Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samhengi hlutanna

Fyrir skömmu greiddi Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum arð til hluthafa sinna. Upphæðin: 850 milljónir króna. Frá árinu 2007 hefur þetta EINA útgerðarfyrirtæki greitt hluthöfum sínum um 2,8 milljarða í arð, samkvæmt samantekt sem DV birti. Tvö þúsund og átta hundruð milljónir króna! Fyrir Íslending með meðallaun, um 325.000 á mánuði, tæki það um 217 ár að vinna fyrir þessari nýjustu arðgreiðslu. Vinnslustöðin er eitt þeirra fyrirtækja hér á landi sem sækir arð sinn í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskinn í sjónum.

En það samhengi sem mig langar til þess að setja þessa EINU arðgreiðslu í er umsókn Íslands að ESB. Hún er nefnilega talin kosta álíka upphæð og þessi arðgreiðsla Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2011, eða um 950 milljónir króna. Samkvæmt áætlun utanríkisráðuneytisins.

Andstæðingar aðildar kvarta og kveina yfir því hvað þetta sé ofboðslega dýrt ferli og að landið hafi ekki efni á því. Sumir fara með fullkomið fleipur og tala um milljarða!

En það er augljóst mál að bara eitt íslenskt útgerðarfyrirtæki gæti borgað úr eigin vasa fjölmargar aðildarumsóknir að ESB, og án þess að það kæmi niður á rekstri fyrirtækisins! Til dæmis Vinnslustöðin.

Verði af aðild Íslands að ESB er nánast borðleggjandi að kostnaður íslensks atvinnulífs og almennra borgara mun lækka, í formi lægri vaxta. Vextir á Íslandi hafa til fjölda ára verið tvöfalt hærri á við Evrópu. Í því samhengi er rætt um tugi milljarða króna árlega, sem myndu væntanlega sparast. Vinnslustöðin í Eyjum myndi líka græða á því!

Eins og alkunna er, þá eru útvegsmenn Íslands nær alfarið á móti aðild Íslands að ESB, m.a. vegna ótta þeirra við að auðlindin verði tekin af Íslendingum (þeim?), en það er hræðsluáróður sem stenst ekki skoðun. Til að koma þessu sjónarmiði á framfæri keyptu útgerðarmenn fjölmiðilinn Morgunblaðið. Varla líður sú vika að ekki sé hamrað á því í blaðinu hvað ESB sé nú slæmt og hræðilegt.

Mörg útgerðarfélög gera hins vegar upp ársreikninga sína upp í evrum (stöðug og alþjóðleg mynt) og sum þeirra hafa jafnvel stungið upp á því að taka einhliða upp evru. Svona er nú margt skrýtið í henni veröld.

FRBL, 11.7.2012


Það besta fyrir þjóðarlíkamann?

Ólafur Ragnar Grímsson, verður forseti Íslands í að minnsta kosti 20 ár. Hann vann jú í kosningunum 30. júní með 52,72% atkvæða. Um að ræða sögulegan sigur og ekki hægt að stinga því undir stól. Þegar hann hættir hann 74 ára og íslenska lýðveldið 72 ára.

Þetta þýðir að þá verður Ólafur Ragnar Grímsson verður búinn að vera forseti 27% af lýðveldistímanum. Það þýðir einnig að þá verður vaxin úr grasi kynslóð sem þekkir ekkert annað en Ólaf Ragnar Grímsson á forsetastóli.

Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson segir sig vera talsmann lýðræðisins og sér í lagi beins lýðræðis, með virkri þáttöku almennings. Hann hefur beitt málsskotsákvæði stjórnarskrár Íslands tvisvar og er því kominn í ,,æfingu“ með það, ef þannig má að orði komast. Má því fastlega reikna með að Íslendingar færist nær Sviss í þessum efnum, sem kjósa meðal annars á hinum ýmsu torgum landsins um hin ýmsu málefni.

Um 235.000 manns voru á kjörskrá í kosningunum. Um 69% af þeim kusu, samtals 162.500 og af þeim kusu tæp 53% ÓRG sem gerir 85.800 manns. Sem gerir um 36% kosningabærra Íslendinga. Það má því velta upp þeirri spurningu hvort það sé góður stuðningur fyrir forseta sem setið hefur 16 ár í embætti, því þetta er aðeins rúmlega einn af hverjum þremur kosningabærum Íslendingum, sem kjósa Ólaf Ragnar.

Í aðdraganda kosninganna talaði doktor Ólafur um stór samfélagsmál sem hann telur vel koma til greina að að setja í þjóðaratkvæði. Það liggur því eiginlega fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur verði enn algengari en nú er með Ólaf Ragnar sem forseta. Kostnaður við hverja þjóðaratkvæðagreiðslu hleypur á hundruðum milljóna króna.

Þá heyrðist einng sú skoðun að ,,við hefðum ekki efni á“ að kjósa Þóru Arnórsdóttur (vegna launakostnaðar við hana eftir forsetaembættið!). Ef við segjum að á þessum næstu fjórum árum sem Ólafur Ragnar sitji í viðbót, beiti hann málskotsréttinum 2-4 sinnum, þýðir það kostnað fyrir íslenska ríkið upp á 500-1000 milljónir, gróft reiknað.

Hann telur líka að hann þurfi að vera einskonar öryggisventill til að koma í veg fyrir að slæmir hlutir komi fyrir Íslendinga. Og hann bregður fyrir sig fínum fræðilegum orðum á borð við ,,þjóðarlíkami“ og vísar þá til þess að samfélagið sé eins og líkami, þar sem allir hlutarnir þurfi að virka, til þess að heildin virki. Þetta er beint úr fræðum Herberts Spencer og Emile Durkheim og tilheyrir klassískum félagsfræðikenningum. Það hlýtur þá að vera hann sem sjái til þess að ,,þjóðarlíkaminn“ sé við hestaheilsu!

Fari hann ekki fram aftur 2016, þá er hann nú kominn í þá stöðu að vera forseti sem hefur engu að tapa, nema kannski orðsporinu og því hvernig sagan muni skrá hann á spjöld sín. Mér sýnist hann þegar vera farinn að hegða sér eins og forseti sem hefur engu að tapa, t.d. í sambandi við stjórnarskrármálið. En viti menn, meira að segja sjálfstæðismenn eru farnir að viðra skoðanir þess efnis að breyta beri hlutverki og stöðu forsetans, skýra það! Flokkur sem varla má heyra minnst á stjórnarskrárbreytingar! Þeir eru kannski farnir að gera sér grein fyrir því hvað geti beðið þeirra! Óneitanlega hljómar þetta allt saman nokkuð hjákátlega.

En ég velti því líka bara almennt fyrir mér hvort hin mikla seta Ólafs á forsetastóli sé það besta fyrir umræddan ,,þjóðarlíkama“? Og ekki minnst íslenskt lýðræði.

Sérstaklega í ljósi þess að öll kerfi þurfa ákveðna endurnýjun og viðhald til að þau virki sem best. Ekki síst stjórnmálakerfin. Annað er stöðnun.

Birtist í Akureyri-Vikublað, 12.7.2012


Innlimun hvað?

„Ekkert er t.d. verið að upplýsa fólk um að eitt af meginmarkmiðum ESB, með því að ná samningum um innlimun Íslands, er að ná yfirráðum yfir stórum hluta NorðurAtlantshafsins með aðgengi að Norður-Íshafinu. Án þessa aðgengis getur Evrópusambandið aldrei orðið það stórveldi sem það vill vera í alþjóðlegu tilliti.“

Þessi tilvitnun er skrifuð af ritstjóra Bændablaðsins, Herði Kristjánssyni, en blaðið kom út þann 16, maí síðastliðinn. Það er í raun með ólíkindum að lesa orð sem þessi, frá manni eins og Herði, árið 2012. Það er að Evrópusambandið ætli sér að innlima Ísland, til þess að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Reyndar er þetta svo algerleg út í bláinn, að þetta er í raun ekki svara vert.

En það er hinsvegar grafalvarlegt þegar maður eins og Hörður, sem gegnir stöðu ritstjóra blaðs, sem gefið er út af samtökum, sem rekin eru að mestu leyti fyrir almannafé, lætur frá sér ósannindi sem þessi. Því ég er nánast 100% viss um að Hörður veit betur. ESB hefur engar áætlanir um að innlima Ísland og ESB hefur EKKI innlimað neitt land, sem gerst hefur aðildarríki sambandsins. Hörður ætti að spyrja íbúa einhvers nágrannaríkja okkar; Svíþjóðar, Bretlands, Danmerkur eða Finnlands um hvort þau hafið verið innlimuð í ESB! Bretar  eiga sína olíu, Finnar sína skóga og Svíar sitt járngrýti.

En hann getur hinsvegar talað við íbúa Eystrasaltsríkjanna um það hvernig var að búa undir járnhæl Sovétríkjanna, eftir að Jósef Stalín innlimaði þau á tímum seinni heimsstyrjaldar. Öll Eystrasaltstríkin gengu í ESB, í kjölfar hruns kommúnsmans upp úr 1990, og gerðust þar með aðilar að samstarfi 27 lýðræðisríkja Evrópu.

Þessvegna verða ummæli Harðar að skrifast á tilfinningar, rétt eins og annað ,,innlimunartal“ annarra andstæðinga ESB.

Bændablaðið, sem segir sig vera „málgagn bænda og landsbyggðar“ getur líka bætt við við frasanum „og andstöðu gegn ESB“ því umfjöllun Bændablaðsins er nánast alfarið á neikvæðum nótum varðandi ESB-málið. Bændablaðið finnur ESB hreinlega allt til foráttu. Blaðinu er dreift ókeypis og kemur stundum út í allt að 60.000 eintökum. Þá er því einnig stundum dreift með Morgunblaðinu, sem berst jú af alefli gegn ESB.

Hinsvegar er margt á huldu varðandi rekstur Bændablaðsins og hvergi er t.d. hægt að finna opinberar upplýsingar um rekstur blaðsins, hvað þá ársreikninga. Hversvegna er það svo? Blað á borð við Bændablaðið, sem ekki birtir opinberlega ársreikninga sína, getur varla talist lýðræðislegur miðill.

Í lok greinarinnar segir Hörður að Íslendingar eigi mikið af auðlindum, vatni og öðru slíku, sem er alveg rétt. Svo segir hann: „Við erum með öll bestu trompin á hendi og hversvegna ættum við að afhenda þau stjórnmálamönnum úti í Brussel.“

Það stendur hinsvegar ekki til og hefur aldrei staðið til! Hversvegna í ósköpunum ættum við að gera það? Ísland er sjalfstætt og fullvalda ríki og hefur fullan yfirráðarétt yfir sínum auðlindum.

ESB getur ekki og ætlar sér ekki að hrifsa þau frá okkur, hvorki með innlimun eða öðrum aðferðum. Það ætti Hjörtur að vita, en kýs að láta skína í eitthvað allt annað, sem ekki stenst skoðun. Það er mjög ámælisvert að mínu mati og ekki til þess fallið að stuðla að málefnalegri umræðu um ESB-málið. Því miður.

(Örlítið styttri útgáfa birtist í Fréttablaððinu 31. maí síðastliðinn)


Fyrir hverja er krónan?

Grein sem upprunalega birtist á http://www.jaisland.is þann 18.maí síðastliðinn.

Fyrir hverja er Krónan? Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, enda kannski ekki nema von - umræða um gjaldmiðilsmál hefur verið mikil. Menn hafa verið að ræða ýmislegt; íslenska krónu, norska krónu, færeyska krónu, Evru, Kanadadollar, Dollar, einhliða upptöku, tvíhliða upptöku, fjölmyntakerfi, fastgengisstefnu og nú síðast Nýkrónu-hugmynd Lilju Mósesdóttir. Kannski ekki nema von að fólk sé létt-ruglað í þessu öllu saman.

Sumir möguleikar eru hreinlega engir möguleikar og hægt að útiloka strax. Norska ríkisstjórninr er t.d. ekkert á þeim buxunum að leyfa okkur að taka upp norsku krónuna. Það kom berlega ljós hjá norskum ráðamonnum fyrir nokkrum misserum. Upphlaupið með Kanadadollar virðist einnig óraunsætt, þó það sé tæknilega framkvæmanlegt. Því myndi einnig fylgja algert afsal á fullveldi Íslands í gjaldmiðilsmálum. Nokkuð sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn (les: formaðurinn) skuli vera í þessum hugleiðingum. En á sama tíma felst í þessu viðurkenning á miklum veikleikum krónunnar. Þá má einnig benda á að Samtök ungra sjálfstæðismenna (SUS) telja að krónan sé ekki lengur nothæf.

HIN MÖRGU ANDLIT KRÓNUNNAR

Í umræðunni um krónuna koma einnig fyrir hugtök sem eru kannski ekki svo auðskilin, vegna þess að þetta er ekki einfalt mál: Haftakróna, aflandskróna, vertryggð króna og óverðtryggð króna. Gjaldmiðill Íslands hefur mörg andlit! 

Haftakrónan er jú orð yfir þá staðreynd að gjaldmiðill Íslands er í viðskiptahöftum og ekki skráður í erlendum viðskiptum víða erlendis. Með aflandskrónu er átt við ...,, verðmæti í innlendum gjaldeyri (krónum) í eigu eða vörslu útlendinga í flestum tilvikum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum vegna hafta á fjármagnshreyfingar sem komið var á eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008,“ eins og segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Verðtryggða krónan er svo krónan sem hleður ofan á höfuðstólinn hjá þeim sem eru með vertryggð lán (en laun í óverðtryggðum krónum).  Það er t.d. nóg að Íranir ákveði að hreyfa sig lítillega  á Hormussundi við Arabíu-skagann, þá hækkar bensínverðið, sem fer inn í neysluvísitöluna, sem er hluti af vertryggingunni og hækkar því verðtryggð lán á Íslandi!

VERÐTRYGGING = EIGNAUPPTAKA?

Ætli menn hafi hugsað fyrir þessum ,,aukaverkunum“ á verðtryggingunni, þegar Ólafslögin (sem fólu í sér verðtrygginu) voru sett árið 1979? Áhættan af verðtryggðum lánum er algerlega lántakenda, en ekki lánveitenda. Ég vill meina að verðtrygging sé í raun ekkert annað en eignaupptaka fram í tímann og skerði því eignarrétt og eignastöðu þeirra sem taka þannig lán. Og sé því í raun einskonar efnahagslegt mannréttindabrot. Það sér hver viti borinn maður að það er ekki heil brú í þessu kerfi!

GENGISFELLINGU, TAKK!

Önnur hlið á krónunni er það sem ég vill kalla ,,sjálfstæði til misþyrmingar,“ á krónunni, gjaldmiðlinum.  Ef krónan væri heimilsdýr væri búið að kæra eigandann fyrir illa meðferð og sennilega taka af honum forræðið! Verðmæti krónunnar hefur minnkað um 99.5% frá 1920-2009. Það var jú líka einu sinni þannig að útgerðin gat nánast pantað gengisfellingu (misþyrmingu) á krónunni, til þess að laga efnhagsreikning útgerðarfyrirtækja. Ákveðnir menn komu í fjölmiðla, báru sig illa og síðan var gengið fellt! Almenningur þurfti síðan að taka skellinn í formin kaupmáttarskerðingar. Einnig var algengt að strax eftir nýja kjarasamninga, þá var gengið fellt. Á bóluárunum, (eftir árið 2000) kvartaði útgerðin yfir of háu gengi, en ódýr erlendur innflutningur flæddi þá yfir landið. Eftir hrun kvartar útgerðin ekki, enda hrundi krónan, sem þýðir jú fleiri krónur í kassann.

ÖLDUDALURINN

Og aftur þarf almenningur að borga brúsann í formi kaupmáttarskerðingar og hækkunar á vöruverði. Um er að ræða gríðarlegar sveiflur, nokkuð sem einkennir íslensk efnhagsmál og er bæði heimilum og fyrirtækjum til mikilla trafala, verulega erfitt er að hugsa nokkur misseri fram í tímann. Er þetta ,,formið“ sem menn vilja hafa í framtíðinni; ,,niður í öldudal-upp úr öldudal?‘‘

Í sambandið við Evruna heyrist hátt að henni fylgi hátt atvinnuleysi. Engar rannsóknir benda hinsvegar til að svo sé. Hinsvegar skipta reglur á vinnumarkaði hvers Evru-ríkis fyrir sig máli. Spánn er ágætt dæmi, en þar er atvinnuleysi mikið. Þar eru reglur á vinnumarkaði hinsvegar mjög stífar og vinnumarkaður ósvegjanlegur. Þar hefur átvinnuleysi verið landlægt í áratugi og mikið bundið við árstíðasveiflur í ferðamannaiðnaði.

Sama mætti segja um Svíþjóð, sem ekki er með Evruna, en hagar sinni hagstjórn eins og um Evru-ríki væri að ræða. Þar er atvinnuleysi meðal ungs fólks hátt, enda ósveigjanleiki mikill á sænskum vinnumarkaði. Það er sænska ríkisstjórnin sem setur almennar reglur á sænskum vinnumarkaði.

GJALDMIÐILL Á GJÖRGÆSLU

Ísland er hinsvegar með mjög sveigjanlegan vinnumarkað og hann er lítill. Það er því ekkert sem bendir til þess að Evran muni fela í sér aukið atvinnuleysi. Það ber að hafa í huga að hið mikla atvinnuleysi sem hér skapaðist eftir hrun, skapaðist einmitt vegna þess - hruns á bankakerfi landsins og gjaldmiðilsins. Þetta eru þær ,,rústir“ sem menn eru að vinna sig upp úr, en af hverju er krónan ekki búin að rétta þetta af nú þegar?

Getur ein skýringin verið dræm erlend fjárfesting vegna gjaldmiðils í höftum? Vilja nútíma fjárfestar fjárfesta í landi sem er með gjaldmiðil á gjörgæslu?

Með upptöku Evru skapast geta skapast skilyrði til langvarandi lækkunnar vaxta og verðbólgu. Rannsóknir sýna einnig að við upptöku Evru aukast erlend viðskipti upptökulandsins um 5-15%. Þetta myndi þýða tugi milljarða aukningu á útflutningsverðmæti fyrir landið, í viðbót við þá kostnaðarminnkun sem myndi fylgja lægri vöxtum og lægri verðbólgu.

Að lokum má svo nefna þá staðreynd að um 70-80% af útflutningi Íslands fer til Evru-svæðisins og ESB-ríkjanna. Skiptir það ekki máli í þessu samhengi?

Peningar eru ávísun á verðmæti. Fyrir almenning hlýtur það að skipta lykilmáli að vera með gjaldmiðil sem er raunveruleg ávísun á verðmæti, en er ekki gerður sífellt verðminni eftir því sem tíminn líður. Eða er það raunverulegt sjálfstæði?

(Höfundur er MA í stjórnmálafræði).

 


Þegar ísa leysir... (grein um málefni norðurslóða í Mannlífi árið 2008)

Norðurpóllinn árið 2001 og 2007 (NASA)Umræðan um norðurslóðir hefur verið áberandi að undanförnu. Nýlega gerðu Íslendingar og Frakkar með sér óformlegt samkomulag (eða viljayfirlýsingu) um samvinnu á þessu sviði.

Um mitt árið 2008 skrifaði ég grein í það sem þá var fréttaskýringatimaritið MANNLÍF, þá undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Þetta er að mínu viti (án þess að ég sé eitthvað að monta mig!) eins fyrsta greinin um þessi málefni. Hér birtist þessi grein óbreytt, athugið það. En margt á held ég enn við í henni. Myndin hér við hliðina er tekin af NASA og sýnir Norðurpólinn árið 2001(neðri) og 2007.

 

Þegar ísa leysir...

Baráttan um Norðurpólinn er hafin.

Texti: Gunnar H. Ársælsson

 

Norðurpólinn er að bráðna. Og það gerist hratt. Undir ísþekjunni er talið að sé allt að 25 prósent olíulinda á jörðinni. Magnið af olíu og gasi er mælt í hundruðum milljörðum olíufata. Þá er einnig talið að undir ísnum sé að finna mikið magn að allskyns málmum, gulli og jafmvel demöntum. Að ekki sé talað um það magn fiskjar sem verður aðgengilegt með þessum breytingum. Þetta hljómar eins og í ævintýri, en þetta er að verða raunveruleiki. Löndin sem eiga landssvæði að Norðurpólnum og norðursvæðunum berjast um yfirráðin; Rússland, Noregur, Danmörk (Grænland), Kanada og Bandaríkin. Ísland getur blandað sér í þennan leik, sem gæti orðið æsispennandi og jafnvel leitt til deilna, þar sem vopnum yrði mögulega beitt. Slíkt er ekki útilokað að mati sérfræðinga sem fjalla um þessi mál

 

Í nýlegri grein sem birtist í norska Aftenposten segir að þegar í haust verði hægt að sigla ísfrítt frá Alaska til Norðurpólsins. Slíkt hefur ekki verið mögulegt fyrr. Bráðnunin er hraðari en vísindamenn gerðu sér grein fyrir og hún kemur þeim sífellt á óvart. Norður-Íshafið er hafssvæði sem nær yfir um 10 milljónir ferkílómetra.. Árið 2000 voru 6.7 milljónir þessa svæðis þaktar ís, en í dag er talið að þessi tala sé komin niður í um það bil fjórar milljónir ferkílómetra. Síðastliðið haust bráðnaði um ein milljón ferkílómetra af ís! Þessi þróun heldur áfram og veldur vísindamönnum miklum áhyggjum. Afleiðingarnar geta til dæmis valdið breytingum á straumum, meðal annars Golf-straumnum, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægur.

 

Nýir möguleikar í skipasamgöngum

 

Efnahagskerfi umheimsins nærast á olíu og þegar verð á henni hækkar, hvín og syngur í, ekki bara almenningi, eins og gerst hefur víða að undanförnu, heldur einnig í alheimsmaskínunni,  hjól efnhagslífsins fara að hökta. Olían er súrefni efnahagskerfanna.

 

En með bráðnun ísanna á heimsskautinu opnast því nýir möguleikar, ekki bara til úrvinnslu á olíu og öðrum auðlindum, heldur einnig á sviði samgangna og skipaumferðar. Ef hafssvæðið norður af Íslandi og við Norðurpólinn, nefnt ,,Norðursvæðin” í grein þessari, opnast, styttast mikilvægar siglingaleiðir um þúsundir sjómílna. Svo dæmi sé tekið er skipaleiðin frá Rotterdam í Hollandi, til Yokohama í Japan 11.200 sjómílur í dag. Opnist leið norður fyrir Ísland og í gegnum Íshafið, verður þessi leið 6500 sjómílur, eða næstum helmingi styttri. Þetta þýðir mikla hagræðingu fyrir skipaútgerðir. Scott Borgerson, fyrrverandi liðsforingi í bandarísku strandgæslunni, segir í grein í aprílhefti Foreign Affairs, að skipaútgerðir séu nú þegar farnar að undirbúa sig fyrir þessa þróun og meðal annars séu skip sem sigla eigi þessa leið á teikniborðinu.

 

Auðlindakapphlaup

 

Rússar létu til skarar skríða í kapphlaupinu um Norðursvæðin árið 2001 þegar þeir settu fram kröfu hjá Sameinuðu þjóðunum um hafssvæði sem er um 740.000 ferkílómetrar að stærð.Það er álíka og samanlögð fylki Kaliforníu, Texas og Indíana í Bandaríkjunum.

 

Sameinuðu þjóðirnar neituðu þessari kröfu, en Rússar létu ekki þar við sitja. Síðastliði haust fóru þeir með fána Rússlands í litlum kafbáti út á þetta svæði og komu fánanum fyrir þar á botninum. Táknræn aðgerð, sem vakti menn til vitundar. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, líkti þessu við við lendingu Bandaríkjamanna á tunglinu árið 1969. Með þessu var tónninn sleginn og   kapphlaupið um Norðursvæðin komið á fullt.

 

Rússar gera kröfu til Lomonosov-hryggsins svokallaða, sem er tvisvar sinnum stærri en Bretland. Hann gengur þvert í gegnum hafsbotn Norðursvæðanna, út frá nyrstu strönd Grænlands og teygir sig þaðan yfir til Rússlands. Þessa kröfu byggja Rússar á svokallaðri 200-mílna reglu S.Þ., sem segir að ríki hafi rétt til að nýta sér svæði sem eru í 200 mílna fjarlægð frá strandlengju þeirra. Þá kveður einnig á um að ríkin megi nýta sér 150-mílna svæði til viðbótar, geti þau sannað landgrunnið nái svo langt frá strandlengjunni. Samkvæmt þessu megar ríki því teygja sig allt að 560 kílómetra út frá strandlengjunni.

 

Þessari kröfu Rússa mótmæltu bæði Danir og Kanadamenn, en bæði þessi ríki hafa unnið saman að nýrri skilgreiningu á Norðursvæðunum. Samkvæmt henni myndu Danir fá Norðurpólinn, vegna nálægðar út frá Grænlandi og Kanada myndi einnig fá umtalsverð landssvæði. Þess má svo geta að Grænlendingar sjálir hafa blandað sér í þessa umræðu og hugmyndir um sjálfstæði þeirra frá Danmörku hafa komið upp á yfirborðið. Slíkt gæti bæði haft kosti og galla í för með sér fyrir Grænlendinga. En það er alls ekki útilokað að þeir muni blanda sér í þennan ,,leik”.

 

Bandaríkin á hliðarlínunni!

 

Í áðurnefndri grein í Foreign Affairs segir Scott Borgerson að Bandríkjin hafi sofið á verðinum í þessum efnum, hreinlega verið á hliðarlínunni! Meðal annar hafi bandaríska þingið ekki afgreitt sérstaka samþykkt Sameinuðu þjóðanna um lög vegna hafssvæða (UNCLOS). Hann segir þetta gera það nánast ómögulegt fyrir Bandaríkin að krefjast svæða undan ströndum Alaska. Segja má að hann geri létt grín að aðgerðarleysi landa sinna þegar hann segir Bandaríska flotann vera stærri en næstu 17, en eigi aðeins einn ísbrjót! Til samanburðar nefnir hann að Kína eigi líka einn ísbrjót, þó landið eigi hvergi aðgang að Norðurpólnum! Rússar eiga hinsvegar 18 ísbrjóta.

 

Samkvæmt grein Borgerson er Jarfræðistofnun Bandaríkjanna um þessar mundir að hefja mikla rannsókn á Norðursvæðunum og auðlindum þess. Rússar hafa sjálfir rannsakað auðæfin og þeir giska á að þarna sé að finna olíu og gas sem nemur um allt að 500 milljörðum fata. En að vinna olíuna er ekki svo létt, mesta hafdýpi á svæðinu er um 5000 metrar. Talið er að með núverandi tækni sé mögulegt að vinna olíu á um 1500-2000 metra dýpi. Þetta er þó ekki algilt, þar sem víða er að finna svæði þar sem hafi er mun grynnra, eða sem nemur nokkur hundruð metrum. En þekking á vinnsluaðstæðum seim eiga við á Norðursvæðunum er þegar til staðar og hefur stórfyrirtækið ExxonMobil nú þegar aflað sér reynslu af vinnslu olíu og gass við heimsskautaaðstæður. Þetta hefur átt sér stað á Sakhalin-eyju, sem tilheyrir Rússum, en liggur undan ströndum Japans.  Þá eru Norðmenn taldir sitja einir að bortækni sem gerir leit að olíu í gegnum ís mögulega (sjá meðfylgjandi viðtal við blaðamanninn Vladislav Savic).

 

Tengist gróðurhúsaáhrifum

 

Borgerson tengir bráðnun ísanna á Norðurskautinu beint við svokölluð gróðurhúsaáhrif og hann telur að haldi bráðnunin áfram verði hafssvæðin sem áður voru þakin ís, eins og Eystrasaltið, það er að segja, aðeins þakin ís hluta ársins. Því verði hægt að sigla um svæðið allt árið um kring.  En hann segir einnig í grein sinni að möguleg skipting þessa landsvæðis á milli þeirra landa sem sem gera tilkall til ákveðinna svæða, verði erfitt og flókið ferli. Í þessu felist ýmsar spurningar, til dæmis á sviði dýraverndunar. Á svæðinu er meðal annars að finna dýr í útrýmingarhættu, svo sem ísbirni!

 

Samkomulag gert, en heldur það?

 

Fyrir skömmu hittust ráðherrar frá þeim fimm löndum sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta á Norðursvæðnum; Rússland, Danmörk, Noregur, Kanada og Bandaríkin (athyglisvert að Ísland var ekki með) á Grænlandi og ræddu þessi mál. Þar virðist hafa náðst ákveðið samkomulag um að láta alþjóðalög skera úr um deilur vegna Norðursvæðannai. En það er hinsvegar ekki trygging fyrir því að allt gangi átakalaust fyrir sig. Alþjóðleg lög eru nefnilega teygjanleg og opin fyrir allskyns túlkunum. Sitt getur sýnst hverjum. Hagsmunir þjóðanna eru mismiklir, en eitt er öllum sameignlegt; potturinn er stór og það er eftir miklu að slægjast.

 

Rússar er sú þjóð sem hefur hvað mesta nærveru á svæðinu. Í grein sem Bozena Zysk, sem  starfar við Varnarmálastofnun Noregs, skrifaði í norska Dagbladet í desember í fyrra segir hún meðal annars: ,,Tilhneiging í áttina að ,,endurhervæðingu” hefur átt sér stað samhliða því að aukin athygli beinist að auðlindum Norðursvæðanna. Fulltrúar rússneska flotans hafa sagt að samkeppni um aðgang að þessum auðlindum geti mögulega leitt til takmarkaðra vopnaðra átaka á hafssvæðunum.”

 

Minniháttar deilur hafa átt sér stað á svæðinu vegna fiskveiða og Bozena segir að þær deilur séu aðeins forsmekkur þess sem mögulega geti gerst vegna baráttunnar um auðæfi hafdjúpanna.

 

Umhverfissinnar á nálum

 

Þá eru umhverfissinnar vægast sagt á nálum vegna þróunar mála. Þeir segja að ástand Norðursvæðanna núna og þessa miklu bráðnun ísa, einmitt vera ástæðu þess að láta eigi  svæðin í friði. Þarna sé um að ræða eitt viðkvæmasta vistkerfi jarðar og því eigi að láta það ósnortið og vernda það sem mest fyrir áhrifum mannsskepnunnar. Norðursvæðin og Norðurpóllinn tilheyri öllum jarðarbúum, ekki einstökum þjóðum, segja umhverfisverndarsinnar. En það er spurning hvort á þá sé hlustað? Eða er aðdráttarkraftur svarta gullsins of sterkur? Við fáum sennilega svarið áður en langt um líður. Og ísarnir bráðna...

 

Heimildir:

Foreign Affairs,Aftenposten.no,Dagbladet.no,BBC.co.uk, New Europe, Der Spiegel.

 

Hér er FYLGIGREIN:

Ísland getur blandað sér í leikinn.

 

Valdislav SavicÞað telur sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Vladislav Savic, þegar Mannlíf sló á þráðinn til hans í Stokkhólmi. Árið 2006 hafa hann út bókina ,,Hið þögla stríð-olía, völd og áhrif,” en þar fjallar hann um þróun svokallaðra ,,olíustjórnmála” á síðustu öld og fram til dagsins í dag. Hann fylgist grannt með þróun mála og Mannlíf spurði hann fyrst að því hverja hann teldi líklega þróun mála á Norðursvæðunum á komandi árum.

 

,,Það fer eftir hraðanum á bráðnunu ísanna og hvað gerist þá með flutninga á þeirri orku og olíu sem um ræðir. En almennt má segja að þau lönd sem hafa hagsmuna að gæta séu að styrkja flotastarfsemi sína, til þess að geta sett fram sínar kröfur. Í dag hafa mörg svæði og siðglingaleiðir á öðrum stöðum í heiminum gríðarlegt mikilvægi, séð frá hernaðar og öryggissjónarmiði. Á Norðursvæðunum mun sennilega gerast það sama, verði um að ræða alvöru kapphlaup um auðlindirnar” sagði Vladislav Savic í samtali við Mannlíf.

 

Hann segir að þegar í dag deili til dæmis Bandaríkjamenn og Kanadamenn um þessi mál og þá gildi ekki lengur þessi klassíka ,,austur-vestur” hugmyndafræði. ,,Það munu verða prófboranir á ýmsum svæðum, því maður veit ekki með vissu hvað leynist undir ísnum. Þannig að í raun er hægt að afskrifa eldri hugmyndir sem voru gildar á tímum Kalda-stríðsins.”

 

Vladislav segist nokkuð sannfærður um að löndin muni virða það samkomulag sem náðist á Grænlandi um daginn, þar sem þau ríki sem deila um Norðursvæðin ákváðu að láta alþjóðareglur skera úr um deilumál. ,,En það eru samt engar endanlegar tryggingar í þessu, sá aðili sem upplifir hótanir frá öðrum gæti orðið árásarhneigður, það er ekki útilokað. Ég trúi til dæmis að Rússar muni fylgja þessu samkomulagi, þrátt fyrir að margir telji Rússana vera ögrandi. Þeir eru umkringdir af bæði ESB og NATO, sem er nú þegar komið inn á þeirra gömlu svæði. Þeir hafa hagsmuna að gæta og þeir gera það, en það ber að mínu viti að forðast að túlka það sem eitthvað ögrandi.”

 

Norðmenn virðast hafa áhyggjur af þróun mála, hvernig eru þeir að bregðast við þessu?

 

,,Norðmenn vilja að fleiri lönd sýni þessu máli áhuga, ekki síst vegna þess að Bandaríkjamenn hafa hingað til verið óvirkir á þessu svæði, enda verið mjög uppteknir af Mið-Austurlöndum og S-Ameríku, þar sem þeir eru í raun að berjast við síaukin áhrif vinstri stjórna í ýmsum löndum, svo sem Venesúela og Bólivíu. Norðmenn hafa mikilla hagsmuna að gæta og eiga í ákveðnum deilum við Rússa um gasauðlindir þarna norðurfrá. En það er líka um að ræða samvinnu á milli Rússlands og Noregs, nokkuð sem Bandaríkjamenn hafa reynt að hindra með ýmsum hætti. Því meira samstarf, því minni líkur eru á átökum. Rússar eru til dæmis háðir tækniþekkingu á sviði borana, sem einungis Norðmenn ráða yfir. Noregur er nefnilega eina landið sem hefur yfir að ráða tækni sem gerir það mögulegt að bora gegnum ís, þannig að þeir komist til botns. Þessi tækni verður sífellt þróaðri og enn sem komið er búa Norðmenn einir að henni,” segir Vladislav Savic í samtali við Mannlíf.

 

En hvað segir þú um þátt Íslands í þessu, er í landið ,,leikmaður” í þessum leik?

,,Algjörlega, landið liggur þannig við siglingaleiðum á svæðinu að ég tel það næsta víst að mikilvægi landsins aukist á komandi árum frekar en hitt. Það segir sig eiginlega sjálft miðað við hvernig þróunin hefur verið að undanförnu.”

 

Hann segir að sænsk stjórnvöld fylgist einnig grannt með þróun mála og að á síðasta ári hafi stór viðskiptanefnd farið til Tromsö í Noregi, til að kynna sér þessi mál. Þar hafi Norðmenn sýnt allt það nýjasta í þessum efnum og um leið var mikill vilji til samstarfs undirstrikaður.

,,Finnar fylgdust með og urðu áhugasamir eftir þetta. Þarna eru því á ferð tvö ríki sem ekki eru í NATO, sem eru að sýna sinn vilja til samstarfs í þessum málaflokki. Í Finnlandi er mikill áhugi á þessum málum og þetta er sniðug leið fyrir Svíþjóð og Finnland að starfa saman með Noregi, sem er jú í NATO. Þarmeð starfa þeir með NATO! Rússarnir fylgjast með þessu úr fjarlægð og þeir eru ekki vitlausir, þeir vita hvað er að gerast. En þetta sýnir líka að það eru mjög margar hliðar á þessu máli, sem gerir það flókið,” sagði Vladislav Savic að lokum við Mannlíf.

 

 


Það sem er gott fyrir LÍÚ er gott fyrir Ísland?

Einu sinni sögðu Svíar: ,,Það sem er gott fyrir Volvo, er gott fyrir Svíþjóð." En það hefur breyst. General Motors keypti Volvo, en seldi og nú á kínverska fyrirtækið Geely Volvo.

Mér dettur þetta í hug í sambandi við LÍÚ. Getur verið að þeir hugsi sem svo: ,,Það sem er gott fyrir LÍÚ, er gott fyrir Ísland?"

En tímarnir hafa einnig breyst á Íslandi, ferðaþjónusta er að verða álíka stór og fiskiðnaðuirnn og útlit fyrir metfjölda ferðamanna í ár.

LÍÚ þarf að gera sér grein fyrir þessu.

Þeir vilja einnig nýtingarrétt auðlindarinnar til 60 ára og borga gjald í samræmi við afkomu fyrirtækjanna. Þá vaknar spurningin: Myndu sjávarútvegsfyrirtækin skila bullandi hagnaði ef þessu kerfið yrði komið á?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband