markað, hvín og syngur í hinni heilögu kú. Hér mun nánast allt fara norður og niður, verði t.d. leyft að flytja inn ferskt kjúklingakjöt, svo dæmi sé tekið. Íslendingar muni fá magakveisu og veikjast unnvörpum og hvaðeina. Þetta er náttúrlega hræðsluáróður. Fyrir það fyrsta eiga Íslendingar væntanlega "bestu eldavélar" í heimi, þar sem hægt er að steikja og sjóða þetta kjöt, innihaldi það einhverjar bakteríur!!

Og af hverju verða ekki þeir Íslendingar sem: a) fara til útlanda og b) þeir sem búa í útlöndum (og þeir eru margir) ekki veikir massavís ? Sjálfur bjó undirritaður 11 ár í Svíþjóð (1996-2007) og neytti fjölskyldan kjötvara frá hinum ýmsu löndum, eggja og hvaðeina. Aldrei urðum við veik, ekki einu sinni!!

Þetta sýnir bara að um er að ræða hræðsluáróður og að íslenskur landbúnaður er lafhræddur við samkeppni. En hvað er að hræðast, er íslenskur landbúnaður ekki sá "besti í heimi"? Er þá nokkur ástæða til að baula eins og hin heilaga kú, um hætturnar sem felast í því að leyfa innflutning á erlendum landbúnaðarafurðum? Ber ekki frekar að fagna þessu tækifæri og geta loksins sýnt og sannað að hér á landi sé "besti landbúnaður" í heimi; bestu rollurnar og kýrnar, sem anda að sér besta lofti í heimi, drekka besta vatnið, anda að sér besta súrefninu og bíta besta gras í heimi? Þessi dýr ættu þá væntalega að geta af sér "bestu afurðir" í heimi, ekki satt? Er þetta þá ekki bara unninn leikur hjá "hinni heilögu kú" Íslands?

Ég held hinsvegar að hún verði að venjast þeirri staðreynd að um er að ræða fleiri "kýr". Í hinn frábæru bók Palli var einn í heiminum, vaknaði hann upp frá þeim draumi um að hann væri einn í heiminum. Sá þá að sú var ekki raunin. Íslenskur landbúnaður er kannski enn í svipuðum draumi og Palli, en raunveruleikinn bíður hans þegar drauminn tekur enda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband