Evran og "þrýstingurinn"

Á meðan forsætisráðherra finnur "engan þrýsting" bruna forráðamenn íslenskra alþjóðafyrirtækja fram úr lýðræðislega kjörnum fulltrúum í umræðunni um evruna og allt þetta tekur á sig mjög sérkennilegar myndir. Þetta með þrýstinginn er afar athyglisvert og segir annaðhvort að Geir H. Haarde sé ónæmur fyrir þrýstingi eða hann finni hann, en vilji ekki viðurkenna það. Enn eitt einkennið á því "sem-fyrst"-samfélagi sem Ísland er. Umræðan nú á sér svipaðar rætur, þ.e.a.s. vegna rússíbanaferðar á hlutabréfamörkuðum og óstöðugleika.

Kjarni málsins er ef til vill sá að ef forystumenn Sjálfstæðisflokksins myndu af alvöru fara að ræða evruna myndi skapast djúpur klofningur innan flokksins, því eðli evrunnar er þannig; annaðhvort eru menn með eða á móti.

Og Sjálfstæðisflokkurinn er stór flokkur, þar er að finna breiðan hópa manna og kvenna, hver með sína skoðun. Hins vegar yrði það að mínu mati flokknum hollt að ræða þessi mál af yfirvegun og skynsemi, nokkuð sem undirrituðum finnst hafa skort í umræðunni hérlendis um evruna. Sérstaklega var spaugilegt að fylgjast með umræðunni í fyrra þegar íslenska krónan var með eitthvert "vesen", var óstöðug og almennt leiðinleg að mati margra. Þá vildu menn hlaupa til og skipta yfir í evru og bara drífa í þessu. Enn eitt einkennið á því "sem-fyrst"-samfélagi sem Ísland er.

Umræðan nú á sér svipaðar rætur, þ.e.a.s. vegna rússíbanaferðar á hlutabréfamörkuðum og óstöðugleika. Ég vil hins vegar minna á að evran verður ekki tekin upp á einum degi. Fyrst þurfa ríki og stjórnvöld að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. að verðbólga megi ekki vera yfir ákveðnum mörkum, verðlag þarf að hafa verið stöðugt í a.m.k. tvö ár og skuldir hins opinbera mega ekki vera hærri en sem nemur 60% af heildarlandsframleiðslu. Að taka upp evru krefst aðgerða, sem eru tímafrekar og geta verið mjög sársaukafullar. Þær krefjast mikils pólitísks vilja og geta verið mjög áhættusamar fyrir þá aðila sem fyrir þeim standa. En kannski fyrst og fremst; þær geta kostað atkvæði! Og þar stendur sennilega hnífurinn í kúnni.

Þetta vita þeir sem ekki finna fyrir neinum "þrýstingi". Fulltrúar viðskiptalífsins vita hins vegar að upptaka evrunnar og stöðugleiki í gjaldeyrismálum myndi þýða betri afkomu fyrirtækjanna, minni kostnað og bætta afkomumöguleika. Fyrir almenna neytendur og skattborgara myndi upptaka evrunnar einnig þýða betri afkomu heimilanna, í formi lægri verðbólgu og lægri vaxta. Aðrir þættir, s.s. matvælaverð, myndu að öllum líkindum lækka vegna minni kostnaðar við innflutning, en á Íslandi er matvælaverð eitt hið hæsta í Evrópu. Mig langar einnig að minna á í þessu samhengi að hugmyndir innan ESB um sameiginlegt myntbandalag urðu að markmiði þess árið 1969, en hins vegar varð það ekki að veruleika fyrr en 30 árum síðar, með upptöku evrunnar í 11 löndum. Það sýnir náttúrlega þá þrautseigju sem einkennt hefur þetta ferli hjá ráðamönnum ESB og að þeir hafi verið tilbúnir að bíða eftir hlutum sem þeir höfðu tiltrú á.  

Finnar tóku upp evruna árið 1999 og í grein sem seðlabankastjóri Finnlands, Erkki Liikanen, skrifaði í byrjun þessa árs fór hann yfir reynsluna af evrunni og komst að þeirri niðurstöðu að upptaka hennar hefði haft margvísleg jákvæð áhrif á finnskt efnahagslíf. Hann segir að fátt af því sem andstæðingar evrunnar hafi varað við hafi ræst og að verðbólga í Finnlandi hafi verið með því lægsta í Evrópu, en hagvöxtur hafi verið meiri en meðaltalið innan ESB. Liikanen segir í grein sinni að skilvirknin í finnskum efnahag hafi aukist með upptöku evrunnar og að peningamálastefna landsins hafi öðlast aukinn trúverðugleika.

Það er eitt af hlutverkum opinberra stjórnvalda að stuðla að og taka þátt í opinberri umræðu. Slíkt einkennir opin og lýðræðisleg samfélög og Ísland á samkvæmt skilgreiningu að vera eitt slíkt. Þar af leiðandi er það ekki hlutverk stjórnvalda og ráðandi afla að þagga niður umræðu, t.d. með þeim rökum að einhver "þrýstingur" finnist ekki. Geir H. Haarde veit nákvæmlega hvaða umræða hefur verið í gangi og hefur tækifæri sem fáir hafa til þess að tjá sig um þessi mál. Hann getur haft mikil áhrif á umræðuna og því er það mjög mikilvægt að slíkt sé gert af skynsemi og framtíðarhyggju. Íslendingar komast ekki hjá því að ræða breytingar í umheiminum, það er því spurningin hvernig við viljum standa að þeirri umræðu.

Birt í MBL á haustdögum 2007.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband