Var Jón Sigurðsson jafnaðarmaður? (grein í MBL)

Í lok júní skrifaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson stutta grein hér í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður. Jón hefur verið töluvert í umræðunni, enda ekki langt síðan haldið var upp á 200 ára afmæli hans, en hann fæddist  jú þann 17. júní árið 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Í lok greinar sinnar, sem fjallar um stjórnmálaskoðanir Jóns Sigurðssonar biður Hannes um athugasemdir og leiðréttingar. Þessi grein er örlítil tilraun til þess, þó seint sé!

Hannes Hólmsteinn fullyrðir í grein sinni að Jón Sigurðsson hafi verið frjálshyggjumaður þegar hann segir: „Hver var stjórnmálaskoðun Jóns? Því er fljótsvarað. Hann var frjálshyggjumaður.“

Það hlýtur að vera kitlandi og ákveðin freisting fyrir helsta hugmyndafræðing og postula frjálshyggjunnar á Íslandi að setja sjálfstæðishetjuna inn í það box sem kallast frjálshyggja, að koma Jóni í ,,sinn flokk.“ Og afgreiða þar með málið. En er það rétt eða réttlætanleg flokkun og er málið þar með afgreitt? Að öllum líkindum ekki.

Í tilefni af afmæli Jóns Sigurðssonar hafa komið út bækur og verið ritaðar greinar um hann, ævi og störf. Sem er vel. Hver þjóð verður að þekkja þá menn sem skapa sögu hennar. Meðal þeirra rita sem kom út var Jón Sigurðsson – Hugsjónir og stefnumál, sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út. Í henni er kafli eftir Loft Guttormsson um hugmyndir og stefnu Jóns varðandi menntamál. Loftur bendir á að hugmyndir Jóns megi rekja til frjálslyndisstefnunnar (ekki sama og frjálshyggja!) og Upplýsingarinnar í Evrópu á 17.öld.

En hverjar voru hugmyndir Jóns í sambandi við menntun? Jú, samkvæmt grein Lofts taldi Jón að menntakerfið ætti að vera opið öllum: ,,Skólinn átti ekki aðeins að mennta embættismenn heldur og bændur, sjómenn og verlsunarmenn.“  Í textum Jóns má einnig sjá að hann telur að landsstjórnin, það sem við myndum kannski kalla ríkisvald í dag, hefur ákveðnu hlutverki að gegna í sambandi við menntun. Það er í sjálfu sér andstætt hugmyndum frjálshyggjumanna um ríkisvald. Frjálshyggjan aðyllist nefnilega það sem kallað hefur verið ,,lágmarksríki“ og eitt helsta hlutverk ríkisvaldins samkvæmt kennningum  frjálshyggjunar er fyrst og fremst að sjá um landvarnir.

Jón Sigurðsson vildi að öllum stæðu opnar dyr til menntunnar og það er í raun sjónarmið sem jafnaðarstefnan hefur haldið mjög á lofti. En síðan sagði Jón ...,,að sérhverjum stæði vegur opinn til að nema það sem honum væri best lagið; og þetta verður bæði hægast og affarabest með því að stofna skóla handa hinum ungu mönnum.“  En varla getur það talist frjálshyggja að hver og einn fái að velja það sem honum þóknast. Það heitir einfaldlega einstaklingsfrelsi. Hér má túlka orð Jóns sem svo að landsstjórnin ætti að stofna skólana.

Að vísu ber að taka það fram að nútíma jafnaðarstefna verður til mun seinna en þetta er skrifað, en textar þeir sem Loftur notar eru frá 1842 og 1849. Þegar Jón skrifar þetta, er hnsvegar einn helsti frumkvöðull frjálshyggjunnar, Herbert Spencer, enn á lífi. Ekki er mér kunnugt um að Jón Sigurðsson hafi lesið verk hans, en það má þó vera.

Hinsvegar sýnir þetta að mínu mati að það er ekki borðleggjandi að setja Jón Sigurðsson í box sem kallast frjálshyggja, það má jafnvel kalla það einföldun. Hugmyndir Jóns voru á mörgum sviðum og því margvíslegar, t.d. er það algengur misskilningu að Jón hafi viljað alger slit við Danmörku á sínum tíma. Heldur vildi hann jafna stöðu Íslands í sambandi ríkjanna, að þau stæðu jafnfætis  og hefðu jöfn réttindi. Hann gerði sér kannski grein fyrir því að algert rof í samskiptum Íslendinga og Dana, myndi ef til vill hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir landið. Sannur frjálshyggjumaður hefði ef til vill krafist algerra sambandsslita og algers frelsis til handa Íslendingum.

En hvort Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður eða eitthvað annað, jafnvel jafnaðarmaður, skiptir þó kannski ekki öllu máli. Merkimiðar eru ekki það mikilvægasta í sambandi við Jón Sigurðsson. Það merkilegasta er framlag hans til þróunar landsins og stjórnmála þess. Sem er ótvírætt.

Birtist í MBL 8. ágúst 2012.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband