18.7.2012 | 07:06
Það besta fyrir þjóðarlíkamann?
Ólafur Ragnar Grímsson, verður forseti Íslands í að minnsta kosti 20 ár. Hann vann jú í kosningunum 30. júní með 52,72% atkvæða. Um að ræða sögulegan sigur og ekki hægt að stinga því undir stól. Þegar hann hættir hann 74 ára og íslenska lýðveldið 72 ára.
Þetta þýðir að þá verður Ólafur Ragnar Grímsson verður búinn að vera forseti 27% af lýðveldistímanum. Það þýðir einnig að þá verður vaxin úr grasi kynslóð sem þekkir ekkert annað en Ólaf Ragnar Grímsson á forsetastóli.
Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson segir sig vera talsmann lýðræðisins og sér í lagi beins lýðræðis, með virkri þáttöku almennings. Hann hefur beitt málsskotsákvæði stjórnarskrár Íslands tvisvar og er því kominn í ,,æfingu“ með það, ef þannig má að orði komast. Má því fastlega reikna með að Íslendingar færist nær Sviss í þessum efnum, sem kjósa meðal annars á hinum ýmsu torgum landsins um hin ýmsu málefni.
Um 235.000 manns voru á kjörskrá í kosningunum. Um 69% af þeim kusu, samtals 162.500 og af þeim kusu tæp 53% ÓRG sem gerir 85.800 manns. Sem gerir um 36% kosningabærra Íslendinga. Það má því velta upp þeirri spurningu hvort það sé góður stuðningur fyrir forseta sem setið hefur 16 ár í embætti, því þetta er aðeins rúmlega einn af hverjum þremur kosningabærum Íslendingum, sem kjósa Ólaf Ragnar.
Í aðdraganda kosninganna talaði doktor Ólafur um stór samfélagsmál sem hann telur vel koma til greina að að setja í þjóðaratkvæði. Það liggur því eiginlega fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur verði enn algengari en nú er með Ólaf Ragnar sem forseta. Kostnaður við hverja þjóðaratkvæðagreiðslu hleypur á hundruðum milljóna króna.
Þá heyrðist einng sú skoðun að ,,við hefðum ekki efni á“ að kjósa Þóru Arnórsdóttur (vegna launakostnaðar við hana eftir forsetaembættið!). Ef við segjum að á þessum næstu fjórum árum sem Ólafur Ragnar sitji í viðbót, beiti hann málskotsréttinum 2-4 sinnum, þýðir það kostnað fyrir íslenska ríkið upp á 500-1000 milljónir, gróft reiknað.
Hann telur líka að hann þurfi að vera einskonar öryggisventill til að koma í veg fyrir að slæmir hlutir komi fyrir Íslendinga. Og hann bregður fyrir sig fínum fræðilegum orðum á borð við ,,þjóðarlíkami“ og vísar þá til þess að samfélagið sé eins og líkami, þar sem allir hlutarnir þurfi að virka, til þess að heildin virki. Þetta er beint úr fræðum Herberts Spencer og Emile Durkheim og tilheyrir klassískum félagsfræðikenningum. Það hlýtur þá að vera hann sem sjái til þess að ,,þjóðarlíkaminn“ sé við hestaheilsu!
Fari hann ekki fram aftur 2016, þá er hann nú kominn í þá stöðu að vera forseti sem hefur engu að tapa, nema kannski orðsporinu og því hvernig sagan muni skrá hann á spjöld sín. Mér sýnist hann þegar vera farinn að hegða sér eins og forseti sem hefur engu að tapa, t.d. í sambandi við stjórnarskrármálið. En viti menn, meira að segja sjálfstæðismenn eru farnir að viðra skoðanir þess efnis að breyta beri hlutverki og stöðu forsetans, skýra það! Flokkur sem varla má heyra minnst á stjórnarskrárbreytingar! Þeir eru kannski farnir að gera sér grein fyrir því hvað geti beðið þeirra! Óneitanlega hljómar þetta allt saman nokkuð hjákátlega.
En ég velti því líka bara almennt fyrir mér hvort hin mikla seta Ólafs á forsetastóli sé það besta fyrir umræddan ,,þjóðarlíkama“? Og ekki minnst íslenskt lýðræði.
Sérstaklega í ljósi þess að öll kerfi þurfa ákveðna endurnýjun og viðhald til að þau virki sem best. Ekki síst stjórnmálakerfin. Annað er stöðnun.
Birtist í Akureyri-Vikublað, 12.7.2012
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.