Draumurinn um hinn sterka leiðtoga

Hin sterka höndÞað er nokkuð merkilegt að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni þessa dagana. Svo virðist vera sem upp séu að spretta hugmyndir um þörfina fyrir ,,sterkan leiðtoga.“ Sést þettaa best á því að lesa t.d. Morgunblaðið. Þar ritar t.d. einn blaðamanna þess þann 24.mars undir fyrirsögninni ,,Leiðtogalaust Ísland" að ,,Ísland er leiðtogalaust land“ og heldur svo áfram, ...,,Til eru þeir sem hafa mikla þörf fyrir að láta stýra sér í gegnum lífið. Til dæmis hundar.“ Svo heldur greinin áfram með umfjöllun um þátt Ólafs Ragnars í Icesave-málinu, en henni lýkur svo með þeim pælingum blaðakonunnar um að það eigi að vera þjóðin sem eigi að leiða stjórnmálin, en ekki stjórnmálamennirnir þjóðina. Þannig sé það í lýðræðisríkjum. 

Vissulega er það ein af grunvallarhugmyndum lýðræðis að valdið komi frá fólkinu. Í flestum vestrænum ríkjum hafa menn hinsvegar komið sér saman um einhversskonar form fulltrúalýðræðis, þar sem kosnir fulltrúar setja lög og taka ákvarðanir. Þannig er það á Íslandi. Svo hafa leiðtogar mismunandi stíl, en svo virðist sem mörgum þyki ekki núverandi forsætisráðherra ekki vera nógu mikið í fjölmiðlum. Er það þar sem við viljum hafa okkar leiðtoga?

Við lestur greinarinnar er í raun ekki alveg á hreinu hvað blaðakonan, Una Sighvatsdóttir, er að meina. Vill hún afnema fulltrúalýðræðið, eru þingmenn óþarfir? Eigum við t.d. að stjórna okkur sjálf með því sem kallast ,,beint lýðræði?“ Að vera í sífellu að kjósa um allt og ekki neitt?

Í greininni segir hún að ,,sterkur leiðtogi er ekki lausn á vanda sem þjóðin þarf að leysa saman.“ En samt sem áður er verið að ,,planta“ þeirri hugmynd hjá okkur Íslendingum í fjölmiðlum þessa daga að þetta sé einmitt það sem við þurfum. Einhver ,,sterk hönd“ sem getur rifið okkur upp úr kreppunni, blásið okkur kapp í kinn og svo verði allt gott og eins og það var.

Söguleg reynsla af sterkum leiðtogum er hinsvegar skelfileg. Margir af ,,sterkustu leiðtogum“ þessa heims hafa um leið verið mjög sterkir á sviði fjöldamorða og hryllilegustu mannréttindabrota sem um getur.  Svo eru líka til dæmi um hið gagnstæða, farsæla leiðtoga sem í krafti manngæsku hafa staðið fyrir miklum framförum. Dæmi um slíkt er kannski Franklin D. Roosevelt, fyrrum Bandaríkjaforseti.

En það er þessi hugmynd um að þörfina fyrir sterkan leiðtoga sem ég tel vera hættulega.

Það sem Íslendingar þurfa er að hífa sjálfa sig upp úr eldgömlum skotgröfum stjórnmála ,,fjórflokksins“ og reyna að standa saman. Hér skortir tilfinnanlega það sem kallast ,,samstöðustjórnmál,“ þ.e. að menn geti unnið saman yfir flokkslínur. Hætta að hugsa eftir brautum á borð við ,,Við Sjálfstæðismenn,“ eða ,,Við í samfylkingunni.“ Þetta er sjálfselsk nálgun, eins og einstaklingur sem sér allt bara út frá eigin sjónarhorni. Í þessu erum við okkur sjálfum verst.

Ísland þarf ekkert sterkan leiðtoga, sem í alltaf í sjónvarpinu, blöðunum og útvarpinu að segja okkur hvað við eigum að gera og ekki gera.  Hverskonar valdakerfi er það? Eða er þetta orðið svo slæmt, að það þurfi að teyma þjóðina út og suður?

Hinn "sterki leiðtogi“ er 20.aldar fyrirbæri! Nú er komin ný öld og tími fyrir ný vinnubrögð, það er miklu meiri þörf fyrir klóka leiðtoga en sterka.

Efni sem tengist þessu:

http://visir.is/article/20100412/FRETTIR01/150092882


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband