15.5.2008 | 00:05
Um ESB og sjálfstæðisrök andstæðinga þess
Andstæðingar ESB-inngöngu hamast margir hverjir á þeirri röksemd að Íslendingar muni glata sjálfstæðinu við inngöngu í ESB. En hvernig útskýra ESB-andstæðingar þá staðreynd að þau lönd í Mið- og austur-Evrópu sem losnuðu undan járnhæl kommúnismans létu það verða forgangsverkefni að sækja um aðild að ESB? Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakía eru nú öll aðildarríki ESB.
Fengu þessi nýfrjálsu ríki frelsið bara til þess eins að kasta því í burtu, "augnabliki" síðar? Þessi lönd hafa sjaldan eða aldrei verið frjálsari en einmitt nú. Gott dæmi: Slóvenía, sem nú fer með formennsku í ESB, en var árið 1991 aðeins lýðveldi í Júgóslavíu kommúnismans, áður en það sagði sig úr ríkjasambandinu sama ár. Þá réðist Alþýðuher Júgóslavíu inn í Slóveníu og stóð þar yfir stríð í tíu daga. Því lauk með að Alþýðuherinn hraktist þaðan. Frá þeim tímapunkti hefur Slóvenía markvisst unnið sig inn í innsta kjarna ESB, en árið 2004 gekk landið með formlegum hætti í ESB og NATO. Slóvenar gegna nú, eins og áður sagði, formennsku í ESB. Þessi árangur á aðeins fjórum árum frá gildistöku aðildar! Íbúar Slóveníu eru um 2 milljónir og gjaldmiðill landsins er Evra.
Annað dæmi: Eystrasaltslöndin, sem öll voru undir járnhæl Sovétríkjanna. Eftir að þau fengu frelsi frá þeim var stefnan sett á ESB. Eistland, Lettland og Litháen gengu öll í NATO og ESB sama ár, þ.e. 2004. Hagvöxtur og framþróun í þessum löndum er með mesta móti nú um stundir, þau einfaldlega blómstra.
Í Svíþjóð, sem gekk í ESB árið 1995, er það nánast aðeins í Vinstriflokknum (sem er arftaki Kommúnistaflokksins) þar sem raddir, sem tala um miðstýringu frá Brussel, heyrast. Nú heyrast einnig raddir frá sænska Umhverfisflokknum (til vinstri á hinum pólitíska skala) sem vilja kasta fyrir róða þeirri fyrri skoðun sinni að Svíþjóð beri að segja sig úr ESB. Maria Wetterstrand, annar leiðtoga flokksins, tilkynnti það fyrir skömmu að henni fyndist vænlegra til árangurs að vera með í ESB.
Á komandi áratugum verða umhverfismál einn mikilvægasti málaflokkurinn sem mannkyniðglímir við. Hvaða áhrif og HVERNIG vilja Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa í þeim málaflokki (sem er þó aðeins einn af mörgum)? Er ekki sjálfstæði einmitt falið í því að geta valið að vera með í ESB sem fullgilt aðildarríki, sem hlustað er á og hefur eitthvað til málanna að leggja á réttum stöðum? Eða er betra að velja að vera nánast áhrifalaus í útjaðrinum? Og hvað "sjálfstæðisrök" andstæðinga ESB-aðildar varðar, þá tel ég þau vera hriplek. Ísland hættir ekki að vera sjálfstætt land við inngöngu í ESB.
Veröldin hefur breyst og það allverulega síðan Ísland fékk sjálfstæði. Aðstæður í alþjóðamálum eru gjörbreyttar, ekki síst eftir að ,,Kalda stríðinu lauk. Er hægt að horfa framhjá þeim breytingum þegar fjallað er um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og hvert skuli stefna?
Fréttablaðið 22.mars 2008
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.