7.2.2012 | 19:36
Vigdís Hauksdóttir og "hrun Evrópu"
,,Evrópa er að hrynja - svo og evran. Þannig byrjaði eitt svara Vigídisar Hauksdóttur, eins af alþingismönnum okkar á ,,Beinni línu hjá DV fyrir skömmu.
Mér finnst það mjög magnað að lesa þessi orð Vigdísar og það sem mér dettur fyrst og fremst í hug er þetta: Er þetta raunveruleg ósk Vigdísar? Að Evrópa hrynji? Og Evran líka?
Næsta spurning sem vaknar er þessi: Gerir viðkomandi þingmaður sér grein fyrir því hvað myndi gerast EF Evrópa og Evran myndu hrynja? Og hverjar afleiðingarnar yrðu, ekki bara fyrir Evrópu, heldur líka Ísland?
Samkvæmt Hagtíðindum fór tæplega 80% af útflutningi Íslands árið 2010 til ESB og rúmlega 50% af innflutningi kom þaðan. Hvað myndi gerast ef þetta mynd raskast verulega, með ,,hruni Evrópu eins og Vigdísi er svo tamt að tala um?
Við höfum söguleg dæmi sem geta veitt okkur ákveðinn stuðning og það er frá heimskreppunni miklu, sem skall á árið 1929. Einn helsti sagnfræðingur Íslands, Gunnar Karlsson skrifar um þetta í kennslubók í sögu, Nýir tímar. Þar segir þetta um áhrif kreppunnar hér á Íslandi: ,,Þegar leið á árið 1930 fór áhrifa hennar að gæta í lækkandi verði á útflutningsvörum Íslendinga. Síðar segir: ,,Heildarverðmæti útflutnings frá Íslandi féll úr 74 milljónum króna árið 1929 í 48 milljónir króna árið 1931...samdrátturinn í fiskveiðum olli miklu atvinnuleysi í fiskveiðibæjum og þorpum.
Um 90% útflutnings Íslands á þessum tíma var fiskur, rest landbúnaðarvörur. Það hefur að sjálfsögðu mikið breyst, en tölurnar tala sínu máli; um er að ræða um 36% samdrátt í útflutningsverðmæti! Mest fór að sjálfsögðu til Evrópu, sem í gegnum söguna hefur verið okkar mikilvægasti viðskiptaaðili. Og verður um ófyrirsjáanlega framtíð!
Þessar upphrópanir Vigdísr dæma sig að sjálfsögðu sjálfar og þetta er hennar stíll. Því miður. Nægir að hlusta á hana á útvarpi Sögu, þar sem hún er tíður gestur og lætur Evrópudæluna ganga!
En sömu upphrópanir lýsa um leið mikill grunnhyggni, jafnvel skorti á sögulegri þekkingu, þó ekki skuli það fullyrt hér.
Það yrði hreint og beint skelfilegt fyrir Ísland ef Evrópa hryndi, sem og Evran. Menn hafa jú keppst við að spá hruni Evrunnar, frá því hún var sett á fót, en hún er ekki hrunin enn. Hinsvegar búum við Íslendingar við gjaldmiðil sem hrundi eins og spilaborg haustið 2008, með tilheyrandi skuldahækkunum, bæði hjá einstaklingum, fjölskyldum og opinberum aðilum.
Vigdís ætti að mínu mati aðeins að hugleiða þessa hluti áður en hrópað er hástöfum! Þá færi umræðan kannski á aðeins hærra ,,plan líka!
Birt í DV, 6.2.2012
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.