15.5.2008 | 00:01
Kosovo, Serbar og sagan
Hinsvegar vil ég benda honum á nokkrar sögulegar staðreyndir: 1) Það voru Serbar, sem stjórnuðu Alþýðuher Júgóslavíu, sem hófu átökin í landinu árið 1991, þegar þeir réðust inn í Slóveníu (en lýðveldið hafði sagt skilið við ríkjasambandið). Líka í Króatíu, sem og Bosníu, en þar létu um 200.000 manns lífið. Og það var sami her sem lét til skarar skríða í Kosovo árið 1998 og sem NATO brást við með hernaðaraðgerðum sínum. Serbar, með Slobodan Milosevic, í fararbroddi, báru ábyrgð á átökunum í Júgóslavíu, það voru þeir sem fyrstir gripu til vopna! Það er söguleg staðreynd.
Rúnar sér einnig ástæðu til þess að tala á léttvægan hátt um hugtakið ,,þjóðernishreinsanir sem iðulega komu fyrir í þessum átökum. Hann segir þær ,,gamlar lummur, sem ekki eigi við lengur. Þessi afstaða finnst mér hættuleg og væri áhugavert að sjá Rúnar fella orð af þess tagi fyrir framan mæður og eiginkonur þeirra 8000 múslíma, sem Bosníu-Serbar, undir herstjórn Ratko Mladic, myrtu í bænum Srebrenica sumarið 1995. Þetta voru mestu fjöldamorð í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Er þetta gömul lumma, Rúnar?
Hvers vegna Serbar telja sig eiga tilkall til Kosovo, skýrði ég út í grein minni og ætla ekki að gera það aftur. Albanir gera hinsvegar tilkall til Kosovo, vegna þess að þeir eru yfirgnæfandi meirihluti íbúa svæðisins. Serbar hafa hinsvegar lítið gert til þess að koma til móts við Albana og nær ekkert til þess að bæta aðstöðu íbúa héraðsins, eins og ég segi einnig frá í grein minni. Kosovo var fram til 1999 stjórnað með járnhendi frá Belgrad og t.a.m. voru allir embættismenn í Kosovo af serbneskum uppruna. Albönum var bannað að starfa innan stjórnsýslu héraðsins, en eru þó yfir 90% íbúanna!
Landfræðilega, sem og sögulega, gætu einnig íbúar Kosovo sótt það að sameinast Albaníu, enda hafa verið uppi raddir um slíkt. Albanía er hinsvegar ekki fýsilegur kostur til að sameinast, enda landið í rúst eftir einræðisherrann og stalínistann Enver Hoxha (sem lést árið 1985 eftir að hafa stýrt landinu í 40 ár). Albanía er eitt af fátækustu ríkjum Evrópu.
Flest bendir einnig til þess að Albanir séu upprunalegir íbúar þess svæðis sem nú er Kosovo, en Serbar komu mun seinna til þessa svæðis, eða á 6. öld.
Rúnar missir sig síðan í lítt málefnalega umræðu um Þingvelli og innflytjendur, sem ég ætla ekki að svara hér, enda þarf í raun aðra grein til þess.
Í átökunum í Júgóslavíu (1991-1995) og Kosovo (1996-1999) gerðu bæði Serbar, Króatar, múslímar í Bosníu, Bosníu-Serbar, sem og Kosovo-Albanir (í Kosovo-stríðinu), sig seka um hryllilega hluti. Því skal ekki stungið undir stól. Hinsvegar bera Serbar þyngstu byrðina og eiga ,,heiðurinn af Srebrenica, en sá litli staður verður um aldur og ævi beintengdur Serbum, því miður. En rétt skal vera rétt.
Varðandi hina ýmsu minnihlutahópa sem berjast fyrir sjálfstæði í Evrópu og sem Rúnar vísar óbeint til í grein sinni, er hægt að hafa mörg orð. Þessi mál eru yfirleitt afar flókin og eldfim, rétt eins og dæmið um Kosovo sannar. Og því er alls ekki lokið. Hinsvegar vil ég leiðrétta það sem Rúnar lætur í skína í grein sinni, þegar hann segir að Kosovo-Albanir stefni að því að leggja undir sig Kosovo, sem er ekki rétt. Þeir telja sig einfaldlega hafa verið miklu misrétti beittir og það er staðreynd. Það var t.d. Slobodan Milosevic, sem árið 1989 afnam þau sjálfstjórnarréttindi sem héraðið hafði smám saman fengið í valdatíð Jóseps Títo. Og Rúnar, Tító var ekki bara Króati, heldur var hann einnig hálfur Slóveni! Reyndar fjallaði ég ekkert um þjóðerni hans í grein minni, enda ekki lykilatriði. Rétt skal hinsvegar vera rétt.
Eftirköst átakanna á Balkan-skaga og afleiðingar þeirra eru enn ljóslifandi meðal vor. Kosovo og frelsisþrá íbúa þar er dæmi um það. Það liggur í eðli mannsins að leita eftir frelsi, ráða sér sjálfur. Hrun kúgunarkerfis kommúnismans (sem Júgóslavía var hluti af, þó þar hafi ástandið lengi vel verið betra en í öðrum kommúnistaríkjum) er gott dæmi þess. Þessi frelsisþrá sást ef til vill best með hruni Berlínar-múrsins árið 1989, sem var eitt helsta tákn þessa kerfis.
Sem betur fer eru til lönd sem eru tilbúin til þess að styðja aðra hópa eða þjóðir til frelsis (þ.á.m. við Íslendingar, við höfum okkar eigin reynslu af kúgun). En ef ég skil þig rétt Rúnar, þá finnst þér það hættulegt að Kosovo fái sjálfstæði og vilt viðhalda úreltu kerfi sem er gengið sér til húðar. Það kallast afturhaldssemi.
MBL 18.1.2008
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.