SA og ESB – kominn tími á endurmat?

Sífellt fleiri hér á landi vilja athuga að nýju möguleikann á aðildarviðræðum og aðild að ESB, Evrópusambandinu. Í könnun sem Maskína gerði í desember í fyrra, kom fram að 66% þeirra sem tóku afstöðu eru fylgjandi því að hefja viðræður um aðild Íslands að ESB. Í annarri könnun, einnig frá Maskínu, frá í febrúar á þessu ári kom fram að 53.3% þeirra sem tóku afstöðu voru fylgjandi aðild að ESB.

Um 99% rýrnun krónunnar

Í umræðunni um ESB hafa andstæðingar aðildar verið duglegir að benda á að krónan okkar hafi nú reynst vel og að aðild að ESB komi ekki í veg fyrir verðbólgu. Þeir gleyma hins vegar tveimur afar mikilvægum staðreyndum. Sú fyrri er að íslenska krónan hefur frá árinu 1920 tapað um 99% andvirði sínu og að meðalverðbólga hér á 20.öldinni var um 20% á ári. Á árunum 1968-1979 var hún t.d. á bilinu 45-85%.

Með aðild að stærra myntsvæði eru yfirgnæfandi líkur á að þetta muni ekki gerast. Eða eins og segir í frétt Morgunblaðsins um þetta frá í desember 2010: ,,Saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi er því þyrnum stráð allt frá upphafi, óháð því hvernig gengis- og peningastefnan hefur verið útfærð, segir í nýrri skýrslu sem Seðlabankinn hefur unnið og skilað til efnahags-og viðskiptaráðherra.“

Himinháir vextir

Sama á við um vexti, en vextir hér á landi hafa hér á landi verið umtalsvert hærri en í nágrannalöndum. Þegar þetta er skrifað eru stýrivextir hér 7,5%, en 3% í Svíþjóð, stærsta hagkerfi Norðurlanda. Þá er vaxtakostnaður ríkissjóðs gríðarlegur, árið 2021 greiddi ríkið um 134 milljarða í vexti, sem er um 4.1% af fjárlögum. Til samanburðar greiddu Svíar 0.3% af fjárlögum sínum í vexti árið 2018.

Annað í sambandi við ESB er það sem ég vill kalla sinnuleysi eða kannski áhugaleysi Samtaka atvinnulífsins um Evrópumál og mál tengd fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Flestar nýjustu fréttirnar á vefsvæði SA sem innihalda orðið ,,ESB“ eru um Brexit og útgöngu Breta. Ein frétt frá 2011 innihélt hluti sem tengdust Íslandi og mögulegri aðild að ESB.

,,Brellin er loðnan“

Pistill framkvæmdastjóra SA frá um miðjan mars ber heitið ,,Brellin er loðnan“ og fjallar að sjálfsögðu um sjávarútveg. Allir vita sem fylgjast með umræðu um Evrópumál vita að talsmenn sjávarútvegsins og helstu fyrirtækja þar eru, og hafa verið, mjög á móti aðild að ESB og rök á borð við að ,,ESB muni taka af okkur fiskinn“ hafa gjarnan verið notuð.

Á sama tíma gera mörg stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi upp í evrum eða dollar og njóta þar með kosta erlendrar myntar, eru í raun fyrir utan krónuhagkerfið og sækja í skjól frá krónunni. Þetta getur íslenskur almenningur einfaldlega ekki gert, hann er innilokaður í krónuhagkerfinu. Alls voru um 250 fyrirtæki sem gerðu upp í evrum eða dollar árið 2022.

Hér skal einnig bent á þá staðreynd að ESB hefur ekki hirt auðlindir af einni einustu þjóð sem hefur gengið í sambandið. Svíar eiga enn sitt málmgrýti, Finnar sína skóga og ekki var hirt olían af Bretum á meðan þeir voru með í ESB. ESB mun því ekki hirða fiskinn af Íslandi, það hefur enga hagsmuni af því.

Í úttekt sem Alþjóðamálastofnun HÍ gerði á aðildarviðræðum við ESB árið 2013 kom fram að ekkert benti til þess að ekki væri hægt að ganga að óskum Íslendinga um sjávarútvegsmál, t.d. að lögsaga landsins yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði. Nánast má fullyrða að ESB og Ísland hefðu náð samkomulagi um þessi mál, enda nær ESB nánast án undantekninga samkomulagi við sína samningsaðila, þó það taki tíma og fyrirhöfn. Brexit er þar ágætis dæmi.

ESB styrkir uppbyggingu innviða

ESB hefur styrkt með beinum hætti miklar framkvæmdir í innviðum og öðru sem komið hefur aðildarþjóðum að góðum notum. Frá því að Pólland gekk í ESB árið 2004 hefur um 213 milljörðum evra (tæplega 33.000 milljarðar króna) verið veitt til innviðauppbyggingar þar í landi. Á móti hefur landið greitt um 70 milljarða evra í aðildargjöld til sambandsins. Bein erlend fjárfesting jókst því stórkostlega í landinu eftir aðild, en Pólland er nú fimmta stærsta hagkerfi ESB.

Ísland: Slæm staða í erlendri fjárfestingu

Hér á landi er bein erlend fjárfesting hins vegar mun minni en í samanburðarlöndum og í umsögn frá Viðskiptaráði um þessi mál árið 2022, til forsætisráðuneytisins, segir að Ísland ...,,standi mjög illa í samanburði við aðrar þjóðir um alþjóðaviðskipti og erlenda fjárfestingu.“ Þá segir einnig að gildandi reglur um erlenda fjárfestingu séu mun strangari og óhagfelldari hér en í nær öllum ríkjum OECD.

Höfundar segja svo orðrétt: ,,Hlutirnir hafa jafnframt þróast til verri vegar undanfarin ár en bein erlend fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hefur dregist saman á Íslandi. Fjárfestingin nam að meðaltali um 35% af vergri landsframleiðslu á árunum 2017-2021, samanborið við 62% árin 2010-2015.“

Hvers vegna ætli þetta sé? Getur það kannski meðal annars verið gjaldmiðillinn og það umhverfi sem hann skapar? Gjaldmiðlar skapa nefnilega traust, sérstaklega þeir sterku, hinir veiku gera það ekki. Menn höfðu t.d. ekki mikla trú á ítölsku lírunni á sínum tíma, en óbilandi trú á þýska markinu. Nú eru bæði löndin með evru.

Brúin í Króatíu

Skoðum nú annað dæmi frá útlöndum: Nýlega var opnuð brú í Króatíu (sem tók upp evruna um áramótin), sem stórbætir samgöngur þar í landi. Aðeins er um áratugur frá því landið gekk í ESB, eða um svipað leyti og umsókn Íslands var sett á ís. Brúin kostaði um 420 milljónir evra, eða um 75 milljarða íslenskra króna. Í þessu tilfelli kom 85% fjármagnsins frá ESB, sökum mikilvægis verkefnisins fyrir landið, m.a. vegna uppbyggingar í ferðamennsku. Króatía er ein af smáþjóðum Evrópu, íbúar eru um fjórar milljónir. Verkefni sem þetta kemur öllu landinu (og fleirum, m.a. Bosníu) til góða, eins og kemur fram í fréttinni sem krækt er í hér að ofan.

Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna, en gríðarlegur fjöldi verkefna í innviðum, rannsóknum og þróun, umhverfismálum og ,,grænum iðnaði“ nýtur stuðnings ESB. Þessi verkefni eru unnin í samvinnu við aðildarríkin. ESB er nefnilega í grunninn efnahags og viðskiptabandalag, byggt á kapítalískum grunni og miðar að efnahagslegum framförum.

Sjá eigendur fyrirtækja hér á landi ekki þá möguleika sem felast í þessu og fullri aðild að ESB? Með fullri aðild myndi erlend fjárfesting hér á landi að öllum líkindum aukast til muna hér á landi. Að mati höfundar er það ekki nokkur spurning að fjölmörg fyrirtæki á sviði verklegra framkvæmda myndu njóta góðs af fullri aðild Íslands að ESB. Það myndi skapa störf, aukna veltu og þar með hagnað fyrir allt þjóðabúið.

Hundruða miljarða þörf í innviðum

Samtök iðnaðarins gáfu út skýrslu árið 2021 sem fjallaði um nauðsyn á uppbyggingu á innviðum hér á landi. Þar kemur fram að í fyrsta lagi sé ástand innviða hér á landi almennt slæmt og að í öðru sé uppsöfnuð þörf á uppbyggingu innviða sé að minnsta kosti um 420 milljarðar króna.

Í skýrslunni er meðal annar rætt um flugvelli, hafnir, vegakerfi, fráveitur, úrgangsmál og vatnsveitur. Í fáum orðum, það er mjög mikið að víða hér á landi og mjög margt sem mætti bæta. Hér mætti hugsa sér fjölmörg verkefni sem íslenska ríkið og Evrópusambandið myndu vinna að í sameiningu, til hagsbóta fyrir land og þjóð, aukið öryggi á vegum úti og fleira slíkt. Einfaldlega það sem heitir frekari nútímavæðing í íslensku samfélagi. ESB er nefnilega ein stærsta ,,bissnessmaskína“ heims ef þannig má að orðið komast.

En getur verið að krónan sé stóra hindrunin, að krónan sé ,,fíllinn í stofunni“ sem allir eru lafhræddir við og enginn þorir nánast að tala um í þessu samhengi? Getur það verið að menn hreinlega óttist þensluáhrif vegna örmyntarinnar, að miklar framkvæmdir leiði til þenslu, verðbólgu og hárra vaxta?

Það er mörgum í fersku minni þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð, þá leiddi það til mikillar þenslu í hagkerfinu. Hræðast menn sviðsmyndir sem þessar? Þarf þá ekki að leita annarra leiða og skoða nýja valkosti?

Útflutningur jókst um 140%

Þegar Svíþjóð gekk í ESB árið 1995 voru samtök atvinnulífsins þar einn helsti drifkraftur aðildar. Þar sáu framámenn í atvinnulífinu möguleika og kosti þess að ganga til liðs við samtök sem stuðla að hagsæld og framförum í Evrópu. Í Svíþjóð jókst útflutningur um 140% á árunum 1994-2008, beint í kjölfarið á aðildinni að ESB.  

Sænskir fyrirtækjaeigendur sáu kosti þess að tilheyra að fullu og öllu einum þróaðasta markaði í heimi, ,,Innri markaði“ ESB, með þeim rökum helstum að þeir væru í litlu hagkerfi, sem væri háð útflutningi.

En hvað með Ísland og SA? Hver er sýn þeirra á þessi mál? Þó við séum á innri markaðnum í gegnum EES-samninginn má spyrja; sjá íslenskir fyrirtækjaeigendur og SA ekki neina möguleika í fullri aðild að ESB fyrir Ísland og íslenska þjóð? Er ekki kominn tími til að leggja höfuðið í bleyti og endurmeta stöðuna? Athuga möguleikann? Eða á bara að láta reka?

Greinin birtist fyrst í Heimildinni

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband