3.4.2010 | 06:44
Í GIN VERÐTRYGGINGAR
Allir þurfa þak yfir höfuðið, það eru jú altæk sannindi. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að álitið er svo að íbúðarhúsnæði er talið vera lífssparnaður fólks. Menn taka lán, setja inn summu af eigin fé og svo er bara að borga af. Að eiga sína fasteign er talið eðlilegt.
Árið 1996 fluttum ég og konan mín til Svíþjóðar, til framhaldsnáms. Byrjuðum á að leigja, eins og við gerðum á Íslandi, en eftir eitt ár keyptum við svokallaðan búseturétt. Fjölskyldan stækkaði og eftir nokkur ár þurfti að selja og kaupa stærra. Búseturétturinn var seldur á fimmföldu verði vegna hækkandi fasteignaverðs í Svíþjóð og parhús keypt. Í fyrstu var það einnig búseturéttur, en fljótlega komst á samkomulag innan búsetafélagsins að breyta eignarforminu, þannig að hver fjölskylda myndi eignast sína fasteign.
Þau lán sem hvíldu á parhúsinu, voru með vöxtum á bilinu 1-2% og verðbólga var svipuð. Fyrir íbúðareigendur er þetta þægileg staða, við hver mánaðarmót minnkaði lánið og við eignuðumst meira í húsinu eftir því sem á leið. Það heitir ,,jákvæð eignamyndun á fagmáli. Við vissum einnig hvernig staða okkar var nákvæmlega við hver mánaðarmót og fram í tímann.
Í júní 2007 fluttum við fjögur svo heim. Parhúsið selt. Við högnuðumst bæði af sölu búseturéttarins í upphafi og parhússins. Þegar upp var staðið var hagnaðurinn c.a. 5 milljónir króna (sem þykir kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða). Þessa peninga og annað sparifé notuðum við til að kaupa fasteign á Íslandi. Að sjálfsögðu tókum við lán.
En hvað hefur gerst á þremur árum? Jú, lán okkar hefur hækkað um nákvæmlega fimm milljónir vegna vaxta og verðtryggingar! Það hefur því ekki tekið íslensku verðtrygginguna nema tæp þrjú ár að éta í sig allt það fé sem við fengum út úr sölu tveggja fasteigna í Svíþjóð! Þetta er svokölluð ,,neikvæð eignamyndun á fagmáli. Í stað þess að eignast í fasteigninni, hefur lánveitandinn eignast sífellt meira í okkur og okkar ráðstöfunartekjum.
Það sér hver heilvita maður að þetta er klikkað kerfi. Þegar ég sá í hvað stefndi á greiðsluseðlunum þá hringdi ég í þáverandi Glitni í einfeldni minni. Ég spurði konuna sem svaraði hvort þetta væri eðlilegt. Hún svaraði: ,,Já, já, þetta er alveg eins og það á að vera, og spurði mig svo um vextina á láninu. Ég svaraði; ,,4.5% (nafnvextir, svo leggst verðbólga og vertrygging ofan á). ,,Þú ert bara með frábært lán! sagði starfsmaður bankans! Nú, er það, svaraði ég og þakkaði fyrir samtalið. Nú hlyti mér að líða miklu betur yfir þessu!
En er þetta fínt? Er það eitthvað fínt að nokkuð sem heitir verðtrygging hlaði auka-milljónum ofan á húsnæðislánin? Hversvegna varð verðtrygging til? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn réðu ekki við verðbólgu og efahagsmálin. Hún átti að vera tímabundin aðgerð sem sett var á árið 1979 (s.k. ,,Ólafslög, sem viðbrögð við óðaverðbólgu. Því má líta á verðtryggingu sem tryggingu stjórnmálamanna og yfirvalda sem ráða ekki við að stjórna efnahag landsins, eða eins og Gylfi Magnússon (þáverandi dósent við H.Í) segir í svari á vísindavef H.Í: ,, Í löndum þar sem gjaldmiðillinn hefur verið stöðugur um langan tíma og verðbólga hefur ekki farið úr böndunum er sjaldgæfara að samið sé um verðtryggingu en í löndum þar sem íbúar hafa reynslu af mikilli og óstöðugri verðbólgu.
Birt á vefsíðum Evrópusamtakanna og Sterkara Ísland
Athugasemdir
Við meigum ekki gleyma að þegar Ólafslögin voru sett 79´um verðtryggingu,þá voru LAUN LANDSMANNA LÍKA VERÐTRYGGÐ sem var svo afnumið , hvað var það nú ? ca tveimur árum seinna,og þar með var fjandinn laus.Vill einhver rifja upp hvaða mannvitsbrekkur tóku þá ákvörðun. Er það ekki makalaust að "spekingar" eins og Pétur Blöndal,Gylfi Alþýðu og fleiri skuli halda því fram að það sé ekki hægt að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga með einu pennastriki.Auðvitað er það hægt ,þetta eru bara mannanna verk en ekki náttúrulögmál eins og elgos eða þv.u.l.Síðan verða menn að takast á við og laga þá vankanta sem af því hljótast.Fjármagnseigendur hafa hagnast og hagnast á þessu hringrásarkerfi :VÖRUVERÐSHÆKKUN/VÍSITÖLUHÆKKUN/VERÐBÓTAHÆKKUN/
HÆKUN SKULDA OG FJÁRMAGNSKOSTNAÐAR FYRIRTÆKJA/FYRIRTÆKI NEYÐAST TIL AÐ HÆKKA VERÐ VÖRU OG ÞJÓNUSTU/HAGSTOFAN MÆLIR/VÍSITALAN HÆKKAR og svona heldur skrúfan áfram að snúast hring eftir hring og" púkinn fitnar á fjósbitanum"
Þetta verður aldrei lagað nema taka skrefið og afnema þessa VERÐTRYGGINGARVITLEISU MEÐ EINU PENNASTRIKI.Spekingarnir segja við gerum það með því að lækka verðbólguna,en það er búið að streða við það í áratugi og ekkert gengur. BURT MEÐ VERÐTRYGGINGUNA
Björn Þröstur Axelsson, 3.4.2010 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.