14.3.2011 | 22:06
Íslenskur landbúnaður = Frjálsir Íslendingar?
Margt er skrýtið í kýrhausnum. Það á einnig við afstöðu bænda gagnvart ESB. Þetta sést í grein Haraldar Benediktssonar, bændaforingja í MBL um helgina. Þar fer hann yfir afstöðu bænda gagnvart ESB, sem er kýr-skýr; um 90% bænda vilja ekki aðild að ESB. Samt eru mjög margir bændur svo til á hausnum, hafa meginþorra tekna sinna frá ríkinu og að auki eru fjöldamörg bú rekin með stöðugum halla, bæði sauðfjárbú og mjólkurbú.
Þetta eru s.s. aðilarnir sem framleiða mikilvægan mat ofan í Íslendinga og veita okkur það frelsi að vera Íslendingar, eða eins og Haraldur segir í grein sinni: Innlend matvælaframleiðsla gerir þjóðina frjálsa (millifyrirsögn) og svo kemur þetta: Fæðuöryggi er fyrir fólkið, fyrir þjóðina. Það er ein af grunnstoðum efnahagslífsins. Matvælaframleiðsla í eigin landi - á eigin forsendum - gerir þjóðina frjálsa.
Vissulega er mikilvægt að framleiða mat og óttann við matarskort ber að taka alvarlega. Þetta vita Íslendingar, sem búa á harðbýlu landi.
Nú er það svo að stærstur hluti þeirra matvæla sem neytt er hér á landi er innfluttur. Og hvaðan kemur hann? Jú, að stærstum hluta frá Evrópu, reyndar mjög mikið frá Danmörku.
Því er það mikilvægasti þáttur matvælaöryggis á Íslandi að halda samgöngum við landið, rétt eins og við höfum gert í aldanna rás. Íslendingar hafa aldrei lifað einungis á því sem til hefur fallið hér á landi, matvæli hafa verið flutt inn frá því byggð hófst hér.
Getum við stólað á að að bændur sem lifa í umhverfi viðvarandi hallareksturs og erfiðra rekstarskilyrða (verðbólga, háir vextir, óstöðugleiki) geti tryggt til framtíðar það matvælaöryggi sem þjóðin þarf að búa við? Og eru slíkir bændur, frjálsir og velmegandi bændur?
Um miðja síðustu öld vann um helmingur vinnuaflsins við landbúnað. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag er aðeins brot af vinnuafli landsmanna sem fæst við landbúnað. Samt er íslenskt landbúnaðarkerfi hið dýrasta í heimi og tekur um 10 milljarða á ári beint úr vasa skattgreiðenda (sem síðan þurf að kaupa hinar framleiddu vörur) aftur í búðunum.
Það hefur því mikið breyst. Og á eftir að breytast. Með svokölluðum DOHA-viðræðum er stefnt að því að lækka tolla á heimsvísu og efla þannig viðskipti. En það strandar til dæmis á landbúnaði . Punkturinn er þessi; það eiga væntanlega eftir að verða miklar breytingar á landbúnaði, hvort sem gengið verður í ESB eða ekki. Og hvað ætla íslenskir bændur að segja þá?
Verða þá dregnar upp enn hærri og breiðari varnarlínur, gerðar enn meiri kröfur um tollvernd?Það kemur væntanlega í ljós.
Í lok greinar sinnar segir Haraldur og bergmálar málflutning orð formanns norsku bændasamtakanna frá nýhöldnu Búnaðarþingi:,, Það þarf að fá botn í ESB-málið sem fyrst svo hægt sé að hefja raunverulegt uppbyggingarstarf á Íslandi á nýjan leik því tækifærin bíða okkar. Höfum í huga að heimurinn er svo miklu stærri en Evrópusambandið.
Hvað er Haraldur eiginlega að meina með þessum orðum? Ætla íslenskir bændur að fara í víking? Stórfelldan útflutning? Hvert þá? Annarra heimsálfa? Kína? S-Ameríku? Indlands? Hver á að borga? Skattgreiðendur? Er þetta virkilega raunhæf framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað?
Eða er Haraldur kannski búinn að gleyma því að ESB er annað mesta viðskiptaveldi heims? Eða er þetta bara gott dæmi um það að grasið sé grænna hinum megin?
Það er alveg ljóst að norskum hagsmunum í sjávarútvegi og landbúnaði er mikið í mun að Ísland gangi EKKI í ESB. Jú, vegna þess að þá fengju íslenskar landbúnaðarafurðir og allt íslenskt sjávarfang FULLT tollfrelsi á um 500 milljóna markaði, með mikla kaupgetu. Þetta er "ógnarsviðsmynd" í augum þessara norsku aðila. Þess vegna vilja þeir að Ísland gangi ekki í ESB. Svo einfalt er það nú.
En er verið að halda með þessum hætti á málinu vegna norskra hagsmuna? Eru "norskir hagsmunir" afl sem að stýra hagsmunum íslenskra bænda og þar með hagsmunum íslenskra neytenda?
Það myndi teljast afar umhugsunarvert og þá dettur manni í hug; hvert er frelsi og sjálfstæði íslensku bændaforystunnar!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.