Grikkland á stærstan þátt í eigin vanda, ekki ESB!

Grikkland er í fréttum þessa dagana vegna mjög alvarlegrar fjárhagsstöðu landsins. Það hefur fengið neyðarlán frá ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og gagnrýnendur ESB skella skuldinni á Evruna og sambandið, segja að þetta sé allt meira og minna ESB að kenna. Í þessum litla greinarstúf verður hinsvegar sýnt fram á það að svo er ekki.

Grikkland gekk í Evrópubandalagið (eins og það hét þá) árið 1981,  en landið var undir stjórn herforinga og alræðisfyrirkomulag ríkti á árunum 1967 – 1974. Á árunum 1946-1949 geisaði borgarastyrjöld í Grikklandi, þar sem tugir þúsunda létust. Landið hefur því fengið sinn skerf af alræði og hörmungum. Með inngöngu í ESB varð Grikkland hinsvegar hluti af hópi lýðræðisríkja Evrópu, sem er við hæfi, enda lýðræðið grísk uppfinning!

Grikkir tóku upp Evruna sem gjaldmiðil þegar sameiginlegur gjaldmiðill ESB var kynntu til sögunnar um aldamótin síðustu. Nú eru þær raddir sem segja að Grikkir hafi svindlað sig inn í Evruna og best væri fyrir landið að geta tekið upp gömlu drökmuna aftur.  Það er hinsvegar talið vera næstum efnahagslegt sjálfsmorð að gera slíkt og telur einn helsti hagfræðingur Grikklands, Yannis Stournaras að slíkt beri að forðast eins og heitan eldinn. Hann telur að yfirgefi Grikkland Evruna þýði það að skuldir landsmanna aukist stórkostlega og að flestir bankar landsins verði gjaldþrota. Þetta kom fram í viðtali í Sænska dagblaðinu þann 22. Mars síðastliðinn.

En það eru fleiri ,,innanlandsástæður“ fyrir vandræðum Grikkja, þ.e.a.s. sem hafa ekkert með ESB að gera; það er nánast hluti af menningu Grikkja að borga ekki skatta og talið er að allt að 70% af vissum starfsstéttum komist upp með að borga nánast enga skatta. Skatttekjur gríska ríkisins eru því allt of lágar og sagt er að landið þurfi í raun að taka upp nýtt skattkerfi. Þá er svört atvinnustarfsemi talin vera um einn fjórði hluti af heildarhagkerfinu. Spilling á ýmsum stöðum er einnig talin hafa alvarleg áhrif á hagkerfið. Og á spillingunni vinna Grikkir einungis sjálfir, með viðeigandi stofnunum.

Almenn efnahagsleg óstjórn og sérlega rausnarlegt lífeyriskerfi (látnir einstaklingar fengu lífeyri og lífeyrisréttindi erfðust!) eru líka talin vera orsakavaldar. Til dæmis fjölgaði opinberum starfsmönnum um 100.000 á stjórnarárum hægrimannsins Kostas Karamanlis frá 2004-2009 og útgjöld gríska ríkisins um 60%! Gríska ríkið er stór eigandi fyrirtækja og umfangsmikill ríkisrekstur í landinu, hið opinbera er um 40% af þjóðarframleiðslunni.  

ESB hefur hvatt Grikki til þess að einkavæða og t.d. hafa heyrst þær raddir að ESB sé að ,,þvinga“ Grikki til einkavæðingar. Það skondna er að þessar raddir koma helst frá aðilum sem hér á landi stóðu fyrir einni umfangsmestu einkavæðingu á Vesturlöndum hin síðari ári. Það er ekki sama Jón eða séra Jón!

Einnig hefur verið nefnt að útgjöld til hernaðarmála eru mjög há í Grikklandi, eða um 4% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er mun lægra í flestum Evrópulöndum.

Allt hér að ofan eru þættir sem ESB hefur ekkert með að gera, heldur eru ákvarðanir og aðgerðir grískra aðila, einstaklinga sem og yfirvalda.

En til þess að hægt sé að nota vandræði Grikklands hér á landi í þeirri hugmyndafræðilegu baráttu sem snýr að ESB-málinu er þægilegt að skella skuldinni á ESB og gera sambandið að ,,skúrknum“ í þrillernum!

ESB hefur hinsvegar lagt til mikla fjármuni til þess að aðstoða Grikki og reyna að koma í veg fyrir fullkomið hrun í gríska hagkerfinu, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir grískt atvinnulíf, sem og einstaklinga. Það er jú nokkuð sem enginn vill. En hvort tekst að hindra slíkt mun tíminn leiða í ljós.

MBL, 24.6. 2011 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er svo sem alveg rétt að Grikkir eiga heilmikla sök sjálfir á vandamálum sínum.

Hjá því verður hinsvegar ekki litið að Grikkland bjó árum saman við allt og lágt stýrivaxtastig sem miðaðist við þarfir Þýskalands og af því hlaust falskt góðæri. Einhver mistök gerðu þeir því í góðri trú vegna þess að myntsamstarfið afbakaði hinn efnahagslega veruleika.

Stærra atriði er að vandamálið sem þeir standa frammi fyrir nú er eins illvígt og raun ber vitni af því að þeir geta hvorki fellt gengi til að auka útflutning og ferðamannastraum né heldur lýst sig greiðsluþrota og kefjast skuldaafskrifta án þess að setja Seðlabanka Evrópu og marga einkabanka í þrot ásamt mögulega Spáni og fleiri ríkjum sem myndi setja allt efnahagslíf Evrópu í uppnám og koma þeim í enn meira klandur.

Ameríkanar segja að af góðir grannar hljótist af góðum girðingum og víðast þykir það skynsamlegt að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Þessu virðast menn hafa lokað augunum fyrir þegar farið var af stað með evruvitleysuna.

Annars er það ómaklegt að gagnrýna Grikki fyrir hernaðarútgjöld. Grikkland er á Balkanskaga en ekki í Skandinavíu. Flókin, djúpstæð og alvarleg vandamál valda spennu gagnvart hinu stóra nágrannaríki Tyrklandi og þeir eiga auk þess í deilum við Makedóníumenn. Rétt handan við hornið er svo púðurtunnan Mið-Austurlönd. Það ætti að vera skiljanlegt þótt þeir telji sig þurfa aðeins burðugri herafla en Danmörk.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 28.6.2011 kl. 22:56

2 Smámynd: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Hans: Í greininni er ekki verið að gagnrýna Grikki fyrir há hernaðarútgjöld, heldur einfaldlega bent á ákveðnar staðreyndir. Vel má vera að þetta sé vegna nálægðar við þessa granna sem þú nefnir, en spurningin er hvort þetta þurfi að vera næstum helmingi meira en hjá öðrum Evrópuþjóðum? Eru miklar líkur á að stríð brjótist út þarna? Nei, sennilega ekki. Aðal ófriðurinn á svæðinu virðist vera í Grikklandi sjálfu, vegna þeirra miklu aðgerða sem þeir þurfa að grípa til vegna eigin klúðurs!

Sá veldur er á heldur!

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 29.6.2011 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband