Magnús í Eyjum og ESB

vestmannaeyjarMagnús í Eyjum og ESB Það er í raun afar athyglisvert og pínulítið dapurlegt að lesa ummæli Magnúsar Kristinssonar, eiganda útgerðarmanns úr Eyjumog eiganda Toyota-umboðsins í laugardagsviðtali 24stunda þ.19.apríl síðastliðinn. Blaðamaður spyr hvort hann telji að Evran og Evrópusambandið séu lausnin á efnhagsvanda þeim sem Íslendingar glíma nú við: Orðrétt svarar Magnús: ,,Ég fylgist með umræðunni sem mér finnst á á köflum vera glamúrkennd. Ísland er eyja úti í Atlantshafi.Evrópusambandið er ekki töfraorð.Ef við færum inn í Evrópusambandið hefðum við þar lítil sem engin áhrif.”  Fyrir það fyrsta átta ég mig ekki alveg á því hvað hann á við með orðinu ,,glamúrkennd”, því enska orðið ,,glamour” vísar til einhvers sem hefur yfir sér töfra eða dýrðarljóma. Á Magnús þá við að Evrópuumræðan hér á landi sé af því taginu, hafi slíkan ljóma yfir sér? 

Og svo er það þetta með áhrifin. Hvernig veit Magnús að við hefðum þar lítil sem engin áhrif? Íslendingar hafa jú aldrei verið í ESB! Heldur hefur verið í gangi síðan 1994 sérstakur samningur (EES) um aðgang okkar að innri markaði ESB, sem veitt hefur þjóðinni aðgang að markaði sem í dag telur 500 milljónir manna! Það er jú ekki lítið. Hinsvegar höfum við ekkert að segja til um það hvernig framtíðin innan ESB mótast, við erum jú ekki pólitískir þátttakendur í ESB, heldur þiggjendur, tökum við löggjöf frá ESB. Er það óskastaðan? 

Það er hinsvegar bjargföst trú mín að Íslendingar gætu haft töluvert mikið um ýmis mál að segja innan ESB, ekki síst sjávarútvegsmál, þann málaflokk sem Magnús gjörþekkir og hefur gríðarlega reynslu af.  Í lok febrúar fór ESB þess formlega á leit við Íslendinga að við myndum aðstoða þá við endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB. Það eru í raun fáheyrð tíðindi, en sýnir engu að síður að ESB metur þekkingu okkar á þessum málaflokki mikils. Eða mistúlka ég skilaboðin? Lítið hefur hinsvegar farið fyrir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Það væri áhugavert að heyra mann eins og Magnús segja frá reynslu sinni af útgerðar og kvótamálum fyrir framan fulltrúa ESB. Mann sem þekkir bæði kosti og galla núverandi fyrirkomulags. Frá fyrstu hendi. Ég er nokkuð viss um að allavegana þeir sem hafa eitthvað með sjávarútvegsmál að gera innan ESB, myndu hlusta, jafnvel fleiri. Fulltrúar ESB og landa innan þess,  sem að undanförnu hafa komið hingað til lands, hafa nánast undantekningalaust sagt að þeir vilji fá Ísland inn í sambandið. Þeir telja okkur eiga samleið með því í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á alþjóðakerfinu. Það tel ég einnig.

Það væri að mínu mati afar þroskandi fyrir Ísland, íslenskt stjórnkerfi og stjórnmálalíf að t.d. geta átt ótakmarkað samstarf, á grundvelli ESB, við þau Norðurlönd sem nú þegar eru innan sambandsins; Danmörku, Svíþjóð og Finnland. Allt lönd sem hafa mikilla hagsmuna að gæta hér á norðurhveli jarðar, en síðustu atburðir benda til þess að einmitt norðurhvelið sé að verða sífellt mikilvægara svæði jarðkringlunnar. Magnús segir að Ísland sé eyja í Atlantshafinu. Það er vissulega rétt hjá honum. Við breytum ekki landfræðilegri legu landsins. En eru það rök fyrir því að ganga ekki í ESB? Innan ESB er jú fullt af eyjum: Malta, Kýpur, eyjar Ítalíu og Grikklands, svo dæmi séu tekin. Og ef Ísland gengi í ESB myndu Vestmannaeyjar bætast í þennan ágæta hóp.  

Nei, rökin eiga náttúrlega að vera bæði efnhagslegs og pólitísks eðlis. Viljum við vera með að skapa þá framtíð sem Evrópa stendur frammi fyrir? T.d. á sviði umhverfismála, sem er annar málaflokkur sem ég tel að við Íslendingar höfum klárlega ýmislegt til málanna að leggja. Ég veit t.d. ekki betur en að það hafi verið lengi í gangi rannsóknir (og þróun) á því hvernig minnka megi eldsneytisnotkun fiskiskipa okkar og að slíkur búnaður sé í notkun í flotanum, eða a.m.k. hluta hans. Hreinræktuð umhverfismál! Önnur möguleg svið: Hitnun jarðar, bráðnun ísa, möglegar breytingar á straumum í kjölfar umhverfisbreytinga? Erfið, en gríðarlega mikilvæg mál. Það er vissulega ágætt að Magnús fylgist með umræðunni um Evrópumálin, en það væri líka afar áhugavert að heyra meiri rök fyrir skoðunum hans. Því án raka er ekki hægt að taka afstöðu, hvorki með, eða á móti. Þá hjakkar maður í sama farinu. Og þá dugar hvorki Toyota né einhver önnur bílategund til. 

Höfundur er stjórnmálafræðingur og hefur stundað togarasjómennsku.

Birt í 24 stundum 26. apríl 2008  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband