Færsluflokkur: Bloggar

Kosovo, Serbar og sagan

Serbar vaktaGrunnregla lýðræðisins er að vera sammála um að vera ósammála. Í Morgunblaðinu 7. janúar birtir Rúnar Kristinsson trésmiður grein, þar sem hann lýsir skoðunum sínum á grein minni um ástand og horfur í Kosovo, sem birtist í Morgunblaðinu þann 5. janúar. Í grein minni fjallaði ég m.a. um illa meðferð Serba á Albönum í Kosovo. Ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma. Það er greinilegt að grein mín hefur farið fyrir brjóstið á Rúnari, en ég ætla ekki að falla í sömu gryfju og hann, því mér dettur ekki í hug að gera lítið úr persónu Rúnars og trésmíðamenntun hans.

Hinsvegar vil ég benda honum á nokkrar sögulegar staðreyndir: 1) Það voru Serbar, sem stjórnuðu Alþýðuher Júgóslavíu, sem hófu átökin í landinu árið 1991, þegar þeir réðust inn í Slóveníu (en lýðveldið hafði sagt skilið við ríkjasambandið). Líka í Króatíu, sem og Bosníu, en þar létu um 200.000 manns lífið. Og það var sami her sem lét til skarar skríða í Kosovo árið 1998 og sem NATO brást við með hernaðaraðgerðum sínum. Serbar, með Slobodan Milosevic, í fararbroddi, báru ábyrgð á átökunum í Júgóslavíu, það voru þeir sem fyrstir gripu til vopna! Það er söguleg staðreynd.

Rúnar sér einnig ástæðu til þess að tala á léttvægan hátt um hugtakið ,,þjóðernishreinsanir“ sem iðulega komu fyrir í þessum átökum. Hann segir þær ,,gamlar lummur“, sem ekki eigi við lengur. Þessi afstaða finnst mér hættuleg og væri áhugavert að sjá Rúnar fella orð af þess tagi fyrir framan mæður og eiginkonur þeirra 8000 múslíma, sem Bosníu-Serbar, undir herstjórn Ratko Mladic, myrtu í bænum Srebrenica sumarið 1995. Þetta voru mestu fjöldamorð í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Er þetta gömul lumma, Rúnar?

Hvers vegna Serbar telja sig eiga tilkall til Kosovo, skýrði ég út í grein minni og ætla ekki að gera það aftur. Albanir gera hinsvegar tilkall til Kosovo, vegna þess að þeir eru yfirgnæfandi meirihluti íbúa svæðisins. Serbar hafa hinsvegar lítið gert til þess að koma til móts við Albana og nær ekkert til þess að bæta aðstöðu íbúa héraðsins, eins og ég segi einnig frá í grein minni. Kosovo var fram til 1999 stjórnað með járnhendi frá Belgrad og t.a.m. voru allir embættismenn í Kosovo af serbneskum uppruna. Albönum var bannað að starfa innan stjórnsýslu héraðsins, en eru þó yfir 90% íbúanna!

Landfræðilega, sem og sögulega, gætu einnig íbúar Kosovo sótt það að sameinast Albaníu, enda hafa verið uppi raddir um slíkt. Albanía er hinsvegar ekki fýsilegur kostur til að sameinast, enda landið í rúst eftir einræðisherrann og stalínistann Enver Hoxha (sem lést árið 1985 eftir að hafa stýrt landinu í 40 ár). Albanía er eitt af fátækustu ríkjum Evrópu.

Flest bendir einnig til þess að Albanir séu upprunalegir íbúar þess svæðis sem nú er Kosovo, en Serbar komu mun seinna til þessa svæðis, eða á 6. öld.

Rúnar missir sig síðan í lítt málefnalega umræðu um Þingvelli og innflytjendur, sem ég ætla ekki að svara hér, enda þarf í raun aðra grein til þess.

Í átökunum í Júgóslavíu (1991-1995) og Kosovo (1996-1999) gerðu bæði Serbar, Króatar, múslímar í Bosníu, Bosníu-Serbar, sem og Kosovo-Albanir (í Kosovo-stríðinu), sig seka um hryllilega hluti. Því skal ekki stungið undir stól. Hinsvegar bera Serbar þyngstu byrðina og eiga ,,heiðurinn“ af Srebrenica, en sá litli staður verður um aldur og ævi beintengdur Serbum, því miður. En rétt skal vera rétt.

Varðandi hina ýmsu minnihlutahópa sem berjast fyrir sjálfstæði í Evrópu og sem Rúnar vísar óbeint til í grein sinni, er hægt að hafa mörg orð. Þessi mál eru yfirleitt afar flókin og eldfim, rétt eins og dæmið um Kosovo sannar. Og því er alls ekki lokið. Hinsvegar vil ég leiðrétta það sem Rúnar lætur í skína í grein sinni, þegar hann segir að Kosovo-Albanir stefni að því að leggja undir sig Kosovo, sem er ekki rétt. Þeir telja sig einfaldlega hafa verið miklu misrétti beittir og það er staðreynd. Það var t.d. Slobodan Milosevic, sem árið 1989 afnam þau sjálfstjórnarréttindi sem héraðið hafði smám saman fengið í valdatíð Jóseps Títo. Og Rúnar, Tító var ekki bara Króati, heldur var hann einnig hálfur Slóveni! Reyndar fjallaði ég ekkert um þjóðerni hans í grein minni, enda ekki lykilatriði. Rétt skal hinsvegar vera rétt.

Eftirköst átakanna á Balkan-skaga og afleiðingar þeirra eru enn ljóslifandi meðal vor. Kosovo og frelsisþrá íbúa þar er dæmi um það. Það liggur í eðli mannsins að leita eftir frelsi, ráða sér sjálfur. Hrun kúgunarkerfis kommúnismans (sem Júgóslavía var hluti af, þó þar hafi ástandið lengi vel verið betra en í öðrum kommúnistaríkjum) er gott dæmi þess. Þessi frelsisþrá sást ef til vill best með hruni Berlínar-múrsins árið 1989, sem var eitt helsta tákn þessa kerfis.

Sem betur fer eru til lönd sem eru tilbúin til þess að styðja aðra hópa eða þjóðir til frelsis (þ.á.m. við Íslendingar, við höfum okkar eigin reynslu af kúgun). En ef ég skil þig rétt Rúnar, þá finnst þér það hættulegt að Kosovo fái sjálfstæði og vilt viðhalda úreltu kerfi sem er gengið sér til húðar. Það kallast afturhaldssemi.

MBL 18.1.2008


Springur í Kosovo?

Argir serbar Hugleiðingar um fortíð og framtíð á Balkan-skaga.
Í Suður-Serbíu, er að finna litla ,,dýnamítstúbu”, sem heitir Kosovo. Þar voru haldnar kosningar fyrir skömmu, en í þeim sigraði flokkur Hacim Thaci, fyrrum skæruliðaforingja. Hann er nú orðinn forsætisráðherra Kosovo og bíða hans erfið verkefni, m.a. að standa við loforð um að lýsa yfir sjálfstæði. Íbúar Kosovo eru alls um 2.2 milljónir og af þeim eru um 95% Albanir. Kosovo var fram til ársins 1999 stjórnað af Serbum, sem álíta sig ,,eiga” þetta bláfátæka, en auðæfaríka hérað. Serbar álíta Kosovo vöggu serbneskrar menningar og á það rætur sínar að rekja til mikils bardaga sem háður var á Svartþrastavöllum í Kosovo árið 1389. Þar féll prins nokkur að nafni Lazar fyrir hendi Tyrkja og hafði andlát hans örlagaríkáhrif á Serba og er svo enn. Dauði Lazars ýtti undir þá sálfræðilegu afstöðu margra Serba til umheimsins að þeir séu sífelld fórnarlömb, hvað sem á gengur og að allt sé meira eða minna samsæri gegn þeim. 

Serbar mega því ekki heyra á það minnst að Kosovo veriði aðskilið frá Serbíu á nokkurn hátt, það er líkt og að rífa úr þeim hjartað og skilja eftir gapandi svöðusár. En Serbar hafa farið illa með Kosovo,  kúgað albanska þegna þess og litið á þá sem undirsáta. Í Kosovo voru Serbar forréttindastétt. Í gömlu Júgóslavíu kommúnismans, sem var við lýði frá 1945-1995, og var lengst af stjórnað af einsræðisherranum Jósep Bros Tító (lést 1980) nýttu Serbar sér Kosovo á skipuagðan hátt og sóttu þangað ýmis auðæfi. Félagsleg aðstaða Albana í héraðinu, sem smám saman fékk stöðu sjálfstjórnarhérðs, var þó afar slæm. Til dæmis var menntakerfið og heilbrigðiskerfið meðal Albana rekið neðanjarðar, m.a. fyrir fjármagn frá Albönum, búsettum erlendis.
 
Eftir upplausn Júgóslavía, sem átti rætur að rekja til hugmynda Slobodan Milosevic um Stór-Serbíu og gengdarlausrar þjóðernishyggju, voru lýðveldin sem mynduðu landið; Slóvenía, Króatía og Bosnía/Hersegóvína, orðin sjálfstæð ríki. Svartfjallaland (einnig lýðveldi!) fylgdi lengi Serbíu að málum og lýsti ekki yfir sjálfstæði fyrr en á síðasta ári. Hrun Júgóslavíu kostaði hryllilegar blóðsúthellingar, dauða og hörmungar.Um var að ræða mannskæðustu átök frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
 
Staða Kosovo var hinsvegar óleyst, en frelsisþrá Albana engu að síður sterk. Skæruliðar Albana hófu árásir á serbneska embættismenn og til átaka kom árið 1996. Réðist her Júgóslavíu (les. Serbíu) inn í Kosovo árið 1998 til þess að brjóta frelsisher Kosovo (KLA) á bak aftur. Serbar stunduðu þar s.k. þjóðernishreinsanir og frömdu grimmdarverk. Leiddi það til loftárása NATO á Serbíu, sem stóðu í nokkra mánuði árið 1999. Eftir þetta tóku svo Sameinuðu þjóðirnar við stjórn Kosovo og er svo enn.
 
Hacim Thaci, (fyrrum leiðtogi KLA), sagði eftir kosningasigurinn það vera áætlun sína að gera líkt og áðurefnd lýðveldi, þ.e. að lýsa yfir sjálfstæði. Olli þetta strax mikilli spennu og reiði í Serbíu, þar sem sterk öfl, sem lifa á þjóðernishyggju, eru enn til staðar Málið er afar flókið, allar sáttatillögur farið út um þúfur og vann Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands og fulltrúi Sameinðu þjóðanna um málefni Kosovo lengi að tillögu um ,,sjálfstæði undir eftirliti,” sem ekki hlaut samþykki í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.Lausn Serba á málefnum Kosovo er hinsvegar ,,sjálfsákvörðunarréttur undir eftirliti,” nokkuð sem Kosovo-Albanir hafna alfarið. Þeir vilja sjálfstæði strax, atvinnu og lífsgæði, en atvinnuleysi, spilling og eymd einkenna daglegt líf í héraðinu.Þá verður einnig að tryggja öryggi þeirra 50.000 Serba sem enn búa í Kosovo. Þegar mest lét bjuggu um 200.000 Serbar í Kosovo, en 75% þeirra hafa verið hraktir á brott eða yfirgefið héraðið. Hræðsla er meðal þeirra, enda álitnir vera fulltrúar nýlenduherra og kúgunarkerfis.

Ástandið í Kosovo er í raun afleiðing þeirra þjóðfélagstilraunar sem ríkjasambandið Júgoslavía var, þar sem reynt var að halda mjög mismunandi þjóðarbrotum undir einum hatti í nafni sósíalisma. Þegar það sýndi sig ekki vera mögulegt blossaði hatrömm þjóðernishyggja upp, með hörmulegum afleiðingum. Serbar eru því enn að glíma við afleiðingar eigin gerða. Þeim virðist það hinsvegar þrautin þyngri, en reiða sig á stuðning Rússa á margan hátt, m.a. vegna sameinginlegrar menningar og trúarhefða, en bæði Rússar og Serbar tilheyra réttrúnaðarkirkjunni.

Ætlunin er að Evrópusambandið taki á næstunni við að gæta öryggis Kosovo, en þar eru nú um 17.000 hermenn á vegum NATO. Utanríkisráðherra Serba sagði í samtali við BBC World að sjálfstæðisyfirlýsing Kosovo-Albana væri ólögleg, rétt eins og sjálfstæðisyfirlýsingar Slóvena, Króata og Bosníumanna, hefðu verið á sínum tíma. Segjast þeir muni beita öllum lögfræðilegum aðgerðum til þess að hindra sjálfstæði Kosovo. Þá hóta þeir að slíta öllum viðræðum við ESB um aðild að sambandinu. Spurningin er hvort þeir grípi til annarra aðgerða? Samskipti Serba og Albana hafa ekki verið góð, en nú virðist frostið vera algjört milli þessara aðila. En það sem skiptir máli verða viðbrög Serba í þessari deilu, lýsi Kosovo yfir sjálfstæði. Þau geta haft mikil áhrif á stjórnmálaástandið á Balkanskaga.

 Verði viðbrögð Serba reiði og gremja, er allt eins líklegt að í gang fari öfl sem sækja innblástur sinn til þjóðernishyggju og þjóðernisrembu. Taki hinsvegar Serbar skynsamlega á málunum, geta þeir með þeim hætti áunnið sér traust og virðingu umheimsins, ekki minnst Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í kjölfar þess gætu landinu opnast ýmsar dyr, en þær hafa hingað til verið lokaðar, ekki síst vegna tregðu serbneskra stjórnvalda að framselja stríðsglæpamennina Ratko Mladic og Radovan Karadzic, sem báðir eru eftirlýstir vegna stríðsglæpa í Bosníu.

Serbía hefur mikilla hagsmuna að gæta, ástandið í landinu þarf að komast í eðlilegt horf, Serbía á erindi í samfélag þjóðanna með eðlilegum hætti, alla leið inn í Evrópusambandið.

Slóvenía tók við forsæti ESB nú um áramótin, en landið fékk aðild að ESB árið 2004 og hefur þegar tekið upp Evruna. Það segir ákveðna sögu að á sama tímapunkti eru Serbar í raun að glíma við fortíðina og afleiðingar eigin gerða í Kosovo.


Fulltrúar ESB vilja hraða nálgun Serbíu að ESB og var það einmitt utanríkisráðherra Slóvena, sem lagði fram þá tillögu. Vilja Slóvenar að Serbar samþykki ákveðinn undirbúningssamning ganvart ESB. Það hefur hinsvegar mætt andstöðu, m.a. frá Hollendingum, sem vilja að Mladic verði handtekinn fyrst. Andstaða Hollendinga er skiljanleg, þar sem það voru hollenskar hersveitir á vegum ESB, sem horfðu upp á Bosníu-Serba, undir stjórn Mladic, myrða um 8000 óvopnaða múslimska karlmenn í smábænum Srebrenica sumarið 1995. Er þetta einn svartasti bletturinn á evrópskri samtímasögu.

 


MBL 5.1.2008

 


Evran og "þrýstingurinn"

Á meðan forsætisráðherra finnur "engan þrýsting" bruna forráðamenn íslenskra alþjóðafyrirtækja fram úr lýðræðislega kjörnum fulltrúum í umræðunni um evruna og allt þetta tekur á sig mjög sérkennilegar myndir. Þetta með þrýstinginn er afar athyglisvert og segir annaðhvort að Geir H. Haarde sé ónæmur fyrir þrýstingi eða hann finni hann, en vilji ekki viðurkenna það. Enn eitt einkennið á því "sem-fyrst"-samfélagi sem Ísland er. Umræðan nú á sér svipaðar rætur, þ.e.a.s. vegna rússíbanaferðar á hlutabréfamörkuðum og óstöðugleika.

Kjarni málsins er ef til vill sá að ef forystumenn Sjálfstæðisflokksins myndu af alvöru fara að ræða evruna myndi skapast djúpur klofningur innan flokksins, því eðli evrunnar er þannig; annaðhvort eru menn með eða á móti.

Og Sjálfstæðisflokkurinn er stór flokkur, þar er að finna breiðan hópa manna og kvenna, hver með sína skoðun. Hins vegar yrði það að mínu mati flokknum hollt að ræða þessi mál af yfirvegun og skynsemi, nokkuð sem undirrituðum finnst hafa skort í umræðunni hérlendis um evruna. Sérstaklega var spaugilegt að fylgjast með umræðunni í fyrra þegar íslenska krónan var með eitthvert "vesen", var óstöðug og almennt leiðinleg að mati margra. Þá vildu menn hlaupa til og skipta yfir í evru og bara drífa í þessu. Enn eitt einkennið á því "sem-fyrst"-samfélagi sem Ísland er.

Umræðan nú á sér svipaðar rætur, þ.e.a.s. vegna rússíbanaferðar á hlutabréfamörkuðum og óstöðugleika. Ég vil hins vegar minna á að evran verður ekki tekin upp á einum degi. Fyrst þurfa ríki og stjórnvöld að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. að verðbólga megi ekki vera yfir ákveðnum mörkum, verðlag þarf að hafa verið stöðugt í a.m.k. tvö ár og skuldir hins opinbera mega ekki vera hærri en sem nemur 60% af heildarlandsframleiðslu. Að taka upp evru krefst aðgerða, sem eru tímafrekar og geta verið mjög sársaukafullar. Þær krefjast mikils pólitísks vilja og geta verið mjög áhættusamar fyrir þá aðila sem fyrir þeim standa. En kannski fyrst og fremst; þær geta kostað atkvæði! Og þar stendur sennilega hnífurinn í kúnni.

Þetta vita þeir sem ekki finna fyrir neinum "þrýstingi". Fulltrúar viðskiptalífsins vita hins vegar að upptaka evrunnar og stöðugleiki í gjaldeyrismálum myndi þýða betri afkomu fyrirtækjanna, minni kostnað og bætta afkomumöguleika. Fyrir almenna neytendur og skattborgara myndi upptaka evrunnar einnig þýða betri afkomu heimilanna, í formi lægri verðbólgu og lægri vaxta. Aðrir þættir, s.s. matvælaverð, myndu að öllum líkindum lækka vegna minni kostnaðar við innflutning, en á Íslandi er matvælaverð eitt hið hæsta í Evrópu. Mig langar einnig að minna á í þessu samhengi að hugmyndir innan ESB um sameiginlegt myntbandalag urðu að markmiði þess árið 1969, en hins vegar varð það ekki að veruleika fyrr en 30 árum síðar, með upptöku evrunnar í 11 löndum. Það sýnir náttúrlega þá þrautseigju sem einkennt hefur þetta ferli hjá ráðamönnum ESB og að þeir hafi verið tilbúnir að bíða eftir hlutum sem þeir höfðu tiltrú á.  

Finnar tóku upp evruna árið 1999 og í grein sem seðlabankastjóri Finnlands, Erkki Liikanen, skrifaði í byrjun þessa árs fór hann yfir reynsluna af evrunni og komst að þeirri niðurstöðu að upptaka hennar hefði haft margvísleg jákvæð áhrif á finnskt efnahagslíf. Hann segir að fátt af því sem andstæðingar evrunnar hafi varað við hafi ræst og að verðbólga í Finnlandi hafi verið með því lægsta í Evrópu, en hagvöxtur hafi verið meiri en meðaltalið innan ESB. Liikanen segir í grein sinni að skilvirknin í finnskum efnahag hafi aukist með upptöku evrunnar og að peningamálastefna landsins hafi öðlast aukinn trúverðugleika.

Það er eitt af hlutverkum opinberra stjórnvalda að stuðla að og taka þátt í opinberri umræðu. Slíkt einkennir opin og lýðræðisleg samfélög og Ísland á samkvæmt skilgreiningu að vera eitt slíkt. Þar af leiðandi er það ekki hlutverk stjórnvalda og ráðandi afla að þagga niður umræðu, t.d. með þeim rökum að einhver "þrýstingur" finnist ekki. Geir H. Haarde veit nákvæmlega hvaða umræða hefur verið í gangi og hefur tækifæri sem fáir hafa til þess að tjá sig um þessi mál. Hann getur haft mikil áhrif á umræðuna og því er það mjög mikilvægt að slíkt sé gert af skynsemi og framtíðarhyggju. Íslendingar komast ekki hjá því að ræða breytingar í umheiminum, það er því spurningin hvernig við viljum standa að þeirri umræðu.

Birt í MBL á haustdögum 2007.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband